Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2006

Trúverðugleiki í málefnum aldraða

Staða eldri borgara er mjög í deiglunni þessa dagana, enda berast ítrekaðar fréttir af óviðunandi ástandi á dvalarheimilum þeirra. Setuverkföll starfsfólks dvalarheimilanna hafa orðið til þess að vekja athygli á skammarlega lágum launum þess. En það er ekki aðeins þeir sem starfa með eldri borgurum sem búa við kröpp kjór.

Þriðji hver eldri borgari þarf að lifa á 100.000 krónum eða minna á mánuði. Eldri borgarar með lágmarksframfærslu þurfa nú að borga skatt af rauntekjum sem þeir þurftu ekki að gera þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum. Harkalegar skerðingarreglur dregur mjög úr tækifærum eldra fólks til atvinnuþátttöku og enn er við lýði óskiljanleg tekjutenging á milli hjóna.

Á fjórða hundrað einstaklinga eru í mjög brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum og eru eldri borgarar oft sviptir fjáræði og sjálfræði þegar komið er inn á hjúkrunarheimili. Skortur á búsetuúrræðum hefur leitt til þess að fjölmörg eldri hjón eru aðskilin og geta ekki treyst því að fá að verja síðustu árunum saman. Heimahjúkrun er óalgengari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og annað hvert öldrunarheimili í landinu er rekið með halla.
Áratuga sinnuleysi gagnvart eldri borgurum
Málefni eldri borgara eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Áratugasinnuleysi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gagnvart eldri borgurum hefur því leitt af sér það ástand sem við búum við nú.

Fyrsta og kostnaðarsamasta þingmál Samfylkingarinnar í haust laut hins vegar að því að bæta stöðu eldri borgara og öryrkja með sérstakri afkomutryggingu. Þar er m.a. lögð áhersla á að grunnlífeyrir og tekjutrygging verði sem næst lágmarksframfærslu, eins og hún verður skilgreind í samræmi við neysluútgjöld lífeyrisþega. Raungildi grunnlífeyris og tekjutryggingar verði ekki lægra við upptöku afkomutryggingar en það var á árinu 1995. Auk þessa verði skerðingarhlutföll grunnlífeyris og tekjutryggingar rýmkuð verulega til að auka svigrúm til atvinnuþátttöku. Stefna Samfylkingarinnar hefur því í för með sér umfangsmiklar kjarabætur til handa eldri borgurum. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hins vegar svæft þetta mál í þingnefnd Alþingis.
Samfylkingin er málsvari eldri borgara á þingi
Önnur þingmál sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram í vetur varða t.d. aukinn rétt til að flýta starfslokum og töku lífeyris, lækkun skatta á eftirlaun og ellilífeyri og rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara. Samfylkingin vill flytja hagsmunamál eldri borgara til sveitarfélagana og stórefla búsetuúrræði, s.s. með valmöguleika á minni íbúðum.

Samfylkingin hefur sömuleiðis ítrekað ljáð máls á stöðu eldri borgara í vetur á Alþingi s.s. um skert kjör þeirra, aðstöðu á hjúkrunarheimilum, skerðingu ríkisstjórnarinnar á framkvæmdasjóði aldraða, skort á heimahjúkrun og ósanngjarnri skattastefnu stjórnvalda gagnvart þessu hópi.
Blekkingarnar hefjast korteri fyrir kosningar
Í umræðunni um eldri borgara má ekki gleyma hinum stóra hópa eldri borgara sem tilheyrir svokallaðri millistétt. Fólkinu sem hefur verið á vinnumarkaðinum stærstan hluta síns lífs, borgað í lífeyrisjóð og á einhverjar eignir. Þessi hópur vill gleymast í pólitískri umræðu. En það þarf einnig að huga að þessu fólki, bæði hvað varðar lífskjör og framtíðarbúsetu.

Nú þegar líður að kosningum vakna ríkisstjórnarflokkarnir til lífsins og skynja vandamál sem þeir ætla sér að bregðast við – á næsta kjörtímabili. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hins vegar haft 11 ár til þess að koma sínum áherslumálum í höfn. Ég vil því biðja eldri borgara að láta ekki blekkjast því reynslan af þessari ríkisstjórn sýnir að hingað til hefur ekki verið áhugi fyrir því að bæta hag eldri borgara.

180 dauðsföll á LSH í fyrra vegna mistaka?

Ef tíðni mistaka í heilbrigðiskerfinu hér á landi er svipuð og rannsóknir sýna að hún sé víða erlendis má ætla að um 180 dauðsföll hafi verið á Landspítala-háskólasjúkrahúsi vegna mistaka og óhappa árið 2005. Þar af hefði mátt koma í veg fyrir um 90 þessara dauðsfalla. Landlæknir hefur bent á erlendar rannsóknir sem sýna þetta hlutfall mistaka erlendis og samkvæmt þeirri tölfræði má ætla að um 3.000 óhöpp eða misfellur hafi átt sér stað á Landspítalanum í fyrra. Þar af hafi 600 þessara óhappa hafi verið alvarleg.
Rannsóknar er þörf
Þetta eru ótrúlegar tölur. Á móti hefur verið bent á framúrskarandi starfsfólk í heilbrigðiskerfinu og skiptir það án efa miklu máli fyrir öryggi sjúklinga. En ekki er hægt að fullyrða, án rannsókna, að sá veruleiki sem er margstaðfestur erlendis eigi ekki við Ísland. Þótt margs konar eftirlit sé til staðar í heilbrigðiskerfinu bæði af hálfu viðkomandi stofnunar og af hálfu embættis Landlæknis eru heilstæðar upplýsingar um mistök í íslenska heilbrigðiskerfinu ekki til. Landlæknir hefur hvatt til slíkrar rannsóknar.
Ég hef því lagt fram þingmál á Alþingi um að úttekt verði gerð á öryggi og mistökum í heilbrigðiskerfinu og leiðir til úrbóta skoðaðar.

Ástæður mistaka í heilbrigðiskerfinu
Tilgangur slíkrar rannsóknar er ekki að finna sökudólga heldur að afla upplýsinga um hugsanleg mistök í heilbrigðiskerfinu og velta upp leiðum til að koma í veg fyrir þau.

Ástæður fyrir mistökum í heilbrigðiskerfinu geta verið margs konar. Má þar nefna manneklu, slítandi starfsumhverfi, kerfisgalla, aðgengi að þjónustu, flóknar kringumstæður, aukaverkanir viðeigandi meðferðar, röng meðferð, ónóg þekking, samskiptaskortur, skortur á dómgreind og jafnvel óheppni.

Landlæknir hefur bent á að þeir hópar sem helst eru líklegir til lenda í mistökum eða óhöppum í heilbrigðiskerfinu eru sjúklingar með flókin vandamál, sjúklingar á bráðamóttöku, hjarta- og æðaskurðsjúklingar, heilaskurðsjúklingar, aldraðir sjúklingar og sjúklingar í höndum óreyndra lækna.
Hægt er að sjá þingmálið í heild sinni á http://www.althingi.is/altext/132/s/1197.html

9.000 börn ekki til tannlæknis undanfarin 3 ár

Í nýlegu svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi um ferðir barna til tannlækna kemur margt fróðlegt í ljós.

Þar kemur fram að tæp 2.000 börn, 6 ára og eldri, hafa aldrei farið til tannlæknis. Tæplega 9.000 börn hafa ekki farið til tannlæknis síðastliðin þrjú ár og um 12.000 börn hafa ekki farið til tannlæknis undanfarin tvö ár. Tæp 35.000 börn hafa ekki farið til tannlæknis í eitt ár. Séu yngstu börnin tekin frá þá er fjöldi þessara barna tæp 23.000.

Þetta eru sláandi tölur, sérstaklega í ljósi þess að mælt er með að börn fari a.m.k. tvisvar á ári til tannlæknis.
Tæp 1.000 börn á aldrinum 9-18 ára hafa aldrei farið til tannlæknis
Séu einstakir aldursflokkar skoðaðir þá kemur sömuleiðis margt áhugavert í ljós. Tæplega þúsund 9-18 ára gömul börn hafa aldrei farið til tannlæknis og þar af hafa rúmlega 400 þeirra á aldrinum 15-18 ára aldrei farið til tannlæknis.

1.350 börn á aldursbilinu 9-18 ára hafa ekki farið til tannlæknis undanfarin 5 ár og rúmlega þúsund þeirra voru á aldrinum 12-18 ára. Tæp 3.000 börn á aldrinum 9-18 ára fóru ekki til tannlæknis undanfarin 3 ár. Rúm 5.000 börn á þessu aldursbili fengu ekki tannlæknaþjónustu síðastliðin 2 ár.
Efnahagur foreldra hefur áhrif
Það á ekki að hunsa þessi þúsundir barna sem ekki fá nauðsynlega tannlæknaþjónustu. Án efa hefur efnahagur foreldra áhrif á ferðir barna til tannlækna. Þrátt fyrir að hið opinbera niðurgreiði tannlæknaþjónustu barna þá er ljóst að sú niðurgreiðsla er einungis hluti af þeim kostnaði sem hlýst af vegna heimsókna barna til tannlæknis.

Tryggingastofnun ríkisins miðar við að greiða 75% kostnaðar við tannlækningar barna en þetta hlutfall er eingöngu miðað við gjaldskrá sem heilbrigðisráðherra gefur út. Þessi gjaldskrá ráðherrans er hins vegar einungis það verð sem hið opinbera er tilbúið að niðurgreiða tannlæknaþjónustu barna. Það er ekki endilega í samræmi við þann kostnað sem foreldrar verða fyrir.
Tvöfald kerfi
Verðlagning tannlækna er frjáls sem þýðir að tannlæknum er frjálst að verðleggja þjónustu sína í samræmi við eigin forsendur og mega ekki hafa samráð. Tannlæknar hafa ítrekað bent á að gjaldskrá ráðherra sé ekki samræmi við kostnaðinn sem hlýst af því að veita þjónustuna. Ef gjaldskrá tannlæknis er hærri en gjaldskrá ráðherra, sem hún oft er, þá greiða foreldrar mismuninn. Hlutur foreldra í kostnaði vegna tannlæknaþjónustu barna sinna getur því verið talsvert hærri í raunveruleikanum en sem nemur 25%.

Þetta kerfi getur því komið í veg fyrir að efnaminni foreldrar leiti til tannlækna með börn sín. Þá erum við komin með tvöfald kerfi sem mismunar fólki eftir efnahag og það er ekki hægt að sætta sig við.
Hægt er að sjá svarið í heild sinni hér http://www.althingi.is/altext/132/s/1177.html

Sóknarfæri Samfylkingarinnar

Hér á eftir má finna ræðu sem ég flutti á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var síðustu helgi.
Samfylkingin er ungur flokkur, aðeins tæplega 6 ára gamall – en þrátt fyrir það byggir Samfylkingin á gömlum grunni og á klassískri jafnaðarstefnu.

Á nýliðinni öld höfðu jafnaðarmenn mótandi áhrif á íslenskt samfélag í mörgum grundvallaratriðum. Má þar nefna

• afnám haftastefnunnar,
• útfærslu landhelginnar,
• aðildina að EFTA,
• uppbyggingu menntakerfisins,
• frelsi í gjaldeyrismálum og
• EES-samninginn en með honum kom það frelsi sem við höfum upplifað undanfarin áratug.

Þá má einnig nefna
• hlut okkar fólks í sigrinum á verðbólgunni með þjóðarsáttinni,
• umbætur í almannatryggingum,
• gríðarlegar framfarir í húsnæðismálum,
• einsetningu grunnskólans,
• straumhvörf í jafnréttismálum,
• sjálfstæði Seðlabankans,
• byltingu í leikskólamálum borgarinnar og svona mætti lengi telja.
Sóknarfæri í menntamálum
Ég sé mörg sóknarfæri fyrir Samfylkinguna á landsvísu. Ríkisstjórnin er þreytt, og úr sér gengin. Nú ætlum við að kynna kjósendum okkar stefnu okkar og forgangsmál og síðast en ekki síst hvernig ætlum að koma stefnumálum okkar í framkvæmd.
Fyrsta sóknarfæri flokksins felst í menntamálunum. Við eigum að leggja þunga áherslu á menntamál í okkar málflutningi. Menntakerfið er jöfnunartæki nútímans. Menntakerfið er eitt helsta verkfæri okkar jafnaðarmanna. Nú blasir við fjársvelti og stefnuleysi núverandi ríkisstjórnar. Háskólastigið er fjársvelt en íslenska ríkisstjórnin ver helmingi minna fjármagn í háskólana en aðrar Norðurlandaþjóðir.

Íslenska ríkisstjórnin ver talsvert minna fjármagni í framhaldsskóla en það sem aðrir gera og í fyrsta skiptið í sögunni þurfa framhaldsskóla landsins að vísa nemendum frá vegna fjárskorts. Rúmlega helmingur Íslendinga hefur lokið meiri menntun en grunnskólapróf og mikill skortur er á iðn- og verknámi í landinu. Þessi staða er óviðundandi og við höfum einfaldlega ekki efni á þessu sinnuleysi ríkisstjórnarflokkanna í menntamálum.
Sóknarfæri í velferðarmálum
Í velferðarmálum felst annað sóknarfæri Samfylkingarinnar. Þá á ég ekki síst við málefni eldri borgara. Sú staðreynd að þriðji hver eldri borgari neyðist til að lifa á 100.000 kr. eða minna á mánuði særir réttlætiskennd okkar. Nánast daglega berast okkur fréttir af óviðunandi stöðu þeirra. Nú eru t.d. tæplega 400 eldri borgarar í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými og endurtekin setuverkföll starfsfólks á hjúkrunarheimilum eru staðreynd. Við þurfum að leysa þessi mál og draga úr tekjutengingum í kerfinu og tryggja atvinnuþátttöku þeirra sem eldri borgara sem það kjósa

Bætt kjör eldri borgara og þeirra sem líða skort á að vera leiðarljós okkar í velferðarmálum.
Sóknarfæri í efnahagsmálum
Þriðja sóknarfærið felst í efnahagsmálunum. Við stöndum fyrir framsýna og frjálslynda efnahagstefnu sem fólk treystir og skilur. Þess vegna er mikilvægt að Samfylkingin hafi sína forgangsröðun á hreinu. Við ætlum ekki og getum ekki gert allt fyrir alla.
Sóknarfærin liggja í efnahagsmálum vegna þess að stefna okkar er sanngjörn, heiðarleg og tekur mið af þörfum almennings. Hið sama verður hins vegar ekki sagt um stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem iðulega stærir sig af árangri sem ekki er fyrir hendi þegar að er að gáð. Efnahagsmál eru einn veikasti blettur þessarar ríkisstjórnar. Áróðursmenn ríkisstjórnarinnar hafa lagt sig fram um að draga upp fallegri mynd en þá raunverulegu. Og þær eru nokkrar þjóðsögurnar sem fluttar eru endurtekið fyrir þjóðina.
Þjóðsögur ríkissstjórnarinnar
Við eigum að fletta ofan af þessum þjóðsögum. Tökum sem dæmi um þjóðsöguna um stöðugleikann.

• Það er engin stöðugleiki þegar íslenska krónan hefur verið í rússíbanaferð í mörg ár og hefur á stuttum tíma sveiflast um allt að 40%?
• Er það til marks um stöðugleika þegar verðbólgan hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tæp 2 ár?
• Er það stöðugleiki þegar viðskiptahallinn fer upp í methæðir og skuldir þjóðarbúsins eru orðnar þær mestu af flestum vestrænum þjóðum?
• Er það stöðugleiki þegar húsnæðisverð rýkur upp úr öllu valdi og vextir á Íslandi eru þeir hæstu í Evrópu.?
• Hið sanna er að efnahagslífið býr ekki við nauðsynlegan stöðugleika og á því ber ríkisstjórnin höfuðábyrgð.
Önnur þjóðsaga lýtur að því að Sjálfstæðismönnum sé einum treystandi fyrir fjármálastjórn landsins. Sé litið á árangurinn liggur þó beinna við að halda því fram að ríkiskassin þurfi sárlega á umsjá annarra að halda. Á árunum 2000 til 2004 var áætlaður afgangur ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvörpum samtals 82 milljarðar króna. Niðurstaðan varð hins vegar 8 milljarða króna halli. 8 milljarða króna halli þrátt fyrir alla einkavæðinguna. Munurinn á áætlunum ríkisstjórnarinnar annars vegar og niðurstöðunni hins vegar varð því 90 milljarðar króna.
Þriðja þjóðsagan er um skattalækkanir. Hér hefur okkur orðið ágengt, því skoðanakannanir bera með sér að almenningur trúir ekki lengur rangfærslum ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir. Hér þó einnig hægt að benda á svör núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra á Alþingi um að skattbyrðin hafi aukist á öllum tekjuhópum, nema þeim tekjuhæsta. Það hafa þeir staðfest í skriflegu svari við fyrirspurn þingmanna okkar. Ofurtekjufólkið eru þeirra skjólstæðingar og forgangsröðun. Í skattamálum blasir við mjög skýr, hugmyndafræðilegur ágreiningur milli Samfylkingarinnar og stjórnarinnar.
Fjölmörg tækifæri
• Við eigum að tala fyrir bættum lífskjörum með lækkuðu verði á matvælum, lyfjum, húsnæði og lánum.
• Við þurfum að innleiða nýja hugsun í lýðræðismál þjóðarinnar og við þurfum að hugsa málefni nýbúa upp á nýtt.
• Umhverfismál eiga að fá meiri umfjöllun innan flokksins en áður. Hagnýting djúphitans getur verið eitt af meginflöggum flokksins í þeim efnum.
• Við eigum að vera framsækin í alþjóða- og öryggismálum. Við eigum taka forystu um að auka áhrif þjóðanna sem búa hér á norðurslóðum m.a. með Færeyingum, Grænlendingum, Kanada, Bandaríkjunum og Rússlandi.
• Við eigum ekki að vera feimin við stefnu okkar í Evrópumálum. Við viljum sækja um aðild að ESB og leggja samninginn fyrir þjóðina. Og við eigum að vera opin fyrir erlendum fjárfestingum og aukinni samkeppni.
• Við þurfum að bjóða upp á raunhæfar lausnir í byggðamálum, m.a. í gegnum menntakerfið.
• Við eigum að vera skjól og málsvarar fyrir atvinnurekendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja en þeir eru hryggjarstykkið í atvinnulífinu.
Gott flokkstarf
Ég tel að næstu 13 mánuðir verði mikilvægasta tímabil í sögu Samfylkingarinnar. Við verðum að lítum á sveitarstjórnarkosningarnar eftir tvo mánuði og Alþingiskosningarnar á næsta ári í samhengi. Góður árangur í vor skilar okkur góðum árangri í alþingiskosningunum.

Ný forysta í Samfylkingunni hefur markvisst unnið að flokkstarfi í vetur. Fjölbreytt málefnastarf og reglubundnar heimsóknir flokksforystunnar til aðildarfélaga Samfylkingarinnar um allt land í vetur hafa þjappað flokksfélögum saman - og fjölgað þeim. Undanfarnar vikur hafa einnig fjölmargir nýir starfsmenn verið ráðnir á skrifstofu Samfylkingarinnar, m.a. til að styrkja innviði flokksins enn frekar. Fjármálin hafa verið tekin föstum tökum og ný heimasíða hefur litið dagsins ljós.
Kvennahreyfing Samfylkingarinnar var stofnuð í haust og er flokknum afar mikilvæg. Starf eldri borgara í félagskapnum 60+ skipar veigamikinn sess í starfinu. Samtökin Jafnaðarmenn í atvinnurekstri hafa einnig þegar sannað gildi sitt fyrir flokkinn. Og innan Samfylkingarinnar er starfandi ein fjölmennasta og öflugasta ungliðahreyfing landsins.

Síðan má ekki gleyma þeim glæsilegu prófkjörum sem flokkurinn hefur haldið víða um land undanfarna mánuði. Sterkir framboðslistar hafa litið dagsins ljós og flokkurinn hefur aldrei verið eins fjölmennur.
Skýrt markmið
Markmiðið í komandi kosningum þarf að vera skýrt. Við þurfum að hungra í sigur og leikgleðin og bjartsýnin þurfa að vera til staðar.

Samfylkingin leiðir nú þegar meirihlutasamstarf í sveitastjórnum víða um land. Flokkurinn er reiðubúinn til þess að axla enn meiri ábyrgð í sveitarstjórnum landsins og í landsmálunum og hann ætlar sér að gera það.

Ég er sannfærður um að hugmyndir og áherslur Samfylkingarinnar eiga samleið með íslensku þjóðinni. Samfylkingin býður upp á frjálslyndan valkost þar sem fjölskyldur, einstaklingar og fyrirtæki fá að njóta sín, samhliða öflugu velferðar- og menntakerfi.

Við skulum sigra tvöfalt á næstu 13 mánuðum.

Aukin vernd heimildarmanna fjölmiðla

Ég hef nú lagt fram tvö lagafrumvörp á Alþingi sem auka vernd heimildarmanna fjölmiðla og heimila opinberum tarfsmönnum að víkja frá þagnarskyldu vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla. Sömuleiðis er tryggður bótaréttur heimildarmanna verði þeir fyrir tjóni vegna uppsagnar eða annarra aðgerða af hálfu vinnuveitanda af því að hafa látið fjölmiðla í té upplýsingar sem varðar ríka almannahagsmuni.

Vernd heimildarmanna tryggir fjölmiðlum eðlilegan möguleika til upplýsingaöflunar um almannahagsmuni án ótta við að þurfa að láta í té upplýsingar um heimildarmenn sína. Reglur um heimildavernd eru eitt veigamesta skilyrðið fyrir starfsemi frjálsra og óháðra fjölmiðla.

Heimildarvernd tryggð í fleiri tilvikum en áður
Með frumvarpinu verður heimildarverndin hins vegar tryggð í mun fleiri tilvikum en áður. Í fyrsta lagi mun heimildarverndin ná til allra starfsmanna fjölmiðla en ekki einungis til ábyrgðarmanns efnisins eins og nú er. Í öðru lagi verður heimildaverndin ekki lengur bundin við að viðkomandi upplýsingar hafi verið birtar.

Í þriðja lagi verður einungis heimilt að víkja frá heimildavernd í opinberum málum ef vitnisburðar er krafist vegna alvarlegs afbrots sem ætla má að muni varða þyngri refsingu en þriggja ára fangelsi, í stað eins árs fangelsis í núgildandi lögum. Sömuleiðis er lagt til það nýmæli að afbrotið þurfi að vera alvarlega eðlis og þannig koma einungis alvarlegustu afbrot til greina. Í fjórða lagi er lagt til að heimildaverndin verði látin ná til sönnunargagna sem aflað er með leit og haldlagningu og hafa að geyma upplýsingar um það hver er höfundur efnis eða heimildarmaður.

Breyting á þagnarskyldu
Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Opinberir starfsmenn geta búið yfir margvíslegum upplýsingum um spillingu í stjórnkerfinu og því þarf gera þeim kleift að víkja frá hinni lögbundnu þagnarskyldu ef málefni varða mikilsverða hagsmuni sem telja verður að eigi brýnt erindi til almennings.
Sjá má frumvörpin í heild sinni á http://www.althingi.is/altext/132/s/0994.html og http://www.althingi.is/altext/132/s/0993.html

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband