Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Nýja atvinnuvegabyltingin

Það er að eiga sér stað atvinnuvegabylting sem mun breyta okkar samfélagi. Í umræðu um atvinnustefnu stjórnvalda er mikilvægt að fyrir hendi sé þekking á því hverju einstaka atvinnugreinar skila til landsframleiðslunnar, en nokkur misskilningur er ríkjandi í umræðunni um framlag atvinnugreinanna. Frumframleiðslugreinar eins og landbúnaður og sjávarútvegur skila núna minna en 8% til landsframleiðslunnar en þessi hlutdeild var tæp 20% fyrir 20 árum. Breytingarnar sem eiga sér stað eru örar en það breytir því ekki að stjórnvöld verða að taka mið af því hver þróunin er við mótun framtíðaratvinnustefnu.
Skapandi atvinnugreinar eru framtíðin
Hefðbundin iðnaðarframleiðsla og þjónusta eru öflug en í þeim felast ekki mestusóknarfærin á næstu árum. Nauðsynlegt er að skilgreina að skilgreina atvinnuvegi á nýjan hátt og nú eru það hinar skapandi atvinnugreinar (,,creative industries”) sem eru mikilvægustu þættir hagkerfisins. Þar eru sóknarfærin.

Með skapandi atvinnugreinum er átt við störf í listum og í öðrum þáttum menningar, fjölmiðlun, sjónvarp og útvarp, hugbúnaðargerð, auglýsingar, hönnun, arkitektúr, útgáfumál, afþreyingar- og upplifunariðnaður og ráðandi störf í fyrirtækjarekstri, vísindastörf og önnur svið þar sem sköpun fær útrás í nýjum hugmyndum sem er hrint í framkvæmd og verslað með á mörkuðum heimsins.

Tilskapandi atvinnugreina telst því m.a. allt sem varðar menningu en menningarstarfsemi er nú þegar umtalsverður atvinnuvegur hérlendis. Til hennar teljast m.a. listir, en listsköpun eins og tónlist, leiklist, myndlist, dans, kvikmyndir, ritverkskrif og margt fleira er ekki einungis mannbætandi á allan hátt heldur umfangsmikil í hagkerfinu og veitir fjölda fólks vinnu.

Umfang menningar í hagkerfinu kemur vel í ljós þegar haft er í huga að framlag menningar til landsframleiðslunnar er um 4% en hlutdeild sjávarútvegs er 6,8%. Hlutur landbúnaðar af landsframleiðslunni er talsvert minni eða um 1,4%. Um 5.000 manns starfa í menningargeiranum.
Menningin er mikilvæg atvinnugrein
Núna vinna um fjórðungur Íslendinga við skapandi atvinnugreinar og um þrjátíu af hundraði í Bandaríkjunum. Norðurlöndin eru framarlega á þessu sviði og nú er komið að því að sýna þann pólitíska vilja til þess að greiða þessum nýju atvinnugreinum leið.
Samfylkingin vill styðja þessa nýju atvinnuhætti af ráð og dáð og við höfum lengi talað fyrir eflingu menningar sem atvinnugreinar.

Það verður m.a. gert með því að breyta skattalögum þannig að örvuð séu framlög fyrirtækja til þessa málaflokks og hefur flokkurinn flutt tillögur þess efnis. Slík löggjöf er í fjölda landa og hefur stuðlað að uppgangi menningarinnar sem aftur hefur skilað sér í hagkerfið. Því miður hafa þessar tillögur enn sem komið er hins vegar ekki fengið hljómgrunn hjá ríkisstjórnarflokkunum.
Að berjast fyrir spennandi framtíð
Það er mikilvægt að geta horft til framtíðar þegar atvinnustefna þjóðarinnar er mótuð. Það eru margir spennandi möguleikar en það gildir að hafa næmi fyrir þeim og kjarkinn til þess að berjast fyrir þeim. Ríkisstjórn er föst í gamaldags hugsun og virðist vilja lítið annað en álver og virkjanir sem einu leiðina til framtíðar. Þetta er að mínu mati hins vegar röng stefna.

Samfylkingin vill að allar atvinnugreinar fái að blómstra en sérstakt átak verði gert til að efla hinar skapandi atvinnugreinar. Það er hægt að gera með því að leggja mun meiri áherslu á menningu og listir í skólakerfinu og kynna sér hvað aðrar þjóðir eru að gera í þessum efnum, breyta skattlögum til að efla menningu og tala máli hins nýja hagkerfis.
Skapandi atvinnugreinar og menning sem atvinnugrein eiga að vera kjörorð í atvinnustefnu þjóðarinnar og þetta er svið sem ég mun berjast fyrir af alefli fyrir á næstu árum.

Skipa á óháða rannsóknarnefnd um starfsemi leyniþjónustunnar

Umræðan í kjölfar uppljóstrana Þórs Whitehead, um starfsemi íslenskrar leyniþjónustu, er nokkuð sérkennileg. Svo virðist sem að þessi starfsemi ekki hafa verið meira leynilegri en það að meintir þolendur þessara njósna koma nú einn af öðrum fram í fjölmiðlum og segjast allir hafa vitað af þessum persónunjósnum. Kannski var þetta tilfinning margra sem nú hefur verið fengist staðfest. Það er einnig mjög athyglisvert í þessu sambandi, að það er fræðimaður sem dregur fram þessar upplýsingar. Hvers vegna hefur íslenska stjórnkerfið, t.d. dómsmálaráðuneytið eða Þjóðskalasafnið eftir atvikum, ekki frumkvæði að því að upplýsa þjóðina um jafnmikilvægar upplýsingar og að hér hafi verið starfrækt leyniþjónusta sem rekin hafi verið með opinberu fjármagni af opinberum starfsmönnum án nokkurs eftirlits eða aðhalds? Það er óneitanlega óhuggulegt tilhugsunar og full ástæða til þess að fara ofan í saumana á starfseminni. Það væri einfaldlega óábyrgt að gera það ekki og líta framhjá þessum kafla Íslandssögunnar.
Fræðasamfélagið upplýsir þjóðina – hvers vegna ekki stjórnvöld?
Þetta mál sem og hinar pólitísku símhleranir sem annar fræðimaður, Guðni Th. Jóhannesson, dró nýverið fram í dagsljósið sýna vel hið sérkennilega andrúmloft kalda stríðiðsins. Það er óskandi að þær upplýsingar sem til staðar eru um hleranirnar sem og starfsemi leyniþjónustunnar verði gerðar kunnar.
Frumvarp um óháðar rannsóknarnefndir hefur verið lagt fram
Ég er því sammála Birni Bjarnassyni, dómsmálaráðherra, um að við þurfum að gera upp Kalda stríðið og leiða fram allar þær upplýsingar sem til eru um málið. Með það að leiðarljósi væri unnt að skipa óháða rannsóknarnefnd. En það vill svo til að síðastliðinn vetur lagði ég ásamt félögum mínum í þingflokki Samfylkingarinnar einmitt fram frumvarp um óháðar rannsóknarnefndir. Frumvarpið gerir ráð fyrir algjörlega nýju úrræði í stjórnkerfi sem svo mörg mál sýna að sárlega vantar.
Sannleikurinn komi fram í dagsljósið
Á komandi þingi munum við leggja frumvarpið fram og með samþykkt þess væri hægt að fara þá leið að skipa óháða nefnd sem hefði það verkefni að komast til botns um það hver hvert hlutverk leyniþjónustunnar var, hversu lengi hún starfaði og annars vegar hverjir það voru sem stóðu að henni og hins vegar urðu fyrir rannsókn af hennar hálfu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir ítarlegum málsmeðferðarreglum sem unnið yrði eftir. Það er trú mín að þessi leið sé hin rétta til þess að gera þetta mál upp, svo að sannleikurinn komi fram í dagsljósið. Og ekki síst, svo að draga megi lærdóm af sögunni.

Lækkum matvælaverðið um 200.000 kr.

Við þingmenn Samfylkingarinnar fórum í Smáralind og Kringluna um helgina, þar sem við kynntum tillögur okkar um leiðir til þess að lækka matvælaverð. Fólk tók okkur mjög vel og það er auðvitað mun skemmtilegra að hitta kjósendur augliti til auglitis og fá fram viðbrögð manna og skoðanir. Ég held að það bókstaflega allir verið okkur sammála í því að matvælaverð á Íslandi er alltof hátt. Staðreyndin er hins vegar sú að matvælaverðið er heimatilbúinn vandi og af þeim sökum ætti að vera unnt að leysa hann. Til þess þarf hins vegar raunverulegan pólitískan vilja. Ég segi raunverulegan af því að tilfellið er að aðrir stjórnmálaflokkar hafa í orði verið okkur sammála um nauðsyn þess að lækka verð á matvöru, en í borði hafa þeir ekki stutt tillögur okkar á þingi sem miða að því að þessu brýna markmiði fram. Hér á ég að sjálfsögðu við ríkisstjórnarflokkana. Sjálfstæðisflokkurinn hafði meira að segja nánast sömu stefnu og Samfylkingin í þessu máli í síðustu kosningabaráttu, en það breytti því þó ekki að menn sátu svo á Alþingi örfáum mánuðum eftir kosningar og greiddu hiklaust atkvæði gegn tillögum okkar.
Sjálfstæðisflokurinn er því afskaplega lítið trúverðugur í þessu máli, en nú þegar styttist í kosningar ryðjast þingmenn flokksins fram á ritvöllinn og segja að þetta mál verði á dagskrá – kannski eftir kosningar?
Tillögur okkar byggja á stærstum hluta á tillögum formanns matvælanefndarinnar, Hallgríms Snorrassonar, sem fjölmargir aðilar tóku undir s.s. ASÍ, Samtök iðnaðarins og leiðararhöfundar blaðanna. Í tillögunum er gert ráð fyrir að með þessum aðgerðum muni matarreikningur heimilanna lækka um 200.000 kr. eða 25% á meðalfjölskylduna. Matvælakostnaður heimilanna nemur að meðaltali 750.000 krónum á ári og myndu tillögur Samfylkingarinnar því lækka matarreikninginn um rúmlega fjórðung.
Samfylkingin hefur einn flokka barist fyrir lækkun matvælaverðs á undanförnum árum en ríkisstjórnarflokkarnir hafa staðið gegn slíkum tillögum á Alþingi. Samfylkingin mun í upphafi þings leggja fram þingsályktunartillögu um lækkun matarverðs þar sem lagðar eru til eftirfarandi breytingar:

1. Fella niður vörugjöld af matvælum.
2. Fella niður innflutningstolla af matvælum í áföngum á þá leið að 1. júlí nk. verði helmingur þeirra afnuminn og ári síðar verði allir tollar endanlega fallnir niður.
3. Virðisaukaskattur á matvæli verði lækkaður um helming.
4. Breytt fyrirkomulag á stuðningi við bændur þannig að teknar verði upp tímabundnar beinar greiðslur og umhverfisstyrkir. Þetta nýja fyrirkomulag verði útfært í samvinnu við bændur.
5. Samfylkingin mun á komandi þingi leggja fram frumvarp þar sem afnuminn er réttur landbúnaðarráðuneytis til að hafna breytingum á tollskrám, sem varða breytingar á innflutningsvernd búvara.
6. Samfylkingin leggur áherslu á að landbúnaðarframleiðsla falli undir samkeppnislög.
7. Samfylkingin vill að við fjárlagagerð verði tryggt að allur stuðningur við landbúnað sé opinn og gagnsær.

Matarverð á Íslandi er með því hæsta í heiminum og er um 50% hærra en hjá nágrannaþjóðunum. Hátt verð á matvælum á Íslandi er hins vegar heimatilbúinn vandi sem vel er hægt að bregðast við. Tillögur Samfylkingarinnar um fjórðungs lækkun á matvælakostnaði heimilanna munu því leiða til mikilla lífskjarabóta fyrir almenning í landinu.

Svar til Viðskiptablaðsins

Á leiðarasíðu Viðskiptablaðsins föstudaginn 8. september sl. er fjallað um undirritaðan í dálki sem merktur er Tý. Þar er fjallað um blaðaskrif mín um efnahagsmál og þær athugasemdir sem ég hef gert við hagstjórn ríkisstjórnarinnar. Uppistaðan í pistli hins ónafngreinda pistlahöfundar Viðskiptablaðsins eru skrif á heimasíðu þröngsýnna hægri manna á andriki.is sem hafa allt annað að leiðarljósi en málefnalega eða sanngjarna umfjöllun um pólitíska andstæðinga sína og málefni þeirra. Pistlahöfundur Viðskiptablaðsins dettur því miður í sama pytt og umræddir hægri menn, sem hann kallar reyndar vini sína í pistlinum.

Hann segir að áhyggjur þær sem ég hef lýst af efnahagsástandinu bendi til þess að ég hafi ekki lesið þjóðhagspá Glitnis. Þá ýjar pistlahöfundurinn ónafngreindi að því að ég hafi verið að nýta þjóðhagsspá Glitnis til að villa vísvitandi um fyrir lesendum.
Það er lítið hægt að segja við pillum sem birtast á pólitískum heimasíðum eins og Andríki en mér finnst eiga að vera hægt að gera aðrar og meiri kröfur til virtra blaða eins og Viðskiptablaðsins. Það er alvarlegt að brigsla mönnum um að þeir séu vísvitandi að blekkja almenning. Undir því get ég ekki setið þegjandalaust.
Hvað stendur í skýrslunni?
Ég get upplýst lesendur, og pistlahöfund Viðskiptablaðsins, um að ég bæði las þjóðhagsspá Glitnis og mætti auk þess á kynningarfund bankans á henni. Ég stend ennfremur fast við þau orð mín að í spá Glitnis sé gert ráð fyrir að almenningur lendi í að borga brúsann fyrir efnahagsmistök ríkisstjórnarinnar. Skoðum nokkur dæmi:
Um framtíðarhorfur í efnahagsmálum segir orðrétt í umfjöllun Greiningar Glitnis að lendingin í hagkerfinu muni: "…fela í sér tímabundna rýrnun kaupmáttar, lækkun eignaverðs og aukningu vanskila og gjaldþrota svo eitthvað sé nefnt."

Og síðan segir Glitnir að:"...nú blasir við tímabil mikillar verðbólgu, hárra vaxta og lækkun húsnæðisverðs. Skuldahlutföll sem eru í hærri kanti þess sem gerist á alþjóðavísu verða enn verri þegar skoðað er að íslensk heimili greiða mun hærri vexti af þessum lánum sínum en nágrannar þeirra í öðrum löndum."

Og áfram segir í þjóðhagsspánni: "Ljóst er að á þessu ári … [mun greiðslubyrði heimilanna af lánum sem hlutfall af ráðstöfunartekjum] verða talsvert hærri og þrengja að þeim sem mest hafa skuldsett sig á undanförum árum og/eða þeim sem munu sökum versnandi atvinnuástands tapa ráðstöfunartekjum sínum að stórum hluta."

Og enn fremur segir bankinn að: "Atvinnuleysi mun aukast jafnt og þétt…" og annars staðar í skýrslunni er gert ráð fyrir áframhaldandi hárri verðbólgu á næsta misseri og umtalsverðri sveiflu á gengi krónunnar.

Burtséð frá pólitískum viðhorfum pistlahöfundar Viðskiptablaðsins þá er engin leið að horfa framhjá því að allir þessir þættir; kaupmáttarrýrnun, vaxandi atvinnuleysi, gengissveiflur, háir vextir og verðbólga koma illa við hag bæði almennings og fyrirtækja.

Enda segir orðrétt í skýrslu Glitnis: "Hagur heimilanna hefur versnað nokkuð það sem af er ári og er útlit fyrir að hann muni versna enn á næsta ári þegar dregur frekar úr þenslu í hagkerfinu."
Mistök ríkisstjórnarinnar staðfest
Auðvitað er staðan í efnahagslífinu ekki alslæm, enda er veruleikinn sjaldnast svo einfaldur, jafnvel þó að Andríkismönnum og -konum verði æði oft á að líta á allt sem svart eða hvítt. En ég sem stjórnmálamaður, sem hef meðal annars menntað mig í hagfræði, hlýt að mega draga mínar ályktanir af þeim niðurstöðum sem birtast m.a. í þjóðhagsspá Glitnis án þess að vera sakaður um að vera að reyna að villa um fyrir almenningi.

Ég tel mikilvægt að stjórnmálamenn séu ábyrgir og hófsamir í allri umfjöllun um efnahagsmál. Ég er þannig óhræddur við að segja að sumt hefur verið ágætlega gert hér undanfarin ár en það þýðir ekki að horfa eigi framhjá því sem miður hefur farið.

Því miður hefur ríkisstjórnin gert óþarflega mörg mistök í hagstjórninni og verst þykir manni að það sé almenningur sem sýpur seyðið af þessu andvaraleysi ríkisstjórnarinnar. Ég hef áhyggjur af því að stjórnin sé einfaldlega ekki lengur á tánum eftir langa setu við völd. Ráðherrarnir séu ófúsir að taka á efnahagsmálunum fyrir kosningar – sem gæti orðið atvinnulífinu dýrkeypt.
Því má svo bæta við að í hinni margumræddu þjóðhagsspá Glitnis er einmitt fjallað efnislega um nokkur mistök ríkisstjórnarinnar, s.s. aðhaldsleysi hennar í ríkisfjármálunum og benda skýrsluhöfundar á að: "Seðlabankinn mun áfram bera hitann og þungann af mótvægisaðgerðum gegn ofhitnun í hagkerfinu." Óvilhallir aðilar fjármálamarkaðarins hafa ítrekað fjallað um þessi sömu hagstjórnarmistök á opinberum vettvangi.
Í greinum mínum um efnahagsmál hef ég reynt að fara með málefnalegum hætti yfir þá þætti sem ég tel hafa misfarist í efnahagstjórnun ríkisstjórnarinnar og hef ég stuðst við fjölmargar skýrslur aðila fjármálamarkaðarins, þar á meðal Glitnis. Hafi lesendur áhuga á því að kynna sér þessi skrif þá má nálgast þau á heimasíðu minni, agustolafur.is.

Jafnvel þó ekki sé unnt að ætlast til þess að allir séu sammála þá getur ekki talist sæmandi fyrir hið góða blað Viðskiptablaðið að gera mönnum upp annarlegan ásetning á borð við þann að villa vísvitandi um fyrir almenningi eða fyrir að hafa ekki kynnt sér heimildir. Hvorugt á hér enda við.

Þessi grein birtist í Viðskipablaðinu 15. september sl.

Lækkun matvælaverðs - orð og efndir

Undanfarna daga hafa Sjálfstæðisþingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Birgir Ármannsson ljáð máls á mikilvægi þess að lækka matvælaverð á Íslandi. Ég er þeim hjartanlega sammála og fagna þessum nýja liðsauka í umræðunni um lægra verð á matvöru. Hins vegar verður að viðurkennast að sinnaskipti þingmannanna koma furðulega fyrir sjónir. Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á þetta mál, enda er það bjargföst trú mín og félaga minna í þingflokknum að lækkun matarverðs skipti almenning í landinu miklu máli. Samfylkingin hefur reglulega lagt fram þingmál þess efnis að fella niður virðisaukaskatt á matvælum, en með því skapast forsendur til þess að lækka verð á matvöru.


Hvernig kusu menn á þingi um málið?
Í atkvæðagreiðslum hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks hins vegar alltaf greitt atkvæði gegn slíkum frumvörpum. Það hafa þeir Guðlaugur Þór og Birgir einnig gert, sem og allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Í upphafi þessa kjörtímabils lagði Samfylkingin fram frumvarp um helmingslækkun á matarskatti, en það var í samræmi við loforð okkar í kosningabaráttunni. Svo vildi til að Sjálfstæðisflokkurinn hafði lofað því nákvæmlega sama.

En þegar kom að efndum kosningaloforðanna brást þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og greiddi atkvæði gegn þessu máli. Það var ekki liðið hálft ár frá kosningum en það virtist nægilega langur tími til þess að loforð kosningabaráttunnar voru löngu gleymd.

Afturkölluð kosningaloforð Sjálfstæðismanna
8. október 2003 birtist í DV afstaða þingmanna Sjálfstæðismanna til frumvarps Samfylkingarinnar um helmingslækkun á matarskattinum og um leið afstaða þeirra til eigin kosningaloforðs. Einar K. Guðfinnsson, þá þingflokksformaður, sagðist ekki vilja styðja frumvarpið því hann vildi lækka matarskattinn á eigin forsendum eins og hann orðaði það. Ég veit ekki hvernig túlka á þessi orð, því forsendur Sjálfstæðisflokks í þessu máli voru þær sömu og Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni. Hvort að eigin forsendur merki að ekki þurfi að standa við gefin loforð er erfitt að segja. Loforð flokkanna tveggja lutu að því að lækka matarskatt úr 14% í 7%.

Þingmaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson sagði að Sjálfstæðisflokkurinn myndi vinna að þessu máli en það yrði ekki í anda frumvarps Samfylkingarinnar. Aftur nokkuð sérstök afstaða í ljósi loforð hans eigin flokks. Birgir Ármannsson treysti sér ekki heldur að styðja sitt eigið kosningaloforð og vildi frekar bíða og sjá skattapakka ríkisstjórnarinnar í heild sinni.


Nú er komið að lokum þessa kjörtímabils og þessir þingmenn hafa fengið fleiri tækifæri til að kjósa með lækkun matarskattsins en alltaf kosið gegn því.

Viðsnúningur Sjálfstæðisflokks?
Það er óskandi að afstaða þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Birgis Ármannsonar og annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins verði önnur á komandi þingi, en hún hefur verið hingað til. Samfylkingin mun þá að nýju leggja fram tillögur til þess að stuðla að lægra verði á matvöru og þá vonumst við auðvitað til þess að hljóta stuðning frá Sjálfstæðisflokknum. Þá eru til staðar forsendur til þess að hafa með jákvæðum hætti áhrif á þróun matvælaverðs á Íslandi.

Fram til þessa hefur skort á pólitískan vilja í þeim efnum. Kannski þarf kosningabaráttu til að Sjálfstæðismenn fari að rifja upp fyrri stefnu og loforð.

Beðið um fund

Málefni Barnahúss og framkvæmd skýrslutöku á börnum vegna meintra kynferðisafbrota hafa talsvert verið í umræðunni undanfarin misseri. Í fyrsta lagi hafa komið upp efasemdir um þá lagabreytingu sem hefur verið gerð að fyrsta skýrslutaka af barni fer fram sem dómsathöfn. Slíkt fyrirkomulag gerir að verkum að bæði verjandi og sá grunaði eiga rétt á að fylgjast með vitnisburði barnsins. Óhagræðið af því er m.a. að sakborningur getur hagrætt framburði sínum í samræmi við ásakanir barnsins og láti jafnvel sönnunargögn hverfa, eins og dæmi eru um.
Í öðru lagi kemur það kemur það einkennilega fyrir sjónir að stærsti héraðsdómstóll landsins, Héraðsdómur Reykjavíkur, neiti einn dómstóla að nota þá aðstöðu og sérfræðiþekkingu sem er til staðar í Barnahúsi. Barnahúsið hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar erlendra fagaðila og æ fleiri ríki hafa sýnt áhuga að taka upp það vinnulag sem tíðkast í Barnahúsi. Íslendingar standa í þessum efnum framar mörgum þjóðum og verður að teljast furðulegt að ekki standi vilji til þess að notfæra sér þá aðstöðu og þekkingu sem er til staðar í Barnahúsinu.
Af þessu tilefni hef ég og félagar mínir í Samfylkingunni í allsherjarnefnd óskað eftir fundi í allsherjarnefnd Alþingis til að ræða þessi mál. Óskað var eftir að Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu og Helgi I. Jónsson, dómstjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur, yrðu boðaðir á fundinn. Ég er að vonast til að þessi fundur verði haldinn í næstu viku þegar formaður nefndarinnar kemur heim.

Flokksmenn hittast

Ofsalega var gaman að koma í Mývatnssveitina en þar var haldinn um helgina aðalfundur kjördæmaráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Þetta eru skemmtilegar samkomur en ég fór einnig á síðasta aðalfund kjördæmaráðsins sem haldinn var fyrir rúmu ári á Seyðisfirði. Að sjálfsögðu var tekist á á þessum fundi enda var verið að ræða tilhögun prófkjörs í kjördæminu. Sitt sýndist hverjum í þeim efnum en ég held að ágætis lending hafi náðst að lokum. Nú þegar hafa þó nokkrir boðað framboð sitt í þessu kjördæmi sem er hið besta mál. Mikill eindrægni er á meðal flokksmanna í Norðausturkjördæmi að vinna góðan kosningasigur í vor.
Lykillinn að sigri í kosningum
Ég er orðinn löngu sannfærður um að lykillinn að sigri Samfylkingarinnar í næstu Alþingiskosningum er góður sigur í landsbyggðarkjördæmunum. Þar eru ótrúleg sóknarfæri fyrir flokkinn. Flokkurinn er á góðri leið í þessum kjördæmum og skoðanankannanir sýna að við erum á uppleið þar.
Í kvöld verður svo haldinn fundur hjá kjördæmaráði Suðvesturkjördæmis og hef ég hug á því að heimsækja félaga mína þar. Svo stendur til að fara á kjördæmaþingið í Norðvesturkjördæmi um helgina en það verður haldið á Ísafirði. Ég átti þó í mesta basli við að redda mér gistingu á Ísafirði enda nóg að gera í bænum með allt þetta Samfylkingarfólk á staðnum en á sama tíma ku vera haldinn fundur Kiwanismanna sem án efa hefur sín áhrif.

Síðasti kjördæmafundurinn verður síðan haldinn í Suðurkjördæmi á sunnudaginn. Þessir fundir eru einstakt tækifæri til að hitta kjarna flokksmanna í viðkomandi kjördæmum.
Kaffi Bifröst
Í gærkvöldi fór ég annars ásamt Katrínu Júlíusdóttur alþingismanni á stjórnmálafund hjá Samfylkingunni á Bifröst og áttum við gott spjall við nemendur þar. Helstu umræðuefni kvöldins voru dagvistunarmál, menntamál, sjávarútvegsmál, skattamál og almenn velferðarmálefni. Seinna sama kvöld var haldinn spurningakeppni á Kaffi Bifröst þar sem Jón Baldvin var höfundur spurninga og spyrill. Fjöldinn allur af fólki var mættur og var þetta stórskemmtilegt. Ég og Kata vorum saman í liði og ég held að við höfum náð þriðja sætinu. En lið félaga okkar á Bifröst, Hólmfríðar Sveinsdóttur, tókst naumlega að ná sigrinum og er ástæða til að óska henni til hamingju.

Falleinkunn í stjórn efnahagsmála

Stjórn efnahagsmála skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli. Núverandi ríkisstjórn hefur uppskorið falleinkunn í stjórn efnahagsmála og nú sýpur íslenskur almenningur því miður seyðið af því. Ótrúlega margt staðfestir getuleysi ríkisstjórnarflokkanna í efnahagsmálunum. Ríkisstjórnin hefur lengi siglt að feigðarósi í þessum málaflokki og skellt skollaeyrum gagnvart öllum gagnrýnisröddum. Á meðan blæða litlu fjölskyldufyrirtækin og venjulegt fólk í landinu. Í nýrri þjóðhagsspá Glitnis segir að almenningur mun borga brúsann fyrir mistök ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Í spá Glitnis kemur fram að almenningur á von á kaupmáttarrýrnun, lækkun eignaverðs, auknu atvinnuleysi, háum vöxtum, hárri verðbólgu og aukningu gjaldþrota. Þetta þýðir verri lífskjör og starfsaðstæður fyrir bæði fjölskyldur og fyrirtæki.

Óstöðugleikinn blasir við
Verðbólgan hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í 2 ár. Nýr verðbólguskattur er orðinn staðreynd og það hefur aldrei verið eins dýrt að eignast húsnæði á Íslandi, sérstaklega fyrir ungt fólk.
Krónan hefur verið í rússíbanaferð undanfarin ár og sveiflast um allt að 40%. Um 75% af tekjum og gjöldum fyrirtækja í Kauphöllinni eru í erlendri mynt. Almenningur og smáfyrirtækin sitja hins vegar eftir með vonlausa mynt. Starfsskilyrði fyrirtækja hafa versnað í valdatíð ríkisstjórnarinnar.
Viðskiptahallinn er sömuleiðis í sögulegu hámarki og er langmestur hér á landi af öllum OECD þjóðunum. Skuldir almennings, fyrirtækja og þjóðarbúsins hafa aldrei verið hærri. Ísland er ein skuldugasta þjóð veraldar og auðvitað kemur að skuldadögum. Mistök ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum og endalaust góðærishjal hennar hefur gert væntingar óraunhæfar. Ábyrgur málflutningur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum er álíka sjaldséður og ráðherrar í viðtölum með fulltrúum stjórnarandstöðunnar.
Vextir með þeim hæstu í heimi
Almenningur þarf að greiða eina hæstu vexti í heimi en vextir eru ekkert annað en verð á peningum. Vextir á Íslandi eru fjórum sinnum hærri hér á landi en á Evrusvæðinu og meira en helmingi hærri en í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þetta háa vaxtastig er ekkert annað en afleiðing af vonlausri efnahagsstjórn. Íslenskir peningar eru því þeir dýrustu í heimi.
En það rímar svo sem við annað sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Matur á Íslandi er sá dýrasti á jarðarkúlunni vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í tollamálum og vörugjöldum. Svipaða sögu má segja af lyfjaverði og bensínverði. Ríkisstjórnin flokkar meira að segja bleyjur og dömubindi í efra virðisaukaskattþrepi þar sem hinar svo kölluðu lúxusvörur eru sagðar eiga að vera.
Og ofan á þetta allt saman þá hefur ríkisstjórnin aukið skattbyrði hjá öllum tekjuhópum nema hjá þeim allra tekjuhæstu.
Viljum aukinn stuðning við hátækniiðnað
Ein stærstu efnahagsmistök ríkistjórnarinnar eru þó án efa fjársvelti ríkisrekna menntakerfisins og lítill stuðningur við hátækniiðnaðinn. Auka þarf fjárfestingu í rannsóknum og koma á skattaívilnunum fyrir hátæknifyrirtæki. Mannauðurinn er okkar stærsta auðlind og við verðum að hlúa vel að honum. Fjölgun á menntuðu fólki mun skapa meiri auð en við getum ímyndað okkur. En vegna metnaðarleysis ríkisstjórnarinnar í fjárfestingum til menntamála erum við enn að útskrifa færri einstaklinga með framhaldsskóla- og háskólapróf en nágrannaþjóðirnar.

Ég er sannfærður um að það er hægt að gera betur í efnahagsmálum. Og ég er sannfærður um að Samfylkingin mun gera betur. Samfylkingin mun stjórna efnahagsmálunum af festu og ábyrgð. Flokkurinn mun styðjast við sanngjarna forgangsröðun og lífskjör venjulegs fólks í landinu munu batna.
Hægt er að sjá nýlega grein um hver hafi verið helstu efnahagsmistök ríkisstjórnarinnar sem var birt hér á heimasíðunni á 29. ágúst sl.

Fjársveltisstefna í ríkisrekna menntakerfinu

Reglulega blossar upp umræða um skólagjöld við ríkisrekna háskóla. Það er brýnt að hafa í huga að umræðan um auknar heimildir til gjaldtöku stafar fyrst og fremst af því að háskólarnir hafa alltof lengi búið við mjög erfið starfsskilyrði. Mér finnst þetta því ekki vera spurning um það hvort leyfa eigi slíka gjaldtöku, heldur hvort við ætlum að svelta háskólana svo mjög að þeir biðji um heimild til gjaldtöku. Þegar útlit til menntamála eru skoðuð er mikilvægt að gera greinarmun á þeim útgjöldum sem ríkisvaldið ver í málaflokkinn annars vegar og hins vegar þeim útgjöldum sem sveitarfélögin verja í hann. Sveitarfélögin, sem reka grunnskólana, standa sig miklu betur en ríkisvaldið og er Ísland á toppnum hvað varðar það. Undanfarinn áratug hafa jafnaðarmenn stjórnað þeim sveitarfélögum sem reka flesta grunnskóla landsins, sérstaklega í gegnum Reykjavík og Hafnarfjörð.
Ríkisrekna menntakerfi vs. menntakerfi sveitarfélaganna
En þegar er litið til hins ríkisrekna menntakerfis, þ.e. háskólana og framhaldsskólana, þá snýst dæmið við. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD ver Ísland talsvert lægri fjárhæðum í háskóla en okkar helstu samanburðarjóðir. Sé litið til hinna Norðurlandanna erum við mun neðar á listanum en þau þegar kemur að útgjöldum til í háskóla. Sú aukning á fjárframlögum til Háskóla Íslands sem hefur orðið undanfarin misseri mætir ekki einu sinni þeirri nemendafjölgun sem hefur átt sér stað á sama tíma. Svipaða sögu er að segja frá framhaldsskólunum en í þá verjum við einnig talsvert minna fjármagni en nágrannaþjóðir okkar.
Íslendingar minna menntaðir en aðrar þjóðir
Mun lægra hlutfall sérhvers árgangs hér á landi lýkur framhalds- og háskólaprófi en hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Menntunarstig íslensku þjóðarinnar er því lægra en margur heldur og er talsvert lægra en hjá flestum öðrum Vestur-Evrópuþjóðum. Þetta er árangur stefnu Sjálfstæðisflokksins í menntamálum. Þetta mun koma okkur í koll þar sem menntun er lykilatriði framtíðar innan alþjóðasamfélagsins.
Nemendum vísað frá vegna fjárskorts
Í fyrsta skipti í sögunni neyðast framhaldsskólar og háskólar til að vísa fólki frá vegna fjárskorts. Nú í sumar var 2.500 umsóknum í háskólana vísað frá vegna fjársveltisstefnu ríkisstjórnarinnar og hundruð framhaldsskólanemenda fá ekki pláss í þeim skólum sem þeir sóttust eftir.

Þessi ríkisstjórn hefur lítinn metnað í menntamálum enda eru helstu baráttumál hennar í þessum málaflokki skólagjöld í háskólum, samræmd stúdentspróf og skerðing á stúdentsprófi sem sýnir miðstýringu og hugsunarleysi.

Menntun almennings kemur öllum til góða og því ber hinu opinbera að reka háskóla með myndarlegum hætti. Við eigum að draga úr fórnarkostnaði menntunar í stað þess að auka hann eins og ríkisstjórnin stefnir að. Það er stefna Samfylkingarinnar. Samfylkingin mun forgangsraða í þágu menntunar.

Stærsta spurningin

Í gær tók dálkahöfundur hjá Jyllands-Posten viðtal við mig um Evrópumálin. Hans nálgun var fyrst og fremst út frá hagsmunum Norðurlandanna og ég gerði mitt besta til að lýsa minni skoðun á hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég hef lengi verið sannfærður Evrópusinni og tel tækifærin innan sambandsins vera óteljandi, ekki síst fyrir íslensk fyrirtæki og neytendur en ekki síst fyrir íslenska námsmenn. Oft verður umræðan um Evrópumál ansi sérkennileg á Íslandi. Fyrir nokkrum árum, þegar vel áraði í íslensku efnahagslífi, var sagt að þá væri ekki rétti tíminn til að sækja um aðild þar sem okkar vegnaði svo vel fyrir utan sambandið.
Hvenær er réttur tími?
Síðan þegar verr gengur í efnahagslífinu, eins og núna, þá segja sömu menn að þetta sé einnig ómögulegur tími fyrir inngöngu þar sem við þurfum að halda í hagstjórnartæki íslensku krónunnar o.s.frv. Fyrir þetta fólk er aldrei rétti tíminn til að sækja um aðild.
Þegar kemur að aðild Íslands að Evrópusambandinu þá þurfum við að hugsa langt fram í tímann og talsvert lengra en til næstu hagsveiflu. Aðild að sambandinu er einfaldlega í þágu almannahag, hvort sem litið er til aukinna erlendra fjárfestinga á Íslandi, lægra matvælaverðs, aukinna áhrifa, aukins aðhalds í ríkisfjármálum eða jafnvel til lægri skólagjalda á meginlandinu.
Evrópumálin í kosningabaráttunni
Ég vona svo sannarlega að Evrópumálin verði áberandi í komandi kosningabaráttu. Það er ekki einungis vegna þess að spurningin um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu er ein stærsta pólitíska spurning samtímans heldur snýst þessi spurning um grundvallaratriði.
Hún snýst í mínum huga um hvort Íslendingar vilji taka virkan þátt í samstarfi Evrópuþjóða með öllum þeim skyldum og rétttindum sem því fylgja. Það er hvorki tilviljun né heimska að nánast allar þjóðir Evrópu hafi kosið sér þennan vettvang til samstarfs.

Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband