Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar

Það er þýðingarmikið fordæmið sem Samfylkingin hefur nú sett með því að skipa jafn marga einstaklinga af hvoru kyni í ráðherraembætti á vegum flokksins. Ég óska nýjum ráðherrum Samfylkingarinnar til hamingju og sérstaklega þeim konum sem nú verða útverðir jafnaðarstefnunnar í ríkisstjórn.

Miklar vangaveltur hafa eðlilega verið í fjölmiðlum og annars staðar um hverjir myndu hljóta ráðherraembætti í nýrri ríkisstjórn. Margir hafa lýst þeirri skoðun að eðlilegt væri að ég, sem varaformaður flokksins, væri þar á meðal. Vitaskuld er sú umræða mjög eðlileg.

Á hitt ber þó að líta að nokkuð sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.  Ég tel mig að sönnu hafa traust og stuðning í að verða ráðherra en það eru fleiri sjónarmið sem koma til kastanna að þessu sinni. Ingibjörg, Össur og Jóhanna eru öll í sætum fyrir ofan mig í Reykjavík samkvæmt prófkjöri flokksins og hafa að auki öll verið forystumenn í hreyfingu jafnaðarmanna um árabil. Allir oddvitarnir á landsbyggðinni eru auk þess karlar þannig að það segir sig sjálft að það var úr vöndu að ráða. Að Reykjavíkurkjördæmin fengju 4 af 6 ráðherrum flokksins var ekki raunhæft.

Ég er næstyngstur meðal alþingismanna, þótt ég sé að hefja mitt annað kjörtímabil og ég er einn yngsti varaformaður stjórnmálaflokks hér á landi frá upphafi. Þrítugur þingmaður og varaformaður stjórnmálaflokks getur, að ég held, verið sáttur við árangurinn. Og ég get ekki annað en verið þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt af Samfylkingarfólki í gegnum tíðina.
 
Varla þarf þó að hafa orð á hinu augljósa. Að sjálfsögðu hef ég metnað til að taka sæti í ríkisstjórn. Nú blasir hins vegar við að Ingibjörg verður utanríkisráðherra með tilheyrandi ferðalögum og eftir stendur að við þurfum að halda áfram að byggja flokkinn upp og tryggja að öflugt grasrótarstarf dafni einnig eftir að við erum komin í ríkisstjórn. Ég mun leitast við að tryggja að rödd hins almenna flokksmanns heyrist meðal forystunnar.

Mikilvægast af öllu er að nýrri ríkisstjórn verði vel ágengt við að efna stjórnarsáttmálann og taki strax á brýnum málum svo sem biðlistunum í heilbrigðiskerfinu og aðstæðum hinna lægst launuðu. Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem sent hafa mér hvatningarorð síðustu daga. Ég met stuðning ykkar mikils.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Gott mál að skipta jafnt milli karla og kvenna (Sjallar gætu vandað sig betur við það). Ég er ánægður með þitt viðhorf til málanna. Eflaust hefðu einhverjir orðir fúlir, en eins og þú bendir á þá er þitt hlutverk mikilvægt í starfi flokksins og ekki síður tengingni við grasrótina sem þarf að vera góð þegar flokkur er í stjórn.

Er ekki minn gamli mentor (Gunnlaugur) ánægður með tengdasoninn. Hvað ætli hann hafi kosið, nú þegar dóttirin er á þínu bandi?

Guðmundur Örn Jónsson, 22.5.2007 kl. 23:17

2 Smámynd: Sindri M Stephensen

Því er ekki að neita að maður var örlítið svekktur að sjá þig ekki á blaði, hefðir verið svo helvítið flottur þarna. En þá er það bara næst....

Sindri M Stephensen, 22.5.2007 kl. 23:20

3 Smámynd: Fanney Dóra Sigurjónsdóttir

Ég er ekki þekkt fyrir það að liggja á skoðunum mínum svo ég segi það bara út: ég er afar skúffuð yfir þessari skipan ráðherra í okkar flokki minn kæri vin... Er líka beinlínis fúl að hvorki þú né Kata Júl séu með ráðuneyti, Samfó hafði þarna kjörið tækifæri til að gera frábæra hluti og skipa ungt og efnilegt (og rúmlega það!) fólk en gerði ekki. Ræði það við þig betur þann 16. næsta mánaðar ef þú kíkir við... 

Kærar kveðjur suður yfir land...  

Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 22.5.2007 kl. 23:29

4 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Blessaður Ágúst

Til hamingju með nýju ríkisstjórnina 

Ég hefði viljað hafa þig með í ráðherraliðinu en ég veit  að þín er þörf í að byggja upp innra starfið í flokknum og þú gerir það vel.  Þinn tími mun  koma eins og annarra í flokknum.

Kveðja frá Ísafirði

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 22.5.2007 kl. 23:34

5 identicon

Mér líst vel á það sem virðist vera að koma út úr þessum spilum. Ég skil líka vel að þinn metnaður standi til þess að takast á hendur starf ráðherra. Mér fannst Ingibjörg samt taka hárréttar ákvarðanir með þessari dreifingu vegna þess að með því sýndi hún að hún var að taka tillit til eins margra sjónarmiða eins og sex ráðherrastólar buðu upp á. Ég sjálf er afskaplega ánægð að sjá helminginn í þessum hópi vera konur. Ég er ein af þeim sem var afar óánægð með hlut kvenna í prófkjörum Samfylkingarinnar í vetur. Ég efast ekki um að þín bíða mörg spennandi verkefni fyrir flokkinn og óska þér alls hins besta. Ég efa það ekki heldur að þú hefur allt til að bera sem prýtt getur góðan ráðherra. Gangi þér allt í haginn og til hamingju með nýju ríkisstjórnina.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 23:55

6 Smámynd: Geir G

Sæll Ágúst´

Ég er ekki sáttur við þessi ráðherraskipan.  Hefði viljað sjá þig sem ráðherra.  Eitt af þeim rökum sem þú notar er að þú hafir verið neðar á lista en sumir aðrir.  Samt er Þórunn tekin framfyrir Katrínu sem er sætinu ofar hér á kraganum.  Hefði viljað sjá hana þarna inni líka.

Geir G, 23.5.2007 kl. 00:12

7 Smámynd: Guðfinnur Sveinsson

Sæll Ágúst,

Það hefði verið ótrúlega flott að fá þig sem einn af ráðherrum Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni enda hefuru sýnt það í verki að þú ert þrælöflugur og vaxið mjög síðan þú tókst sæti á þingi fyrst. Það er auðvitað mikið af mannskap sem hægt er að velja úr innan okkar raða, en engu að síður sárt að sjá þig ekki á ráðherralistanum. Ég hef engu að síður fulla trú á því að þú munir leiða þingflokksstarfið vel sem þingflokksformaður og vaxa og dafna enn meira sem varaformaður og þingmaður á næstu árum sem staðgengill Ingibjargar sem verður líklega á ferð og flugi.

Hlakka til að taka þátt með þér í starfinu í sumar og næsta vetur!

Bestu jafnaðarmannakveðjur,

Guffi

Guðfinnur Sveinsson, 23.5.2007 kl. 03:52

8 Smámynd: Guðríður Arnardóttir

Sæll félagi.  Það voru mér mikil vonbrigði að sjá þig ekki í ráðherraliði flokksins, þú hefðir orðið jafn öflugur ráðherra eins og þú ert sem þingmaður.  Sama hvaða ráðuneyti þér hefði verið falið, þú hefðir staðið þig vel.  En þín bíða krefjandi verkefni á kjörtímabilinu og þú munt leysa þau jafn vel og allt sem þér hefur verið falið hingað til.

Guðríður Arnardóttir, 23.5.2007 kl. 08:52

9 Smámynd: Anton Þór Harðarson

ég held að kyn fólks eigi ekki að hafa áhrif á hvort það verður ráðherra eða ekki, held að hæfileikar og þekking á viðkomandi málaflokki auk reynslu eigi að hafa mun meira vægi. Mín vegna mættu allir ráðherrar vera konur, eða þá karlar, svo framarlega að þetta væru hæfustu einstaklingarnir í starfið, kyn á aldrei að ráða.

Anton Þór Harðarson, 23.5.2007 kl. 09:35

10 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ekki væri ég að segja satt, segði ég sætin ykkar í Samfylkingunni væri verr skipuð með þér en til dæmis núverandi Viðskiptaráðherra.

Ég er feginn því, að Möller verður Samgönguráðherra og mun ég sannspár í því, að mjög mun það reita af ykkur fylgið hér syðra, því ef hann heldur áfram með hugðarefni sín í þessum málaflokki, munu verulega margir núverandi stuðningsmanna ykkar hér í Rvík og nágrenni, snúa við ykkur baki, líkt og ég hef þurft að glíma við, vegna aðgerða og aðgerðaleysis Sturlu í sama ráðuneyti.

Þessvegna eru blandnar tilfinningar til úthlutana ISG á stólunum.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 23.5.2007 kl. 10:04

11 Smámynd: Tjörvi Dýrfjörð

Sæll Ágúst Ólafur
Ég tek undir með öllum þeim sem hefðu viljað sjá þig í ráðherrastól. og eins sárnar mér fyrir hönd minnar ágætu vinkonu Katrínar Júl að það er gengið fram hjá henni. hún skipaði annað sæti listans með yfirburðastuðning í það sæti
En þetta val ISG hefur ekki verið auðvelt og væntanlega horft til þingreynslu, aldurs og kjördæmaskipans þegar valið var í ráðherrastólanna.
En ég mun halda áfram að styðja þig og Katrínu til allra góða verka og hlakka til að starfa með þér að uppbyggingu flokkstarfsins.

með bestu kveðjum úr Kópavogi

Tjörvi Dýrfjörð, 23.5.2007 kl. 10:27

12 Smámynd: Gísli Hjálmar

Ég tek undir með flestum hér að ofan ...

Ég vildi sjá þig sem verðugan fulltrúa hinnar nýju kynslóðar jafnaðarmanna og þá að sjálfsögðu sem ráðherra.

... þannig að ég er ósáttur við þessa skipan í stólana.

Gísli Hjálmar , 23.5.2007 kl. 10:35

13 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Þú hefðir að sjálfsögðu verið ákjósanlegur ráðherra. En eins og þú bendir á eru mörg sjónarmið sem þarf að huga að. NV kjördæmi er t.d. eina kjördæmið sem á engan ráðherra....það er eitt sjónarmiðið í viðbót.

Þú verður ráðherra á ferlinum það er ljóst.

Eggert Hjelm Herbertsson, 23.5.2007 kl. 11:00

14 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Ég er sáttur við þessa ríkisstjórn sem slíka, það sem ég er mjög ósáttur við er að Ingibjörg virðist ekki hafa nokkurn áhuga á að hafa varaformanninn sinn sér við hlið. Ég vildi sjá þig Ágúst Ólafur í þessari stjórn því þú átt skilið og átt kröfu á því. Mér finnst votta fyrir hroka hjá Ingibjörgu núna sem svo oft áður því miður.

Jens Sigurjónsson, 23.5.2007 kl. 11:11

15 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæl Ágúst Ólafur,

ég tek undir orð margra sem hafa skrifað hér á síðuna að vissulega hefði ég viljað sjá bæði þig og Kötu Júl í ráðherrasætum. En ykkar tími mun koma, það er næsta víst (eins og Bjarni Fel myndi orða það).

Þú og aðrir í þingflokknum eigið stuðning minn vísan í ykkar verkum og ég hlakka til að sjá ykkur í slagnum næstu fjögur árin.

kveðja úr Kópavogi,

Ingó

Ingibjörg Hinriksdóttir, 23.5.2007 kl. 11:59

16 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Ótrúlega ánægð með þessa skipan mála.  Ágúst Ólafur er ungur og hans tími mun sjálfssagt koma.  Tel það ráðlegara að hann hjálpi til við að byggja upp innra starf flokksins, það þarf að huga að því allt árið umkring og þrátt fyrir að Ágúst hafi verið kosinn varaformaður, þá var sú kosning ekki óumdeilanleg.  Það gleður mig sérstaklega að sjá Þórunni í Umhverfisráðuneytinu og það gleður mig einnig að sjá hversu Ingibjörg er mikil manneskja að láta þau Össur og Jóhonnu ekki gjalda fyrir stuðningsmenn þeirra.  Ingibjörg Sólrún er FRÁBÆR!

Geir Haarde er eins frábær og hægt er að hugsa sér ef taka á mið af hans pólitísku skoðunum. Hann er mannasættir, heiðarlegur og án hroka sem einkennir einmitt svo marga „íhaldsmenn“ Vonandi fær BB ekki að valta yfir þjóðina með fáránlegum embættisveitingum.

Mér líst ágætlega á Guðlaug Þór, held að hann sé ágætur, allavega miklu álitlegri en „stuttbuxnasveitin“ Gasalega er ég líka lukkuleg að „gerpið“ Sturla Böðvarsson fékk ekki´ráðuneyti. Sem forseti Alþingis gerir ekki annað en að ég glápi ekki á þingfréttir í sjónvarpinu frekar en fyrri daginn. Þau Sólveig og Pétur eru álíka leiðinleg.

Það besta alltaf síðast.  Framsóknaflokkurinn hefur fengið frí.

Góðar stundir

Ingibjörg Friðriksdóttir, 23.5.2007 kl. 12:01

17 Smámynd: Hrefna og Hafsteinn

Sæll Ágúst.

Ég held reyndar að margir þeir sem tala hæst um niðurlægingu þína í þessum efnum geri það ekki vegna áhyggna af frama þínum heldur séu þeir sjálfir að reyna að auka á hina meintu niðurlægingu.

Auðvitað hefðum við frjálshyggjumenn gjarnan viljað sjá þig frekar í ráðherraliðinu heldur en fólk sem sækir hugmyndafræði sína lengra til vinstri. En það verður ekki á allt kosið og mér segir svo hugur um að þú sért ekki á leiðinni út úr pólitík á næstunni hvort eð er.

Gangi þér allt í haginn.

Hafsteinn Þór Hauksson.

Hrefna og Hafsteinn, 23.5.2007 kl. 14:24

18 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Til hamingju með nýja ríkisstjórn og stjórnarsáttmála. Þú átt örugglega eftir að verða öflugur ráðherra um mörg ár þegar sá tími kemur þó hann hafi ekki verið núna enda leitun að jafn víðsýnum og vel gefnum ungum manni og ÁÓÁ.

Kv HJH

Helgi Jóhann Hauksson, 23.5.2007 kl. 15:00

19 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæll Ágúst Ólafur

og fyrirgefðiu að ég sendi þér línu, en ég mátti til! Mér finnst þú taka á málum af aðdáunarverðri karlmennsku. Mér finnst þú maður að meiri. Þú ert maður sem mikils má vænyta af og ég veit að þú munt uppskera eins og þú hefur sáð: Ríkulega!

Megi þér farnast sem best um ókomna tíð!

kveðja

Viðar Eggertsson, 23.5.2007 kl. 18:04

20 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Verst að þessir ráðherrastólar voru ekki fleiri þurfum bara að bretta betur upp ermar eftir 4 ár;-)

Innra starfið í flokknum er mikið verkefni en í því felst möguleikinn á að gera betur í næstu kosningum. Það er mikilvægt að éta flokksstarfið ekki upp meðan að landinu er stjórnað og það er gott að hafa góðann mann í því. Býst við miklu af þér í þessu verkefni.

Lára Stefánsdóttir, 23.5.2007 kl. 23:30

21 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Þinn tími mun koma - fyrr en varir!

Björk Vilhelmsdóttir, 23.5.2007 kl. 23:36

22 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Óásættanlegt að fá þig ekki sem ráðherra, ekkert sem afsakar það, en allt mun pottþétt ganga vel. Tek undir orð Bjarkar, "Þinn tími mun koma" 

Inga Lára Helgadóttir, 24.5.2007 kl. 00:15

23 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Sæll Ágúst Ólafur.

Þú hefðir vissulega verið verðugur áðherrastóls og ég spái því að það hlutverk bíði þín. Hins vegar er ekki hægt að segja annað en að þú sem varaformaður og þingmaður hafir mjög stóru hlutverki að gegna í forystu flokksins.

Jón Halldór Guðmundsson, 24.5.2007 kl. 09:49

24 Smámynd: Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

Fordæmi með jafnrétti í ráðherraskipan????

 Er fólk að missa sig? Veit ekki betur en að framsókn hafi fyrir ansi mörgum árum skipt sínum ráðherrum 3-3 milli kynjanna.

Snæþór Sigurbjörn Halldórsson, 24.5.2007 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband