Nauðsynleg endurnýjun Alþingis

Töluverð umræða hefur verið undanfarið um aldursskiptingu Alþingis og um nauðsyn á endurnýjun í stjórnmálaflokkunum. Í því sambandi hefur verið talað um Hrafnistuþing og að hippakynslóðin einoki löggjafarvaldið.

Þótt aldur þingmanna segi ekki allt um þá er eðlilegt að gera þá kröfu að flestir aldurshópar, hvað þá heilu kynslóðirnar, eigi fulltrúa á þingi. Um 60% af íslensku þjóðinni er undir fertugu en aðeins um 6% þingmanna eru undir þeim aldri. Um 80% af þingmönnum er á aldrinum 45-59. Það má því segja að þingmenn þjóðarinnar séu flestir af sömu kynslóðinni. Á hinum Norðurlöndum er að finna tvítuga þingmenn og ráðherra undir þrítugu. Á Alþingi er yngsti þingmaðurinn hins vegar að nálgast fertugt. Á danska þinginu eru hins vegar rúmlega 20% þingmanna undir 35 ára.
Endurspeglar ekki þjóðina
Aldursskiptingin á Alþingi er óæskileg þar sem hún endurspeglar ekki þjóðarina. Aldursskiptingin er einnig óheppileg þar sem hún birtist oft í sinnuleysi þingsins gagnvart málum sem varða einkum ungt fólk eins og í mennta-, húsnæðis- og skattamálum. Vitaskuld er það ekki svo að hinir eldri beini sjónum sínum einvörðungu að fólki á sama aldri en það verður ekki framhjá því litið að það er ekki til að auka líkurnar á því að málefni ungs fólks séu ofarlega á baugi ef enginn þingmaður er undir 36 aldri á Alþingi. Sama á við um málefni eldri borgara en nú er einungis einn þingmaður yfir 66 ára aldri.

Menntamál eru málefni sem gripið er til á hátíðarstundum en málefnalega umræðu um menntun, skóla og leiðir til að bæta íslenskt menntakerfi vantar. Til að menntakerfið verði öflugt þurfum við öfluga málsvara menntunar á Alþingi. Það þarf að setja menntamál í algjöran forgang enda hafa Íslendingar dregist verulega aftur úr öðrum vestrænum þjóðum í menntamálum, m.a. vegna áhugaleysis þingmanna.

Húsnæðismál eru mikið vandamál hjá mörgum, ekki síst yngra fólk sem er að koma sér upp sínu fyrsta húsnæði. Ástandið á leigumarkaði er erfitt, leiga er dýr og leigumarkaðurinn er ótryggur. Þetta veit ungt fólk. Sumir þingmenn virðast hins vegar ekki vera með þetta á hreinu samanber ummæli Páls Péturssonar félagsmálaráðherra um hið lága leiguverð sem enginn kannaðist við. Formaður Ungra framsóknarmanna sá sig meira að segja knúinn til að leiðrétta félagsmálaráðherrann.
Rödd nýrrar kynslóðar
Hin gleymda kynslóð hefur alist upp við allt annað samfélag en kynslóð foreldra sinna. Heimurinn hefur gjörbreyst undanfarin 15 ár. Viðhorf yngri kynslóða er oft töluvert öðruvísi en skoðanir eldri kynslóða. Ýmsir málaflokkar haldast því frekar í hendur við aldur en flokkadrætti og er hægt að nefna viðhorf yngri kjósenda til réttinda samkynhneigðra, aðskilnað ríkis og kirkju, áherslu á menntamál og frumkvöðlastarfsemi, og landið sem eins kjördæmis.

Þegar litið er til nágrannalanda okkar sést berlega að staðan á Íslandi er óeðlileg. Við búum við einsleitt þing en það getur ekki verið af hinu góða. Á danska þinginu eru til að mynda 40% þingmanna undir 45 ára aldri en hérlendis er talan 14%. Alþingi verður að vera í takti við þjóðina. Það vantar því nauðsynlega rödd nýrrar kynslóðar á Alþingi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband