Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2005

Vonlaus aðstaða þolenda heimilisofbeldis

Ríkissjónvarpið birti í kvöld sláandi viðtal við konu sem hafði að sögn búað við ofbeldi af hálfu fyrrum maka síns um langt skeið og nú síðast orðið fyrir tilraun til manndráps af hans hálfu. Viðkomandi einstaklingur lýsti algjöru vonleysi með sína stöðu og benti m.a. á að lögreglan hafi ekki talið sig geta gert neitt á fyrri stigum málsins þar sem einungis hótanir hefðu verið viðhafðar. Sömuleiðis benti hún á nauðsyn þess að halda úti meðferðarúrræðum fyrir gerendur í heimilisofbeldismálum. Þetta viðtal sýndi vel í hvers konar vanda við erum þegar kemur að heimilisofbeldi.
Þingmál um heimilisofbeldi
Ég lagði í vetur fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um heimilisofbeldi. Í svari hans þann 2. nóvember kom fram að í íslenskri löggjöf er ekki að finna ákvæði sem skilgreinir heimilisofbeldi. Sömuleiðis er ekki að finna upplýsingar um hvenær beri að flokka háttsemi sem heimilisofbeldi. Vegna þessa er, samkvæmt svari ráðherrans, hugtakið heimilisofbeldi ekki notað í gögnum lögreglu, ákæruvalds eða dómstóla sem formleg skilgreining á broti.

Í svari ráðherra kom einnig fram að þetta leiðir til þess að hvorki eru til fullnægjandi gögn um fjölda tilkynninga til lögreglu um heimilisofbeldi, né upplýsingar um lyktir þeirra mála hjá hinu opinbera. Þetta svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni renndi stoðum undir þá skoðun að viðurkenna verði heimilisofbeldi í lögum, m.a. til að unnt sé að átta sig á umfangi vandamálsins og hvernig málum lyktar hjá lögreglu, ríkissaksóknara og fyrir dómstólum.
Þess vegna lagði ég fram þingsályktun á Alþingi fyrr á þessu ári um að setja bæri lagaákvæði um heimilisofbeldi. Hægt er nálgast málið í heild sinni á http://www.althingi.is/thingskjal.php4?nlthing=131&nthingskjlnr=0336.
Heimilisofbeldi týndur brotaflokkur í kerfinu
Þrátt fyrir að heimilisofbeldi sé eitt algengasta mannréttindabrot á Íslandi er hvergi minnst á heimilisofbeldi í íslenskri löggjöf og það er hvergi skilgreint. Það má því segja að heimilisofbeldi séu týndur brotaflokkur í kerfinu. Nú er dæmt eftir mjög mörgum ólíkum lagaákvæðum í málum um heimlisofbeldi, sem þó eru ekki fullnægjandi að því er varðar heimilisofbeldi.

Í heimilisofbeldismálum er helst dæmt eftir ákvæðum hegningarlaga um líkamsárásir sem leggja áherslu á líkamlega áverka og aðferð við brotið. Áhöld eru því um hvort að þessi ákvæði ein og sér taki nægilega á heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi getur verið af ýmsu tagi, þ.e andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, sem oft nær yfir langan tíma, er jafnvel án sýnilegra áverka og gerist innan veggja heimilisins. Þetta markar að nokkru leyti sérstöðu þessara brota.

Í dómaframkvæmd fer refsing vegna líkamsmeiðinga einnig fyrst og fremst eftir þeirri aðferð sem beitt er og þeim áverkum sem þolandi hlýtur. Hins vegar getur verið um að ræða mjög alvarlegt heimilisofbeldi án mikilla líkamlegra afleiðinga og án hættulegra aðferða og þá getur legið talsvert lægri refsing fyrir heimilisofbeldi samkvæmt núgildandi lagaákvæðum.
Meðferðarúrræði fyrir gerendur
Það er því þörf á lagaákvæði sem skilgreinir heimilisofbeldi í hegningarlögum þannig að þau nái yfir slík brot með heildstæðum og fullnægjandi hætti. Þannig verður íslenskt réttarkerfi betur í stakk búið að taka á þessum brotum. Samhliða slíkum lagabreytingum ber sömuleiðis að taka upp meðferðarúrræði fyrir gerendur í heimilisofbeldismálum Slík velheppnuð úrræði voru hér áður fyrr til staðar en lögðust af vegna fjárskorts.

En það er hins vegar óásættanlegt að hugtakið heimilisofbeldi sé hvorki notað í lögum né í gögnum lögreglu, ákæruvalds eða dómstóla sem formleg skilgreining á broti. Að auki er það afleitt að hvorki séu til fullnægjandi gögn um fjölda tilkynninga til lögreglu um heimilisofbeldi né upplýsingar um lyktir þeirra mála hjá hinu opinbera.

Það er einnig afar alvarlegt ef lögreglan segir við þolendur heimilisofbeldis að lögreglan hafi ekki úrræði vegna hótana eins og kom fram í máli konunnar í fréttunum í kvöld. Þau úrræði hefur lögreglan svo sannarlega og henni ber að taka slíkar hótanir alvarlega.

Konan sem lýsti sögu sinni fyrir alþjóð í kvöld á heiður skilinn fyrir að koma fram. Þessi frásögn segir okkur að við verðum að beita öllum tiltækum úrræðum til að berjast gegn heimilisofbeldi. Mikilvægt skref í þá átt væri að setja lagaákvæði um heimilisofbeldi og bjóða upp á meðferð fyrir ofbeldismenn.

Hugsum vel um aldraða

Málefni eldri borgara fá sjaldan þann hljómgrunn sem þau eiga skilið og sum svið sem skipta aldraða mjög miklu liggja í þagnargildi.

Einn þessara málaflokka er geðheilbrigðisþjónusta og þunglyndi meðal eldri borgara. Ýmsir sérfræðingar, s.s. sviðstjórar á Landspítalanum og geðlæknar, hafa nýverið bent á þörfina í þessum málaflokki.
Ég hef tvisvar sinnum lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um rannsókn á þunglyndi meðal eldri borgara þar sem m.a. átti að skoða umfang vandans, orsakir og afleiðingar, sem og forvarnir. Í þingmálinu var einnig bent á að engin stofnun innan heilbrigðisgeirans hér á landi fæst á skipulagðan hátt við þunglyndi eldri borgara. Í bæði skiptin hefur þingmálið verið svæft í meðförum stjórnarmeirihluta Alþingis.
Sérstaða þunglyndis eldri borgara
Samkvæmt skýrslum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er þunglyndi einn erfiðasti og dýrasti sjúkdómur mannkyns. Á Íslandi er talið að um 12.000–15.000 manns þjáist af þunglyndi. Þunglyndi meðal eldri borgara getur haft margs konar sérstöðu sem ber að taka tillit til.

Þunglyndi meðal aldraða getur í sumum tilfellum verið frábrugðið þunglyndi annarra aldurshópa þar sem missir maka eftir langt hjónaband, einmanaleiki, verkefnaleysi, óvirkni, hreyfingarleysi, missir sjálfstæðis, fjárhagsáhyggjur, félagsleg einangrun og jafnvel lífsleiði geta verið veigameiri orsök en hjá öðrum hópum. Sömuleiðis geta mörg einkenni þunglyndis verið álitin eðlilegur fylgifiskur öldrunar og skörun getur verið á milli líkamlegrar vanheilsu og aukaverkana lyfjameðferðar. Dvöl á hjúkrunarheimilum getur haft ýmis andleg áhrif á viðkomandi þar sem einstaklingur stendur skyndilega frammi fyrir því að búa við nýjar og aðrar aðstæður í nánu samneyti við nýtt og ókunnugt fólk.
Engin öldrunargeðdeild hér á landi
Það er því brýn þörf á að rannsaka sérstaklega þunglyndi meðal eldri borgara. Með greiningu á þunglyndi eldri borgara má auka þekkingu á þunglyndi meðal þessa fólks í þeirri von að draga megi úr tíðni þess, gera meðferð skilvirkari og fækka sjálfsvígum.
Gott starf hefur vissulega verið unnið hér á landi í tengslum við þunglyndi og má þar nefna fræðsluverkefni Landlæknis sem kallast Þjóð gegn þunglyndi og starf Geðræktar. Sömuleiðis hafa margir öldrunargeðlæknar og aðrar stéttir unnið feykilega gott starf á þessu sviði.
Erlendis má finna sérstakar geðdeildir fyrir aldraða og heilsugæsluþjónustu fyrir aldraða með geðræn vandamál. Miðað við stöðuna í Noregi ættu tvær slíkar stofnanir að vera hér á landi. Nú er hins vegar engin sérstök öldrunargeðdeild starfrækt á Íslandi. Á Landsspítala-Landakoti væri hægt að búa til sérstaka öldrunargeðdeild án mikils kostnaðar þar sem margt fagfólk starfar nú þegar.
Sjálfsvíg meðal eldri borgara
Mikilvægt er að skoða tíðni sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna meðal eldri borgara, en að sjálfsögðu ber að nálgast slíkt af mikilli varúð og nærgætni. Sjálfsvíg meðal eldri borgara hafa lengi verið feimnismál hér á landi eins og víða annars staðar. Sumir telja að sjálfsvígstíðni meðal aldraða sé hærri en opinberar tölur segja til um. Víða erlendis, t.d. í Bandaríkjunum, er sjálfmorðstíðni hæst á meðal karlmanna sem eru eldri en 85 ára. Það er því nauðsynlegt að meta umfang þessa vanda til að geta brugðist við honum og spornað gegn þessari vá. Lykilatriðið er að greina vandamálið svo að hægt sé að bregðast rétt við því.

Í ljósi mikillar notkunar á geð- og þunglyndislyfjum er nauðsynlegt að bregðast við þunglyndi með öllum tiltækum leiðum. Tilhneigingin hefur verið að leysa þennan vanda meðal eldri borgara með lyfjagjöf í stað annarrar meðferðar. Það þarf einnig að huga að annars konar meðferð samhliða lyfjameðferð eða í stað hennar, t.d. með því að auka félagslega ráðgjöf og auðvelda heimsóknir til öldrunarlækna og sálfræðinga á heilsugæslustöðvum. Sömuleiðis getur aukin hreyfing og aðstaða til hreyfingar verið skynsamleg leið til að sporna gegn þunglyndi. Mikilvægt er að tryggja aðkomu ólíkra stétta að þessum vanda og rótum hans sem geta verið svo margslungnar.
Hætta á meiriháttar heilbrigðisvandamáli
Allflestir fagaðilar sem gáfu umsögn með þessu þingmáli voru sammála um að þörf væri á rannsóknum á þunglyndi meðal eldri borgara og fögnuðu tillögunni. Má þar nefna Landlækni, stjórn Samtaka heilbrigðisstétta, Félag eldri borgara, Læknaráð og Öldrunarfræðafélag Íslands.

Eldri borgurum fjölgar sífellt en til ársins 2010 mun landsmönnum 65 ára og eldri fjölga um 11% og landsmönnum 80 ára og eldri fjölga um 29%. Hætt er við að þunglyndi meðal eldri borgara verði að meiri háttar heilbrigðisvandamáli ef ekki er brugðist hratt og rétt við. Skipun nefndar sem rannsaki þessi mál, eins og þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir, er brýnt verkefni og ætti að hrinda í framkvæmd sem fyrst. Þunglyndi, kvíði og einmanaleiki á ekki vera eðlilegur fylgifiskur efri áranna.

RÚV af auglýsingamarkaði

Í kjölfar skipunar á nýjum útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins hefur verið rætt um hvort Ríkisúvarpið eigi að vera á auglýsingamarkaði. Nýr útvarpsstjóri hefur lýst miklum efasemdum um þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingarmarkaði og er hægt að taka undir þær efasemdir.
Ég tók upp þetta mál á Alþingi í mars 2004 og er skemmst að segja frá því að núverandi menntamálaráðherra taldi ekki rétt að ríkisfjölmiðillinn færi af auglýsingamarkaðinum.
RÚV á að fara auglýsingamarkaði
Íslenski fjölmiðlamarkaðurinn mótast að verulegu leyti af tilvist Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaðinum. Það segir allt um hina erfiðu stöðu sem íslenskir fjölmiðlar búa við, að allir stóru fjölmiðlarnir hafa skipt um eigendur á síðustu þremur árum.
Tilvist RÚV á auglýsingamarkaði birtist í rekstrarerfiðleikum annarra fjölmiðla og dregur mátt úr metnaðarfullri dagskrárgerð annnarra fjölmiðla. Hin öfluga staða RÚV á auglýsingamarkaðinum kemur einnig í veg fyrir að nýir aðilar komist inn á markaðinn.
Auglýsingatekjur RÚV árið 2002 voru um 730 milljónir króna og tekjur af kostun um 95 milljónir króna. Hjá einkastöðvunum voru auglýsingar þá um 1.500 milljónir og kostun um 430 milljónir. Ríkisútvarpið er því með meira en þriðjung af þessum auglýsingamarkaði.
Ríkisútvarpið er ekki aðeins með ráðandi stöðu á auglýsingamarkaðinum heldur fær það að auki 2,2 milljarða með skyldubundnum afnotagjöldum og auk þess stórfé úr ríkissjóði en tap á rekstri RÚV árin 2001 og 2002, var yfir 500 milljónir króna sem skattborgarar greiða.
Þrengjum ekki að einkaframtakinu
Samfylkingin talar ekki fyrir því að ríkisfjölmiðillinn eigi ekki rétt á sér, þvert á móti. Það eru sérstök rök fyrir tilvist ríkisfjölmiðils á fjölmiðlamarkaði, eins og öryggis- og fræðslu- og lýðræðishlutverk ríkisfjölmiðilsins. Þessi rök eiga hins vegar alls ekki við um starfsemi RÚV á auglýsingamarkaðinum. Auglýsingamarkaðurinn er samkeppnismarkaður. Það eru engin öryggis-, menningar- eða lýðræðisleg rök fyrir því að RÚV sé ráðandi aðili á auglýsingamarkaði.
RÚV er einnig að þrengja að frjálsum Netmiðlum en samkeppni við ríkistyrka stofnun, eins og RÚV er, er vitaskuld vonlaus til lengar fyrir aðra. Við megum ekki gera einkaframtaki í fjölmiðlaheiminum svo erfitt fyrir að nánast útilokað sé að reka slík fyrirtæki til lengri tíma á Íslandi. Ég tel að það eigi að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaðinum en geta má þess að á öðrum Norðurlöndum og í Bretlandi eru ríkisfjölmiðar ekki á auglýsingarmarkaði. Vitaskuld yrðu áfram í RÚV tilkynningar frá einstaklingum og opinberum aðilum og jafnvel skjáauglýsingar.
Ekki skilningur hjá menntamálaráðherra um einkaframtakið
Það er hagur okkar allra að hafa hér fjölbreytilega flóru fjölmiðla. Því fjölbreytari sem flóran er þeim mun betur eru hagsmunir almennings og auglýsenda tryggðir til lengri tíma. Ríkisvaldið hefur verið að fara út af samkeppnismarkaði í mörgum atvinnugreinum og það er vel. Það er því tímaskekkja og beinlínis hættulegt fjölbreyttu úrvali fjölmiðla að ríkið þrengi að öðrum frjálsum fjölmiðlum með þátttöku sinni á auglýsingamarkaði eins og það gerir nú.
Það er hins vegar miður að menntamálaráðherrann hafi ekki skilning á þessari stöðu og sé ekki tilbúinn að beita sér fyrir nauðsynlegu brotthvarfi ríkisfjölmiðilsins af markaði sem augljóslega er samkeppnismarkaður.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband