Upprifjun á efnahagsmistökum ríkisstjórnarinnar

Svona í upphafi árs er ríkt tilefni til að rifja upp nokkur efnahagsmistök ríkisstjórnarinnar. En þessi blessaða ríkisstjórn hefur gert mörg viðurkennd mistök í hagstjórninni á undanförnum misserum.

Fyrstu mistökin voru tímasetning breytinganna á húsnæðislánamarkaðinum og sú staðreynd að þær voru gerðar í einu skrefi. Þessi ákvörðun jók þenslu og verðbólgu til muna. Húsnæðisverð snarhækkaði í kjölfarið og hefur aldrei verið eins dýrt að eignast fyrstu íbúð. Núverandi ástand getur leitt til fasteignakreppu sem hefur í för með sér að fólk mun skulda meira í fasteignum sínum en sem nemur virði þeirra.

Önnur mistökin
Önnur mistök ríkisstjórnarinnar eru ríkisfjármálin. Þar hefur ríkt stjórnleysi og aðhaldsleysi, sérstaklega í fjármálaráðherratíð Geirs H. Haarde. Hið opinbera hefur tvenns konar úrræði í efnahagsstjórnun. Annars vegar peningamálastefnan sem er á könnu Seðlabankans og hins vegar ríkisfjármálin sem eru verkefni ríkisstjórnar.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa sagst vantrúuð á beitingu ríkisfjármála sem hluta af efnahagsstjórnun. Slík ummæli bera vott um fullkomna vanþekkingu á hagkerfinu. Mat ríkisstjórnarinnar og mat Seðlabankans á efnahagsástandinu er gjörólíkt og þessir aðilar vinna í sitt hvora áttina.

Seðlabankinn er því miður einn í baráttunni gegn verðbólgunni, enda neitar ríkisstjórnin að horfast í augun við raunveruleikann. Einu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eru árásir á vegaumbætur á landsbyggðinni. Vaxtahækkanir Seðlabankans eru hins vegar mjög kostnaðarsöm leið til að ná tökum á verðbólgunni en hins vegar eru þær rétt leið til að ná niður verðbólgunni. Hin löngu verðtryggðu lán draga þó úr mætti vaxtahækkana Seðlabankans og gera hækkanir Seðlabankans á vöxtum bitlausari en ella.

Ríkisstjórnin setur árlega marklaus fjárlög en fjárlögin 2000-2004 gerðu ráð fyrir 82 milljarða króna afgangi af ríkissjóði en þegar reikningurinn var gerður upp kom í ljós 8 milljarða króna halli. Skekkjan þessi ár var því upp á 90 milljarða króna. Á þetta hefur Ríkisendurskoðun bent á og gagnrýnt harðlega.

Fullkominn skortur á hagstjórn
Ríkisútgjöldin eru 160 milljörðum hærri núna en það sem þau voru árið 1995. Ríkissjóður hefur því 160 milljarða fleiri krónur á milli handanna á þessu ári en hann hafði þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum. Að sjálfsögðu eru þessar tölur á föstu verðlagi. Ríkissjóður er því 73% dýrari í rekstri nú en árið 1995. Almenningur veit að þjónusta ríkisvaldsins hefur ekki batnað um 73% á sama tíma. Það er eins og aukning ríkisútgjalda sé á sjálfstýringu.

Og það er ekki að ástæðulausu sem fjölmargir hagfræðingar hafa bent á að hugsanlega verðum við að taka upp evruna vegna skorts á hagstjórn í þessu landi. Sjálfstæðisflokkurinn segist nánast neyðast til að taka æ stærri hlutdeild af þjóðarkökunni og það meira að segja án þess að færa þjóðinni afrakstur sinnar vinnu aftur tilbaka með einhverjum hætti eins og bættri velferðarþjónustu, öflugra menntakerfi eða já, hærri skattleysismörkum sem kæmu venjulega fólkið afar vel.

Þriðju mistökin
Þriðju mistökin voru skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á kolröngum tíma, en þær renna fyrst og fremst renna til hinna ríku en ekki til venjulegs fólks í landinu. Öll hagfræði segir okkur að þensla eykst með tekjuskattslækkunum. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki greint frá því hvernig hún muni borga fyrir skattalækkanir fyrir hina ofurríku.

Fjórðu mistökin
Í fjórða lagi er það stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar sem hefur orðið að efnahags- og umhverfisvanda. Stóriðjuframkvæmdirnar höfðu þó talvert minni bein áhrif á hagkerfið en búist var við en þær höfðu áhrif og þá ekki hvað síst á væntingarnar sem skipta miklu máli í efnahagskerfinu.

Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Kárahnjúka urðu aldrei að veruleika. Nú hvetur ríkisstjórnin hins vegar til frekari stóriðjuframkvæmda. Áætlaðar framkvæmdir eru helmingi meiri að umfangi en þær sem nú eru í gangi, en þær eru aftur miklu stærri en framkvæmdir síðasta áratugar. Tímasetning slíkra framkvæmda hefur afgerandi þýðingu varðandi stöðugleikann.

Fimmtu og stærstu mistökin
En ein stærstu efnahagsmistök ríkistjórnarinnar eru hins vegar fjársvelti ríkisrekna menntakerfisins og lítill stuðningur við hátækniiðnaðinn. Auka þarf fjárfestingu í rannsóknum og koma á skattaívilnunum fyrir hátæknifyrirtæki. Mannauðurinn er okkar stærsta auðlind og við verðum að hlúa vel að honum.

Óstjórn ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hinn nýi verðbólguskattur ríkisstjórnarinnar bitnar á venjulegu fólki sem borgar reikninginn. Þessari þróun þarf að snúa við og það mun Samfylkingin gera fái hún til þess umboð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband