Lækkum matvælaverðið um 200.000 kr.

Við þingmenn Samfylkingarinnar fórum í Smáralind og Kringluna um helgina, þar sem við kynntum tillögur okkar um leiðir til þess að lækka matvælaverð. Fólk tók okkur mjög vel og það er auðvitað mun skemmtilegra að hitta kjósendur augliti til auglitis og fá fram viðbrögð manna og skoðanir. Ég held að það bókstaflega allir verið okkur sammála í því að matvælaverð á Íslandi er alltof hátt. Staðreyndin er hins vegar sú að matvælaverðið er heimatilbúinn vandi og af þeim sökum ætti að vera unnt að leysa hann. Til þess þarf hins vegar raunverulegan pólitískan vilja. Ég segi raunverulegan af því að tilfellið er að aðrir stjórnmálaflokkar hafa í orði verið okkur sammála um nauðsyn þess að lækka verð á matvöru, en í borði hafa þeir ekki stutt tillögur okkar á þingi sem miða að því að þessu brýna markmiði fram. Hér á ég að sjálfsögðu við ríkisstjórnarflokkana. Sjálfstæðisflokkurinn hafði meira að segja nánast sömu stefnu og Samfylkingin í þessu máli í síðustu kosningabaráttu, en það breytti því þó ekki að menn sátu svo á Alþingi örfáum mánuðum eftir kosningar og greiddu hiklaust atkvæði gegn tillögum okkar.
Sjálfstæðisflokurinn er því afskaplega lítið trúverðugur í þessu máli, en nú þegar styttist í kosningar ryðjast þingmenn flokksins fram á ritvöllinn og segja að þetta mál verði á dagskrá – kannski eftir kosningar?
Tillögur okkar byggja á stærstum hluta á tillögum formanns matvælanefndarinnar, Hallgríms Snorrassonar, sem fjölmargir aðilar tóku undir s.s. ASÍ, Samtök iðnaðarins og leiðararhöfundar blaðanna. Í tillögunum er gert ráð fyrir að með þessum aðgerðum muni matarreikningur heimilanna lækka um 200.000 kr. eða 25% á meðalfjölskylduna. Matvælakostnaður heimilanna nemur að meðaltali 750.000 krónum á ári og myndu tillögur Samfylkingarinnar því lækka matarreikninginn um rúmlega fjórðung.
Samfylkingin hefur einn flokka barist fyrir lækkun matvælaverðs á undanförnum árum en ríkisstjórnarflokkarnir hafa staðið gegn slíkum tillögum á Alþingi. Samfylkingin mun í upphafi þings leggja fram þingsályktunartillögu um lækkun matarverðs þar sem lagðar eru til eftirfarandi breytingar:

1. Fella niður vörugjöld af matvælum.
2. Fella niður innflutningstolla af matvælum í áföngum á þá leið að 1. júlí nk. verði helmingur þeirra afnuminn og ári síðar verði allir tollar endanlega fallnir niður.
3. Virðisaukaskattur á matvæli verði lækkaður um helming.
4. Breytt fyrirkomulag á stuðningi við bændur þannig að teknar verði upp tímabundnar beinar greiðslur og umhverfisstyrkir. Þetta nýja fyrirkomulag verði útfært í samvinnu við bændur.
5. Samfylkingin mun á komandi þingi leggja fram frumvarp þar sem afnuminn er réttur landbúnaðarráðuneytis til að hafna breytingum á tollskrám, sem varða breytingar á innflutningsvernd búvara.
6. Samfylkingin leggur áherslu á að landbúnaðarframleiðsla falli undir samkeppnislög.
7. Samfylkingin vill að við fjárlagagerð verði tryggt að allur stuðningur við landbúnað sé opinn og gagnsær.

Matarverð á Íslandi er með því hæsta í heiminum og er um 50% hærra en hjá nágrannaþjóðunum. Hátt verð á matvælum á Íslandi er hins vegar heimatilbúinn vandi sem vel er hægt að bregðast við. Tillögur Samfylkingarinnar um fjórðungs lækkun á matvælakostnaði heimilanna munu því leiða til mikilla lífskjarabóta fyrir almenning í landinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband