Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2003

Stærsta hagsmunamálið

Matvæli er einn stærsti útgjaldaliður einstaklinganna ásamt húsnæði. Matvælaverð á Íslandi er hins vegar með því allra hæsta í heiminum. Lækkun matvælaverðs er því eitt stærsta hagsmunamál íslenskra kjósenda.
Samfylkingin stóð fyrir afar fróðlegum fundi í gærkvöldi um af hverju matvælaverð er svo hátt hér á landi eins og raun ber vitni. Frummælendur voru Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, Elías Þorvarðarson, verslunarstjóri Nettó Mjódd og Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Margt athyglisvert kom fram á þessum fundi sem sýnir að ástandið hér á landi er algjörlega fyrir neðan allar hellur.
Lækkun upp á hundruðir þúsunda króna
Þótt Íslendingar hafi lengi vitað að matvælaverð hér á landi væri afar hátt má má segja að umræðan hafi opnast þegar Samfylkingin flutti þingsályktun síðastliðið haust um að skoða þyrfti ástæður hás matvælaverðs á Íslandi. Málið var þar með sett formlega á dagskrá. Í kjölfarið á því komu fram upplýsingar um að vísitala matvælaverðs á Íslandi var hæst allra Norðurlandanna árið 2001 en hún var lægst hér á landi árið 1990. Ástandið hefur því gjörbreyst á undanförnum áratug til hins verra.
Það kom einnig í ljós að matvælaverð hefði hækkað langmest og langhraðast á Íslandi og Noregi af Norðurlöndunum. Matvælaverð lækkaði hins vegar við inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í ESB árið 1994.
Umræðan um hátt matvælaverð er því nátengd umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að ESB. Norðmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að matvælaverð myndi lækka um 30% við inngöngu þeirra í ESB. Þetta myndi þýða að hver norsk fjölskylda hefði um 200.000 krónur meira milli handanna en ella.
Stóru tölurnar vantar í ESB-umræðuna
Þessar tölur vantar hins vegar í alla umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að ESB. Þetta eru hins vegar stóru tölurnar ásamt lækkun vaxtakostnaðar en ekki þær sem hafa áhrif á ríkissjóð sem er fyrst og fremst tilfærsla á fjármunum ef af aðild verður.
Sumir telja að fákeppni sé ástæða hás matvælaverðs hér á landi og hefur forsætisráðherrann talið það vera meginskýringuna. Þó benda reglulegar verðkannanir fjölmiðlanna til þess að mikil og öflug samkeppni virðist ríkja á þessum markaði þrátt fyrir að um sé að ræða fákeppnismarkað. Fákeppni og samþjöppun spilar þó án efa mikilvægt hlutverk í verðmyndun á matvörumarkaðinum.
Matvælaverð á Íslandi hækkaði hvað mest þegar gengi krónunnar reis upp úr öllu valdi en það hefði átt að ýta verðinu niður. Þannig að skýringin á háu matvælaverði er ekki heldur gengisþróunin.
Þáttur hins opinbera er meginskýringin
Hins vegar hefur verið bent á sem skýringu á háu matvælaverði hér landi þátt hins opinbera. Stjórnvöld viðhalda tollakerfi sem í nýrri grein í Vísbendingu kemur fram að kostar íslenska neytendur um 3-4 millarða króna árlega. Þetta samsvarar um 40.000-50.000 kr. á hvert heimili í landinu. Þeim myndi svo sannarlega muna um þetta.
Hið opinbera hefur einnig neikvæð áhrif á matvælaverð vegna skatta. Matvæli skiptast í tvo flokka þar sem annar flokkurinn ber 14% virðisaukaskatt og hinn 24,5% virðisaukaskatt. Hugsunin var að nauðsynjavörur yrðu skattlagaðar í 14% þrepinu og lúxusvörurnar í 24,5% þrepinu. Í reynd virðist flokkunin vera mjög handahófskennt og eru t.d. bleyjur í efra þrepinu þrátt fyrir að allt fjölskyldufólk sé sammála um að bleyjur teljast ekki til lúxusvara. Annað dæmi um vitlausa skattlagningu er að lýsi í fljótandi formi er í neðra þrepinu en sé það í föstu formi skattlegst það með 24,5%.
Næg tækifæri til að breyta
Í vor verða haldnar alþingiskosningar. Íslenskir kjósendur eiga að nota tækifæri og láta heyra í sér varðandi eitt af sínum stærstu hagsmunamálum. Við höfum haft sama forsætisráðherrann í 12 ár og hefur hann því haft næg tækifæri til að breyta ástandinu til batnaðar. Hins vegar hefur ástandið versnað í hans tíð. Við búum ennþá við arfavitlaust og rándýrt landbúnaðarkerfi sem enginn virðist hagnast á. Tollakerfið er neytendum augljóslega mjög óhagstætt og skattlagningin mikil.
Það er ljóst að við aðild Íslands að ESB myndi matvælaverð lækka þar sem tollar á landbúnaðarvörum féllu niður. Skjótvirkasta leiðin til að ná matvælaverðinu niður væri því aðild að ESB þar sem sambandið myndi þvinga okkur í rétta átt eins og það gerði gagnvart viðskiptafrelsinu á Íslandi þegar EES-samningurinn gekk í gildi. Vilji menn hins vegar ekki fara þá leið þá verða menn að koma með hugmyndir um að ná verðinu niður með öðrum hætti og það sem meira er þá verða menn að framkvæma þær.

Kostnaður vegna prófkjörsbaráttu

Yfirlit yfir kostnað Ágústs Ólafs Ágústssonar vegna prófkjörs Samfylkingarinnar 9. nóvember 2002

Útgjöld
Póstkostnaður: 249.914 kr
Útgáfa: 80.303 kr
Auglýsingar: 113.544 kr
Símakostnaður: 34.611 kr
Annað: 56.761 kr
---Samtals: 535.133 kr

Tekjur
Styrkir og framlög: 50.000 kr
---Samtals: 50.000 kr

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband