Svar til Viðskiptablaðsins

Á leiðarasíðu Viðskiptablaðsins föstudaginn 8. september sl. er fjallað um undirritaðan í dálki sem merktur er Tý. Þar er fjallað um blaðaskrif mín um efnahagsmál og þær athugasemdir sem ég hef gert við hagstjórn ríkisstjórnarinnar. Uppistaðan í pistli hins ónafngreinda pistlahöfundar Viðskiptablaðsins eru skrif á heimasíðu þröngsýnna hægri manna á andriki.is sem hafa allt annað að leiðarljósi en málefnalega eða sanngjarna umfjöllun um pólitíska andstæðinga sína og málefni þeirra. Pistlahöfundur Viðskiptablaðsins dettur því miður í sama pytt og umræddir hægri menn, sem hann kallar reyndar vini sína í pistlinum.

Hann segir að áhyggjur þær sem ég hef lýst af efnahagsástandinu bendi til þess að ég hafi ekki lesið þjóðhagspá Glitnis. Þá ýjar pistlahöfundurinn ónafngreindi að því að ég hafi verið að nýta þjóðhagsspá Glitnis til að villa vísvitandi um fyrir lesendum.
Það er lítið hægt að segja við pillum sem birtast á pólitískum heimasíðum eins og Andríki en mér finnst eiga að vera hægt að gera aðrar og meiri kröfur til virtra blaða eins og Viðskiptablaðsins. Það er alvarlegt að brigsla mönnum um að þeir séu vísvitandi að blekkja almenning. Undir því get ég ekki setið þegjandalaust.
Hvað stendur í skýrslunni?
Ég get upplýst lesendur, og pistlahöfund Viðskiptablaðsins, um að ég bæði las þjóðhagsspá Glitnis og mætti auk þess á kynningarfund bankans á henni. Ég stend ennfremur fast við þau orð mín að í spá Glitnis sé gert ráð fyrir að almenningur lendi í að borga brúsann fyrir efnahagsmistök ríkisstjórnarinnar. Skoðum nokkur dæmi:
Um framtíðarhorfur í efnahagsmálum segir orðrétt í umfjöllun Greiningar Glitnis að lendingin í hagkerfinu muni: "…fela í sér tímabundna rýrnun kaupmáttar, lækkun eignaverðs og aukningu vanskila og gjaldþrota svo eitthvað sé nefnt."

Og síðan segir Glitnir að:"...nú blasir við tímabil mikillar verðbólgu, hárra vaxta og lækkun húsnæðisverðs. Skuldahlutföll sem eru í hærri kanti þess sem gerist á alþjóðavísu verða enn verri þegar skoðað er að íslensk heimili greiða mun hærri vexti af þessum lánum sínum en nágrannar þeirra í öðrum löndum."

Og áfram segir í þjóðhagsspánni: "Ljóst er að á þessu ári … [mun greiðslubyrði heimilanna af lánum sem hlutfall af ráðstöfunartekjum] verða talsvert hærri og þrengja að þeim sem mest hafa skuldsett sig á undanförum árum og/eða þeim sem munu sökum versnandi atvinnuástands tapa ráðstöfunartekjum sínum að stórum hluta."

Og enn fremur segir bankinn að: "Atvinnuleysi mun aukast jafnt og þétt…" og annars staðar í skýrslunni er gert ráð fyrir áframhaldandi hárri verðbólgu á næsta misseri og umtalsverðri sveiflu á gengi krónunnar.

Burtséð frá pólitískum viðhorfum pistlahöfundar Viðskiptablaðsins þá er engin leið að horfa framhjá því að allir þessir þættir; kaupmáttarrýrnun, vaxandi atvinnuleysi, gengissveiflur, háir vextir og verðbólga koma illa við hag bæði almennings og fyrirtækja.

Enda segir orðrétt í skýrslu Glitnis: "Hagur heimilanna hefur versnað nokkuð það sem af er ári og er útlit fyrir að hann muni versna enn á næsta ári þegar dregur frekar úr þenslu í hagkerfinu."
Mistök ríkisstjórnarinnar staðfest
Auðvitað er staðan í efnahagslífinu ekki alslæm, enda er veruleikinn sjaldnast svo einfaldur, jafnvel þó að Andríkismönnum og -konum verði æði oft á að líta á allt sem svart eða hvítt. En ég sem stjórnmálamaður, sem hef meðal annars menntað mig í hagfræði, hlýt að mega draga mínar ályktanir af þeim niðurstöðum sem birtast m.a. í þjóðhagsspá Glitnis án þess að vera sakaður um að vera að reyna að villa um fyrir almenningi.

Ég tel mikilvægt að stjórnmálamenn séu ábyrgir og hófsamir í allri umfjöllun um efnahagsmál. Ég er þannig óhræddur við að segja að sumt hefur verið ágætlega gert hér undanfarin ár en það þýðir ekki að horfa eigi framhjá því sem miður hefur farið.

Því miður hefur ríkisstjórnin gert óþarflega mörg mistök í hagstjórninni og verst þykir manni að það sé almenningur sem sýpur seyðið af þessu andvaraleysi ríkisstjórnarinnar. Ég hef áhyggjur af því að stjórnin sé einfaldlega ekki lengur á tánum eftir langa setu við völd. Ráðherrarnir séu ófúsir að taka á efnahagsmálunum fyrir kosningar – sem gæti orðið atvinnulífinu dýrkeypt.
Því má svo bæta við að í hinni margumræddu þjóðhagsspá Glitnis er einmitt fjallað efnislega um nokkur mistök ríkisstjórnarinnar, s.s. aðhaldsleysi hennar í ríkisfjármálunum og benda skýrsluhöfundar á að: "Seðlabankinn mun áfram bera hitann og þungann af mótvægisaðgerðum gegn ofhitnun í hagkerfinu." Óvilhallir aðilar fjármálamarkaðarins hafa ítrekað fjallað um þessi sömu hagstjórnarmistök á opinberum vettvangi.
Í greinum mínum um efnahagsmál hef ég reynt að fara með málefnalegum hætti yfir þá þætti sem ég tel hafa misfarist í efnahagstjórnun ríkisstjórnarinnar og hef ég stuðst við fjölmargar skýrslur aðila fjármálamarkaðarins, þar á meðal Glitnis. Hafi lesendur áhuga á því að kynna sér þessi skrif þá má nálgast þau á heimasíðu minni, agustolafur.is.

Jafnvel þó ekki sé unnt að ætlast til þess að allir séu sammála þá getur ekki talist sæmandi fyrir hið góða blað Viðskiptablaðið að gera mönnum upp annarlegan ásetning á borð við þann að villa vísvitandi um fyrir almenningi eða fyrir að hafa ekki kynnt sér heimildir. Hvorugt á hér enda við.

Þessi grein birtist í Viðskipablaðinu 15. september sl.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband