Busi á Alþingi

Það er einkennileg tilfinning að taka sæti á Alþingi í fyrsta skiptið. Hátíðleiki í bland við spennu setur mark sitt á þingsetninguna. Það voru ekki margir að fylgjast með þingsetningunni á Austurvelli og gaf það til kynna að líklega er fólk búið að fá nóg af pólitík í bili eftir langa og harða kosningabaráttu.
Reynslan sýnir að það getur borgað sig að bjóða kórum á fundi því með því er góð mæting tryggð. Sama má e.t.v. segja um þingsetninguna og heiðursverði lögreglunnar sem raða sér í tugatali í kringum þingmennina.
Soprano´s aftur á dagskrá
Fyrsti dagurinn á þingi varð alls ekki eins og við var að búast. Starf kjörbréfanefndar sem venjulega tekur um 5 mínútur stóðu á aðra klukkustund og endaði með klofningi. Í kjölfar þess tóku við miklar umræður um álit nefndarmanna. Nýjum þingmanni kom hins vegar á óvart að einungis einn stjórnarþingmaður tók þátt í umræðunni um jafnalvarlegt mál og lögmæti kosninganna. Meira að segja nýir og ungir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sátu stilltir og prúðir og fylgdu hinni langlífu flokkslínu. Ekki glæsileg byrjun það.
Vegna hinar sögulegu umræðu um kjörbréf þingmanna varð margt öðruvísi en venja er. Hringt var upp í sjónvarp á elleftu stundu og stefnuræðu forsætisráðherra frestað um einn dag. Soprano´s var settur aftur á dagskrá svo þjóðin gæti horft á alvöru baktjaldarmakk og hasar, henni eflaust til mikils léttis.
Undirritun drengskaparheitis nýrra þingmanna er stór stund hjá hverjum busa á þingi. Hins vegar frestaðist það eins og margt annað þennan daginn. Vegna þessa héldu umboðslitlir þingmenn sínar jómfrúarræður án nokkurrar skjalfestrar hollustu við stjórnarskrána.
Reykfyllt bakherbergi
Ný kynslóð hefur nú sest á Alþingi og hafa aldrei eins margir ungir einstaklingar tekið sæti saman á Alþingi. Sú staðreynd að Framsóknarmenn eru að upplagi miðaldra hækkar reyndar meðalaldur hinna ungu þingmanna. Vonandi verða þessi kynslóðaskipti þingi og þjóð til batnaðar og frjálslynd viðhorf ungs fólks fái að leika um sali Alþingis. Þingheimur ætti að nýta tækifærið með nýju fólki og breyta úreltum starfsvenjum þar en óeðlilegur og óskilvirkur vinnutími bitnar mjög á ungu fjölskyldufólki.
Alþingi hefur lengi þótt vera furðulegur vinnustaður. Störfin þar eru undir smásjá fjölmiðla og þjóðarinnar. Almenningsálitið er sveiflukennt og lýtur oft svipuðum lögmálum og kenningin um fiðrildið í Kína sem veldur stormi í Kansas.
Í Alþingishúsinu er að finna mörg lítil hliðarherbergi en eftir einungis einn dag á Alþingi hefur tilgangur þeirra runnið upp fyrir mér. Þar eru haldnir hinir mýmörgu plottfundir sem ráða oftar en ekki úrslitum í málefnum lands og lýðs. Þetta eru hin margfrægu reykfylltu bakherbergi en á tímum tóbaksvarnarlaga hefur reykurinn vikið fyrir sódavatnsflöskum og tyggjópökkum.
Á Alþingi er tekist á um hugmyndir og lífsskoðanir. Markmið þingmanna eru ekki ólík en leiðirnar eru langt frá því að vera sambærilegar. Á Alþingi má finna allt frá grænum sósíalistum í anda liðinna tíma til harðra kapítalista sem lifa í vélrænum draumaheimi.
Enginn friður á salerninu
Þrátt fyrir tæplega 100 manna starfslið Alþingis og rúmlega 60 þingmenn fær maður þá tilfinningu að þetta sé lítið samfélag. Vinabönd verða oft tryggari milli pólitískra andstæðinga en milli flokksystkina. Flestir þingmenn eru líflegir og glaðir fyrir utan einn og einn úr ráðherraliðinu sem eru þungbúnir á svip enda dagar sumra þeirra taldir. Allir þingmenn hafa það á tilfinningunni að þeir séu sérstakir og geti gert meira gagn en aðrir en hvort þjóðin er því sammála eða ekki er allt önnur saga.
Það er gaman að vera orðinn hluti af þessu samfélagi og ég er mjög þakklátur því fólki sem kom mér þangað. Ekki skemmir það fyrir að aldrei í sögunni hefur hérlendis nokkur jafnaðarmannaflokkur verið eins stór og Samfylkingin er nú. Sú staðreynd setur ákveðinn svip á þingið enda rekst maður stöðugt á Samfylkingarfólk. Það er ekki einu sinni hægt að fara á salernið án þess að rekast á jafnaðarmann.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband