Röng stefna ríkisstjórnarinnar í Íraksmálinu

Vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar er Ísland eitt af 30 ríkjum sem styðja stríðið gegn Írak með ótvíræðum hætti í upphafi átakanna. Það er sorglegt að íslenska ríkisstjórnin skuli með þessum hætti gera okkur að þátttakendum í stríði sem flestir þjóðréttarfræðingar telja vera ólögmætt.
Það var hugsanlega hægt að leysa deiluna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og ýmislegt benti til þess að skriður væri kominn á málið. Það er hins vegar ljóst að ekki var áhugi fyrir friðsamlegri lausn hjá stríðandi öflum. Markmið Sameinuðu þjóðanna og ályktun þeirra var um afvopnun Íraks en stríðið er hins vegar háð til að koma Saddam frá völdum þótt engin ályktun hafi verið gerð um slíkt. Bandaríkjaforseti setti aðeins eitt skilyrði sem hann taldi duga til að koma í veg fyrir stríð. Það var að Saddam Hussein færi frá völdum.
Mikil afturför í alþjóðasamskiptum
Þróun Íraksmálsins er mikil afturför og minnir á ástand heimsmála í upphafi 20. aldar þegar ekkert alþjóðlegt samkomulag var til og hinn sterki fékk sínu fram. Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar hófst lengsta friðartímabil í sögu Evrópu sem byggðist fyrst og fremst á samvinnu þjóðanna innan Evrópusambandsins, á félagslegum umbótum og alþjóðaviðskiptum. Í Íraksmálinu var hins vegar ákveðið að fara aðra leið, leið vopnavaldsins.
Átökin í Írak hafa rofið einstaka samstöðu þjóða heims gegn hinni raunverulegri ógn sem eru hryðjuverk. Eftir 11. september stóðu nær allar þjóðir saman í baráttunni gegn hryðjuverkum. Nú er sú barátta í uppnámi og bandalög hafa klofnað vegna Íraksmálsins.
Eðlismunur á Írak og Kosovo
Stjórnmálamenn verða að reyna til hins ítrasta að komast að friðsamlegri lausn í alþjóðadeilum. Í Íraksmálinu var það ekki gert. Stríð er alltaf neyðarúrræði en það er úrræði engu að síður. Í Kosovo var alþjóðasamfélagið búið að reyna að komast að friðsamlegri lausn en niðurstaðan varð því miður að friðsamleg lausn var ekki fær. Því var skylda alþjóðasamfélagsins að grípa þar inn í með vopnavaldi.
Sumir Sjálfstæðismenn telja sig sjá einhverja samsvörun í stríðinu í Írak og í átökunum í Kosovo. Þessar aðgerðir eru hins vegar engan veginn sambærilegar. Í Kosovo var um að ræða fjöldamorð í beinni útsendingu, skipulagðar hópnauðganir og flóttamenn streymdu yfir landamærin. Alþjóðlegar stofnanir eins og NATO og ESB stóðu heil að aðgerðunum í Kosovo. Öll nágrannaríki Serbíu studdu þær inngrip ásamt á annað hundrað þjóðríkja. Stríðið í Kosovo var háð á grundvelli alþjóðlegs bandalags af mannúðarástæðum þegar öll önnur sund voru lokuð.
Í Írak er allt annað uppi á teningnum. Minnihluti þjóða heims styður stríðið gegn Írak sem er háð í mikill óþökk flestra nágrannaríkja Íraks. Almenningur í langflestum ríkjum er algjörlega andvígur stríðinu. Afvopnunareftirlit Sameinuðu þjóðanna var í fullum gangi þegar Bandaríkjamenn ákváðu að fara í stríðið. Engar alþjóðlegar stofnanir standa að baki stríðinu. Um er að ræða einhliða hernaðaraðgerðir nokkurra þjóða. Ef Ísland vill taka þátt í slíkum aðgerðum eigum við að gera það á vegum NATO og Sameinuðu þjóðanna en ekki fara út fyrir alþjóðastofnanir eins og íslensk stjórnvöld hafa nú gert. Vegna smæðar Íslands og herleysis eiga fáar þjóðir jafnmikið undir því að þjóðarréttur og alþjóðastofnanir séu virt.
Þennan mun á átökunum í Kosovo og í Írak hafa langflestar þjóðir Evrópu skilið s.s. Þjóðverjar, Frakkar, Belgar, Norðmenn, Grikkir o.s.frv. sem studdu aðgerðirnar í Kosovo en eru andvíg stríðinu í Írak. Þennan mun skilur Samfylkingin einnig. Við styðjum ekki Bandaríkin skilyrðislaust í hernaði þótt Bandaríkin séu ein helsta samstarfsþjóð Íslendinga í marga áratugi. Samfylkingin er vinveitt Bandaríkjunum og hún harmar þessa óskynsamlega stefnu vinaþjóðar.
Drögum ríkisstjórnina til ábyrgðar
Það er að sjálfsögðu enginn að tala máli Saddam Husseins enda er hann hinn mesti harðstjóri sem ber að koma frá völdum. Það var hins vegar ekki fullreynt að leysa málið á friðsamlegan hátt. Íslendingar eiga a.m.k. ekki að stuðla að hinu gagnstæða eins og íslenska ríkisstjórnin gerði með stuðningsyfirlýsingu sinni við stríðið.
Ísland er fyrsta ríkið af þessu 30 ríkjum á sérstökum stuðningslista stríðsins sem heldur þingkosningar. Hvort sem stríðið verður stutt eða langt skulum við sýna það í verki, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir umheiminn, að íslenskur almenningur gleymir þeim ekki sem gerðu þjóðina að þátttakanda í þessu ólögmæta stríði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband