Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2003

Valkostur ungs fólks

Framundan eru spennandi kosningar til Alþingis. Samfylkingin hefur aukið fylgi sitt undanfarin misseri og mælist nú í síendurteknum skoðanakönnunum sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Innan Ungra jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, hefur verið unnið hörðum höndum undanfarið ár. Þegar núverandi framkvæmdastjórn tók við völdum fyrir rúmlega ári síðan voru aðeins til 3 virk aðildarfélög í Ungum jafnaðarmönnum. Nú stefnir í að þau verði orðin 11 talsins um allt land áður en starfsárinu lýkur. Til eru orðin landssamtök Ungra jafnaðarmanna.

Skýrar línur í pólitíkinni
Það skiptir máli hvað ungt fólk kýs í stjórnmálum. Það eru skýrar línur í pólitíkinni nú. Ungir sjálfstæðismenn hafa ályktað að hækka skuli verulega skólagjöld í Háskóla Íslands og leggja niður Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirlitið, Íbúðalánasjóð og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þessu hafna Ungir jafnaðarmenn algjörlega.
Landsþing Ungra jafnaðarmanna verður haldinn helgina 24.-26. janúar á Selfossi, en þar er einmitt eitt nýstofnaðra félaga hreyfingarinnar. Á landsþinginu mun fara fram málefnavinna, undirbúningur fyrir Alþingiskosningar í maímánuði og kosning stjórnar Ungra jafnaðarmanna en frekari upplýsingar má finna á politik.is. Heiðursgestir landsþingsins verða Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég hvet ungt fólk til að koma á landsþingið og kynnast kraftmiklu starfi Ungra jafnaðarmanna.
Landsþing 24.-26. janúar á Selfossi
Landsþing Ungra jafnaðarmanna á Selfossi mun snúast um að marka skýra valkosti fyrir ungt fólk í komandi kosningum. Ungir jafnaðarmenn telja að heildstæða fjölskyldu- og neytendastefnu hafi vantað lengi. Ungir jafnaðarmenn álíta það ekki vera náttúrulögmál að Íslendingar þurfi að greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi. Fórnarkostnaður við að vera í námi hækkar stöðugt ásamt því að þrýstingur á skólagjöld eykst. Skólagjöld leikskóla eru sömuleiðis komin algjörlega úr böndunum og félagslega nauðsynlegar tómstundir hafa orðið að forréttindum á grunnskólastigi.
Þjónustugjöld á opinberri þjónustu hafa rokið upp úr öllu valdi síðastliðinn áratug án þess að þjónusta hafi aukist að sama skapi. Lyfjakostnaður venjulegs fjölskyldufólks getur hæglega sligað fjárhag heimilis, hvað þá fyrir öryrkja og aldraða. Húsnæðiskostnaður ungs fólks hefur sjaldan verið meiri og leiguverð hefur rokið upp m.a. vegna aðgerða stjórnvalda. Vaxtakostnaður er með því hæsta sem gerist í vestrænum heimi og skattbyrði einstaklinga hefur aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar. Jaðarskattar ungs fólks, s.s. þeirra sem eru að koma sér upp húsnæði og fjölskyldu og greiða niður námslán eru allt of háir. Skuldasöfnun heimilanna er í sögulegu hámarki og verðtrygging lána kemur aftan að mörgum.
Þessu vilja Ungir jafnaðarmenn breyta og því munu þeir hittast á Selfossi næstkomandi helgi.

Tvíeykið Össur og Ingibjörg

Í fyrsta skipti í mjög langan tíma hefur stjórnmálaflokkur mælst stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í endurteknum skoðanakönnunum. Samfylkingin er orðin að öflugum valkosti í íslenskum stjórnmálum sem forystuafl. Samfylkingin mun tefla fram sínu sterkasta liði í komandi alþingiskosningum þar sem Össur Skarphéðinsson, formaður flokksins, mun leiða innra starfs flokksins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi borgarstjóri, verður forsætisráðherraefni flokksins.
Það sýnir styrk Samfylkingarinnar og er mikill akkur fyrir íslenska kjósendur að Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi ákveðið að standa þétt að baki hvort öðru og saman bjóða upp á það besta sem flokkurinn hefur upp á að bjóða.
Mikill meðbyr Samfylkingar
Össur Skarphéðinsson hefur lyft grettistaki á þeim tíma sem hann hefur verið formaður Samfylkingarinnar. Hann hefur tekið virkan þátt í að þróa innra starf flokksins á mjög erfiðum tíma og stofnað Samfylkingarfélög um allt land. Össur hefur lyft Samfylkingunni úr 13% í skoðanakönnunum upp í rúmlega 30% fylgi en í nóvember síðastliðnum mældist Samfylkingin með 32% fylgi. Eftir að ljóst er orðið að Ingibjörg Sólrún mun ganga til liðs við flokkinn í kosningabaráttunni og taka þar virkan þátt hefur fylgið verið á bilinu 36%-39%.
Það liggur því fyrir að gríðarlega öflugt tvíeyki hefur litið dagsins ljós í íslenskum stjórnmálum. Slíkt samstarf öflugra leiðtoga þekkist víða erlendis, sérstaklega á Norðurlöndunum. Tvíeyki eru þó ekki óþekkt fyrirbæri úr innlendri stjórnmálasögu og þannig má til að mynda nefna Jón Baldvin Hannibalsson og Jón Sigurðsson, Hermann Jónsson og Eysteinn Jónsson, Einar Olgeirsson og Brynjólf Bjarnason og loks Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson.
Gerum konu að forsætisráðherra
Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir standa fyrir frjálslynda jafnaðarstefnu þar sem öflugt velferðar- og menntakerfi blómstrar á sama tíma og einstaklingurinn og viðskiptalífið fá að njóta sín. Landsmenn allir þekkja vel til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem borgarstjóra höfuðborgarinnar í rúm en 8 ár. Í hennar stjórnartíð hefur Reykjavík orðið að heimsborg sem allir Íslendingar geta verið stoltir af. Össur Skarphéðinsson hefur sýnt mikla eljusemi og dug og hefur algerlega tekist að byggja upp öflugan stjórnmálaflokk, náð að mynda löngu þarft mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Össur Skarphéðinsson gefur nú íslenskum kjósendum einnig tækifæri til þess að gera konu að forsætisráðherra en kona hefur aldrei gegnt embætti forsætisráðherra áður.
Davíð Oddsson forsætisráðherra hefur verið við völd lengur en nokkur annar forsætisráðherra. Það er stundum sagt að vald spilli og að mikið vald gjörspilli. Verst fer þá á því þegar menn eru með valdið of lengi í hendi sér. Undanfarin misseri hefur það komið æ betur í ljós að það er kominn tími á Davíð Oddsson. Framkoma hans í Falun Gong málinu síðastliðið sumar og ummæli hans í garð Mæðrastyrksnefndar þar sem hann afgreiddi þeirra ómetanlega starf í einu vetfangi með þeim orðum að það væri alltaf til fólk sem hugnast hlaupa eftir ókeypis mat og fatnaði, sýnir vel að breytinga er þörf.
Valið er skýrt
Kjósendur á Íslandi hafa skýrt val í komandi Alþingiskosningum. Valið stendur á milli áframhaldandi ríkisstjórnar sérhagsmuna og valdhroka Davíðs Oddssonar annars vegar og hins vegar frjálslyndrar og ferskrar ríkisstjórnar Ingibjargar Sólrúnar þar sem mannúð og menntun er höfð að leiðarljósi.
Greinin birtist í DV í janúar 2003.

Viðskiptalífið í fjötrum stjórnmála

Undanfarna daga hefur Morgunblaðið verið með afar áhugaverða umfjöllun um ein mestu átök íslenskrar viðskiptasögu þar sem barist var um yfirráðin í Íslandsbanka og Tryggingamiðstöðinni. Þessi yfirferð Morgunblaðsins sýnir vel hvernig hina hraða atburðarrás viðskiptalífsins getur farið fram en jafnframt sýnir hún hversu persónuleg tengsl og vinskapur skiptir miklu máli í íslenskum viðskiptum. Það sem hefur hins vegar vakið einna mesta athygli fólks er að forsætisráðherrann spilar ákveðið hlutverk í atburðarrásinni.
Í umfjöllun Morgunblaðsins er sífellt tekið fram hvað Davíð Oddssyni á að hafa fundist um málið og hvernig hann á að hafa brugðist við hinum og þessum ákvörðunum. Álit forsætisráðherrans virðist hafa skipt miklu máli um hvernig menn tóku viðskiptaákvarðanir og um hvernig vali á viðskiptafélögum var háttað. Það er hreint út sagt sláandi að sjá Davíð Oddsson sem meiriháttar leikanda í viðskiptafléttu hlutafélaga sem eru á markaði.
Störf og stefna eru ekki það sama
Hugmyndafræði margra stuðningsmanna Davíðs Oddssonar snýst um að minnka völd og áhrif stjórnmálamanna á hið daglega líf borgaranna og ekki síst á viðskiptalífið. Það er gott og vel og get ég tekið undir margt í þessari hugmyndafræði. Hins vegar hefur 11 ára reynsla af stjórnarháttum Davíðs Oddssonar sýnt allt aðra hugmyndafræði. Áhrif og álit Davíðs Odssonar virðist skipta miklu máli um hvernig ákvarðanir eru teknar í viðskiptalífinu. Davíð Oddsson virðist hafa undirliggjandi tangarhald á atvinnurekendum og viðskiptalífinu í heild.
Þetta sést ekki einungis í átökunum um Íslandsbanka heldur einnig afar vel í Evrópuumræðunni þar sem atvinnulífið þegir þunnu hljóði þrátt fyrir skýra hagsmuni þess af aðild að Evrópusambandinu. Það er einsdæmi í allri Evrópu að samtök atvinnurekenda skuli ekki berjast með kjafti og klóm fyrir aðild að ESB. Það er helst Samtök iðnaðarins sem hafa synt á móti straumnum enda uppskáru þau hótun forsætisráðherrans um að skorið yrði á opinbera tekjuleið þeirra í kjölfar skoðanakönnunar um ESB sem samtökin stóðu fyrir.
Rjúfum tengslin
Annars er það ansi margt sem fer ekki saman við hugmyndafræði stuðningsmanna Davíðs Oddssonar og störf Davíðs sem forsætisráðherra. Báknið hefur aldrei í Íslandssögunni verið eins viðamikið, aldrei hafa fleiri starfsmenn verið á launum hins opinbera, skattbyrði einstaklinga hefur aukist þrátt fyrir lækkun á skattprósentunni og að síðustu má nefna fyrrnefndan ótta og áhrif sem Davíð Oddsson hefur, beint og óbeint, á hið ,,frjálsa" viðskiptalíf.
Hin gömlu tengsl Sjálfstæðisflokksins og atvinnulífsins þarf að rjúfa. Viðskiptalífið þarf að stjórnast af fjárhagslegum og rekstrarlegum hagsmunum en ekki flokkshagsmunum eins og það virðist oft gera. Það er ekki eðlilegt að stjórnmálamenn séu leikendur á taflborði markaðarins. Það er hins vegar ljóst að verði Össur Skarphéðinsson eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherra þá munu þau ekki hafa þetta tangarhald á viðskiptalífinu, þótt þau myndu vilja það. Og það væri skref í rétta átt.

Jafnrétti er grundvöllur heilbrigðs samfélags

Jafnréttismál eru eðli máls samkvæmt mjög ofarlega í huga Ungra jafnaðarmanna enda byggir stefna þeirra á jöfnuði manna og jöfnum tækifærum fólks, karla og kvenna, til að lifa lífi sínu á sómasamlegan hátt. Margt hefur áunnist í jafnréttisbaráttu kvenna en þó blasir við að enn er langt í land.
Útrýma þarf launamuni kynjanna
Ungir jafnaðarmenn munu aldrei geta fellt sig við óútskýrðan launamun kynjanna og neita að líta svo að tíminn einn og sér geti og muni jafna stöðu karla og kvenna á atvinnumarkaði. Það hlýtur að teljast eitt mesta baráttumál í jafnréttisbaráttunni að útrýma þeim kynbundna launamun sem ítrekaðar kannanir sýna að er til staðar- þó hægt sé að deila um hve mikill hann er. Þetta misrétti er eitt það alvarlegasta sem blasir við íslensku samfélagi. Veruleiki íslensks samfélags endurspeglar því miður ekki fullt jafnrétti kynjanna. Og því þarf að grípa til aðgerða. Sagan sýnir klárlega að staða kynjanna verður ekki jöfn með því einu að bíða, það þarf aðgerðir. Ungir jafnaðarmenn vilja að sjónarmið jafnréttis verði samþætt inn í alla stefnumótun og ákvarðanatöku ríkis og sveitafélaga.

Fæðingarorlof feðra er skref í rétta átt
Ástæða er til að hrósa fyrir það sem vel er gert og ríkisstjórnin getur verið ánægð með fæðingarorlofslögin sem gengu endanlega í gildi nú um áramótin. Þau lög hafa margt jákvætt í för með sér og sumir hafa litið svo á að þau séu hreinlega jafnréttislög. Undir það má að mörgu leyti taka, þar sem lögin munu vafalítið stuðla að jöfnum launum karla og kvenna fyrir sömu vinnu, enda eru karlmenn ekki ,,verðmætari" starfskraftur þegar jafnmiklar líkur eru til þess að þeir hverfi um stundarsakir úr vinnu vegna fæðingarorlofs. Ungir jafnaðarmenn fagna jafnari stöðu kynjanna á vinnumarkaði með þeirri tryggingu sem felst í jöfnum rétti foreldra til töku fæðingarorlofs.
Lögin eru jafnframt mikið réttlætismál og framfaraskref fyrir unga feður sem fram að þessu hafa þurft að búa við þann veruleika að geta ekki verið í jafnmiklum samvistum við börn sín á fyrstu mánuðum ævinnar og mæður. Um kostnaðinn sem Ungir sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt svo mjög er það að segja að kostnaðurinn við fæðingarorlof hefur eflaust ætíð verið til staðar. Konur hafa hins vegar þurft að bera hann einar fram að þessu. Konum er nú loks gert kleift að keppa á jafnréttisgrundvelli við karlmenn á vinnumarkaði og karlmönnum er gert mögulegt að taka fullan þátt í uppeldi barna sinna.
Með jöfnum rétti kynjanna til töku fæðingarorlofs er nú fyrst kominn grunnur að því að konur og karlar standi jafnvíg á bæði atvinnumarkaði og innan heimilisins. Þá er það tvímælalaust í hag barnsins að fá tækifæri til að umgangast báða foreldra sína.
Ungir jafnaðarmenn vilja að sjálfstæður réttur foreldris til fæðingarorlofs sé lengdur í 6 mánuði og að hinn deilanlegi réttur verði einnig lengdur í 6 mánuði. Það er einnig fróðlegt rannsóknarefni hvort úrskurðir og dómar í forsjármálum kunni að taka mið af breyttum raunveruleika, hvort staða feðra geti styrkst í slíkum málum eftir að hafa tekið fæðingarorlof, dvalið heima hjá barni sínu og þar af leiðandi orðið virkari þátttakendur í lífi og uppeldi barna sinna.

Skilningsleysi gagnvart jafnréttismálum
Ljóst er að jafnréttismál eru neðarlega á verkefnalista ríkisstjórnarinnar. Og það stafar frekar af skilningsleysi heldur en af þeirri staðreynd að ríkisstjórnin sinni málaflokknum ekki viljandi vits. Þetta skilningsleysi stafar eflaust af rýrum hlut kvenna í ríkisstjórn, sem þó er betri en áður. Sé litið til stefnu stjórnmálaflokka mætti eflaust komast að þeirri niðurstöðu að jafnréttismál væri nokkuð ofarlega á baugi í flestum flokkum. Sé hins vegar litið til áherslna í starfi og stefnu, kynjahlutfalla í flokkunum og til þess hvernig raðað er á lista fyrir næstu Alþingiskosningar blasir annar raunveruleiki við. Prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík sýndi bágborna stöðu kvenna innan flokksins og allt tal um að Sjálfstæðismenn séu komnir á næsta stig jafnréttisbaráttunnar, þar sem talað er um einstaklinga óháð kynferði er hlægilegur. Sá málflutningur er í engu samræmi við þá stöðu sem konur innan Sjálfstæðisflokksins búa við og er í engu samræmi við hlutfall kvenna í stjórnmálum almennt. Það er ástæða til að hvetja konur til frekari þátttöku í stjórnmálum og það verður ekki gert á þennan hátt. Aðrir flokkar búa við betri stöðu og nú blasir við sögulegt tækifæri- tækifæri til að gera Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að forsætisráðherra, fyrst allra kvenna.

Flokksvali Samfylkingarinnar lokið

Nú er flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík, Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi lokið. Þrír ungir einstaklingar sem eiga rætur sínar að rekja til Ungra jafnaðarmanna tóku þarna þátt og fengu góða kosningu. Björgvin G. Sigurðsson lenti í 3. sæti í suðurkjördæmi, Katrín Júlíusdóttir lenti í 4. sæti í Suðvesturkjördæmi og undirritaður lenti í 8. sæti í flokksvalinu í Reykjavík en það þýðir 4. sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.

Þetta eru allt örugg fyrsta varaþingmannssæti og á góðum degi þingsæti. Það er afar ánægjulegt að Samfylkingarfólk skuli treysta ungu fólki fyrir slíkum sætum og sýnir það að Samfylkingin er flokkur ungs fólks. Endurnýjun Samfylkingarinnar í flokksvali helgarinnar fólst fyrst og fremst í velgengni unga fólksins.

Málefni ungs fólks hafa lengi legið í skugga stjórnmálanna. Mennta- og lánasjóðsmálin hafa aldrei verið forgangsmál stjórnvalda enda er þar víða sviðin jörð. Húsnæðismálin hafa einnig verið í ólestri undanfarin ár enda virðist ekki vera gert ráð fyrir litlum og ódýrum íbúðum aðgengilegar ungu fólki með takmörkuð fjárráð. Jaðarskattapólitík stjórnvalda hefur lengi komið ungu fólk í vandræði enda vinnur ungt fólk oft myrkvanna milli til að koma sér upp þaki yfir höfuðið og borga námslánin.

Evrópumálin hafa ekki verið á dagskrá hjá núverandi ríkisstjórn og það var fyrst fyrir um mánuði sem fyrsti stjórnmálaflokkurinn setti aðildarviðræður við Evrópusambandið í stefnuskrá sína. Aðild að Evrópusambandinu snertir hagsmuni ungs fólks beint þar sem fólk hefur æ ofan í æ rekið sig á að réttindi samkvæmt EES-samningingnum eru oftar en ekki kunn í Evrópu og kallar oft á talsverð vandræði, flóknar útskýringar og töluverðan fórnarkostnað fyrir viðkomandi. Skólagjöld í bestu háskóla Evrópu munu lækka til muna við inngöngu Íslands í ESB og að ógleymdu matvælaverðinu og vaxtakostnaðinum sem er þungur baggi hjá hverju ungu heimili.

Eins og áður hefur komið fram þá eru um 80% þingmanna Alþingis á aldrinum 45-59 ára og enginn þingmaður er undir 36 ára aldri. Þessu þarf að breyta. Tryggjum að baráttusæti ungs fólks í Samfylkinunni verði örugg þingsæti í vor svo að rödd nýrrar kynslóðar megi heyrast á þingi.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband