Rödd nýrrar kynslóðar heyrist á Alþingi

Í dag, laugardaginn 9. nóvember fer fram flokksval Samfylkingarinnar í Reykjavík þar sem 13 frambjóðendur takast á um 8 sæti.

Ég hef lagt áherslu að nauðsyn þess að endurnýjun eigi sér stað á Alþingi. Nú er 80% þingheims á afar þröngu aldursbili og er enginn þingmaður undir 36 ára aldri. Þetta er einsdæmi í allri Evrópu. Notum tækifærið sem felst í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík og yngjum upp og endurnýjum í þingliði flokksins. Samfylkingin á að vera flokkur breiddarinnar. Samfylkingin á að vera flokkur ungs fólks, flokkur framtíðarinnar.

Óæskileg aldursskipting Alþingis
Óæskileg aldursskipting Alþingis hefur haft áhrif og hefur m.a. birst í sinnuleysi þingmanna gagnvart ýmsum málaflokkum sem einkum og sér í lagi snerta ungt fólk, s.s. mennta-, húsnæðis-, skatta- og alþjóðamál. Það er mikil þörf á málsvara menntunar á Alþingi enda er víða pottur brotinn þar. Hugfarsbreyting gagnvart menntun þarf að eiga sér stað og stórauka þarf forgang menntunar í íslenskum stjórnmálum.
Frjálslynd jafnaðarstefna
Hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu er tvímælalaust ein stærsta pólitíska spurning samtímans. Ég hef verið jákvæður gagnvart aðild Íslands að ESB enda er ég sannfærður um að lífskjör Íslendinga batni við inngöngu, með lægra matvælaverði, lægri vöxtum, minni viðskiptakostnaði, aðhaldi í ríkisfjármálum og auknum áhrifum á löggjöf landsins.

Frjálslynd jafnaðarstefna hefur verið rauður þráður í minni hugmyndafræði. Við eigum að leyfa einstaklingum og fyrirtækjum að njóta sín til fulls á sama tíma og við hlúum að öflugu velferðarkerfi. Árangursrík efnahagsstefna tekur mið af að efla menntun mest allra þátta, auka sveigjanleika, efla lítil og meðalstór fyrirtæki, ryðja burtu viðskiptahindrunum og stuðla að réttlátu skattkerfi.
Stjórnmál snúast um forgangsröðun
Stjórnmál eru ætíð spurning um forgangsröðun. Ísland er fimmta ríkasta land í heimi. Við eigum ekki að líða fátækt hér á landi, hvað þá fátækt vegna örorku. Ég vil sjá öflugt velferðarkerfi þar sem engin réttindi eru án ábyrgðar. Við eigum ekki að hræðast nýjar leiðir í velferðarkerfinu svo fremi sem markmið jafnaðarstefnunarinnar um jafnan aðgang að velferðarkerfinu óháð efnahag er algjörlega tryggt. Það er markmiðið sem skiptir máli en ekki leiðirnar að því.
Á sama tíma og ég vil þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóg í prófkjörsbaráttu minni vona ég að þú stuðlir að aukinni breidd og nauðsynlegri endurnýjun í þingflokki Samfylkingarinnar með því að treysta mér fyrir 4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Kjósum rödd nýrrar kynslóðar á þing.
Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík er kl. 11-22 laugardaginn 9. nóvember í Þróttarheimilinu við gervigrasvöllinn í Laugardal, á móti Laugardalshöllinni. Allir sem eru í Samfylkingunni eða skrá sig í hana hafa atkvæðisrétt. Munum eftir skilríkjunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband