Róttækar breytingar í barnarétti og nýtt barnatryggingarkerfi

Nefnd sem ég leiddi um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum skilaði af sér skýrslu í dag. Nefndin var skipuð í nóvember 2007 af félags- og tryggingamálaráðherra í samræmi við þingsáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Verkefni hennar var að fjalla um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra og um réttarstöðu stjúpforeldra. Hluti verkefnisins fólst í því að kanna fjárhagslega og félagslega stöðu þessa hóps.

Í nefndinni áttu sæti fulltrúar þriggja ráðuneyta ásamt fulltrúum sveitarfélaga, fagaðila og hagsmunasamtaka.

Nefndarmennirnir eru í megindráttum sammála um efni tillagnanna en í sumum tilvikum hafa einstakir nefndarmenn fyrirvara eða ólíkar skoðanir. Helstu tillögur eru raktar hér en í skýrslunni er gerð grein fyrir afstöðu nefndarmanna til einstakra tillagna.

Helstu tillögur sem varða sifjamál og félagslega stöðu barna
• Dómurum verði veitt heimild til að dæma foreldrum sameiginlega forsjá barns gegn vilja annars foreldris sé það talið þjóna hagsmunum barnsins.
• Maður sem telji sig vera föður barns geti höfðað ógildingar/vefengingarmál þegar um feðrað barn er að ræða.
• Afnumið verði gildandi fyrirkomulag sem felur í sér að taki fráskilið foreldri með barn upp sambúð á nýjan leik fær makinn sjálfkrafa forsjá yfir barninu. Þess í stað þurfi viðkomandi að sækja um forsjá.
• Tekin verði upp sú meginregla að forsjárlausir foreldrar hafi sama rétt til aðgangs að skriflegum upplýsingum um barn sitt og það foreldri sem fer með forsjána.
• Sýslumenn fái rýmri heimild til að úrskurða um umgengni barna við afa sína og ömmur til að börn njóti aukinna möguleika til umgengni við þau. Einnig að barn eigi rétt á umgengni við stjúpforeldri og sýslumenn fái heimild til að úrskurða um umgengni við stjúpforeldri eftir skilnað eða sambúðarslit við foreldri.
• Sýslumenn og dómarar fái heimild til að ákveða umgengni 7 af 14 dögum.
• Bæta þurfi málsmeðferð umgengnismála hjá sýslumönnum og opna fyrir heimild foreldra til að reka mál sem eingöngu snýst um umgengni fyrir dómstólum.
• Báðir foreldrar beri almennt kostnað af umgengni.
• Endurskoðun barnalaga og tryggja að unnt verði að grípa til skilvirkari úrræða vegna tilefnislausra umgengnistálmana.

Nýtt kerfi barnatrygginga til að útrýma barnafátækt
Nefndarmenn mæla til að tekið verði upp nýtt kerfi barnatrygginga sem komi í stað barnabóta, mæðra- og feðralauna, barnalífeyris og viðbótar við atvinnuleysisbætur vegna barna. Samkvæmt útreikningum myndi nýja kerfið ekki auka útgjöld ríkisins en árlegur kostnaður þess nemur um 14 milljörðum króna.

Markmiðið er að útrýma fátækt barnafjölskyldna. Miðað er við að öllum barnafjölskyldum verði tryggð ákveðin upphæð til lágmarksframfærslu óháð því hvaðan tekjur fjölskyldunnar koma. Barnatryggingar yrðu allar tekjutengdar og myndu skerðast hjá fólki með tekjur umfram meðalráðstöfunartekjur. Hagur tekjulágra hópa, sérstaklega atvinnulausra og láglaunafólks myndi batna og kerfið myndi nýtast vel barnmörgum fjölskyldum.

Barnatryggingar myndu tryggja öllum foreldrum upp að lágtekjumörkum 40 þús. kr. greiðslu fyrir hvert barn. Með því móti er grunnframfærsla allra barna tryggð. Skerðingarmörkin yrðu 146 þús. kr. hjá einstæðum foreldrum og 252 þús. kr. hjá hjónum sé miðað við tekjur fyrir skatt.

• Í núgildandi kerfi fær einstætt foreldri undir skerðingarmörkum og með eitt barn 21.143 kr. í tekjutengdar barnabætur en í hinu nýja barnatryggingarkerfi fengi foreldri undir skerðingarmörkum 40.000 kr.
• Dæmi um einstætt foreldri með tvö börn sem er með 251.266 kr. tekjur fyrir skatt fær í núverandi kerfi 42.051 kr. en fengi í hinu nýja barnatryggingakerfi 63.730 kr. á mánuði eða um 22.000 kr. hærri upphæð á mánuði.
• Hjón með tvö börn og 422.914 kr. í tekjur fyrir skatt fá núna 22.505. kr. en fengju 42.955 kr. eða 20.450 kr. meira í hverjum mánuði.
• Í núgildandi kerfi fær einstætt foreldri sem er með 728.973 kr. í tekjur fyrir skatt og eitt barn 10.147 kr. í barnabætur á mánuði en í nýja barnatryggingakerfinu fengi viðkomandi engar barnatryggingar enda er verið að færa fjárhæðir barnabóta til þeirra hópa sem þurfa hvað mest á þeim að halda.

Tillögur um fræðslu og ráðgjöf til barnafjölskyldna
• Tryggt verði gott aðgengi að fjölskylduráðgjöf. Allir foreldrar fái upplýsingar um réttindi og skyldur sem fylgja því að fara með forsjá barns.
• Þeir aðilar sem hyggjast slíta sambúð eða hjúskap með börn verði skyldaðir að fara í viðtöl til að fá fræðslu og ráðgjöf hjá fagaðila um samskipti eftir skilnað óháð því hvort þeir eru sammála eða ekki.
• Stjúpfjölskyldum verði veittur fræðsla og stuðningur.
• Komið verði á netsíðu í samstarfi við viðeigandi félagsamtök með upplýsingum um mismunandi fjölskyldugerðir.

Nýjar upplýsingar í skýrslunni
Nefndin fékk Hagstofu Íslands til að gera rannsókn á tekjum og efnahag barnfjölskyldna s.s. eftir eignum og skuldum eftir sambúðarstöðu foreldra og eftir því hvar börn þeirra búa. Samkvæmt þeirri aðferð (I) sem Hagstofan mælir með að stuðst sé við kemur fram að miðgildi ráðstöfunartekna er hæst hjá foreldrum sem búa saman. Næstir í röðinni koma einstæðir feður án barna, einstæðir feður með börn, einstæðar mæður með börn og lægstar ráðstöfunartekjur hafa einstæðar mæður án barna. Sé stuðst við aðra aðferð (II) sem Hagstofan mælir einnig með breytist röðin lítilega en þá er miðgildi ráðstöfunartekna hæst hjá foreldrum sem búa saman. Næstir í röðinni koma einstæðir feður með börn, þá einstæðar mæður með börn, einstæðir feður án barna og lestina reka einstæðar mæður án barna.

Í skýrslunni eru einnig birtar nýjar niðurstöður rannsóknar Sigrúnar Júlíusdóttur á reynslu foreldra af sameiginlegri forsjá foreldra með börnum sínum eftir skilnað tímabilið júlí 2006 – júlí 2008. Þar kemur m.a. fram að 92% barna eiga lögheimili hjá móður en 8% hjá föður. 24% umræddra barna dvelja jafnt hjá báðum foreldrum og var hið svokallaða viku og viku fyrirkomulag algengast þar. Um 77% foreldra eru mjög eða frekar hlynnt því að dómari geti dæmt sameiginlega forsjá og 96% þeirra eru mjög eða frekar hlynntir því að foreldri grípi til formlegra aðgerða með því að leita til yfirvalda ef annað foreldri tálmar samvistum við barn.

Nefndin ákvað einnig að kalla eftir svörum frá sveitarfélagum um þjónustu þeirra gagnvart mismunandi fjölskyldugerðum og liggja þau svör fyrir í skýrslunni.


Tímamót á þingi

Mikil tímamót áttu sér stað á Alþingi í dag. Þingheimur samþykkti að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna yrði lögfestur. Með þessu mikilvæga skrefi verður Ísland eitt af fáum ríkjum heims sem lögfestir barnasáttmálann.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er einn af grundvallarsáttmálum mannkyns og munu réttindi íslenskra barna því aukast til muna við lögfestinguna. Þá munu íslenskir dómstólar þurfa að taka mið af barnasáttmálanum sem sett lög en dómaframkvæmd sýnir að barnasáttmálanum er sjaldan beitt hér á landi.

Málið fjallar einnig um endurskoðun í ljósi barnasáttmálans á allri löggjöf sem snertir börn hér á landi og erum við því að taka mikið framfaraskref með samþykkt þessa máls.

Þessi samþykkt er einnig viss tímamót þar sem hér er á ferðinni þingmannamál en ég flutti þetta mál fyrst fyrir þremur árum. Mér er það minnistætt þegar mér tókst fyrir nokkrum misserum að koma öðru þingmannamáli í gegnum þingið þegar við afnámum fyrningarfrest í kynferðisafbrotum gegn börnum. Þá settum við Ísland einnig í sérflokk þegar kemur að málaflokki barna og fjölskyldna.

Þessi tvö mál skipta miklu máli enda snerta þau grundvallarhagsmuni barna í okkar samfélagi. Ég get því yfirgefið þingið afar sáttur.


Sækist ekki eftir endurkjöri til Alþingis

Nýliðna helgi ræddi ég við formann Samfylkingarinnar og skýrði henni frá því að ég hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri til Alþingis í kosningunum í vor. Af þeirri ástæðu greindi ég henni jafnframt frá því að ég myndi ekki sækjast eftir ráðherraembætti vegna þeirra breytinga sem fyrir lágu. Við áttum gott samtal og vorum sammála um að rétt væri að bíða með að tilkynna um ákvörðun mína, þar til niðurstaða væri fengin um það hvort ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks yrði framhaldið. Á þeim tímapunkti var enn ekki ljóst hver niðurstaðan yrði í þeim efnum. Nú liggur það fyrir og tel ég því rétt að greina frá þessari ákvörðun minni.

Ákvörðun af þessum toga á sér auðvitað nokkurn aðdraganda. En þegar sú staða kom upp að þingkosningum yrði flýtt og að framundan væri nýtt fjögurra ára kjörtímabil, var ekki hjá því komist að við hjónin gerðum upp hug okkar til framtíðarinnar. Við höfum um nokkra hríð haft hug á því að halda utan í framhaldsnám og höfðum við upphaflega ráðgert að söðla um í lok þessa kjörtímabils. Sá tímapunktur ber nú að nokkru fyrr en við hugðum, en við erum ákaflega sátt við þessa ákvörðun.

Ólíkt þeim sem hætta á þingi á efri árum, þá lít ég ekki á þessar málalyktir sem svo, að ég sé alfarið hættur að taka þátt í stjórnmálum. Ég hyggst beita mér af fullum þunga á Alþingi fram til kosninga og vitaskuld starfa áfram í Samfylkingunni. Ákvörðun mín felur það þó í sér að ég mun láta af embætti varaformanns Samfylkingarinnar á næsta landsfundi flokksins.

Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef átt í samskiptum við í störfum mínum undanfarin ár, samstarfsfélögum og stuðningsfólki. Að lokum óska ég nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í þeim erfiðu verkefnum sem bíða hennar.


Allt að gerast í Evrópumálum flokkanna

Þessi formlega opnun formanns Framsóknarflokksins á ESB aðild er mjög ánægjuleg. Í raun er hann að fylgja í fótspor þingflokksins en þetta verður þó teljast vera stefnubreyting hjá formanninum.

Það var einnig ánæjulegt að heyra í gær að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að setja Evrópumálin á dagskrá og ljúka þeirri athugun fyrir febrúarbyrjun. Þetta er mikilvægt skref.

Ég spái því að eftir þessar 10 vikur sem eru til stefnu verði Sjálfstæðisflokkurinn kominn með aðildarumsókn að Evrópusambandinu á stefnuskrá. Sú afstaða mun valda straumhvörfum í íslenskri pólitík. Afstaða Samfylkingarinna er skýr og með því að Sjálfstæðisflokkurinn opni á aðild er landslagið í íslenskum stjórnmálum gjörbreytt.

Ég hef sagt að það sé raunhæfur möguleiki á að komast í ESB innan árs en mjög skömmu eftir aðild gætum við farið í ERM II sem er í reynd nokkurs konar biðstofa fyrir evru. Innan þess samstarfs myndi Seðlabanki Evrópu hjálpa okkur að halda gengi krónunnar stöðugu þar til evran tæki við. Ég trúi því að þetta væri er hluti af lausn vandans og myndi stytta kreppuna til muna.


mbl.is Guðni vill skoða ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IMF er málið

Æ fleiri aðilar telja að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) hljóti að koma sterklega til greina á þessari stundu. Þótt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ekki aðstoðað iðnríki með slíkum hætti áður, er margt sem mælir með slíkri aðstoð. Með því fengist aukinn trúverðugleiki á alþjóðavettvangi sem er gríðarlega mikilvægt á þessari stundu.

Aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum myndi tryggja fólki og fyrirtækjum eðlilegan aðgang að lánsfé og gjaldeyri og jafnframt auka líkurnar á aðstoð annarra ríkja. Aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins myndi jafnframt tryggja greiðslumiðlunarkerfið sem er forsenda allra viðskipta. Í mínum huga er ekki ástæða til að ætla að skilyrði sjóðsins verði okkur of íþyngjandi, en auðvitað má ekki kaupa aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins of dýru verði. Núverandi ástand er hins vegar orðið ansi dýrkeypt.


mbl.is Rússar vilja meiri upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GB á að skammast sín

Skaðinn af milliríkjadeilunni við Bretland er skelfilegur, en framkoma Breta er með ólíkindum í þessu máli. Og óneitanlega vekur það athygli ef lögmenn í Bretlandi velta því fyrir sér, hvernig það fái staðist að beita lögum sem miðast gegn hryðjuverkastarfsemi gegn Íslandi.

Viðbrögð breskra yfirvalda eru gróf móðgun, sem hafa og eru til þess fallin að valda gríðarlegu tjóni. Mér er til efs að Bretar myndu leyfa sér að koma fram með þessum hætti gagnvart stærri Evrópuríkjum. Það er umhugsunarefni að hér er á ferðinni ein Natóþjóð að beita hryðjuverkalögum gegn annarri Natóþjóð.

Því miður virðist sem Gordon Brown forsætisráðherra Breta hafi leyft sér að ráðast að íslensku þjóðinni til þess að beina athyglinni frá stöðunni í Bretlandi og gagnrýni á hans störf þar í landi. Megi hann hafa skömm fyrir.


mbl.is Hryðjuverkalögin skemma fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sammála hinum varaformanninum

Hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum hefur að undanförnu komið fram í Evrópu og sagt að ástandið á fjármálamörkuðum hefði verið enn verra ef ríki þeirra hefðu ekki haft evruna. Og núna koma þeir einnig fram sem segja að það hefði verið betra að vera með evruna í stað innlends gjaldmiðils í svona ástandi eins og danski forsætisráðherrann gerir nú.

Eins og staðan er núna eru mörg brýn úrlausnarefni á borði íslenskra stjórnvalda og ekki má útiloka neitt í þeim efnum. Má þar nefna aðild Íslands að Evrópusambandinu og myntbandalaginu. Í mínum huga er augljóst að íslenskan krónan mun ekki duga okkur til framtíðar. Og við höfum einfaldlega ekki efni á að geyma spurninguna um framtíðarmynt þjóðarinnar.

Það er ekki nóg með að Íslendingar þurfi að glíma við lánsfjárkreppu eins og aðrar þjóðir því í ofanálag þurfum við að kljást við íslensku krónuna og hennar dynti. Hagsmunir Íslendinga kalla því á breytt fyrirkomulag.

Ég vil því fagna orðum varaformanns hins stjórnarflokksins í nýlegri grein þar sem hún skrifar um Evrópumálin : „Hitt er ljóst að við Sjálfstæðismenn höfum ávallt sagt að stefna okkar eigi að ráðast af köldu mati á því hvar og hvernig hagsmunum Íslands er best borgið til lengri tíma. Umhverfið er nú breytt, forsendur hafa breyst. Breyttar forsendur kalla á endurnýjað hagsmunamat.“

Auðvitað á spurningin um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu að snúast um hagsmunamat. Er íslenskum heimilum og fyrirtækjum betur borgið með krónuna en þau væru ef við værum hluti af stærri heild og gjaldmiðli? Þetta er spurningin sem sérhver Íslendingur þarf að spyrja sig þessa dagana.

Þess vegna er það rétt sem Þorgerður Katrín segir þegar hún skrifar að umhverfið sé breytt og að breyttar forsendur kalli á endurnýjað hagsmunamat. Ef forsendurnar hafa ekki breyst undanfarna daga þá veit ég ekki hvað.


mbl.is Fogh Rasmussen: Ókostur að vera ekki í myntbandalaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Förum í fótspor Finna

Íslendingar ganga nú í gegnum alvarlegustu kreppu í meira en öld. Kerfisbankarnir þrír hafa allir fallið á einni viku. Mörg fyrirtæki og heimili eru í hættu. Á þessari stundu er ekki víst hvernig við munum komast út úr þessari kreppu, en ég er hins vegar sannfærður um að það tekst. Innviðir íslensk samfélags eru traustir og mannauðurinn mikill. Engu að síður er ég hræddur um ástandið muni enn versna, áður en það batnar. Það mun reyna á þjóðina sem aldrei fyrr.

Stjórnvöld þurfa að mæta þeim áföllum sem venjuleg heimili og fyrirtæki eru að verða fyrir. Aukin greiðslubyrði, aukið atvinnuleysi og vaxandi verðbólga eru staðreyndir sem þarf að bregðast við og vinna gegn af fullum þunga.

Margt þarf að gera við svona aðstæður. Lækka vexti strax, fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fyrst inn í dæmið, skipa nýja Seðlabankastjóra til að auka trúverðugleika bankans og margt fleira.

Og við þessar  aðstæður ættum við að taka frændur okkar í Finnlandi til fyrirmyndar. Þegar Finnar  gengu í gegnum alvarlega kreppu á 10. áratug síðustu aldar varð niðurstaðan sú að leggja ofuráherslu á menntakerfið. Nú þegar hafa nokkrir háskólar brugðist við með því að auka framboð af menntun, en því miður lítur út fyrir að margt ungt fólk missi atvinnu sína á næstu dögum og vikum.

Bætt laun kennara og áhersla á skóla og rannsóknir áttu stærstan þátt í því að Finnar komust tiltölulega hratt upp úr þeim mikla vanda sem þeir lentu í. Aðild þeirra að ESB hjálpaði einnig mikið. Nú er rætt um finnsku leiðina og finnska undrið og staða landsins er sterk. Við verðum að muna að jafnvel í erfiðum aðstæðum eru tækifæri.


Mikilvægt skref tekið í velferðarmálum

Eins og ég hef ítrekað skrifað á þessa síðu hafa stjórnarflokkarnir, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, tekið mörg jákvæð skref í velferðarmálum. Og nú var síðan enn eitt skrefið tekið þegar lífeyrisþegum var tryggð ákveðin lágmarksframfærslu á mánuði. Hagsmunaaðilar hafa lengi beðið eftir slíkri tryggingu og Samfylkingin lagði slíkt ítrekað til þegar hún var í stjórnarandstöðu.

Kannski finnst mörgum að 150.000 kr. lágmarksfærsla ekki há upphæð en fólk verður að hafa í huga að hækkunin nemur um 19% á síðastliðnum 9 mánuðum. Og eftir breytinguna hafa lágmarkstekjur lífeyrisþega ekki verið hærri í 13 ár.  Lágmarksframfærslutrygging hjóna verður 256.000 krónur á mánuði í stað 224.000 króna áður.

Lágmarksframfærslutryggingin hækkar árlega á sama hátt og bætur almannatrygginga og verður næsta hækkun 1. janúar 2009. Skal hækkunin taka mið af launaþróun en jafnframt skal tryggt að hækkunin sé aldrei minni en nemur hækkun neysluvísitölu. Hún er sem sagt verðtryggð sem verður nú að teljast ansi mikilvægt á tímum verðbólgu.

Þeir sem njóta mests ávinnings af þessari breytingu eru öryrkjar sem hafa lága aldurstengda örorkuuppbót. Áætlað er að tekjur rúmlega 750 örorkulífeyrisþega muni hækka um 10.000 krónur eða meira á mánuði. Hækkun til þeirra getur að hámarki numið um 16.000 krónum á mánuði.


mbl.is Lágmarksframfærslutrygging hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta kvöldið?

Einhvern veginn fannst mér hún ekki nægjanlega traustvekjandi fullyrðingin sem ég heyrði í fréttunum í dag að „flestir“ eðlisfræðingar væru sammála um að heimurinn myndi ekki farast á morgun vegna öreindatilraunarinnar í Sviss. Sé einhver vafi þá tel ég heimurinn ætti að njóta hans.

Þessi staða setur líka öll átökin á þinginu í dag og í kvöld í sérstakt ljós. Kannski hefði maður bara átt að vera heim í kvöld með sínum nánustu. En í staðinn eyði ég hugsanlega síðasta kvöldi mínu á jörðinni með Álfheiði Ingadóttur, Steingrími Joð og Jóni Bjarnasyni.


Að hitta naglann á höfuðið

Mikið var Jónas H. Haralz, fyrrverandi bankastjóri, kjarnyrtur í Silfri Egils. Hann hitti naglann á höfuðið þegar kom að Evrópumálunum þar sem hann leiddi fram hið augljósa að það sé tómt mál að þrátta um hugsanlega ESB aðild án þess að hafa staðreyndir málsins algjörlega á hreinu. Það myndi ekki gerast fyrr en í aðildarviðræðum, fyrst þá gæti íslenska þjóðin vitað með vissi hverjir kostirnir eru.

Hann nálgaðist málum að mér fannst með mjög skynsamlegum hætti og lagði á það áherslu að hann væri í sjálfu sér ekki tala fyrir aðild, heldur fyrir aðildarviðræðum. En jafnframt fannst mér áhugavert að sjá hann velta því upp hverju aðildarþjóðir myndu svara yrðu þær spurðar að því hvort þær hefðu samið af sér fullveldi. Því fer auðvitað víðsfjarri að þjóðirnar svari því játandi og ég er því fyllilega sammála að vel má halda því fram að í aðild felist jafnvel aukið fullveldi, fullgild þátttaka í alþjóðlegu samfélagi.
 
Þá var fróðlegt að heyra Jónas fjalla um efnahagsmálin en þekking hans á því sviðinu óumdeild. Hann talaði mannamál og sagði að samhæfingu og samræmingu milli ríkis og Seðlabanka hafi lengi skort. Undir það er hægt að taka.

Annars leiddi þetta viðtal huga minn að þeirri staðreynd hversu sjaldgæft er að fjölmiðlar leita til eldri kynslóða þegar kemur að álitsgjöf á þjóðmálum. Manni finnst eins og viðmælendur í erlendum fjölmiðlum séu oft eldri en hér heima og með góðu viðtali Egils Helgasonar við Jónas sást glögglega að yfirsýn og mikil þekking viðmælandans skein í gegn.

Í erlendum fjölmiðlum tekur maður einnig eftir að fjölmiðlafólkið sjálft er mun eldra en við þekkjum hér á landi og hugsanlega á það sinn þátt í þessari stöðu.  Auðvitað er heilmikill fengur og viska á meðal þeirra sem eldri eru og það er synd að það fær ekki oftar að njóta sín.


Merkilegt

Það er velþekkt þumalputtaregla að gjaldeyrisvaraforðinn eigi að duga fyrir innflutningi 3 mánaða. Slíkur innflutningur hefur numið um 100 milljörðum króna.

Þess vegna er það mjög athyglisvert að sé litið til gjaldeyrisviðbúnaðarins, eins og það er kallað, þá dugar hann núna fyrir 15 mánaða innflutningi. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á þessari staðreynd.


mbl.is Viðskiptahallinn ástæðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðir okkar vs. þjóðnýting og einangrunarhyggja VG

Þessar vikurnar eru efnahagsmálin eðlilega í brennidepli. Það eru augljóslega blikur framundan og erfiðleikar. Í þessari umræðu er sumum tíðrætt um meint aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.  Förum aðeins yfir þetta „aðgerðarleysi“ stjórnvalda.

1. Gjaldeyrisviðbúnaður Seðlabankans hefur fimmfaldast á innan við tveimur árum. Hann er núna hlutfallslega stærri af landsframleiðslu en þekkist hjá nágrannaríkjunum.

2. Stimpilgjöld fyrir fyrstu kaupendur afnumin.

3. Tugmilljarða útgáfa ríkisskuldabréfa.

4. Stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að lækka skatta á einstaklinga með 20.000 kr. hækkun á skattleysismörkum fyrir utan verðlagshækkanir á kjörtímabilinu.

5. Fyrirtækjaskattar verða lækkaðar niður í 15%.

6. Sérstök löggjöf um sérvarin skuldabréf sett.

7. Staða sparisjóða styrkt þegar þeir fengu heimild til að kaupa bankaútibú án þess að þurfa að hlutafélagavæða sig fyrst sem hafði verið skilyrði samkvæmt þágildandi lagaákvæði.

8. Heimild til að taka 500 milljarða kr. lán fengið hjá Alþingi.

9. Margvíslegar aðgerðir á húsnæðismarkaði gerðar sem stuðla að auknum viðskiptum og draga úr verðlækkun á fasteignamarkaði. Þetta veitti m.a. fjármálafyrirtækjum möguleika á að koma húsbréfum sínum í verð og bæta þannig lausafjárstöðu sína. Fundir haldnir milli ríkis og aðila vinnumarkaðarins.

10. Innheimtulög sett í fyrsta skiptið.

11. Reglur settar um takmarkanir á álagningu uppgreiðslugjalda og er nú óheimilt að innheimta svonefndan FIT-kostnað sem er kostnaður vegna óheimils yfirdráttar nema slík gjaldtaka eigi sér stoð í samningi.

12. Breytingar á samkeppnislögum samþykktar þannig að nú geta fyrirtæki í samrunahugleiðingum sent inn svokallaða styttri tilkynningu til samkeppniseftirlitsins. Veltumörkin gagnvart þeim fyrirtækjum sem eru að sameinast voru einnig hækkuð en þó setti viðskiptanefndin sérstakan varnagla í lögin sem heimilar samkeppniseftirlitinu að fjalla um samruna sem eru undir hinum almennum veltumörkum.

13. Ný heildarlög um verðbréfaviðskipti og kauphallir voru afgreidd þegar hin svokallaða MiFID-tilskipun var innleidd í íslenskan rétt. Tilskipunin er gríðarlega mikilvæg enda tryggir hún íslenskum fjármálafyrirtækjum sama umhverfi og evrópsk fjármálafyrirtæki búa við.

14. Frumvarp er varðar uppgjör innlends hlutafjár sem er skráð í erlendri mynt samþykkt.

15. Seðlabankinn hefur rýmkað reglur um veð og farið í samstarf við ESB um varnir gegn fjármálaóstöðugleika.

Þá minni ég á að fjárlög þessa árs voru afgreidd með um 40 milljarða króna afgangi sem er auðvitað mjög jákvætt þegar harðnar í ári. Þrátt fyrir það fór um helmingi meira fé í samgöngumál í ár en í fyrra en slíkt skiptir miklu máli þegar dregur úr verkefnum einkaaðila. Þá varð 17% aukning á fjármunum í menntun og rannsóknir á milli ára og treystir það að sjálfsögðu undirstöður samfélagsins.

Eins og má sjá á þessari upptalningu þá er heilmikið sem stjórnarflokkarnir hafa gert undanfarið ár til að bregðast við ástandinu. Þetta staðfestir í raun Greining Glitnis nýlega eins og má sjá hér undir fyrirsögninni "aðgerðarleysi orðum aukið"

En séu kjósendur enn ósáttir þá bið ég þá um að hugleiða hvort hinn valkosturinn í stjórnmálunum  sé betri þegar kemur að stjórn efnahagsmála þar sem framlag Vinstri grænna virðist helst vera þjóðnýting bankanna  (sjá bls. 6) og uppsögn EES-samningsins.


Mikilvæg yfirlýsing í ESB-málinu

Það er afar gagnlegt að fá yfirlýsingu spænska utanríkisráðherrans um að evruupptöku án aðildar að ESB sé útilokuð. Svipað hefur þó heyrst frá embættismönnum ESB en sumir hér á landi hafa svarað slíku með þeim orðum að slíkt yrði ætíð ákveðið á hinum pólitíska vettvangi en ekki hjá embættismönnum.

Nú er hins vegar kominn fram þungvigtarstjórnmálamaður sem talar nokkuð skýrt í þessum efnum og í raun staðfestir hann það sem manni sjálfum grunaði.

En eins og forsætisráðherra sagði fyrr í sumar þá mun tvíhöfða Evrópunefndin að sjálfsögðu ræða þessa evru-leið við forsvarsmenn Evrópusambandsins þegar hún heldur út til Brussel þann 22. september. 

Mér finnst skipta miklu máli að við fáum botn í þetta mál sem fyrst svo við getum haldið umræðunni áfram. Það er engum í hag að ræða ákveðna leið mánuðum saman sem hugsanlega er síðan algjörlega óraunhæf.

Að lokum er það einnig sérstaklega ánægjulegt að utanríkisráðherrann spænski staðfestir nú, það sem maður er búinn að segja og skrifa í mörg ár, að það sé ekkert að óttast fyrir íslenskan sjávarútveg þegar inn í ESB er komið. Við þurfum að komast upp úr þessu fari hræðsluáróðurs og misskilnings þegar kemur að sjávarútvegsstefnu ESB.


mbl.is ESB-aðild forsenda evruupptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjuleg ákvörðun ráðherra í Ramsesmálinu

Ákvörðun dómsmálaráðherra um að Útlendingastofnun beri að fjalla efnislega um mál Paul Ramses var sérlega ánægjuleg. Við í allsherjarnefndinni funduðum um málið fyrr í sumar og eftir þann fund styrktist maður enn frekar í trúnni að það bæri að fjalla efnislega um mál Ramses.

Ég var einn af þeim fjölmörgu sem hvöttu dómsmálaráðherra til að endurskoðaða þessa ákvörðun eins og má m.a. sjá hér, hérhér og hér. Sömuleiðis má finna svipaða áskorun frá mér í viðtali við Ríkisútvarpið og Sjónvarpið. Ég er því mjög ánægður með þessa ákvörðun ráðherrans.

Það var annars afar gaman að sjá í gær þegar fjölskylda Paul Ramses sameinaðist á ný á íslenskri grund. Og nú tekur við hefðbundið ferli hjá Útlendingastofnun þar sem lagt verður efnislegt mat á málið og verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.


mbl.is Grátið af gleði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Faxlýðræði

Sífellt fleiri þungavigtaraðilar í samfélaginu eru orðnir jákvæðir gagnvart Evrópusambandsaðild. Forysta verkalýðshreyfingar og lykilsamtaka atvinnurekanda vilja láta reyna á aðild. Sömuleiðis sjálf þjóðin ef marka má skoðanakannanir.

Þrátt fyrir það hefur aðeins Samfylkingin viljað aðild en aðrir flokkar virðast sumir enn ekki vita almennilega hvert eigi að stefna og aðrir eru gallharðir andstæðingar aðildar. Og á meðan svo er eru litlar líkur að Ísland leggi inn umsókn.

Efnahagslegu rökin ljós
Þegar Svíar stóðu frammi fyrir upptöku evrunnar fyrir nokkrum árum studdi nánast öll verkalýðshreyfingin sem og samtök atvinnurekenda upptöku hennar. Um 92% forstjóra fyrirtækja í sænsku kauphöllinni studdu upptöku og það gerðu ennig formenn stjórnamálaflokka sem nutu stuðnings um 80% þjóðarinnar.

Af þessum hagsmunaðilum má sjá að sterk efnahagsleg rök hlutu að hafa verið fyrir evrunni. Hins vegar kom á daginn að sænska þjóðin var ekki reiðubúin til þess að styðja upptöku evrunnar og vitanlega hafði hún lokaorðið. 

Hér á landi má einnig segja að efnahagsleg rök fyrir aðild Íslands að ESB og myntbandalaginu séu flestum ljós. En það virðist hins vegar vera meiri dýpt á bak við röksemdirnar gegn aðild sem eru byggðar á grundvelli fullveldis, tillfinninga og þjóðernis. Það þarf því að skoða þær röksemdir mun betur en það þarf að gerast í ljósi núverandi ástands.

EES samningurinn gæfuspor
Það eru flestir sammála um að EES-samningurinn hafi verið Íslendingum mikið gæfuspor og fáir vilja varpa honum fyrir róða, nema e.t.v. Vinstri grænir. Með samningnum varð Ísland hluti af innri markaði Evrópusambandsins þar sem frelsi fólks, fjármagns, vöru og þjónustu á milli landa var tryggt. Vegna þessa erum við skuldbundin til að hafa stóra hluta af okkar lykillöggjöf eins og Evrópusambandið vill hafa hana.

Það er hins vegar ekki einungis viðskipta-, fjármála-, samkeppnis- og atvinnulöggjöfin sem kemur af faxi frá Brussel heldur þurfa margskonar önnur lög okkar einnig að uppfylla skilyrði ESB. Má þar nefna t.d. reglur á sviði umhverfisverndar, sveitastjórnar, fjarskipta, matvælaöryggis og  persónuverndar.

Á fundi viðskiptanefndar þingsins heyrðum við á máli embættismanna sem komu fyrir nefndina að ekki væri unnt að breyta öðru en heiti laganna við afgreiðslu tiltekins frumvarps á Alþingi. Ekki var það beysið fyrir eina elstu lýðræðisþjóð í heimi.

Áhrif á lög og dóma
EES-aðildin hefur einnig haft þau áhrif að við höfum samþykkt að breyta íslenskum lögum þannig að þau uppfylli evrópska löggjöf. Yfirleitt hafa þær breytingar verið til bóta og í sjálfu sér ekki komið upp stór vandamál þessu samfara.

Þá hefur EES-samningurinn sömuleiðis haft margvísleg áhrif á dómsvaldið sem ekki voru séð fyrir. Þann 16. desember 1999 féll tímamótadómur, Erlu Maríu dómurinn, í Hæstarétti Íslands þar sem íslenska ríkið var álitið skaðabótaskylt vegna þess að íslensk löggjöf reyndist ekki vera í samræmi við tilskipun frá ESB, þrátt fyrir að EES-samningurinn segði ekkert um slíkan rétt til bóta.

Að sitja við borðið
Á meðan við erum fyrir utan ESB höfum við engin áhrif á þær reglur sem við þurfum að innleiða. Innan ESB hefðum við hins vegar slík áhrif. Þrátt fyrir fullyrðingar um annað sýnir reynslan að smáríkjum vegnar vel innan ESB. Sitji maður undirbúinn við borðið er hlustað á mann, og það á við um ESB eins og annað.

Og í þessu sambandi skiptir nokkru að þingmenn Evrópuþingsins skipa sér í hópa eftir stjórnmálaskoðunum en ekki eftir þjóðerni. Þessi staðreynd hefur allnokkra þýðingu og er því ekki rétt að segja að 5-6 íslenskir Evrópuþingmenn muni sitja áhrifalausir út í horni.

Hvað fengist með aðild?
Með aðild Íslands að Evrópusambandinu fengjum við fullan aðgang að pólitískri og efnahagslegri stefnumótun sambandsins. Með EES samningnum höfum við ekki aðgang að stefnumótuninni, sem er veigamikill galli.

Með inngöngu í ESB fengist einnig fullur aðgangur að myntbandalaginu, tollfrelsinu, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, utanríkis- og öryggismálum, byggðamálum og hlutdeild í fjárlögum sambandsins. Einnig tækjum við þátt í Evrópuþinginu, leiðtogaráðinu, ráðherraráðinu, framkvæmdastjórninni, Evrópudómstólnum og að fjölda sérfræðistofnana.

Auðvitað er engin ástæða til að gera lítið úr andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu sem byggist á tilfinningum eða þjóðerniskennd. En einmitt að teknu tilliti til þjóðerniskenndar og vægis Íslands sem fullvalda ríkis getur núverandi ástanda og staða Íslands, varla talist ásættanleg.


Eyja en ekki eyland

Flestir kannast við slagorðið „Ísland sem alþjóðleg fjármálamiðstöð“. Það hljómar vel en enn sem komið er það einungis framtíðarsýn. Fjölmargt þarf að gera ef takast á að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Við þurfum að bæta löggjöfina enn frekar og gera fjármálafyrirtækjum kleift að sameinast sem og sparisjóðunum, einfalda regluverk, liðka fyrir erlendum fjárfestingum, auka kennslu í skattarétti og eignaumsýslu og setja á fót formlegan samstarfsvettvang milli stjórnvalda og fjármálageirans svo eitthvað sé nefnt.

Tryggja þarf að sambærilegar reglur gildi í viðskiptalífinu hér á landi og gilda erlendis. Það er lykilatriði að fjárfestar og fyrirtæki geti gengið að sama viðskiptaumhverfinu vísu. Sérstaða í þessum efnum er ekki góð. Fyrirtæki eru að mörgu leyti eins og börn sem þurfa festu og öryggi en samhliða því sveigjanleika. Með aðild Íslands að Evrópusambandinu yrðum við hluti af stærstu viðskiptablokk heims sem allir þekkja ásamt því að hafa gjaldgengan gjaldmiðil.

Þetta snýst ekki bara um skattana
Undanfarin ár hefur áherslan verið á lága skattprósentu fyrirtækja. Það er að sönnu æskilegt markmið en það er ýmislegt annað sem skiptir fyrirtækin máli. Eitt af því eru samskipti fyrirtækja við eftirlitsstofnanir.

Vegna smæðar okkar höfum við einstakt tækifæri til að vera fremst í flokki þegar kemur að málshraða, minna skrifræði og skilvirkri stjórnsýslu. Til að ná þessu markmiði þarf að gera enn betur við viðkomandi eftirlitsstofnanir. Staðan hér á landi er talsvert betri en víðast annars staðar en ég er sannfærður að unnt er að gera enn betur.

Aftur örlítið um tvítyngda stjórnsýslu
Fyrir nokkrum mánuðum tók ég í blaðagrein undir þá hugmynd að við ættum að stefna að því að gera íslensku stjórnsýsluna tvítyngda sem lið í því að gera Ísland meira aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. Viðbrögðin voru nokkur og ýmsir gengur svo langt að ætla mér það að gera Ísland tvítyngt. Var jafnvel talað um aðför að íslenskri tungu, menningu og þjóð.

Hugmyndin byggir á því að  vanþekking á íslenskum markaði komi í veg fyrir að mörg erlend fyrirtæki komi hingað. Hluti þess vanda sem íslensk fyrirtæki glíma nú við, sem margir hafa nefnt ímyndarvanda, stafar að ég held af vanþekkingu og ónægum upplýsingum um stöðu íslensks viðskiptalífs.

Hér á ég því við það eitt að sá hluti stjórnsýslunnar sem snýr að erlendum fjárfestum verði einnig aðgengilegur á enskri tungu. Eftirlitsstofnanir verði jafnframt í stakk búnar til að svara erindum á ensku og birti niðurstöður sínar einnig á því tungumáli. Þetta er leið sem fjölmargar þjóðir hafa farið með góðum árangri.

Ástæða er til að árétta það sérstaklega að með þessari hugmynd er ekki verið  að leggja til að tungumál ríkisins verði í framtíðinni tvö eða að enska og íslenska verði jafnrétthá sem stjórnsýslumál. Því fer víðsfjarri og markmiðið með þessu væri aðeins að auðvelda erlendum aðilum aðgengi að grundvallarupplýsingum um íslenskt viðskiptalíf og að íslenskum eftirlitsstofnunum.

Verk stjórnarflokkanna
Unnið hefur verið að því af fullum þunga að sníða viðskiptalöggjöf að þörfum atvinnulífsins í vetur.  Sett hefur verið sérstök löggjöf um sérvarin skuldabréf. Lögum um atvinnuréttindi útlendinga hefur verið breytt á þann hátt að auðveldara verður að fá erlenda sérfræðinga til landsins. Þá verður skattprósenta fyrirtækja lækkuð niður í 15% og sparisjóðum hefur verið veitt heimild til að kaupa bankaútibú án þess að þurfa að breyta sér í hlutafélag en það var skilyrði eldri laga.

Viðskiptanefnd Alþingis hefur einnig afgreitt ný heildarlög um verðbréfaviðskipti og kauphallir þegar hin svokallaða MiFID-tilskipun var innleidd í íslenskan rétt. Frumvarp er varðar uppgjör innlends hlutafjár sem er skráð í erlendri mynt varð sömuleiðis að lögum í vetur. Fjárframlög til Fjármálaeftirlitsins hækkuðu um 50% á milli ára og fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins um 60% á tveimur árum. Loks var afnumin skattskylda vegna söluhagnaðar hlutabréfa.

Tækifærið er til staðar 
Tækifærin fyrir litla þjóð á að verða að alþjóðlegri fjármálamiðstöð, sem byggist á vel menntuðu og launuðu fólki, eru ótrúleg. Í því sambandi má benda á Lúxemborg og Írland, en það var sannarlega ekki augljóst á sínum tíma að þessar þjóðir yrðu slíkar miðstöðvar. Þótt við búum á eyju, ætti markmiðið að vera það að forðast að vera eyland í  í fjármálum og viðskiptum.


Vestrænar beljur

Það væri óskandi að Doha-viðræðurnar gætu leitt til afnám hafta og tolla í heiminum. Ein skilvirkasta leið þróunarlanda úr þeirri fátækt sem þau búa við er að þessu ríki fái aðgang að mörkuðum hinna ríku. Það að hver vestræn kú fái hærri fjárhagslega styrki en sem nemur meðallaunum bóndans sunnan Sahara segir allt sem segja þarf. Hér þurfa almannahagsmunir að ríkja og sérhagsmunir að víkja.

Afnám hafta og tolla er líka stórt neytendamál hér á landi. Kerfi sem býður upp á eitt hæsta matvælaverð í heimi á sama tíma og hér er við lýði eitt mesta styrkjakerfi sem til þekkist og bændastétt sem býr við bág kjör er kerfi sem ber að varpa fyrir róða.

Hér á landi er til fjöldinn allur af fólki sem nær ekki endum saman. Hagsmunir einstæðu móðurinnar í Breiðholti sem hefur ekki efni á að kaupa í matinn trompar aðra hagsmuni. Þeir hagsmunir eru ekki í forgrunni í málflutningi Vinstri grænna eða Framsóknarmanna eins má vel heyra.

Auðvitað veit ég að fólk hefur atvinnu af íslenskum landbúnaði og því er ég ekki að tala um kollsteypu gagnvart bændum. Við þurfum hins vegar að hafa stuðninginn óframleiðslutengdan og í formi svokallaðra grænna styrkja. Íslenskir bændur eiga ekki að óttast erlenda samkeppni. Þeir eiga að fagna henni og þeir eiga að fagna auknu frelsi á sínu sviði. Það á almenningur einnig að gera.


mbl.is Tvöfalt meiri innflutningur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of rík, of sterk og síðan er það frjálslyndið

Það er fróðlegt að vera í Bandaríkjunum og fylgjast með umfjöllun þarlendra fjölmiðla af  forsetakosningunum. Þrátt fyrir nánast stöðuga umræðu á fréttastöðvunum um Obama og McCain er maður litlu nær um málefnin sem liggja að baki framboðunum. Ég veit hins vegar þeim mun meira um eiginkonur þeirra og allt um það hvað Jesse Jackson sagði um tiltekna aðgerð sem hann vildi framkvæma á Obama. Þetta sagði hann að vísu í þeirri trú að hann væri ekki í upptöku.

Kjarni umræðunnar, eða gagnrýninnar á eiginkonunum, lýtur að því að Michelle Obama þykir vera of sterkur karakter og Cindy McCain of rík. Michelle hefur verið gagnrýnd fyrir ákveðin ummæli en um Cindy hefur gagnrýnin fyrst og fremst lotið að því að eiginmaður hennar kunni að vera háður auðæfum og rekstri um of, verði hann forseti.

Um málefnin er hins vegar ekki fjallað nema í miklum upphrópunarstíl og virðist sem tvö lykilmálefni séu í raun það sem allt snýst um. Hátt bensínsverð, sem á íslenskan mælikvarða myndi teljast vera algjört útsöluverð, og svo Írak. Annað kemst ekki að, enda þurfa stjörnunar og ástarmál Lindsey Lohan að fá sinn stað í kvöldfréttunum, sem og umræðuþáttunum sem á eftir fylgja.               

Helv. frjálslyndið
Úvarp Saga Bandaríkjannna, Fox News, er í essinu sínu þessa mánuðina með Bill O´Reilly í fararbroddi. Þar er skotið hart á alla demókrata/umhverfisverndarsinna/femínista/Clinton. Ekkert er þó verra en að vera liberal á Fox. Það er versta skammayrðið í orðabókinni. Æra óvinarins er markvisst vegin og því lengra sem menn ganga í því hefur bein áhrif á það hversu oft álitsgjafinn birtist á skjánum.

Bush forseti sést ekkert í fjölmiðlum og virðist Bush vera hættur, áður en hann hættir. Hann sést ekkert og Repúblikanar nefna síðustu 8 árin lítið sem ekkert í umræðunni um kosningarnar. Það kristallar kannski hvernig hvaða augum menn líta árangurinn í forsetatíð Bush.

Rósastríðið 2007
Þrátt fyrir takmarkaða umfjöllun um raunveruleg stefnumál er fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig Bandaríkjamenn haga sér í kosningabaráttu. Ég var í Boston fyrir fjórum árum þegar síðasta kosningabarátta stóð sem hæst. Þá var lögð mikil áhersla á persónulega nálgun gagnvart kjósendum. Frambjóðandinn sjálfur reyndi að hitta sem flesta sjálfur og persónulegar hringingar og rölt sjálfboðaliða heim til fólks var áberandi hluti af kosningabaráttunni. Þetta er að mínu viti skynsamleg og góð leið - og í raun ótrúlegt að hún skuli skipa stóran sess í Bandaríkjunum. Auglýsingaflóðið er þó ólýsanlegt og þær auglýsingar sem hér sjást eru mjög ólíkar því sem við þekkjum heima.

Þessari aðferðafræði um að komast sem næst kjósendum er engu að síður beitt í stórum ríkjum og þá hlutum við að geta gert það á Íslandi. Og þetta gerðum við í Samfylkingunni í síðustu Alþingiskosningum og vildum einmitt nálgast kjósendur sem mest og heyra þeirra sjónarmið. Við vildum ekki bara tala, heldur hlusta á það sem fólk hafði að segja okkur um þau mál sem helst brunnu á þeim. Við ákváðum því að ganga hús úr húsi með bæklinga og rós og ég fann það, og hef heyrt það bæði hjá frambjóðendum flokksins sem og kjósendum, að þessi leið hafi verið mjög góð fyrir alla. Við fengum tækifæri til þess að hlusta á kjósendur, maður á mann og kjósendur tækifæri á því að ræða málin við frambjóðendur flokksins.

Vinna kannski repúblikanar? 
Ég held að það sé beinlínis nauðsynlegt fyrir Bandaríkin að demókratar vinni forsetaembættið. Ég er hins vegar ekki jafnviss um að sú verði raunin og margir. Enn er langt í kosningar og það hefur sýnst sig að repúblikanar kunna að setja fram sín sjónarmið með sannfærandi hætti. Þeir beita jafnframt óspart því ráði að rægja andstæðinginn eins og varð raunin með John Kerry. Stríðshetja varð að föðurlandssvikara. Enn hefur Obama nokkra yfirburði en mér hefur sýnst sem að forskotið sé þannig að það sé ekki óyfirstíganlegt og að McCain sé heldur að sækja í sig veðrið.


Forleikur að Evrópusambandsaðild

Hugmynd Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um samningsbundna upptöku evrunnar er góðra gjalda verð. Björn sýnir með þessu frumkvæði í Evrópuumræðu innan Sjálfstæðisflokksins. Öllu máli skiptir að horfa til framtíðar þegar kemur að tengslum Íslands við Evrópusambandið.

Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar mun ræða hugmynd Björns Bjarnasonar. Forsætisráðherra hefur m.a. vísað þessari hugmynd til nefndarinnar. Eitt af meginhlutverkum Evrópuvaktarinnar er að kanna gaumgæfilega hvernig hagsmunum Íslendinga verður best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu. Og hugmynd Björns fellur vitaskuld undir það hlutverk vaktarinnar.

Verður rætt í Brussel
Evrópuvaktin mun einnig ræða leið Björns Bjarnasonar við forsvarsmenn Evrópusambandsins þegar við höldum til Brussel í september. Sjálfur hef ég hins vegar verulegar efasemdir um að þessi kostur teljist tækur, en hins vegar verður að fá endanlegt svar um þetta atriði eins og önnur.

Ég er hins vegar sammála orðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hingað til hefur afstaða Evrópusambandsins verið nokkuð afdráttarlaus og í sjálfu sér þarf ekki að koma á óvart að sambandinu hugnist lítt að þjóðir taki evruna upp bakdyramegin - hvort sem það er gert einhliða eða tvíhliða.

Þrýstingurinn stöðugt að aukast
Á endanum veltur þetta einfaldlega á því hvort að pólitískur vilji standi til þess að fara þessa leið hjá ESB. Er pólitískur vilji hjá Evrópusambandinu fyrir því að semja á þessum nótum við Íslendinga? Hvaða hag hefur ESB af því að semja með þeim hætti? Og er pólitískur vilji hjá Íslendingum að fara þennan millileik?

Í mínum huga er þessi hugmynd Björns Bjarnasonar millileikur. Ég spái því að þrýstingur frá samtökum atvinnurekenda sem og verkalýðshreyfingunni verði enn þyngri á næstu mánuðum og misserum og í sjálfu sér er það athyglisvert að þrýstingurinn á ESB aðild er stöðugt að aukast. Núverandi ástand er ekki boðlegt fyrir íslensk fyrirtæki og heimili.

Hagsmunamatið býður upp á opnun
Það er ekkert launungarmál að stjórnarflokkarnir vilja fara mismunandi leiðir í Evrópumálunum. En þó þarf að minnast þess að í Sjálfstæðisflokknum hefur spurningin um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu verið sögð snúast hagsmunamat. Nú kann að vera að þetta mat á hagsmunum sé að breytast.

Þessi nálgun felur jafnframt í sér leið til að nálgast Evrópusambandsspurninguna á nýjan hátt, kalli hagsmunir Íslands á það. Hugmynd Björns Bjarnasonar birtist því mér sem forleikur að fullri aðild að Evrópusambandinu.

Náttröllin láta í sér heyra
Það vakti athygli mína að spurningin í íslenskum stjórnmálum lýtur ekki aðeins að því hvort hagsmunum Íslendinga sé best borgið með því að ganga í ESB eða standa utan þess. Vinstri græn kynna til leiks þriðju leiðina og af henni má ráða að flokkurinn er að festast í hlutverki nátttröllsins í íslenskri pólitík. Ögmundur Jónasson benti nýverið á þá leið að Ísland færi einfaldlega úr EES-samstarfinu. Með þessu útspili sínu sagði Ögmundur í Kastljósinu í gærkvöldi að hann ,,vildi dýpka umræðuna” og ,,fara nær skynseminni”. 

Þessi hugmynd Ögmundar getur þó hvorki talist skynsöm né djúp. Það vita allir sem eitthvað þekkja til þeirra kosta sem EES-samningurinn hafði í för með sér, með innri markaðinum og fjórfrelsinu, sem hefur haft grundvallarþýðingu fyrir atvinnulíf sem og íslensk heimili.

Vandséð er að greina kosti samfara þessari leið og læt ég Vinstri Grænum eftir að reifa þau sjónarmið. 


Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband