Breytum landbúnaðarkerfinu

Nýlega komu fram upplýsingar um að stuðningur íslenskra stjórnvalda við íslenskan landbúnað sé sá mesti sem til þekkist í heiminum. Þetta eru svo sem ekki ný sannindi en engu síður kallar þessi nýja skýrsla OECD á umræðu um þetta mikilvæga mál. 

Landbúnaður er mikilvægur þáttur í íslensku samfélagi. Hins vegar er ég sannfærður um að staða bænda gæti verið mun betri en hún er í dag. Í talverðan tíma hefur skort á bæði langtímasýn í landbúnaði og vilja til að efla íslenskan landbúnað til lengri tíma. Núverandi kerfi lýsir gríðarlegri vantrú á bændum og setur óeðlilegar hömlur á stéttina. Kerfið kemur sömuleiðis í veg fyrir nýliðun og að íslenskir bændur geti nýtt sér þá hlutfallslegu yfirburði sem þeir vissulega hafa. Bændur eru einfaldlega bundnir á klafa opinberrar verðstýringar, miðstýrðs ríkisbúskaps og opinberrar framleiðslustýringar.

Mesta styrkjakerfið, hæsta matvælaverðið og bág staða bænda, gott kerfi? 
Á sama tíma og núverandi kerfi í landbúnaði hefur eitt hæsta styrkjahlutfall í heiminum eru bændur ein fátækasta stétt landsins og íslenskir neytendur greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi. Kerfið er því rangt og óskynsamlegt að mínu mati. Það sér allt fólk sem það vill sjá.

Niðurstaða fjölmargra úttekta um hátt matvælaverð hefur verið sú að aðalorsök hins geysiháa matvælaverðs á Íslandi eru innflutningstollar. Þar kemur einnig fram að mismunandi ríkidæmi þjóða útskýri ekki þennan mikla verðmun enda sumar af samanburðarþjóðunum ríkari en Íslendingar og með meiri kaupmátt en mun lægra matvælaverð. Þá er einnig vert að minnast þess að fjölmargir staðir innan einstaka ríkja eru talsvert lengra frá matvælaframleiðendum heldur en Ísland er og því útskýrir flutningskostnaður ekki þennan mikla mun.

Samkvæmt tölum OECD er beinn og óbeinn kostnaður við hið íslenska landbúnaðarkerfi um 15 milljarðar króna á ári en til að setja þessa tölu í samhengi mætti  reka alla íslensku framhaldsskólana eða öll hjúkrunarheimili landsins fyrir svipaða upphæð. Þrátt fyrir þetta er staða íslenskra bænda bágborin.

Rangt hjá formanni Bændasamtakanna 
Stuðningur Íslands við landbúnað skiptist aðallega í tvennt, um helmingur skýrist af beinum framleiðslustyrkjum og um helmingur skýrist af innflutningstollum sem veita innlendri framleiðslu vernd fyrir innflutningi. Innflutningsverndin er að sjálfsögðu styrkur enda gerir hún það að verkum að verðið á landbúnaðarvörum getur haldist hærra en ella, fyrir utan þá staðreynd að val neytenda er skert til mikilla muna.

Það er því ekki rétt hjá formanni Bændasamtakanna að segja að það eigi ekki að taka innflutningsverndina með í reikninginn. Það er alls staðar annars staðar gert og það er einfaldlega rétt að gera það.

Vinnum okkur frá kerfinu
Íslensk stjórnvöld þurfa að fara að vinna sig frá núverandi kerfi með markvissum hætti með eðlilegum aðlögunartíma fyrir bændur. Það er því mikilvægt að tekið sé ríkt tillit sé tekið til bænda í þessu sambandi. Ég er ekki að tala fyrir einhverjum sársaukafullum byltingum heldur einungis að við förum að fikra okkur frá kerfi sem er hvorki bændum né neytendum í hag.

Við þurfum að hefja nýja sókn í landbúnaði og atvinnuháttum í dreifbýli. Við þurfum að auka frelsi í landbúnaði og matvælaframleiðslu með öflugum stuðningi við atvinnulíf á landsbyggð, bæði nýjar og eldri búgreinar. Það á því að treysta bændum fyrir nýsköpun og arðsömum rekstri. Og þá á að leyfa íslenskum bændum að keppa sín á milli.

Afnám tolla jók söluna!
Við eigum að styðja og styrkja landbúnaðinn með sanngjörnum og öflugum hætti, m.a. þannig að framleiðslutengdar greiðslur þróist til grænna greiðslna og byggðastuðnings í ríkari mæli en nú er.  Það er fróðlegt að vita til þess að nánast allur stuðningur í Evrópu er nú bundinn ákvæðum um verndun landkosta. Með þessu er ESB að leita leiða til að tryggja áframhaldandi stuðning við bændur og dreifbýli, en á öðrum forsendum en áður var, forsendum náttúruverndar, sjálfbærrar þróunar og ekki síst í þágu byggðamála.

Við eigum að lækka innflutningstolla á landbúnaðarvörur í áföngum og vinna það í nánu samráði við samtök bænda. Þá er ekki eðlilegt að íslenskur landbúnaður þurfi að vera bundinn strangari reglum um slátrun og meðferð matvæla en gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum. Og auðvitað eiga samkeppnislög að gilda um landbúnaðinn eins og annað. En síðastnefndi punkturinn undirstrikar vitleysuna sem er við lýði í þessu kerfi. Ég minni á að þegar tollar voru afnumdir af tómötum, agúrkum og paprikum jókst salan á innlendri framleiðslu!

Aukum hlutdeild bóndans 
Ágallar núverandi kerfis birtast best í því að bóndinn fær skammarlega lágan hluta af útsöluverði vöru sinnar, í vissum tilvikum einungis 20–40%, á sama tíma og neytendur borga alltof hátt verð fyrir vöruna. Öllum ætti að vera ljóst að í slíku kerfi er alvarlegur brestur.

Kerfið þarf, að mínu mati, að tryggja að bóndinn fái mun hærra hlutfall af útsöluverðinu en hann gerir nú og jafnframt að hann geti keppt á markaði í krafti þeirra yfirburða sem gæði íslenskrar framleiðslu veita.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eva Kamilla Einarsdóttir

Ég er svo hjartanlega sammála þér. Okkar landbúnaðarkerfi er svo augljóslega stórgallað, það kemur bæði niður á neytendum og bændum

Eva Kamilla Einarsdóttir, 1.11.2007 kl. 13:06

2 Smámynd: Magnús Már Guðmundsson

Heyr heyr!

Rakst á þennan texta nýverið: 

Alþýðuflokkurinn gerir sér grein fyrir að núverandi landbúnaðarstefna er löngu úreld. Fé er ausið í landbúnaðinn í formi niðurgreiðslna, útfluningabóta og hvers kyns styrkja – og þó eru bændur ein verst launað stéttin í landinu.

Hvenær ætli þetta hafi verið ritað? Fyrir kosningarnar 1978! Sem sagt fyrir rúmum 30 árum síðan.

Það er kominn tími á breytingar og ef ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ræðst ekki í uppstokkun á hinu galna og gamla kerfi mun ekkert breytast í málaflokknum á komandi árum.  

Magnús Már Guðmundsson, 1.11.2007 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband