Sjálfstæðisflokkur-flokkur skattahækkana

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, lýsti mikilli ánægju með þær skattalækkanir sem hann taldi Davíð Oddsson hafa staðið fyrir í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir stuttu. Þetta er mikill misskilningur.
Báknið hefur stækkað
Það er margt þjóðsagnarkennt um meintar skattalækkanir á áratugi Davíðs Oddssonar. Þegar málin eru skoðuð kemur margt forvitnilegt í ljós. Heildarskatttekjur ríkisins, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá 1995 til 2001, hafa hækkað úr 25,3% í 29,4% sem er um 16% hækkun. Þetta þýðir að af hverjum 100.000 krónum sem verða til í þjóðfélaginu tók ríkið áður 25.000 krónur í skatt, en tekur nú um 29.000 krónur.
Þessi skattahækkun samsvarar því að hver Íslendingur borgar rúmlega 110.000 krónum meira á ári til ríkisins. Það gerir 440.000 krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Samneyslan, þ.e. neysla opinberra aðila, var 20,8% af landsframleiðslunni árið 1995 en 23,6% árið 2001. Báknið hefur því aldrei verið stærra.
Skattbyrðin hefur aukist
Eins og hefur komið fram, t.d. í fréttaskýringum DV, hefur skattbyrði einstaklinga aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar en ekki minnkað, m.a. vegna þess að persónuafslátturinn hefur ekki fylgt launa- og verðlagsþróun eins og hann gerði áður en Davíð Oddsson komst til valda. Skattleysismörk væru nú um 7.000 krónum hærri á mánuði ef þau hefðu fylgt launabreytingum frá 1995. Þessi aukna skattbyrði er ekki vegna sveitarfélaganna þar sem meginskýringin á auknum hlut útsvars í heildarskattbyrðinni er vegna verkefna sem ríkisstjórnin flutti til sveitarfélaganna eins og grunnskólana.
Skattbyrðin hefur aukist enn meira ef litið er til skerðinga ríkisstjórnarinnar á vaxta- og barnabótum. Barnabætur hafa lækkað um 10 milljarða króna í tíð núverandi ríkisstjórnar miðað við það fyrirkomulag sem var áður. Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 2001 greiddi láglaunafólk og lífeyrisþegar með laun og bætur undir 90 þúsund krónum á mánuði um 1 milljarð króna í tekjuskatt og útsvar. Þessi hópur greiddi ekki tekjuskatt og útsvar fyrir tíma Davíðs Oddssonar.
Lækkun á prósentutölu segir ekki alla söguna. Tekjuskattar á fyrirtæki er nú 18% en lækkaði ekki í raun á síðasta áratug. Þar sem tekjuskattur fyrirtækja er greiddur eftir á var skatthlutfallið lagað að minnkandi verðbólgu og skattstofninn breikkaður með afnámi frádráttarheimilda. Í 4. tbl. fréttabréfs Samtaka atvinnulífisins árið 2001 segir að ,,þegar tekið er tillit til þessara atriða kemur í ljós að engin skattalækkun átti sér stað heldur sýna þessar tölur þvert á móti að raunvirði tekjuskatts lögaðila fór heldur hækkandi á síðasta áratug."
Ríkisstjórnin hækkar og hækkar skatta
Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar við lokaafgreiðslu fjárlaga 2003 voru 3,8 milljarða króna sem m.a. birtust í um 1,8 milljaða króna hækkun á tryggingargjaldi sem kemur verst niður á þeim fyrirtækjum sem byggja afkomu sína á mannauði og hækkun á stimpilgjaldi um 900 milljón króna, en ríkisstjórnin hafði lýst því yfr að stimpilgjaldið ætti að lækka. Núverandi ríkisstjórn hækkaði sömuleiðis skatta á áfengi og tóbaki um 1,1 milljarð króna.
Fyrir utan aukna skattbyrði og skattahækkanir ríkisstjórnarinnar urðu margs konar hækkanir á þjónustu- og komugjöldum, stóraukin þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði og skólagjöld sem þekktust varla fyrir tíð núverandi ríkisstjórnar.
Ein af meginskýringum á hinu geysiháa matvælaverði á Íslandi er þáttur hins opinbera en matvæli er einn stærsti útgjaldaliður einstaklinga ásamt sköttum og húsnæði. Stjórnvöld viðhalda t.d. tollakerfi sem kostar íslenska neytendur um 3-4 milljarða króna árlega skv. nýlegri grein í Vísbendingu. Þetta samsvarar um 40.000-50.000 kr. á hvert heimili í landinu. Á tímabilinu 1990 til 2001 hefur matvælaverð hækkað langmest á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd skv. upplýsingum frá forsætisráðuneytinu.
Þeirra tími er liðinn
Málflutningur Sjálfstæðismanna í efnahagsmálum er því ekki á rökum reistur og byggist fyrst og fremst á hræðsluáróðri. Miðað við hvernig efnahagsástandið var áður en Íslendingar gerðu EES-samninginn árið 1994 og fengu aukið frjálsræði og opnara hagkerfi er vel hægt að fullyrða að allar ríkisstjórnir fyrir þann tíma hafi verið á rangri braut í efnahagsmálum, bæði hægri og vinstri stjórnir. Nú er umhverfið einfaldlega allt annað.
Samfylkingin er frjálslyndur stjórnmálaflokkur sem berst m.a. fyrir því að lækka skatta á einstaklinga og auka frelsi atvinnulífs frá afskiptum stjórnmálamanna. Þegar minna en þrír mánuðir eru til kosninga og það hallar mikið á Sjálfstæðisflokkinn í skoðanakönnunum boðar forsætisráðherra skattalækkanir sem hann er búinn hafa 12 ár til að framkvæma. Reynsla undanfarinna 12 ára sýnir þó hver er hinn raunverulegi flokkur skattahækkana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband