Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2003

Stöndum langt að baki öðrum þjóðum í menntamálum

Opinber framlög til menntamála hérlendis í samanburði við önnur OECD ríki hafa verið nokkuð á reiki. Rangar tölur birtust hjá OECD en nú hefur Hagstofan leiðrétt þær. Ef réttu tölurnar um opinber framlög til menntamála eru skoðaðar, sem eru nýjustu tölur OECD gefnar út árið 2002 og eru fyrir árið 1999, kemur í ljós að opinber framlög Íslands til menntamála námu 5,7% af landsframleiðslu. Þá var Ísland í 7. sæti af 29 OECD ríkjum.
Þessi samanburður er þó alls ekki einshlítur því það þarf að skoða hversu stór hluti þjóðarinnar er á skólaaldri. Íslendingar eru ung þjóð í samanburði við margar aðrar þjóðir og við verðum því að verja mun meira til menntamála vegna þess hve hlutfallslega margir eru á skólaaldri.
Mun minna í menntamál en Norðurlönd
Ef opinber útgjöld eru skoðuð með tilliti til hlutdeildar þjóðarinnar á aldrinum 5 ára til 29 ára kemur í ljós að Ísland er einungis í 14. sæti af 29 OECD þjóðum í framlögum til menntamála. Við erum langt að baki öðrum Norðurlandaþjóðum. Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland eru um 30% fyrir ofan okkur í framlögum til menntamála þegar tekið hefur verið tillit til aldurssamsetningar þjóðanna. Austurríki, Belgía, Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Nýja Sjáland, Portúgal og Sviss eru einnig fyrir ofan okkur auk hinna fjögurra Norðurlanda.
Í málflutningi Sjálfstæðismanna í kosningabaráttunni hefur mátt skilja að framlög Íslendinga til menntamála standist samanburð við nágrannaþjóðir okkar. Þegar litið er á fjárframlög hins opinbera þá er hins vegar ljóst að Ísland gerir það engan veginn. Í tölum Sjálfstæðismanna eru útgjöld einstaklinga til menntamála bætt við en ekki litið til framlaga hins opinbera eingöngu eins og ber að gera þegar litið er á árangur stjórnvalda í menntamálum. Sömuleiðis taka Sjálfstæðismenn ekki tillit til aldursskiptingar þjóðarinnar eins og rétt er að gera.
Það viðbótarfjármagn sem ríkisstjórnin telur sig hafa sett í menntamál undanfarin ár dugar ekki til að setja Ísland á stall með öðrum samanburðarþjóðum okkar. Fjármagnið, sem hefur að stórum hluta komið frá sveitarfélögunum, hefur fyrst og fremst farið í launahækkanir og að mæta að hluta fjölgun nemenda. Þetta aukafjármagn er því ekki hluti af meðvitaðri stefnumörkun stjórnvalda til að auka vægi menntunar. Eftir stendur sú staðreynd að það vantar talsvert marga milljarða króna í menntakerfið til að við getum staðið jafnfætis nágrannaþjóðum okkar.
Ógnvekjandi staðreyndir um menntamál
Á Íslandi stunda nú 81% af hverjum árgangi nám í framhaldsskólum en á öðrum Norðurlöndum er þetta hlutfall 89%. Þriðjungur nemenda hrökklast hins vegar frá námi í framhaldsskólum hérlendis. Á Íslandi hefir um 40% fólks á aldrinum 25 til 64 ára eingöngu lokið grunnskólaprófi og þar erum við í 22. sæti af 29 OECD ríkjum. Íslendingar ljúka framhaldsskólaprófi langelstir allra OECD þjóða. Um 40% íslenskra nemenda falla í samræmdum prófum í 10. bekk grunnskólans.
Mun færri stunda háskólanám hér en í nágrannalöndunum og færri hafa útskrifast úr háskóla hér hvort sem borið er saman við önnur Norðurlönd eða önnur lönd í Vestur-Evrópu. Innan við 16% aldurshópsins 25-64 ára hefur lokið háskólaprófi sem er of lágt hlutfall þjóðarinnar og er talsvert lægra en hjá þjóðum Evrópu.
Þetta er ekki glæsilega frammistaða hjá þjóð sem telur sig vel menntaða. Við rétt náum meðaltali í læsi á alþjóðavettvangi og við höfum staðið okkur illa í alþjóðlegu TIMSS könnunum.
Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sést vel í þeirri staðreynd að landbúnaðarkerfið fær meira fjármagn, beint og óbeint, frá hinu opinbera en það sem allir framhaldsskólar landsins og Háskóli Íslands fá samanlagt. Háskóli Íslands býr við mjög þröngan húsakost og um 600 námsmenn eru á biðlista eftir námsmannaíbúðum. Eftir nám lendir ungt menntað fólk í afar ósanngjörnu jaðarskattakerfi ríkisstjórnarinnar. Atvinnuleysi meðal ungs háskólamenntaðs fólks hefur sömuleiðis sjaldan verið eins mikið og nú enda leggur ríkisstjórnin alltof litla áherslu á verkefni sem henta slíku fólki.
Það er mikið að í íslenskum menntamálum og kominn tími til að setja þau mál í raunverulegan forgang eins og Samfylkingin ætlar að gera. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með stjórn menntamála stöðugt í nánast tvo áratugi. Árangurinn er að við stöndum nágrannaþjóðunum langt að baki.

Röng forgangsröðun ríkisstjórnarinnar

Við teljum okkur lifa í góðu og ríku samfélagi. Það er ljóst að við lifum í ríku samfélagi en lifum við í góðu samfélagi? Eftir að hafa fylgst með störfum Mæðrastyrksnefndar eitt síðdegi þegar úthlutun matar og nauðsynjavara átti sér stað er ég tekinn að efast um það. Þar varð ég vitni að hörmulegu ástandi samborgara minna. Á annað hundrað manns mættu þennan miðvikudag, fólk á öllum aldri og það kom mér á óvart hversu margir voru jafnaldrar mínir, á aldrinum 18-26 ára. Eins var það sláandi að sjá þrjár kynslóðir saman, ömmu, móður og barn vera í þeirri stöðu að þurfa hjálp.
Þjáningarsysturnar örorka og fátækt
Það er ótrúleg upplifun að fylgjast með störfum Mæðrastyrksnefndar í návígi. Þarna opnaðist sú hlið mannlífsins á Íslandi sem allir þurfa að vita af. Átakanlegt var að heyra sögur þessa fólks, sem bókstaflega átti ekki í sig eða á. Upplifunin var enn sorglegri því á bak við hvern einstakling eru saklaus börn. Það má aldrei gleyma því að bak við allar tölur á hinum pólitíska vettvangi eru einstaklingar og raunverulegar þjáningar.
Þetta fólk átti það sameiginlegt að kerfið hafði brugðist þeim. Hið svokallaða velferðarkerfi dugði því og börnum þeirra alls ekki. Margir voru öryrkjar og þarna sást vel sú lína sem er á milli þjáningarsystranna örorku og fátæktar sem íslensk stjórnvöld hafa skapað.
Forgangsröðun í verki
Forsvarsmenn Mæðrastyrksnefndar eru sammála um að neyðin og þörfin hafi aukist mikið undanfarin misseri. Flestir hafa þá sögu að segja að erfiðleikarnir hafa í raun ekki byrjað fyrr en fyrir 1-3 árum síðan. Það hefur því eitthvað gerst í okkar velmegunarsamfélagi sem hefur breytt högum þessa fólks til hins verra.
Ísland er sjötta ríkasta landi í heimi. Það er því ekki þannig að íslensk stjórnvöld geti ekki aðstoðað þetta fólk. Oft þarf mjög lítið til. Stjórnmál eru ætíð spurning um forgangsröðun. Á sama tíma og við heyrum af þessu nöturlega ástandi, að fólk og barnafjölskyldur þurfi að betla mat frá hjálparsamtökum, telja íslensk stjórnvöld nauðsynlegt að eyða 900 milljónum í sendiráð í Berlín eftir að hafa eytt um 800 milljónum í sendiráð í Tokýó. Mæðrastyrksnefnd fær hins vegar hálfa milljón króna frá ríkinu. Hvers konar forgangsröðun er það og hvers konar hugsun er hjá valdhöfum þessa lands?
Hugarfar forsætisráðherrans gagnvart þessum málaflokki varð þjóðinni kunnugt þegar hann afgreiddi hið óeingjarna starf Mæðrastyrksnefndar í fréttum Ríkissjónvarpsins síðastliðið haust með þeim orðum að þar sem framboð væri af ókeypis mat væri alltaf eftirspurn og segði það því ekki mikla sögu! Það blasir hins vegar við annar raunveruleiki. Það var hins vegar ljóst að enginn var að leika sér að því að bíða í röð Mæðrastyrksnefndar í snjókomu og kulda klukkutímum saman eftir nauðsynjavörum. Neyðin og örvæntingin er augljós.
Engar afsakanir lengur
Sem ungur einstaklingur er þetta ekki mín framtíðarsýn. Ég vil ekki að börn séu dæmd til fátæktar vegna umkomuleysis foreldra og úrræðaleysis kerfisins. Ég vil samfélag þar sem allir þegnar landsins geta séð sér farborða og lifað mannsæmandi lífi. Við höfum efni á því að breyta þessu til batnaðar. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar snýst hins vegar um aðra hluti. Eftir 12 ára setu á valdastóli hafa menn engar afsakanir.

Röng stefna ríkisstjórnarinnar í Íraksmálinu

Vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar er Ísland eitt af 30 ríkjum sem styðja stríðið gegn Írak með ótvíræðum hætti í upphafi átakanna. Það er sorglegt að íslenska ríkisstjórnin skuli með þessum hætti gera okkur að þátttakendum í stríði sem flestir þjóðréttarfræðingar telja vera ólögmætt.
Það var hugsanlega hægt að leysa deiluna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og ýmislegt benti til þess að skriður væri kominn á málið. Það er hins vegar ljóst að ekki var áhugi fyrir friðsamlegri lausn hjá stríðandi öflum. Markmið Sameinuðu þjóðanna og ályktun þeirra var um afvopnun Íraks en stríðið er hins vegar háð til að koma Saddam frá völdum þótt engin ályktun hafi verið gerð um slíkt. Bandaríkjaforseti setti aðeins eitt skilyrði sem hann taldi duga til að koma í veg fyrir stríð. Það var að Saddam Hussein færi frá völdum.
Mikil afturför í alþjóðasamskiptum
Þróun Íraksmálsins er mikil afturför og minnir á ástand heimsmála í upphafi 20. aldar þegar ekkert alþjóðlegt samkomulag var til og hinn sterki fékk sínu fram. Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar hófst lengsta friðartímabil í sögu Evrópu sem byggðist fyrst og fremst á samvinnu þjóðanna innan Evrópusambandsins, á félagslegum umbótum og alþjóðaviðskiptum. Í Íraksmálinu var hins vegar ákveðið að fara aðra leið, leið vopnavaldsins.
Átökin í Írak hafa rofið einstaka samstöðu þjóða heims gegn hinni raunverulegri ógn sem eru hryðjuverk. Eftir 11. september stóðu nær allar þjóðir saman í baráttunni gegn hryðjuverkum. Nú er sú barátta í uppnámi og bandalög hafa klofnað vegna Íraksmálsins.
Eðlismunur á Írak og Kosovo
Stjórnmálamenn verða að reyna til hins ítrasta að komast að friðsamlegri lausn í alþjóðadeilum. Í Íraksmálinu var það ekki gert. Stríð er alltaf neyðarúrræði en það er úrræði engu að síður. Í Kosovo var alþjóðasamfélagið búið að reyna að komast að friðsamlegri lausn en niðurstaðan varð því miður að friðsamleg lausn var ekki fær. Því var skylda alþjóðasamfélagsins að grípa þar inn í með vopnavaldi.
Sumir Sjálfstæðismenn telja sig sjá einhverja samsvörun í stríðinu í Írak og í átökunum í Kosovo. Þessar aðgerðir eru hins vegar engan veginn sambærilegar. Í Kosovo var um að ræða fjöldamorð í beinni útsendingu, skipulagðar hópnauðganir og flóttamenn streymdu yfir landamærin. Alþjóðlegar stofnanir eins og NATO og ESB stóðu heil að aðgerðunum í Kosovo. Öll nágrannaríki Serbíu studdu þær inngrip ásamt á annað hundrað þjóðríkja. Stríðið í Kosovo var háð á grundvelli alþjóðlegs bandalags af mannúðarástæðum þegar öll önnur sund voru lokuð.
Í Írak er allt annað uppi á teningnum. Minnihluti þjóða heims styður stríðið gegn Írak sem er háð í mikill óþökk flestra nágrannaríkja Íraks. Almenningur í langflestum ríkjum er algjörlega andvígur stríðinu. Afvopnunareftirlit Sameinuðu þjóðanna var í fullum gangi þegar Bandaríkjamenn ákváðu að fara í stríðið. Engar alþjóðlegar stofnanir standa að baki stríðinu. Um er að ræða einhliða hernaðaraðgerðir nokkurra þjóða. Ef Ísland vill taka þátt í slíkum aðgerðum eigum við að gera það á vegum NATO og Sameinuðu þjóðanna en ekki fara út fyrir alþjóðastofnanir eins og íslensk stjórnvöld hafa nú gert. Vegna smæðar Íslands og herleysis eiga fáar þjóðir jafnmikið undir því að þjóðarréttur og alþjóðastofnanir séu virt.
Þennan mun á átökunum í Kosovo og í Írak hafa langflestar þjóðir Evrópu skilið s.s. Þjóðverjar, Frakkar, Belgar, Norðmenn, Grikkir o.s.frv. sem studdu aðgerðirnar í Kosovo en eru andvíg stríðinu í Írak. Þennan mun skilur Samfylkingin einnig. Við styðjum ekki Bandaríkin skilyrðislaust í hernaði þótt Bandaríkin séu ein helsta samstarfsþjóð Íslendinga í marga áratugi. Samfylkingin er vinveitt Bandaríkjunum og hún harmar þessa óskynsamlega stefnu vinaþjóðar.
Drögum ríkisstjórnina til ábyrgðar
Það er að sjálfsögðu enginn að tala máli Saddam Husseins enda er hann hinn mesti harðstjóri sem ber að koma frá völdum. Það var hins vegar ekki fullreynt að leysa málið á friðsamlegan hátt. Íslendingar eiga a.m.k. ekki að stuðla að hinu gagnstæða eins og íslenska ríkisstjórnin gerði með stuðningsyfirlýsingu sinni við stríðið.
Ísland er fyrsta ríkið af þessu 30 ríkjum á sérstökum stuðningslista stríðsins sem heldur þingkosningar. Hvort sem stríðið verður stutt eða langt skulum við sýna það í verki, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir umheiminn, að íslenskur almenningur gleymir þeim ekki sem gerðu þjóðina að þátttakanda í þessu ólögmæta stríði.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband