Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kominn á Moggabloggið

Jæja, nú er ég fluttur á þetta svokallaða Moggablogg. Ég var búinn að skrifa á heimasíðu mína, www.agustolafur.is í tæp 5 ár. Þar á undan skrifaði ég reglulega á www.politik.is en ég var fyrsti ritstjóri þess vefrits ásamt Sif Sigmarsdóttur, rithöfundar með meiru. Þessi skrif hafa haldið manni vel við efnið og hafa verið hvatning fyrir mig að kynna mér hin ýmsu mál. Mér finnst það vera afskaplega góð þróun hversu margir stjórnmálamenn eru farnir að skrifa á netið. Það gefur bæði betri mynd af viðkomandi stjórnmálamanni og það færir hann nær fólkinu og umræðunni. Ég vona allavega að þið eigið eftir að njóta bloggsins hérna.

Segja eitt en gera annað

ójöfnuðurGuðmundur Steingrímsson tekur upp eina elstu klisju stjórnmálanna, sem er sú að hægri menn fari betur með peninga en vinstri menn.

Ég hef lengi þrætt fyrir þetta því eins Guðmundur bendir á í bloggfærslu sinni um málið sýna dæmin einfaldlega annað. Ríkisútgjöld vaxa tíðum mikið meðan hægri menn eru við völd.

Þeir tala og tala um lítið ríkisvald en eru engu að síður hallari undir að stækka það. Orð og gjörðir fara ekki saman. Enginn áþreifanleg rök eru um það í íslenskri eða evrópskri stjórnmálasögu að jafnaðarmönnum sé ekki treystandi fyrir skynsamlegri stjórn efnahagsmála.geir1

Samfylkingin vill vissulega auka ríkisútgjöld til velferðar- og menntamála en við teljum þetta arðbærar aðgerðir og viljum á móti draga úr ýmis konar sóun og bruðli auk þess að virkja atvinnulífið til vaxtar fyrir alla. Meðal annars til að það skili meiri tekjum í ríkissjóð.

Skattastefna núverandi ríkisstjórnar Íslands hefur leitt til mikils ójöfnuðar sem er hættulegur til lengdar og stjórn hennar á efnhagsmálum almennt hefur kallað yfir heimilin í landinu eina mestu skuldaaukningu í sögunni.

Munum að skattbyrði allra tekjuhópa nema þeirra sem eru í topp 10% hópnum hefur þyngst hjá þessari ríkisstjórn. Og að ríkisútgjöldin eru núna um 160 milljörðum hærri en það sem þau voru þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum árið 1995.


Trompið okkar er Ingibjörg

ISG og HelleÉg hef unnið náið með Ingibjörgu Sólrúnu, formanni Samfylkingarinnar undanfarin misseri og hef sjaldan eða aldrei verið sannfærðari um það en nú hversu farsælt það yrði fyrir íslenska þjóð að fá hana til að stýra forsætisráðuneytinu í næstu ríkisstjórn.

Ég hef í viðtölum kallað hana tromp Samfylkingarinnar, enda tel ég að föst skotin sem dynja stundum á henni frá pólitískum andstæðingum okkar séu merki um styrk hennar fremur en veikleika.
Erla Sigurðardóttir Samfylkingarkona sem búsett er í Kaupmannahöfn skrifar skemmtilegan pistil á Trúnó-bloggið um það hvernig Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs hefur stutt við bakið á Helle Thorning-Schmidt, ungu konunni sem er formaður danskra jafnaðarmanna um þessar mundir.

Mæli með þessum pistli og skrifum á truno.blog.is almennt. Þetta er úrvals síða.


Sameinuð stöndum vér...

kristjanKristján Jónsson, sá mæti blaðamaður á Morgunblaðinu leggur út af sterkari útkomu Samfylkingarinnar í skoðanakönnun Fréttablaðsins á bloggi sínu og veltir hann vöngum yfir því hvort mótlætið hafi e.t.v. þjappað Samfylkingarfólki saman.

Það er mín tilfinning að þetta sé svona. Og ég segi fyrir mitt leyti að ég kýs fremur að vera á uppleið á þessum tímapunkti í skoðanakönnunum heldur en að toppa núna þremur mánuðum fyrir kosningar.

Fiskur og ESB

Á miðvikudaginn hlýddi ég á ræðu háttsettra embættismanna frá Evrópusambandinu sem unnu aðfiskur og ESB sjávarútvegsstefnu ESB. Það var sérlega ánægjulegt að þeir staðfestu að öllu leyti málflutning Samfylkingarinnar um sjávarútvegsstefnu ESB.

Helstu niðurstöður voru:

1. Sjávarútvegsstefna ESB byggist á nýlegri veiðireynslu. Og þar sem það eru einungis Íslendingar sem hafa veiðireynslu í íslenskri lögsögu munu einungis Íslendingar fá úthlutaðan kvóta eftir að Ísland gengur í ESB. Reglan um veiðireynslu er ekki að fara breytast hjá ESB enda er hún hornsteinn sjávarútvegsstefnu Sambandsins.

2. Sjávarútvegsfyrirtæki sem fá úthlutaðan kvóta þurfa að hafa bein efnahagsleg tengsl við það svæði sem reiðir sig á veiðarnar. Þessi regla ESB er landsbyggðinni sérstaklega hagfellt og kemur í veg fyrir kvótahopp.

3. Íslendingar munU áfram sjá um eftirlitið með veiðum þrátt fyrir aðild að ESB.

4. Ráðherraráðið, sem mun hafa íslenska sjávarútvegsráðherrann innandyra, mun væntanlega taka ákvörðunina um heildarmagn kvótans. En sú ákvörðun er fyrst og fremst formlega eðlis þar sem Íslendingar eru eina þjóðin sem mun hafa veiðiréttindi í íslenskri lögsögu vegna reglunnar um veiðireynslu. Ráðherraráðið mun styðjast við ráðleggingar íslenskra vísindamanna.

5. Veiðimöguleikar Íslendinga munu stóraukast við aðild þar sem ESB hefur gert fjölmarga samninga um veiðiréttindi um allan heim.

6. Áður en ESB semur fyrir hönd aðildarríkja sinna gagnvart öðrum ríkjum hafa aðildarríkin samið sín á milli þannig að í raun mun aðild að ESB ekki skerða samningsstöðu Íslands.

7. Hugsanlega er hægt að semja um sérstakt fiskveiðistjórnunarkerfi í íslenskri lögsögu ef hægt sé sýna fram á að Íslendingar hafa einir þjóða hagsmuni á viðkomandi svæði (sem þeir gera út af reglunni um veiðireynslu)

8. Aðildarsamningar hafa sama vægi og grunnsáttmálar ESB þannig að það sem hægt er að ná fram í aðildarviðræðum gildir. Mikið er lagt upp úr klæðaskerasaumuðum lausnum fyrir væntanleg aðildarríki eins og embættismennirnir sögðu.

9. Evrópusambandið hefur aldrei tekið ákvörðun gegn grundvallarhagsmunum aðildarríkis. Nú er vonandi að viljandi og óviljandi rangfærslur um sjávarútvegsstefnu ESB fari að hljóðna svo hægt verði að ræða þessi mál að einhverju viti. Kannski ættum við að fara fram á könnunarviðræður við ESB svo hægt sé að sjá enn betur hvernig núverandi regluverk Sambandsins er og hvað sé í boði?

Hvað segja forsvarsmenn Heimssýnar við þessu?

Til hamingju

logo2Mig langar að óska öllum Röskvuliðum innilega til hamingju með sigurinn í gær í Háskóla Íslands. Þetta er stórkostlegur áfangi sem mun skipta stúdenta miklu máli.
Kosningabaráttan hefur augljóslega verið vel heppnuð enda hefur mikið fyrirtaksfólk leitt Röskvu undanfarin ár.

Til lukku með þetta.


Slæm hagstjórn og slæmur gjaldmiðill

Ég fór á Viðskiptaþing í gær ásamt 500 öðrum. Það var afar fróðlegt að hlusta á erlenda sérfræðinginn í ímyndarmálum, Simon Anholt en samkvæmt könnunum hans mælist ímynd Íslands frekar veikt. Ísland eru í 19. sæti af 39 þjóðum.

Það var einnig áhugavert að hlusta á Erlend Hjaltason formann Viðskiptaráðs. Erlendur taldi að núverandi ástand væri ótækt og það yrði heppilegast að ganga inn í Evrópusambandið ef menn vildu taka upp evruna.

En ég tók eftir því að Morgunblaðið vísar í dag í Erlend þar sem hann er sagður telja að innganga í Evrópusambandið yrði afturför fyrir íslenskt atvinnulíf vegna þess að hér ríkti meira frelsi í viðskiptalífinu heldur en víðast hvar í Evrópu. Í þessu sambandi er rétt að benda á Evrópusambandið er ekki eitt ríki. Það eru til ríki innan Evrópusambandsins sem búa við meira viðskipafrelsi en Ísland og það eru til aðildarríki sem búa við minna frelsi. Það er því undir viðkomandi ríki komið hvernig þessum málum er almennt séð háttað.

Reyndar er vert að rifja það upp reglulega að undirstaða þess frelsis sem nú ríkir á markaði á Ísland má rekja til Evrópusambandsins vegna EES-samningsins. Á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur ekki til hefur lítið sem ekkert færst í frjálsræðisátt og má þar nefna landbúnaðinn og sjávarútveginn.

Meðaltalsumræðan góða

Umræðan um meðaltal Evrópusambandsins verður þó oft ansi furðuleg, sérstaklega þegar menn leyfa sér að tala um að eitthvert eitt atvinnuleysishlutfall sé hjá öllu ríkjunum eða að það sé eitthvert eitt verðbólgustig ríkjandi þar. Auðvitað er atvinnuleysi mismunandi hvort sem litið er til Danmerkur, Írlands, Þýskalands eða Grikklands o.s.frv.

En í þessari umræðu heyrast stundum þær röksemdir að ekki sé skynsamlegt að ganga í ESB vegna skattastefnu Sambandsins. Það er hins vegar misskilningur að Evrópusambandið hafi einhverja sameiginlega skattastefnu. Þvert á móti eru aðildarríki ESB með mjög mismunandi reglur í skattamálum. T.d. hafa Hollendingar, Írar og jafnvel Danir farið sérstakar leiðir í þeim efnum í þeim tilgangi að höfða til erlendra fyrirtækja.

Hvað með að hafa góða hagstjórn og góðan gjaldmiðil

 Að lokum má benda á ályktun Erlends, formanns Viðskiptaráðs, á Viðskiptaþinginu í gær, að hagstjórnin væri slæm hér á landi. En hann sagði einnig að það væri ekki auðveldara að búa við evru og slæma hagstjórn heldur en að búa við krónuna og slæma hagstjórn. Það er hins vegar eins og viðskiptalífið geri ekki sér ekki grein fyrir að hugsanlega er hægt að búa við góða hagstjórn og góðan gjaldmiðil. En kannski er það ekki furða að forsvarsmenn atvinnulífsins átti sig ekki á þessu þar sem hvorugt hefur verið til staðar hér á landi í svo langan tíma.


Nebraska og New York

Það er alltaf tvennt sem vekur mig strax til umhugsunar þegar kemur að umræðunni um evruna. Hið fyrra er að andstæðingar evrunnar benda iðulega á að milli Íslands og ESB séu mismunandi hagsveiflur og því geti evran ekki virkað hér á landi. En heldur þetta fólk að það sé sama hagsveiflan í Finnlandi og Frakklandi eða í London og Glasgow eða í Nebraska og New York? Auðvitað ekki en hins vegar geta þessi svæði vel notað sama gjaldmiðlinn, ekki satt?

Síðara atriðið lýtur að umræðunni að Ísland verði að vera aðili að Evrópusambandinu til að geta tekið upp evruna því annars getum við ekki haft nein áhrif á peningamálastefnu sambandsins þar sem við værum fyrir utan allt batteríið. Varðandi þessa röksemd þá má benda fólki á að Seðlabanki Evrópu er algjörlega sjálfstæð stofnun sem tekur ekki fyrirmæli frá einstökum aðildarríkjum, hvorki smáum né stórum. Hvort sem evruvædd Ísland er í ESB eða ekki skipti engu varðandi möguleg áhrif okkar á ákvarðanir Seðlabanka Evrópu.


Mennt er máttur, korteri fyrir kosningar

Jæja, nú er menntamálaráðherra farinn að lofa langt fram á næsta kjörtímabil eins og heilbrigðisráðherrann var búinn að gera varðandi aldraða og samgönguráðherra varðandi vegamálin. Enda fer kannski hver að verða síðastur. Aðeins 4 mánuðir til kosninga. Nýjasta útspil menntamálaráðherra þarf að vera skoðað í þessu samhengi. En það er nauðsynlegt að hafa í huga að þessi ríkisstjórn hefur haft völdin í 12 ár og ætti því hafa haft næg tækifæri til að gera hið rétta í málunum. En ef við lítum aðeins á menntamálin þá blasa við mjög óhagstæðar staðreyndir fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ísland í 21. sæti af 30
Eftir áratugarekstur Sjálfstæðisflokksins á menntakerfinu sést að útgjöld á hvern nemenda í skólakerfinu setur Ísland í 15. sæti af 29 OECD ríkjum. Sem sagt langt fyrir neðan okkar samanburðarþjóðir. Og ef við brjótum þetta eilítið niður sést að þau skólastig sem ríkisvaldið rekur, þ.e. framhaldsskólarnir og háskólarnir, kemur í ljós enn verri staða.

Ísland er í 19. sæti þegar kemur að opinberum útgjöldum í framhaldsskólana og í 21. sæti sé litið til opinberra útgjalda til háskólanna.

Ríkisrekna skólakerfið vs. skólakerfi sveitarfélaganna
Myndin snýst hins vegar við þegar litið er til skólastiganna sem sveitarfélögin reka, þ.e. leikskólana og grunnskólana, en þar erum við nánast á toppnum. Þessi staða breyttist þegar grunnskólinn var færður frá ríkinu og Sjálfstæðisflokknum og til sveitarfélagana.

Munum það að það hafa jafnaðarmenn sem hafa rekið flesta grunnskóla landsins undanfarinn áratug þar sem þeir hafa stjórnað Reykjavíkurborg á þessum tíma en það er borgin sem rekur flesta grunnskóla landsins.

4 milljarða vantar en ekki 700 milljónir
Þegar nýjasta skýrsla OECD er skoðuð kemur í ljós að íslenskum háskólum vantar um 4 milljarða kr. meira á ári til að ná þeirri stöðu sem norrænir háskólar eru í. Þá hrökkva þessar árlegu 700 milljónir Þorgerðar, sem núna eru boðaðar korteri fyrir kosningar, heldur skammt. Þeir fjármunir sem ríkisstjórnin stærir sig að hafa sett í Háskóla Íslands undanfarin ár duga ekki einu sinni fyrir þeirri nemendafjölgun sem átt hefur sér stað á sama tíma.

Hér get ég vitnað í Morgunblaðsgrein Þorgerðar Katrínar frá 7. febrúar 2004 þannig að þetta ætti að vera tiltölulega óumdeilt. Einn skýrasti vitnisburður um fjárskort Háskóla Íslands er að í fyrsta skipti í sögunni hefur ekki verið hægt að taka inn í skólann, vegna fjárskorts, fólk sem hefur ekki lokið stúdentsprófi en hefur viðamikla reynslu úr atvinnulífinu. Fyrir daga þessarar ríkisstjórnar gat þetta fólk sótt sér nám í HÍ.

Útskrifum færri en norrænu þjóðirnar gera
Að lokum, og það sem hvað skuggalegast í þessu öllu saman, er að við erum að útskrifa talsvert færri nemendur með framhaldsskólapróf og háskólapróf en hinar Norðurlandaþjóðirnar.

Niðurstaðan er því sú að við erum að verja minni fjármunum í háskólana okkar og framhaldsskólana en aðrar norrænar þjóðir. Við erum að útskrifa færri nemendur með þessi próf en þessar helstu samanburðarþjóðir okkar. Og við erum með einn stjórnmálaflokk sem hefur stjórnað menntamálaráðuneytinu í meira en 20 ár af síðustu 24 árum.


40% lækkun á ofurtollum þýðir áframhaldandi ofurtolla

Það er ástæða til að taka undir þau ummæli sem Finnur Árnason, forstjóri Haga, lét falla í fjölmiðlum í gær um að betur megi ef duga skal ef takast á að lækka matarverð á Íslandi. Forsvarsmenn Haga hafa sagt að áhrifin af fyrirhuguðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar séu ofmetin og að matarverð muni lækka minna en hún hefur lofað.

Það er náttúrulega ótrúlegt að ætlast til lækkunar á innlendum landbúnaðarvörum á meðan að svimandi háir verndartollar verða enn á þessum sömu vörum. Það verður að hafa í huga að 40% lækkun á ofurtollum þýðir að enn verða ofurtollar til staðar.

Enn óbreyttir tollar á fjölmörgum fæðuflokkum
Þá er vert að minnast þess að ekki stendur til að hrófla við tollaumhverfi mikilvægra fæðuflokka og má þar nefna mjólkurafurðir, smjör, kaffi, krydd, drykkjarvörur, sósur, súpur, ís og sælgæti, feiti, olíur o.s.frv. Krafan hlýtur að vera að fella niður alla tolla niður í áföngum eins og Samfylkingin hefur lagt til.

Meira en helmingur vörugjaldanna skilinn eftir
Sömuleiðis ber að hafa í huga að ríksstjórnarflokkarnir hafa skilið eftir meira en helming af vörugjöldunum sem nú eru á matvælum. Fyrir jól felldu ríkisstjórnarflokkarnir tillögu Samfylkingarinnar á þingi um að fella niður öll vörugjöld á matvælum eins og flest hagsmunasamtök töldu skynsamlegt að gera.

Reikningurinn sendur til íslenskra fjölskyldna
Ríkisstjórnin hefur öll þau tæki sem þarf til að lækka matarverð á Íslandi. Matvælaverð er nú um 30% hærra en meðaltalið á Norðurlöndunum. Hins vegar skortir pólitískan vilja til þess. Á meðan þurfa íslenskar fjölskyldur að greiða meira en 200.000 kr. hærri matarreikning á ári en aðrar norrænar fjölskyldur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband