Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2006

Leyniþjónusta í staðinn fyrir herinn?

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra má eiga það að hugmyndir hans vekja athygli. En það þýðir ekki að hugmyndir hans séu endilega góðar. Nú vill hann sannfæra þjóðina um nauðsyn þess að stofna leyniþjónustu. Síðastliðið var samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra um sérstaka greiningardeild Ríkislögreglustjóra sem rannsaka á landráð og skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk og óvini ríkisins. Slík deild er algjört nýmæli hér á landi og á hún m.a. að sinna rannsóknum áður en nokkur glæpur er framinn. Í umræðunni um greiningardeildina boðaði ráðherann að valdheimildir til þessarar greiningardeildar verði auknar í framtíðinni.

Engin þörf fyrir leyniþjónustu, en ástæða til að óttast hana
Og nú ætlar Björn Bjarnason að ganga enn lengra og er farinn að tala fyrir íslenskri leyniþjónustu. Að mínu mati er engin þörf á leyniþjónustu á Íslandi. Það er hins vegar full ástæða til að óttast slíka starfsemi. Vonandi man almenningur eftir aðgerðum ríkisvaldsins gegn Falun Gong en þá komu íslensk stjórnvöld á fót fangabúðum í Njarðvík og stöðvuðu ferðamenn á grundvelli litarhafts og studdust við svarta lista um meinta iðkendur Falun Gong. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvaða hlutverki leyniþjónustan hefði getað gegnt við þessar aðstæður.

Hættan á misnotkun á starfsemi á borð við leyniþjónustu er svo sannarlega fyrir hendi. Og það að tengja brotthvarf hersins við hugsanlega þörf á slíku apparati tekur engu tali. Bandaríski herinn var aldrei með leyniþjónustu fyrir Ísland og því þarf ekki að setja á fót slíka starfsemi vegna brotthvarfs hans.

Að auki má benda á að íslensk stjórnvöld hafa ekki sýnt af sér þann sóma eða þroska að afhenda gögn sem varða hleranir og stendur nú virtur lögmaður í stappi við yfirvöld um afhendingu þessara sjálfsögðu gagna.
Verkin tala
Séu þessar áherslur dómsmálaráðherrans settar í samhengi við fyrri verk hans aukast áhyggjurnar enn frekar. Nýlega lagði dómsmálaráðherra fram lagafrumvarp sem átti að heimila símhleranir án dómsúrskurðar. Hann lagði einnig til frumvarp sem heimilar lögreglu að halda eftir gögnum frá verjanda ótímabundið. Ráðherrann hefur þrefaldað fjölda sérsveitarmanna á skömmum tíma og aukið fjárframlög til Ríkislögreglustjóra um 30%. Þá var samþykkt frumvarp Björns Bjarnasonar sem skerða möguleika fólks á gjafsókn vegna réttarhalda, sérstaklega í málum sem geta varðað málsóknir gegn ríkisvaldinu.

Útlendingalög Björns Bjarnasonar eru sömuleiðis þekkt, þar sem réttindi fjölda Íslendinga til að sameinast erlendum maka sínum á grundvelli hjúskapar voru skert vegna 24 ára reglunnar svokölluðu. Í lögunum er einnig að finna heimild til Útlendingastofnunar til að fara fram á lífsýnatöku úr útlendingum. Eitt ósanngjarnasta atriðið í þessari lagasetningu er þó sennilega það að sönnunarbyrði var snúið við þannig að Íslendingar og erlendir makar þeirra þurfa nú að sanna fyrir yfirvöldum að þeir búa ekki í málamyndahjónabandi.

Til að bæta ofan á alla þessa upptalningu hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins varið skilyrðislausan rétt atvinnurekenda til að taka lífsýni úr starfsfólki sínu og lögfest að afhending IP-talana í tölvum skuli vera án dómsúrskurðar.

Mér finnast þessi verk ríma afskaplega illa við hugmyndir um einstaklingsfrelsi eða þá hugmyndafræði að verja einstaklinginn fyrir ágangi ríkisvaldsins.
Frelsið fer hægt
Frelsisskerðing er oftast nær hægfara þróun en verður ekki í einu vetfangi. Aukið eftirlit og skerðing á persónuréttindum eru ætíð réttlætt með góðum tilgangi. Það er styttra í stóra bróður George Orwell en margur heldur.

Almenningur geldur fyrir efnahagsmistök ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur gert mörg viðurkennd efnahagsmistök á undanförnum misserum og því miður virðist sem ríkisstjórnin læri ekki af mistökum sínum. Fyrstu mistökin voru tímasetning breytinganna á húsnæðislánamarkaðinum og sú staðreynd að þær voru gerðar í einu skrefi. Þessi ákvörðun jók þenslu og verðbólgu til muna. Húsnæðisverð snarhækkaði í kjölfarið og hefur aldrei verið eins dýrt að eignast fyrstu íbúð. Núverandi ástand getur leitt til fasteignakreppu sem hefur í för með sér að fólk mun skulda meira í fasteignum sínum en sem nemur virði þeirra.
Óstjórn og aðhaldsleysi í ríkisfjármálum
Önnur mistök ríkisstjórnarinnar eru ríkisfjármálin. Þar hefur ríkt stjórnleysi og aðhaldsleysi, sérstaklega í fjármálaráðherratíð Geirs H. Haarde.

Hið opinbera hefur tvenns konar úrræði í efnahagsstjórnun. Annars vegar peningamálastefnan sem er á könnu Seðlabankans og hins vegar ríkisfjármálin sem eru verkefni ríkisstjórnar. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa sagst vantrúuð á beitingu ríkisfjármála sem hluta af efnahagsstjórnun. Slík ummæli bera vott um fullkomna vanþekkingu á hagkerfinu. Mat ríkisstjórnarinnar og mat Seðlabankans á efnahagsástandinu er gjörólíkt og þessir aðilar vinna í sitt hvora áttina.

Ríkisstjórnin setur árlega marklaus fjárlög en fjárlögin 2000-2004 gerðu ráð fyrir 82 milljarða króna afgangi af ríkissjóði en þegar reikningurinn var gerður upp kom í ljós 8 milljarða króna halli. Skekkjan þessi ár var því upp á 90 milljarða króna. Á þetta hefur Ríkisendurskoðun bent á og gagnrýnt harðlega.
Ríkissjóður 41% dýrari en 1998
Ríkisútgjöldin hafa aukist um tæpa 100 milljarða króna frá árinu 1998. Ríkisútgjöldin fóru úr 230 milljörðum 1998 í 324 milljarða í fyrra, báðar tölur á verðlagi ársins 2005. Ríkið er því 41% dýrari í rekstri nú en árið 1998. Ekki hefur þjónusta ríkisvaldsins batnað um 41% á sama tíma.

Seðlabankinn er því miður einn í baráttunni gegn verðbólgunni, enda neitar ríkisstjórnin að horfast í augun við raunveruleikann. Einu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eru árásir á vegaumbætur á landsbyggðinni.
Vaxtahækkanir Seðlabankans eru hins vegar mjög kostnaðarsöm leið til að ná tökum á verðbólgunni en hins vegar eru þær rétt leið til að ná niður verðbólgunni. Hin löngu verðtryggðu lán draga þó úr mætti vaxtahækkana Seðlabankans og gera hækkanir Seðlabankans á vöxtum bitlausari en ella.
Skattalækkanir fyrir þá ríkustu
Þriðju mistökin voru skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á kolröngum tíma, en þær renna fyrst og fremst renna til hinna ríku en ekki til venjulegs fólks í landinu. Öll hagfræði segir okkur að þensla eykst með skattalækkunum.

Ríkisstjórnin hefur heldur ekki greint frá því hvernig hún muni borga fyrir skattalækkanir fyrir hina ofurríku.
Helmingi meiri stóriðja framundan
Í fjórða lagi er það stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar sem hefur orðið að efnahags- og umhverfisvanda. Stóriðjuframkvæmdirnar höfðu þó talvert minni bein áhrif á hagkerfið en búist var við en þær höfðu áhrif og þá ekki hvað síst á væntingarnar sem skipta miklu máli í efnahagskerfinu. Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Kárahnjúka urðu aldrei að veruleika. Nú hvetur ríkisstjórnin hins vegar til frekari stóriðjuframkvæmda.

Áætlaðar framkvæmdir eru helmingi meiri að umfangi en þær sem nú eru í gangi, en þær eru aftur miklu stærri en framkvæmdir síðasta áratugar. Tímasetning slíkra framkvæmda hefur afgerandi þýðingu varðandi stöðugleikann.

Mistök ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálunum er því ástæðan fyrir hinum nýja verðbólguskatti ríkisstjórnarinnar sem er ein mesta skerðing á kjörum almennings í langan tíma. Reynslan sýnir að það er ekki hægt að treysta Sjálfstæðisflokknum fyrir hagstjórninni og það er kominn tími á nýja forystu í íslenskum stjórnmálum.

Sjálfstæð hentistefna

Óttalega geta Sjálfstæðismenn stundum verið miklir hentustefnumenn. Það er ekki langt síðan að Sjálfstæðismenn svöruðu gagnrýni á skattlækkanir þeirra til hinna ofurríku á þenslutímum þannig að þær myndu ekki valda neinni þenslu, enda færi fólk betur með fjármuni sína en ríkið. Núna hentar sú röksemdarfærsla Sjálfstæðismönnum hins vegar ekki, enda sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra í dag að ástæðan fyrir því að þeir vildu ekki lækka stimpilgjöldin væri sú að það væri þensluástand. Til eru mýmörg önnur dæmi um þennan tvískinnung Sjálfstæðismanna. Má þar nefna afstöðu þeirra til lækkunar matarskattsins sem þeir segjast í eina röndina styðja en kjósa síðan gegn slíkri lækkun ítrekað í þinginu.
Tvískinnungur í landbúnaðarmálum
Annað dæmi eru landbúnaðarmálin en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa iðulega varið það dýra og óskilvirka kerfi þegar við höfum gagnrýnt kerfið í þinginu (hægt að sjá afstöðu Sjálfstæðismanna til landbúnaðarkerfisins og 30 milljarða króna mjólkursamningsins þeirra á http://www.althingi.is/altext/130/05/r17130447.sgml).
Tvískinnungur í ríkisútgjöldum
Í þriðja lagi mætti benda á að Sjálfstæðismenn eru í aðra röndina duglegir að gagnrýna ríkisútgjöld en á móti kemur að enginn stjórnmálaflokkur hefur aukið umsvif ríkisvaldsins eins mikið og þeir. Frá árinu 1998 hafa ríkisútgjöldin aukist um tæpa 100 milljarða króna á verðlagi ársins 2005. Ríkið er því 41% dýrari í rekstri nú en árið 1998.
Tvískinnungur gagnvart friðhelgi einkalífs
Og afstaða Sjálfstæðisflokksins til friðhelgi einkalífs og persónuréttinda er sömuleiðis nokkuð sérkennileg. Í orði er flokknum mjög umhugað um þessi réttindi, en verkin tala tala og þau eru ekki glæsileg. Stofnun sérstakrar greiningardeildar Ríkislögreglustjóra, afturhaldssöm útlendingalög, frumvarp um símhleranir án dómúrskurðar, afhending IP-talna í tölvum án dómsúrskurðar, skertar gjafsóknarheimildar, aðgerðirnar gegn Falun Gong og síðan réttlæting þingmanna Sjálfstæðismanna á skilyrðislausri lífsýnatöku úr starfsfólki.

Flokksþing hafnar breiddinni

Úrslit á flokksþingi Framsóknarflokksins voru fyrirsjáanleg. Jón Sigurðsson er nýr formaður Framsóknarflokksins og Guðni Ágústsson er varaformaður. Síðustu daga sást hins vegar vel hve sterk staða Sivjar Friðleifsdóttur er. Hún kom fram á allra síðustu dögum, augsýnilega vel undirbúin og fékk mjög góða kosningu. Hún fékk 44% greiddra atkvæða þrátt fyrir þá staðreynd að Halldór Ásgrímsson studdi Jón Sigurðsson og sömuleiðis mikill meirihluti þingflokks. Hins vegar mætti jafnvel halda því fram að sterk staða Sivjar væri að hluta til einmitt vegna stuðnings Halldórs Ásgrímssonar og stuðnings þingflokksins.
Tveir miðaldra íhaldskarlar
Vandi Framsóknarflokksins hefur að mörgu leyti stafað af því hve flokksforystan og jafnvel þingflokkurinn að einhverju leyti hefur fjarlægst grasrótina í flokknum. Það verður einnig að viðurkennast að nýr forystudúett Framsóknar er ekki mjög spennandi, tveir miðaldra íhaldskarlar. Auðvitað þarf að vera til staðar ákveðin breidd í forystusveitinni, bæði hvað varðar kynferði og kynslóðabil. Flokksþing Framsóknar kaus að hafna slíkri breidd. Framsóknarflokkurinn stóð frammi fyrir einstöku tækifæri. Tvær konur buðu sig fram, til formanns og varaformanns, en hvorug náði kjöri. Í því ljósi verða úrslitin að teljast áfall fyrir kvennahreyfingu flokksins.

Siv næsti formaður Framsóknarflokksins
Siv og Guðni sem hvorugt naut stuðnings Halldórsarmsins komast sterk frá flokksþinginu - og ég spái því að Siv verði formaður Framsóknarflokksins hvenær sem það verður. Siv hefur sýnt það og sannað hvers hún er megnug. Hún missti ráðherrastólinn þegar Framsóknarflokkurinn lét umhverfisráðuneytið til Sjálfstæðisflokksins. Sú ákvörðun reyndist afdrifarík, ekki síst fyrir Halldór Ásgrímsson. Siv hefur nú fengið ráðherraembætti á ný og er enn sterkari fyrir vikið.

Guðni og Halldór
Það vakti athygli mína að Guðni minntist ekki einu orði á á Halldór Ásgrímsson í ræðu sinni eftir að úrslit lágu fyrir í varaformannskjöri. Það gerði hins vegar Jón Sigurðsson sem þakkaði Halldóri kærlega fyrir störf hans í þágu flokksins og þjóðarinnar. Ræðurnar tvær birtu þann ágreining sem hefur verið í forystunni og það verður fróðlegt að sjá hvernig ný forysta mun ná saman.

Hamingjuóskir til hinna fjölmörgu sigurvegara
Sæunn Stefánsdóttir er verðug þess að hljóta ritaraembættið. Við kynntumst í MR og störfuðum saman í nemendafélaginu Framtíðinni og ég veit að þar fer hörkukona, dugleg og skynsöm. Að lokum er ástæða til að óska sigurvegurum þessa flokksþings innilega til hamingju með árangurinn.

Ríkisstjórnin hótar eldri borgurum

Ólafur Ólafsson, formaður Landssambands eldri borgara greindi frá því í dag, að ríkisstjórnin hafi hótað forsvarsmönnum Landssambands eldri borgara því, að ef þeir skrifuðu ekki undir viljayfirlýsingu um málefni eldri borgara, yrði fjármagn í hjúkrunarheimilin og heimaþjónustu ekki tryggt. Á mannamáli: ef menn skrifuðu ekki undir viljayfirlýsinguna fengju þeir sennilega ekki neitt. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru mjög upplýsandi um þankagang ríkisstjórnarinnar. Þarna sýnir ríkisstjórnin sitt rétta andlit gagnvart eldri borgurum og um leið er hagsmunasamtökum eldri borgara sýnd alveg ótrúleg vanvirðing.

Forkastanleg vinnubrögð
Með slíkum hótunum er ríkisstjórnin að neyða eldri borgara til undirskriftar að viljayfirlýsingu sem ríkisstjórnin mun síðan flagga í aðdraganda kosninga. Að neyða Landsambandið til undirskriftar að yfirlýsingu sem það er ekki fyllilega ánægt með.
Útspil ríkisstjórnarinnar í málefnum eldri borgara hefur ekkert með skilning ríkisstjórnarinnar á högum eldri borgara að gera en hins vegar allt með kosningaáróður að gera. Svo hart ganga menn fram til þess að tryggja heppilegan áróður að Landsambandinu var hótað að tækju þeir ekki þátt myndu það finna fyrir því.
Sami leikur fyrir síðustu kosningar
Ríkisstjórnin lék einmitt þennan leik rétt fyrir síðustu alþingiskosningar en þá var einnig gert samkomulag við eldri borgara. Að loknum kosningum var samkomulagið svo svikið eins og menn muna. Auðvitað ætti það að vera metnaður ríkisstjórnarinnar að bæta stöðu eldri borgara í samfélaginu en svo er sannarlega ekki hjá þessari ríkisstjórn. Það vita eldri borgarar og finna. Málefni eldri borgara eru síður en svo forgangsmál ríkisstjórnarinnar.
Sviðin jörð í málefnum eldri borgara
Ef litið er á heildarmyndina kemur sviðin jörð í málefnum eldri borgara í ljós. Þriðji hver eldri borgari þarf að lifa á 100 þúsund krónum eða minna á mánuði. Mikill skortur er á búsetuúrræðum fyrir eldri borgara og heimahjúkrun hér á landi er talsvert minni en tíðkast á öllum hinum Norðurlöndunum.

Um 400 eldri borgarar eru í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum. Á annað hundrað eldri borgara liggja á Landspítalanum eftir að meðferð þeirra þar lýkur. Setuverkföll hafa viðgengst á öldrunarheimilum vegna lágra daggjalda frá ríkinu. Og lágar tekjur eldri borgara eru nú skattlagðar í fyrsta skipti og eldri borgarar búa við harkalegar skerðingarreglur hins opinbera. Þetta er veruleikinn sem eldri borgarar búa við og því þarf að fá viljayfirlýsingu fyrir kosningar svo hægt sé að beina sjónum manna annað.
Verðbólguskattur ríkisstjórnarinnar étur hækkanirnar
Vert er að hafa í huga að í nýrri viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og eldri borgara er einungis verið að skila tilbaka hluta af þeim umfangsmiklu skerðingum sem aldraðir hafa orðið fyrir í valdatíð þessarar ríkisstjórnar. Og í ofanálag mun einungis þriðjungur þeirrar hækkunar sem nú mun eiga sér stað skila sér í vasa fólk vegna hins nýja verðbólguskatts sem ríkisstjórnin stendur fyrir.

Ríkisstjórn hinna útvöldu

Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í ríkis- og skattamálum undanfarin ár endurspegla grundvallarmun á ríkisstjórnarflokkunum og Samfylkingunni. Ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skatta- og velferðarmálum eru teknar saman kemur í ljós rauður þráður þar sem þrengt er að venjulegu fólki og eldri borgurum. Fjármálaráðherra staðfesti nýlega í svari á Alþingi, að skattbyrði hefur aukist hjá öllum landsmönnum nema hjá þeim langtekjuhæstu. Skerðing skattleysismarka, sem að mestu kemur fram eftir að þessi ríkisstjórn tók við, er svo harkaleg að ríkissjóður hefur tekið tugi milljarða króna meira til sín en ef skattleysismörk hefðu haldið raungildi sínu.

Fyrirhuguð hækkun á skattleysismörkum, sem náðist í gegn af hálfu verkalýðshreyfingarinnar þrátt fyrir mótþróa ríkisstjórnarflokkanna, er nánast helmingi lægri en það sem hefði þurft til þess að skattleysismörkin ættu að vera jafnhá og þau voru þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum.
Ný skattheimta á eldri borgara
Hafin er áður óþekkt skattheimta á eldri borgurum og öryrkjum. Landssamband eldri borgara hefur bent á að eldri borgari með 110.000 kr. í tekjur hefur nú þurft að greiða um 14% af tekjum sínum í skatt. En sami eldri borgari greiddi einungis 1,5% á árinu 1988. Öryrkjabandalagið bendir sömuleiðis á að lífeyrisþegi sem fær einungis greiddar bætur almannatrygginga greiði jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatta.
Um 30.000 manns eru með tekjur undir 100.000 kr. í landinu og þeir greiða nú tvo milljarða í skatta sem þeir gerðu ekki áður en þessi ríkisstjórn tók við völdum.
Almenningur borgar brúsann
Nú hefur svo þessi kjaraskerðing ríkisstjórnarinnar til margra ára verið notuð sem skiptimynt í kjaraviðræðum sem sýnir skipsbrot hennar í efnahagsmálum. Eftir stendur að það er fólkið í landinu sem borgar brúsann og ríkisstjórnin mun hreykja sér af samningum sem almenningur greiðir sjálfur fyrir. Vinnuveitendur eru vitaskuld himinlifandi að ríkið borgi kjarasamningana fyrir þá.

En með þessari ákvörðun hefur ríkisstjórnin hins vegar ekki aðeins svikið sitt helsta kosningarloforð um flata lækkun á tekjuskattsprósentunni heldur einnig viðurkennt að sú skattastefna þjónaði ekki hagsmunum venjulegs fólks í landinu heldur fyrst og fremst hinum útvöldu og efnamestu.
Ríkisstjórnin hyglar hinum efnamestu
Hugmyndafræði ríkisstjórnarflokkanna sést einnig vel í þeim skattaaðgerðum sem þeir lögfestu. Um 60% af lækkuninni átti að renna til 25% tekjuhæstu einstaklinganna en aðeins um 2% fara til lægstu 25%. Það þýðir í reynd að þeir allra tekjuhæstu fá mest og þeir allra tekjulægstu fá nær ekkert. Nærri 25% af heildarlækkuninni átti að fara til þeirra 5% tekjuhæstu. En einungis 0,1% af heildarlækkuninni átti að fara til 5% tekjulægstu.

Sömu sögu er að segja frá eignarskattslækkuninni. Um 24% af eignarskattslækkuninni rennur til 5% tekjuhæstu einstaklinganna. En einungis 1,2% af eignarskattslækkuninni rennur til 15% tekjulægstu einstaklinganna.

Um 1% ríkustu Íslendinganna eru með 88% af tekjum sínum sem fjármagnstekjur sem er í 10% skattþrepi. Þessir einstaklingar greiða að meðaltali um 12% af tekjum sínum í skatta á meðan fólk með meðaltekjur greiðir um 26%. Hinir efnamestu leggja því ekki fram sama hlutfall í þágu almannahags vegna skattakerfis ríkisstjórnarinnar.

Þegar allar breytingar ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu frá 1995 eru lagðar saman kemur í ljós að maður með milljón króna mánaðarlaun þarf að greiða einum mánaðarlaunum sínum minna í skatt á ári en á meðan þarf ellilífeyrisþeginn að borga ein mánaðarlaun sín meira í skatt á ári.
Víðtækar kjaraskerðingar ríkisstjórnarinnar
Á fjölmörgum öðrum sviðum hefur ríkisstjórnin staðið fyrir víðtækum kjaraskerðingum. Má þar nefna skerðingu á vaxtabótum og barnabótum en frá árinu 1995 eru útgjöld vegna barnabóta um 10 milljörðum krónum lægri en þau hefðu verið ef barnabætur hefðu fengið að halda raungildi sínu eins og það var á árinu 1995.

Þá býr íslenskur almenningur við eitt hæsta matvælaverð í heimi vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í skatta- og tollamálum. Sömuleiðis er lyfjaverð hér eitt það hæsta í Evrópu og Íslendingar greiða nánast dýrasta bensínverð sem þekkist.
Þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu og skólagjöld í ríkisreknum háskólum hafa hækkað umtalsvert undanfarin ár. Og vegna slæmrar hagstjórnar ríkisstjórnarflokkana eru vextir hvergi jafn háir og á Íslandi og verðbólgan hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tvö ár. Þetta er nú allur árangur ríkisstjórnarinnar.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband