Valkostur ungs fólks

Framundan eru spennandi kosningar til Alþingis. Samfylkingin hefur aukið fylgi sitt undanfarin misseri og mælist nú í síendurteknum skoðanakönnunum sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Innan Ungra jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, hefur verið unnið hörðum höndum undanfarið ár. Þegar núverandi framkvæmdastjórn tók við völdum fyrir rúmlega ári síðan voru aðeins til 3 virk aðildarfélög í Ungum jafnaðarmönnum. Nú stefnir í að þau verði orðin 11 talsins um allt land áður en starfsárinu lýkur. Til eru orðin landssamtök Ungra jafnaðarmanna.

Skýrar línur í pólitíkinni
Það skiptir máli hvað ungt fólk kýs í stjórnmálum. Það eru skýrar línur í pólitíkinni nú. Ungir sjálfstæðismenn hafa ályktað að hækka skuli verulega skólagjöld í Háskóla Íslands og leggja niður Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirlitið, Íbúðalánasjóð og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þessu hafna Ungir jafnaðarmenn algjörlega.
Landsþing Ungra jafnaðarmanna verður haldinn helgina 24.-26. janúar á Selfossi, en þar er einmitt eitt nýstofnaðra félaga hreyfingarinnar. Á landsþinginu mun fara fram málefnavinna, undirbúningur fyrir Alþingiskosningar í maímánuði og kosning stjórnar Ungra jafnaðarmanna en frekari upplýsingar má finna á politik.is. Heiðursgestir landsþingsins verða Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég hvet ungt fólk til að koma á landsþingið og kynnast kraftmiklu starfi Ungra jafnaðarmanna.
Landsþing 24.-26. janúar á Selfossi
Landsþing Ungra jafnaðarmanna á Selfossi mun snúast um að marka skýra valkosti fyrir ungt fólk í komandi kosningum. Ungir jafnaðarmenn telja að heildstæða fjölskyldu- og neytendastefnu hafi vantað lengi. Ungir jafnaðarmenn álíta það ekki vera náttúrulögmál að Íslendingar þurfi að greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi. Fórnarkostnaður við að vera í námi hækkar stöðugt ásamt því að þrýstingur á skólagjöld eykst. Skólagjöld leikskóla eru sömuleiðis komin algjörlega úr böndunum og félagslega nauðsynlegar tómstundir hafa orðið að forréttindum á grunnskólastigi.
Þjónustugjöld á opinberri þjónustu hafa rokið upp úr öllu valdi síðastliðinn áratug án þess að þjónusta hafi aukist að sama skapi. Lyfjakostnaður venjulegs fjölskyldufólks getur hæglega sligað fjárhag heimilis, hvað þá fyrir öryrkja og aldraða. Húsnæðiskostnaður ungs fólks hefur sjaldan verið meiri og leiguverð hefur rokið upp m.a. vegna aðgerða stjórnvalda. Vaxtakostnaður er með því hæsta sem gerist í vestrænum heimi og skattbyrði einstaklinga hefur aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar. Jaðarskattar ungs fólks, s.s. þeirra sem eru að koma sér upp húsnæði og fjölskyldu og greiða niður námslán eru allt of háir. Skuldasöfnun heimilanna er í sögulegu hámarki og verðtrygging lána kemur aftan að mörgum.
Þessu vilja Ungir jafnaðarmenn breyta og því munu þeir hittast á Selfossi næstkomandi helgi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband