Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2003

Hafa skal það sem sannara reynist um ESB

Í aukinni umræðu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) heyrast of margar rangfærslur um ESB sem er ágætt að rifja upp.
Oft er sagt að ESB sé lokaður klúbbur ríkra þjóða sem séu varin með háum tollamúr og þeim sé sama um hin fátækari lönd. Þetta er alrangt enda er ESB og aðildarríki þess langstærsti veitandi þróunaraðstoðar í heiminum. ESB og aðildarrríki þess veita 55% af allri opinberri þróunaraðstoð í heiminum og meira en 75% af allri fjárhagsaðstoð. ESB hefur einnig samþykkt að leyfa tollalausan innflutning á markaði sína af öllum vörum nema vopnum frá 48 fátækustu löndum heims.
ESB og Sýslumaðurinn í Hafnarfirði
Það er algengt er að andstæðingar aðildar vísa til þess að ESB sé risavaxið skriffinnskubákn með óteljandi starfsmönnum. Hið rétta er að ESB hefur færri starfsmenn en breska umhverfismálaráðuneytið. Nánast þriðji hver starfsmaður ESB vinnur við þýðingar vegna þeirrar meginreglu ESB að þegnar aðildarríkja ESB geti nálgast ákvarðanir ESB á sínu eigin tungumáli. Ef ESB væri stofnun á Íslandi hefði það um 19 starfsmenn eða svipað marga og Póst og fjarskiptastofnun og litlu fleiri starfsmenn en Sýslumaðurinn í Hafnarfirði.
Um hina meintu staðalárátta ESB er hið rétta að ESB hefur ekki sett neina staðla sjálft heldur hefur ESB samið við frjáls staðlasamtök sem eru mynduð af viðkomandi hagsmunahópum. Fyrirtækin sjálf vilja þessa staðla en þeir eru einungis viðmiðanir til að auðvelda viðskipti milli landa og ná fram hagkvæmni í framleiðslu. Með samræmingu staðla er hægt að lækka viðskiptakostnað til muna. Í stað 15 mismunandi reglna um alla mögulega hluti hefur ESB stuðlað að því að ein regla gildi á markaðinum, viðskiptalífinu og neytendum til mikils hagræðingar. Ein mynt og samræmdar reglur eru til mikilla bóta í viðskiptum.
Landsbyggðin hagnast af ESB
Iðulega er því haldið fram að við inngöngu Íslands í ESB myndi allt fyllast hér af spænskum togurum og öðrum ESB fiskiskipum sem myndu þurrausa miðin okkar. Þetta er alrangt. Sjávarútvegsstefna ESB er byggð á veiðireynslu síðustu ára. Ekkert ríkja ESB hefur veitt svo neinu muni í íslenskri landhelgi undanfarna tvo áratugi og því hafa önnur ríki enga veiðireynslu í íslenskri lögsögu. Ekkert erlent fiskiskip kæmi til veiða við Ísland þótt við yrðum aðilar að ESB. Við inngöngu Íslands inn í ESB munu Íslendingar áfram sitja einir að öllum veiðum í íslenskri lögsögu. Sérhvert aðildarríki ræður síðan hvernig það ráðstafar sínum veiðiheimildum og ríkin sjálf annast eftirlit.
En munu ekki erlend fyrirtæki kaupa upp íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og flytja verðmætin beint út úr landi? Nei, slíkt getur ekki gerst þar sem við inngöngu Íslands í ESB verða allar útgerðir hérlendis að hafa svokölluð raunveruleg efnahagsleg tengsl við Ísland. Það er eitt af meginmarkmiðum sjávarútvegsstefnu ESB að afrakstur veiðanna komi því fólki til góða sem reiðir sig á þær. Daglegur rekstur fiskiskipa verður að vera á Íslandi og hagnaður veiðanna verður að fara í gegnum íslenskt efnahagslíf.
Eins og sjávarútvegsstefna ríkisstjórnarinnar er núna er ekkert sem hindrar að verðmæti af Íslandsmiðum fari beint úr landi. Aðild Íslands að ESB kæmi því landsbyggðinni mjög til góða.
Er Danmörk ófullvalda ríki?
Hvað er með íslenskan landbúnað? Mun hann ekki líða undir lok við aðild að ESB? Hér er enn einn misskilningurinn á ferðinni. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra frá árinu 2000 er gert ráð fyrir að við inngöngu Íslands í ESB myndi íslenskum bændum sem stunda sauðfjárbúskap, mjólkurframleiðslu og nautgriparækt geta vegnað svipað og nú er. Tekjur íslenskra sauðfjárbænda yrðu þó líklega hærri. Svína-, kjúklinga- og eggjaframleiðsla yrði erfiðari fyrir íslenska framleiðendur nema veittur yrði innlendur stuðningur svipaður þeim sem Svíar og Finnar gerðu gagnvart sinni framleiðslu þegar þeir gengu í ESB.
Fjarlægðarvernd og krafan um ferskleika og gæði myndar eftirspurn sem gerir það kleift að verð á íslenskum landbúnaðarvörum gæti verið hærra en er í öðrum Evrópulöndunum. Þó er það alveg ljóst að matvælaverð myndi stórlækka við inngöngu í ESB en slíkt gerðist einmitt þegar Svíar og Finnar gengu í sambandið 1995.
Landbúnaðarstefna ESB er ekki neitt til að hrópa húrra fyrir en landbúnaðarstefna Íslands ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er enn vitlausari og dýrari. Við aðild að ESB fá íslenskir bændur kærkomið tækifæri til að nýta sína hlutfallslegu yfirburði og ná fram nauðsynlegri hagræðingu. Þeim veitir ekki að því en núverandi ríksstjórnarstefna hefur skilað bændum í þá stöðu að vera lægst launaða stétt landsins.
Að lokum er fullyrðingin um að Ísland myndi missa fullveldi sitt við aðild að ESB. ESB er samband fullvalda og sjálfstæðra þjóða. Dettur einhverjum í hug að Danmörk eða Bretland séu eitthvað minna sjálfstæð en Ísland? Nú þegar þarf Ísland að taka yfir um 80% af öllum lögum og reglum ESB vegna EES-samningsins án þess að hafa nokkur áhrif á ákvarðanatökuna. Aðild Íslands að ESB er því hluti af sjálfstæðisbaráttu en ekki fullveldisafsal. Reynslan og rannsóknir sýna að smáríkjum hefur vegnað mjög vel innan Evrópusambandsins.
Andstaðan gegn aðild Íslands að ESB byggir oft á vanþekkingu eins og hér hefur verið sýnt fram á. Andstaðan byggist einnig oft á hræðslu við breytingar og frjáls viðskipti. Það er hvorki tilviljun né heimska að nær allar þjóðir í Evrópu hafa kosið að gerast aðilar að ESB.

Breytum og virðum stjórnarskrána

Íslendingar þurfa í náinni framtíð að huga að breytingum á stjórnarskránni. Það er hins vegar ekki einfalt að breyta stjórnarskránni þar sem slíkar breytingar þurfa samþykki tveggja þjóðþinga. Um leið og breyting á stjórnarskrá er samþykkt þarf að rjúfa þing og kjósa að nýju. Oft eru þó stjórnarskrárbreytingar gerðar í lok kjörtímabils þannig að ekki þurfi að rjúfa þing. Síðan þarf hið nýja þing að samþykkja breytingarnar óbreyttar.
Nú þegar þarf að breyta stjórnarskránni
Ef að aðild Íslands að Evrópusambandinu verður þarf að breyta stjórnarskránni í þá átt að stjórnvöld geti framselt hluta af fullveldi sínu til yfirþjóðlegra stofnana. Stjórnarskrár hinna Norðurlandanna hafa að geyma slíka heimild.
Hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki það eina sem kallar á stjórnarskrárbreytingu. Hið síkvika eðli EES-samningsins kallar beinlínis á hana nú þegar þar sem samningurinn virðist nú leiða af sér afsal af hluta af okkar fullveldi.
Vegna EES-samningsins þurfa Íslendingar að taka yfir um 80% af allri löggjöf Evrópusambandsins án þess að hafa nokkuð um það að segja. Það er löggjöf ESB að þakka að íslenskt samfélag hefur tekið þeim miklu stakkaskiptum undanfarinn áratug. Nánast allar breytingar á viðskipta-, samkeppnis-, umhverfis-, neytenda- og vinnuréttarlöggjöfinni eru vegna skuldbindinga EES-samningsins.
Hæstiréttur Íslands hefur einnig staðfest þetta framsal á fullveldi í svokölluðum Erlu Maríu dómi sem féll 16. desember 1999 þar sem fallist var á þá röksemd að EFTA-ríki geti orðið skaðabótaskylt ef lög Evrópusambandsins eru ekki lögleidd á réttan hátt í innlendan rétt viðkomandi ríkis.
Burtséð frá afstöðunni til ESB-aðildar væri það ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda að gera ekki nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar á kjörtímabilinu.
Íslensk stjórnvöld ættu að nýta tækifærið og lögleiða aðrar tímabærar breytingar á stjórnarskránni í lok kjörtímabilsins.
Jafnræði þegnanna ekki í reynd
Það eru einnig nokkur stjórnarskrárákvæði sem íslensk stjórnvöld virðast hvorki virða að fullu né starfa í anda þeirra. Jafnræðisregla stjórnarskráinnar er ein af undirstöðureglum íslensks samfélags og hún hefur sífellt fengið meira vægi hjá dómstólum landsins. Í stað þess að vera nær eingöngu formregla er jafnræðisreglan orðin að efnisreglu sem veitir borgurunum áþreifanlegan rétt. Þó eru til dæmi þess að fólk njóti ekki fulls jafnræðis.
Í upptalningu jafnræðisreglunnar er ekki nefnt bann við mismunun vegna kynhneigðar heldur einungis vegna stöðu að öðru leyti. Þessu þarf að breyta enda grundvallaratriði. Samkynhneigðir einstaklingar hafa ekki sama rétt og gagnkynheigðir til frumættleiðinga og tæknifrjóvgana og verður það að teljast brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Stjórnarskráin sjálf mismunar trúfélögum í landinu. Það er óeðlilegt að eitt trúfélag hafi forréttindi og vernd umfram önnur samkvæmt þeirri sömu stjórnarskrá sem kveður á um að allir skuli að vera jafnir fyrir lögum óháð því hvaða trú þeir aðhyllast.
Atkvæði kjósenda hafa mismikið vægi í alþingskosningum eftir búsetu. Það hlýtur að vera grundvallarréttur hvers borgara í kosningum að atkvæði hans vegi jafnþungt og annarra samborgara hans.
Enginn ráðherra axlar pólitíska ábyrgð
Í 2. gr. stjórnarskrárinnar kemur vel fram skýr þrískipting ríkisvaldsins sem í raun virkar þó ekki alltaf. Alþingi á að vera handhafi löggjafarvalds og eftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu. Það væri því skynsamleg breyting að ráðherrar segðu af sér tímabundið þingmennsku á meðan þeir gegna ráðherraembættum.
Í 14. gr. gerir stjórnarskráin ráð fyrir svokallaðri ráðherraábyrgð. Í reynd er slík ábyrgð þó ekki til staðar. Stjórnarskráin segir að landsdómur skuli dæma í slíkum málum en landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman á Íslandi.
Það er misskilningur að halda að ráðherraábyrgð eigi aðeins að koma til framkvæmda þegar ráðherrar eru sekir um ásetningsbrot í starfi sínu. Refsiábyrgð kemur til í slíkum tilfellum en ráðherraábyrgð snýst um að axla pólitíska ábyrgð á þeim málaflokki sem heyrir undir viðkomandi ráðherra og þá skiptir ásetningur ekki máli. Ráðherrar axla aldrei pólitíska ábyrgð hérlendis en erlendis er algengt að ráðherra segi samstundis af sér ef misfellur koma í ljós innan hans valdsviðs.
39. gr. stjórnarskráinnar færir Alþingi ríkt eftirlitshlutverk með svokölluðum þingmannanefndum. Þrátt fyrir að mörg tilefni, s.s. í Landssímamálinu, hafi verið til að skipa slíkar nefndir hafa tillögur þess efnis ekki verið samþykktar í meira 48 ár.
Í 76. gr. segir m.a. að öllum, sem þess þurfa, skuli vera tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Þessi stjórnarskrárbundni réttur einstaklinga er í mörgum tilfellum ekki virtur. Velferðarkerfið á ekki að vera háð geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna því stjórnvöld hafa stjórnarskrárbundnar athafnaskyldur gagnvart þeim sem minna mega sín, eins og staðfest var í Öryrkjadómi Hæstaréttar.
Það þarf að verða lifandi umræða meðal almennings og stjórnmálamanna um æðstu lög okkar. Lögin og ekki hvað síst stjórnarskráin mynda ramma um samfélagið sem við lifum í og viljum lifa í. Stjórnarskráin kemur því öllum við.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband