Bákn báknanna?

Í nýju fréttabréfi fastanefndar framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg má finna margt fróðlegt. M.a. er farið yfir nokkrar staðreyndir og goðsagnir um fjármál Evrópusambandsins en oft berast fréttir af ótrúlegu bákni sem ESB á að vera.

Einu sinni var ég með þann samanburð um að fleiri starfsmenn unnu undir breska umhverfisráðuneytinu heldur en vinna hjá Evrópusambandinu. Og ef ESB væri stofnun á Íslandi værum við að tala stofnun með um 20 starfsmenn og það væri með svipaða veltu og Sjúkrahúsið á Selfossi. E.t.v. er þessi samanburður orðinn úreltur.

En í fréttabréfinu kemur allavega fram að allar stofnanir ESB kosta um 5,5% af heildarfjárlögum ESB. Sömuleiðis kemur fram að fjárlög ESB ná einungis yfir um 0,94% af heildartekjum aðildarríkjanna og hefur þetta hlutfall farið lækkandi undanfarin ár. Annars má lesa meira um þessa punkta og fleiri hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Þetta eru mun lægri tölur, en maður hefði getað giskað á.

Jón Halldór Guðmundsson, 18.9.2007 kl. 11:36

2 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Einhvers staðar heyrði ég samanburð á ESB og Pentagon í Bandaríkjunum og man ég nú reyndar ekki alveg tölurnar en Pentagon kostar víst margfalt meira en ESB batteríið. Samt geta þessir sömu menn sem gagnrýna mest á ESB ekki annað en pissað í buxurnar af aðdáun þegar stjórnarfyrirkomulag bandaríkjanna kemur til umræðu.

Hitt er nú annað. Svo við höldum okkur við tölurnar. Viðskiptaráðherra okkar hefur reiknað að kostnaður íslendinga við að halda úti þessari djöfulsins krónu eru 72 milljarðar árlega, takk fyrir. Til gamans þá fór ég hagstofu.is og sá að heildarframlag ríkisins til allrar menntunar árið 2005 var eitthvað um 82 milljarðar.  Haldið þið að sé eðlilegt rugl að standa ennþá fyrir utan ESB.

Jón Gunnar Bjarkan, 19.9.2007 kl. 21:17

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Aðeins toppurinn á stærðarinnar ísjaka
eftir Dr. Richard North

„Miðstjórnin – framkvæmdastjórn Evrópusambandsins – er svo fámenn að hún hefur færri starfsmenn en borgarstjórn Leeds. Þvílíkt stórríki!“ Richard Corbett, þingmaður á Evrópusambandsþinginu.

Ekki er ætlunin að svara því beinlínis í þessari umfjöllun hvort Evrópusambandið sé að verða að stórríki heldur að fjalla um það hvernig Evrópusambandssinnar reyna að hrekja þá staðhæfingu. Ummæli Corbetts, sem birt eru hér að ofan, eru dæmigerð fyrir viðbrögð þeirra. Þau ganga út á það að sýna fram á að sambandið geti ekki orðið stórríki einfaldlega vegna tiltölulega fámenns starfsliðs – sem iðulega er skilgreint sem fámennara en meðalstór héraðsstjórn.

Það er hins vegar óneitanlega fróðlegt að velta því fyrir sér að að árið 1975, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um það hvort landið ætti að gerast aðili að Evrópusambandinu sem þá hét Efnahagsbandalag Evrópu, notaði Margaret Thatcher sömu rök fyrir aðild að sambandinu. Benti hún á að „aðeins 7.000 embættismenn“ störfuðu fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þá aðallega í Brussel. Næstu árin jókst þessi fjöldi embættismanna og voru þannig um tíma „aðeins 15.000“ og síðan „aðeins 18.000“ svo „aðeins 20.000“ og loks „aðeins 25.000 embættismenn“. Eins og staðan er í dag, eftir stækkun Evrópusambandsins til austurs, er talið að fjöldinn sé kominn í u.þ.b. 40.000 embættismenn, en samt sem áður er fjöldinn sagður minni en hjá ýmsum opinberum stofnunum í Bretlandi.

Eins og gefur að skilja er þessi röksemdafærsla þó afar villandi. Það má finna mörg dæmi í mannkynssögunni þar sem mjög fámennur hópur manna hefur stjórnað miklum fólksfjölda. Þetta á ekki síst við um stjórn Breta á Indlandi þó hún eigi að öðru leyti ekki mikið sameiginlegt með Evrópusambandinu. Hins vegar ber að hafa í huga að við lok valdatíma Viktoríu Bretadrottningar var 300 milljónum Indverja stjórnað af tæplega 1.500 breskum embættismönnum og hugsanlega um 3.000 breskum liðsforingum í Indverska hernum. Séu breskir hermenn ekki taldir með komu sennilega ekki fleiri en 20.000 Bretar að því að stjórna landinu – færri en þeir fastráðnu embættismenn sem starfa í dag fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.1)

Hins vegar segir það langt því frá alla söguna að skírskota einungis til þeirra starfsmanna sem með beinum hætti starfa fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Sérhvern dag starfa ekki bara embættismenn framkvæmdastjórnarinnar í Brussel heldur einnig þúsundir annarra embættismanna frá öllum aðildarríkjum sambandsins. Þessir aðilar kunna að starfa fyrir opinberar stofnanir í heimalöndum sínum, þeir kunna að vera ótengdir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða ráðherraráðinu eða þeir kunna að vera einungis í heimsókn vegna viðræðna – en þeir eru allir þátttakendur á einn eða annan hátt í „verkefninu“.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að sjálfsögðu miðpunktur „verkefnisins“, dælandi út reglugerðum og tilskipunum í þúsundatali. Sá reglugerðafrumskógur telur nú yfir 100.000 blaðsíður fyrir utan milljónir blaðsíðna af öðru efni. Með þessi afköst í huga ætti heilbrigð skynsemi að segja manni að svo fámennt starfslið gæti ekki mögulega staðið að þeim eitt og sér. Og auðvitað er það ekki þannig. Undirbúningur mikils hluta lagasetningarinnar, og mikið af alls kyns tæknilegri vinnu, er framkvæmdur af utanaðkomandi aðilum, eins og t.a.m. launuðum verktökum, háskólastofnunum og öðrum menntastofnunum, sjálfstæðum rannsóknaraðilum hliðhollum Evrópusambandinu og ekki síst miklum fjölda alls kyns einkaaðila sem eru á launum hjá framkvæmdastjórninni.

Stór hluti þeirrar vinnu sem þá er eftir er unnin af öðrum aðilum, allt frá opinberum embættismönnum aðildarríkjanna til fjölda nefnda sem starfa á vegum Evrópusambandsins og samanstanda m.a. af sérfróðum ráðgjöfum og háskólamönnum og fulltrúum þrýstihópa umhverfisverndarsinna eða aðila sem starfa á vegum hinna og þessara atvinnugreina eða einstakra fyrirtækja. Talið er að um 1.600 slíkar nefndir séu starfandi í Brussel og fyrir utan þær séu um 170.000 fulltrúar alls kyns þrýstihópa starfandi í Evrópusambandinu, allt frá fulltrúum heildarsamtaka ýmissa atvinnugreina til fulltrúa einstakra héraðsstjórna sem eru að óska eftir að fá aukinn hlut í fjárlögum sambandsins.

Þegar lagasetningu frá Evrópusambandinu hefur verið komið á þarf að framfylgja henni, sem kemur í hlut embættismanna aðildarríkjanna. Og í þeim tilfellum þar sem stefnumótun sambandsins ræður ríkjum, eins og t.d. varðandi sjávarútveginn og landbúnaðinn, eru þau hundruð þúsundir opinberra starfsmanna í aðildarríkjunum, sem vinna að því að framfylgja henni, í reynd að starfa fyrir Evrópusambandið. Vissulega eru þeir skipaðir af ríkisstjórnum heimalanda sinna, þeir nota bréfsefni sem er merkt því embætti sem þeir gegna og launin þeirra eru greidd af sköttum landa þeirra, en sú starfsemi sem þeir sinna er engu að síður tilkomin vegna fyrirmæla frá Brussel. Þeir eru í reynd aðeins opinberir starfsmenn heimalanda sinna að nafninu til.

Þannig er ljóst að að sú staðhæfing að þeir 30.000 eða jafnvel 40.000 embættismenn, sem starfa með beinum hætti fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, séu ekki nægilega margir til að stjórna stórríki missir algerlega marks. Þeir eru aðeins toppurinn á stærðarinnar ísjaka. Staðreyndin er sú að Evrópusambandið starfar samkvæmt ákveðnu tengslaneti þar sem framkvæmdastjórnin gegnir aðeins hlutverki miðstöðvar sem tengir saman þúsundir annarra aðila um gervallt sambandið, þá ekki síst opinbera starfsmenn aðildarríkjanna.

Á þetta benti Margaret Thatcher m.a. í bók sinni Statecraft sem gefin var út árið 2002. Hún veitti því athygli að þær tölur, sem gefnar voru upp um fjölda starfsmanna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (sem þá voru um 30.000) „taka ekki inn í myndina mikið stærri hóp opinberra starfsmanna í aðildarríkjunum sem sinna störfum sem eru til komin vegna reglugerða Evrópusambandsins.“2) Þessir aðilar, og án efa milljónir annarra sem starfa á einn eða annan hátt að framgangi “verkefnisins”, eru meira en nóg til að stjórna stórríki.

Dr. Richard North

1) Dennis Judd: Empire - The British Imperial Experience From 1765 To The Present. London, 1996. Bls. 79-80.

2) Margaret Thatcher: Statecraft: Strategies for a Changing World. New York, 2002. Bls. 324.

Hjörtur J. Guðmundsson, 19.9.2007 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband