Á ferð og flugi í sumar

Það er stundum sagt að sumarhlé þingmanna sé alltof langt en það er tæpir fimm mánuðir. Það er vel hægt að taka undir þá gagnrýni og hef ég oft talað fyrir því á Alþingi að þessu þurfi að breyta. Það er mun skynsamlegra að stytta sumarhlé og jólahlé Alþingis og vinna þá frekar í styttri en lengri lotum. En breytingar í þessa átt hafa ekki átt upp á pallborðið hjá þeim sem ráða meirihluta þingsins.
Fundur í Neskaupstað
Á þessum langa tíma hef ég reynt að nota tímann vel og m.a. farið í nokkrar ferðir út á land. Fyrr í sumar heimsóttum við Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ásamt þingmönnum kjördæmisins, Kristjáni L. Möller og Einari Má Sigurðarsyni, nokkra staði í Norðausturkjördæmi. Við heimsóttum fyrirtæki og stofnanir í Reyðarfirði, Eskifirði og Norðfirði. Síðan héldum við vel heppnaðan fund með flokksfólki í Neskaupstað þar sem málin voru rædd.
Farið um Vesturland
Ég fór sömuleiðis í mjög áhugaverða ferð á vegum heilbrigðis- og tryggingarnefndar Alþingis um Vesturland og Vesturfirði í sumar. Nefndin var í þeim erindagjörðum að skoða heilbrigðisstofnanir á svæðinu en óneitanlega gefur það manni oft aðra og betri innsýn að heimsækja fólk heldur en að heyra í þeim símleiðis eða í gegnum tölvupóstinn.

Byrjað var að heimsækja Akranes en þar heimsóttum sjúkrahúsið og heilsugæsluna. Það er ljóst að mjög faglega er staðið að allri vinnu á SHA og geta höfuðborgarbúar og aðrir búist við góðri þjónustu þar leiti þeir þangað. Svo heimsóttum við heilsugæsluna í Borgarnesi þar sem starfsfólkið bar sig vel þrátt fyrir hriplek húsakynni. Svo var stefnan tekin á St. Franciskusspítala á Stykkishólmi og fengum við góða og ítarlega kynningu þar. Saga þessa spítala er stórmerkileg og ber húsnæðis þess merki.
Vestfirðir heimsóttir
Á Stykkishólmi var gist en daginn eftir var lagt af stað fyrir klukkan sjö og var stefnan tekin á Brjánslæk. Við sigldum yfir Breiðafjörðinn í talsverðu roki og öldugangi. Eftir tæpa tvo tíma náðum við landi í Brjánslæk og keyrðum til Patreksfjarðar. Á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar mátti skynja mikla fagmennsku hjá starfsfólki. Þá var haldið til Þingeyrar og á hina vinalegu heilsugæslustöð sem þar er. Að því loknu fórum við til Bolungarvíkur og ræddum við starfsfólkið þar sem augljóslega leggur mikinn metnað í starf sitt. Að síðustu var farið á Heilbrigðisstofnun Ísafjarðarbæjar sem er þungavigtarstofnun í íslensku heilbrigðiskerfi.

Á öllum þessum stöðum var tekið mjög vel á móti okkur. Sum staðar var fólk mjög bjartsýnt en annars staðar mátti skynja erfiðleika. Það er ljóst að á fámennari stöðum úti á landi er starfsfólk í heilbrigðiskerfinu oft að vinna kraftaverk við erfiðar aðstæður.
Ný jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar
Í síðustu viku voru jarðgöng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar opnuð en af því tilefni fórum við Ingibjörg Sólrún ásamt þingmönnum kjördæmisins austur. Við nýttum tækifærið og héldum fund á Stöðvarfirði og á Seyðisfirði. Sömuleiðis heimsóttum við nokkra vinnustaði og ræddum við heimafólk.

Mikill uppgangur er í Fjarðabyggð vegna álversframkvæmdanna en hljóðið er þyngra hjá fólkinu sem býri í fjörðunum fyrir sunnan Fjarðabyggð og má þar nefna Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík. Ljóst er að hin svokölluðu jaðarsvæði á landsbyggðinni eiga við margs konar vanda að etja.
Líf og fjör á Stokkseyri
Þingflokkurinn allur heimsótti síðan Stokkseyri í sumar og kom það skemmtilega á óvart það mikla úrval af afþreyingu og menningu sem þar er að finna. Óhætt er að mæla með góðum fjölskyldubíltúr á Stokkseyri þar sem allt er til staðar fyrir fjölskylduna.
Eyjar og Hólmavík heimsótt
Ég fór einnig nokkrar aðrar ferðir út á land og má þar nefna skemmtilega ferð á Hólmavík. Hólmavík er skemmtilegur bær og vakti galdrasafnið sérstaka lukku. Sömuleiðis fór ég til Vestmannaeyja og í Borgarfjörðinn þar sem dvalist var í góðum félagsskap.
Það er því ljóst að hið langa sumarhlé þingsins hefur veitt mér kærkomið tækifæri til þess að ferðast um landið þar sem ég hef fengið að komast í kynni við hina ýmsu flokksfélaga.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband