Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2002

Innilegar þakkir

Nú er flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík lokið. Ég fékk 2010 atkvæði og lenti í 8. sæti. Að mínu mati er þetta frábær árangur enda þýðir þetta 4. sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu sem er þingsæti á góðum degi og öruggt 1. varaþingmannssæti. Ég vil þakka öllum þeim sem gerðu þennan árangur að veruleika og tóku þátt í þessari baráttu. Ég vil einnig þakka því Samfylkingarfólki sem treysti mér fyrir sæti á listanum og tel þetta sýna að ungt fólk á sér athvarf í Samfylkingunni.

Rödd nýrrar kynslóðar heyrist á Alþingi

Í dag, laugardaginn 9. nóvember fer fram flokksval Samfylkingarinnar í Reykjavík þar sem 13 frambjóðendur takast á um 8 sæti.

Ég hef lagt áherslu að nauðsyn þess að endurnýjun eigi sér stað á Alþingi. Nú er 80% þingheims á afar þröngu aldursbili og er enginn þingmaður undir 36 ára aldri. Þetta er einsdæmi í allri Evrópu. Notum tækifærið sem felst í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík og yngjum upp og endurnýjum í þingliði flokksins. Samfylkingin á að vera flokkur breiddarinnar. Samfylkingin á að vera flokkur ungs fólks, flokkur framtíðarinnar.

Óæskileg aldursskipting Alþingis
Óæskileg aldursskipting Alþingis hefur haft áhrif og hefur m.a. birst í sinnuleysi þingmanna gagnvart ýmsum málaflokkum sem einkum og sér í lagi snerta ungt fólk, s.s. mennta-, húsnæðis-, skatta- og alþjóðamál. Það er mikil þörf á málsvara menntunar á Alþingi enda er víða pottur brotinn þar. Hugfarsbreyting gagnvart menntun þarf að eiga sér stað og stórauka þarf forgang menntunar í íslenskum stjórnmálum.
Frjálslynd jafnaðarstefna
Hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu er tvímælalaust ein stærsta pólitíska spurning samtímans. Ég hef verið jákvæður gagnvart aðild Íslands að ESB enda er ég sannfærður um að lífskjör Íslendinga batni við inngöngu, með lægra matvælaverði, lægri vöxtum, minni viðskiptakostnaði, aðhaldi í ríkisfjármálum og auknum áhrifum á löggjöf landsins.

Frjálslynd jafnaðarstefna hefur verið rauður þráður í minni hugmyndafræði. Við eigum að leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að njóta sín til fulls á sama tíma og við hlúum að öflugu velferðarkerfi. Árangursrík efnahagsstefna tekur mið af að efla menntun mest allra þátta, auka sveigjanleika, efla lítil og meðalstór fyrirtæki, ryðja burtu viðskiptahindrunum og stuðla að réttlátu skattkerfi.
Stjórnmál snúast um forgangsröðun
Stjórnmál eru ætíð spurning um forgangsröðun. Ísland er fimmta ríkasta land í heimi. Við eigum ekki að líða fátækt hér á landi, hvað þá fátækt vegna örorku. Ég vil sjá öflugt velferðarkerfi þar sem engin réttindi eru án ábyrgðar. Við eigum ekki að hræðast nýjar leiðir í velferðarkerfinu svo fremi sem markmið jafnaðarstefnunarinnar um jafnan aðgang að velferðarkerfinu óháð efnahag er algjörlega tryggt. Það er markmiðið sem skiptir máli en ekki leiðirnar að því.
Á sama tíma og ég vil þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóg í prófkjörsbaráttu minni vona ég að þú stuðlir að aukinni breidd og nauðsynlegri endurnýjun í þingflokki Samfylkingarinnar með því að treysta mér fyrir 4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Kjósum rödd nýrrar kynslóðar á þing.
Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík er kl. 11-22 laugardaginn 9. nóvember í Þróttarheimilinu við gervigrasvöllinn í Laugardal, á móti Laugardalshöllinni. Allir sem eru í Samfylkingunni eða skrá sig í hana hafa atkvæðisrétt. Munum eftir skilríkjunum.

Samfélag frjálslyndrar jafnaðarstefnu

Það hefur stundum verið sagt að hægt sé að segja margt um samfélagið af því hvernig komið er fram við aldraða og öryrkja. Staða öryrkja á Íslandi er slæm, sérstaklega ungra öryrkja sem hafa aldrei haft nein tækifæri til að safna í lífeyri. Hópur aldraða hefur einnig verið dæmdur úr leik í samfélaginu sökum fátæktar og nú kemur í ljós, samkvæmt blaðagreinum lækna, að sjúklingar búi við ,,stríðsástand" á sjúkrahúsum.
Breytt forgangsröðun
Stjórnmál snúast ætíð um forgangsröðun. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sést vel gagnvart öldruðum sem þurfa að búa við afar ósanngjarna skattlagningu á lífeyri. Við sjáum forgangsröðunina gagnvart öryrkjum og bótaþegum og landbúnaðarkerfið fær meira fjármagn frá ríkinu, beint og óbeint, en allir framhaldsskólar landsins og Háskóli Íslands samanlagt.

Kjósendur eiga að meta stjórnmálaflokka eftir þeirri forgangsröðun sem þeir sýna í reynd. Heilsugæsla á að vera fremst í forgangsröðuninni ásamt menntamálum, langt á undan Þjóðmenningarhúsum, starfslokasamningum, jarðgöngum, búvörusamningum, japönskum sendiráðum og fleira í þeim dúr sem við höfum þurft að horfa upp á í tíð núverandi ríkisstjórnar.
Veljum velferð fólksins
Sóknarfæri Samfylkingarinnar eru gríðarleg með réttri forgangsröðun. Við eigum að vera stjórnmálaflokkur einstaklinga, einyrkja og smærri fyrirtækja sem byggja á mannauði. Þessir aðilar eiga ekkert skjól í öðrum stjórnmálaflokkum enda heldur tekjuskattur einstaklinga ríkinu uppi mun meira en áður á sama tíma og skattar stórfyrirtækja lækka.

Við eigum að fylkja okkur að baki neytendum og vera í fararbroddi í neytendavernd og ná matvælaverðinu niður. Við eigum að efla menningu með hugfarsbreytingu og skattaívilnunum. Menning er mannbætandi og arðbær og skilar t.d. meira til landsframleiðslunnar en landbúnaðurinn.

Við eigum að búa til samfélag, þar sem einstaklingurinn og viðskiptalífið njóta sín á sama tíma og öflugt velferðar- og menntakerfi blómstrar, samfélag frjálslyndrar jafnaðarstefnu.

Menntamál gleymd á Alþingi

Menntamál á Íslandi hafa lengi setið á hakanum. Skýringuna á því má að einhverju leyti rekja til aldursskiptingar Alþingis. Enginn þingmaður er undir 36 ára aldri og 80% þingmanna eru á aldrinum 45-59 ára. Aðrir hlutir brenna eðlilega á ungu fólki en þeim sem eru miðaldra og því er menntamálum og námslánakerfinu, leikskólamálum og húsnæðismálum ekki nægilega vel sinnt.

Menntamál þarf að setja í algjöran forgang og stórauka fjármagn til menntakerfisins til samræmis við nágrannalöndin. Íslendingar verja enn töluvert minna fé í menntamál en nágrannaþjóðir okkar. Það er kominn tími til að menntamál verði alvöru kosningamál. Stjórnmál snúast að miklu leyti um að forgangsaða málum eftir mikilvægi og núverandi forgangsröðun íslenskra stjórnvalda þarf að breyta. Það er óásættanlegt að landbúnaður fái meira fjármagn beint og óbeint frá ríkinu en allir framhaldsskólar landsins og Háskóli Íslands samanlagt. Núverandi ríkisstjórn metur sauðfé meira en stúdenta.
Menntun er hagkvæm
Útgjöld til menntunar er hagkvæm fjárfesting þjóðarinnar. Eftir nánast stöðuga stjórn Sjálfstæðisflokksins á menntamálaráðuneytinu í tvo áratugi hefur menntakerfið hnignað. Háskólastigið býr við fjársvelti og gríðarlegan húsnæðisskort. Íslendingar hafa sakir þessa dregist verulega aftur úr öðrum vestrænum þjóðum í menntamálum. Íslendingar ljúka framhaldsskólaprófi langelstir allra OECD þjóða, að meðaltali tveimur árum á eftir öðrum þjóðum. Íslendingar hafa hærra hlutfall einstaklinga sem einungis hafa grunnskólapróf miðað við aðrar OECD þjóðir árið 1998.
Málefni ungs fólks gleymast

Menntamál eiga að vera eitt af aðalkosningamálunum í vor. Umræðu um menntun, skóla og leiðir til að bæta íslenskt menntakerfi vantar. Íslenskt samfélag færist stöðugt nær umhverfi skólagjalda. Skólagjöld mega ekki verða að íslenskum veruleika. Aðgangur að menntakerfinu sem og velferðarkerfinu á að vera fyrir alla og undir engum kringumstæðum takmarkaður af efnahag.

Ég þekki það sem nemandi í lagadeild og hagfræðideild Háskóla Íslands að ýmislegt má betur fara í menntakerfinu. Nauðsynlegt er að stórbæta námslánakerfið og minnka fórnarkostnaðinn við að vera í námi. Til að menntakerfið verði öflugt þurfum við öfluga málsvara menntunar á Alþingi.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband