Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006

Samkynhneigð í skólum

Nú hafa tekið í gildi afar merkileg lög sem tryggja samkynhneigðum einstaklingum mikilvæg réttindi í okkar samfélagi. Ein af mikilvægustu réttindunum sem þar er að finna er rétturinn til að skrá sig í sambúð og rétturinn til tæknifrjóvgana og ættleiðinga.
Ég er einn af þeim sem vill ganga enn lengra og m.a. veita vígslumönnum trúfélaga heimild til að vígja samkynhneigða einstaklinga. Ég er á móti þessari skömmtunarfræði sem gildir um mannréttindi samkynhneigðra. Við ættum sömuleiðis að bæta við orðinu ,,kynhneigð” í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en það gæfi samkynhneigðum aukin réttindi samkvæmt æðstu réttarheimildinni.
Að mínu mati er næsta stóra málið í réttindabaráttu samkynhneigðra á sviði menntamála. Við þurfum að tryggja öfluga fræðslu um samkynhneigð í skólum landsins. Einmitt núna er verið að endurskoða námskrá og því kjörið tækifæri til að mæta þessu sjónarmiði. Sömuleiðis þarf stöðug barátta að vera í gangi gegn fordómum í garð samkynhneiðra. Við eigum að vera í fremstu röð hvort sem um er að ræða mannréttindi samkynhneigðra, jafnrétti kynjanna eða aðbúnað nýbúa.

Bleiki flokkurinn sýnir réttan lit

Nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavík fer ekki glæsilega af stað. Þrátt fyrir bleikar auglýsingar í aðdraganda kosninga er Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað samur við sig að loknum kosningum. Þá er gamli góði íhaldsflokkurinn kominn í rétt klæði. Tal um jafnrétti kynjanna sýnir sig vera tal og ekkert annað. Ég get ekki sagt að þetta komi sérstaklega á óvart.
Ég held það hafi ekki farið framhjá mönnum að nokkur óánægja er meðal kvenna í Sjálfstæðisflokknum með rýran hlut þeirra við skipanir í ráð og nefndir á vegum borgarinnar. Stjórn Hvatar sendi frá sér ályktun þar sem hlutur kvenna við úthlutun í nefndarsetu og formennsku nefnda í borgarstjórn er harmaður. Konurnar vildu eðlilega sjá jafnari hlut og veikari staða kvenna birtist skýrt þegar litið er á formennsku og sæti í aðalstjórnum. Sjálfstæðismenn bera nú deilumál sín yfirleitt ekki á torg að óþörfu og ályktun Hvatar má því túlka sem megna óánægju með niðurstöðuna.
Aðalmenn meirihlutans í borgarráði, fagráðunum sjö, stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahafna eru 38. Þar af 10 konur eða 26% og hlutur karla því 74%. Formenn í þessum nefndum og ráðum eru 10 talsins. Þar af eru 2 konur eða 20% og karlarnir með 80%.
Borgarstjórinn virðist hins vegar telja að niðurstaðan sé mjög ásættanleg, eins og hann orðaði það. Ásættanleg fyrir hvern?

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband