Bloggfærslur mánaðarins, september 2003

Lögum heilbrigðiskerfið



Heilbrigðismál eru langstærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Heilbrigðismál snerta einnig mikilvægustu hagsmuni hvers einstaklings. Þrátt fyrir augljóst mikilvægi málaflokksins er víða pottur brotinn í heilbrigðismálum þjóðarinnar sem þó er sú sjötta ríkasta í heimi.
Heildarútgjöld Landspítala-háskólasjúkrahúss eru um 25 milljarðar króna á ári. Til samanburðar kosta um allir framhaldsskólar landsins um 10 milljarða króna á ári. Hallarekstur Landspítalans hefur verið viðvarandi og fyrir árið 2003 stefndi hallinn vel á annan milljarð króna án fjárauka. Við blasir að núgildandi kerfi með stökum tímabundnum plástrum gengur engan veginn upp.
Samkeppni í lyfjamálum
Fólk þarf að átta sig á því að núverandi fjármagn dugar einfaldlega ekki fyrir þeirri þjónustu sem spítalinn veitir. Annaðhvort þarf að auka fjármagn eða breyta þjónustunni. Í raun þarf að gera hvoru tveggja. Til að byrja með þarf að skilgreina ítarlega hvert hlutverk Landspítala-Háskólasjúkrahúss á að vera. Fara verður yfir lögbundið hlutverk spítalans og hvert hið æskilega og raunhæfa hlutverk hans sé. Það er ekki gefið að Landspítalinn eigi að sinna allri þeirri þjónustu sem hann gerir nú. Hugsanlega er spítalinn að vinna verk sem eiga betur heima annars staðar, s.s. hjá heilsugæslunni.

Ná þarf sömuleiðis niður lyfjakostnaði en samanburður við lyfjaverð í nágrannaríkjum sýnir að það er hægt. Lyfjakostnaður spítalans er um 6,5 milljón krónur á degi hverjum. Taka þarf upp raunverulega samkeppni við sölu lyfja til heilbrigðisstofnana en nú búa þær við óeðlilegt samkeppnisumhverfi lyfsala sem leiðir af sér dýrari lyf en ella. Regluverkið virðist einnig oft vera miðað fremur að þörfum lyfsala en við hag heilbrigðisstofnanna, s.s. að því er varða merkingar o.fl.

Stytta þarf biðlista sem eru einfaldlega dýrir, ekki einungis fyrir þá sem fyrir biðinni verða heldur einnig fyrir þjóðfélagið allt. Það ætti því að vera auðsótt mál að hreinsa þá upp ef aðeins er litið á krónur, aura og hagkvæmni.
Skoða breytt rekstarform
Launakostnaður er um 65% af heildarútgjöldum Landspítalans og því skipta starfsmanna- og kjaramál miklu máli fyrir afkomu spítalans. Ná þarf böndum yfir starfsmannafjölda og forðast kostnaðarsamar kjaradeilur, þó hefur margt jákvætt gerst í þeim málum undanfarin misseri.

Skoða verður með opnum huga breytt rekstarform í heilbrigðisþjónustunni. Jafnframt þessu verður þó að tryggja fullt aðgengi allra einstaklinga að heilbrigðisþjónustunni óháð efnahag. Breytt rekstrarform getur þó vel verið lausn á ýmsum vanda heilbrigðisþjónustunarinnar.

Einnig þarf að huga að því að láta fjármagn ríkisvaldsins fylgja sjúklingunum í mun meiri mæli en nú er gert en svipuð aðferðarfræði hefur verið tekin upp í menntakerfinu hvað varðar nemendur. Með því ætti að fást betri nýting mannafla og tækja og meiri skilvirkni í þjónustu heilbrigðisstofnana og jafnvel samkeppni á milli þeirra. Sjúkrahús Suðurlands ætti t.d. að geta boðið höfuðborgarbúum upp á ákveðna þjónustu og fengið fjármagn frá ríkisvaldinu í samræmi við þá þjónustu. Samhliða slíkum breytingum þarf þó að ljúka að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna.

Færa á þjónustu heilsugæslu og öldrunarþjónustu til sveitarfélaga enda hefur það tekist vel þar sem það hefur verið gert. Í því sambandi mætti hugsa sér að bæjarfélagið þyrfti að standa straum af kostnaði við að legu sjúklinga, s.s. eldri borgara, á sjúkrahúsum eftir að meðferð þeirra lýkur þar. Við það myndast hvati hjá bæjarfélögum að byggja hjúkrunarheimili þar sem hvert rúm er margfalt ódýrara en rúm á sjúkrahúsum. Nú er of hátt hlutfall sjúkrahúsrúma notuð til að sinna einstaklingum sem ættu frekar heima á hjúkrunarheimilum ásamt allt of löngum biðlista eftir plássi á hjúkrunarheimilum.

Skoða ber einnig þá kosti að hafa hjúkrunarheimili í stærri einingum en nú er gert. Við slíkt myndast forsendur fyrir stærðarhagkvæmni og samnýtingu á þjónustu s.s. íþróttaaðstöðu, félagsstarf, endurhæfingu o.s.frv. Þjónustuíbúðir aldraða ættu einnig heima á slíku svæði og myndu íbúar þeirra njóta góðs af umræddri þjónustu. Þörfum maka sem þurfa á mismikilli umönnun væri einnig mætt með nálægð þjónustuíbúða aldraða við hjúkrunarheimili.
Grunnskylda samfélagsins
Það kemur á óvart við að heimsækja sjúkrastofnanir á Íslandi hve mikið er um gjafir frá einstaklingum og félagasamtökum. Hjá mörgum heilbrigðisstofnunum hafa flest tæki og búnaður verið keypt fyrir gjafafé. Heilbrigðisþjónusta á Íslandi væri ekki sjón að sjá án velvilja einstakra Íslendinga síðustu áratugi. Þótt Íslendingar hafi sýnt mikla gjafmildi í garð heilbrigðisþjónustunnar þarf því miður meira til. Velferðarkerfi, sem býr við forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar, þarf sem aldrei fyrr á venjulegum borgurum að halda. Það þarf því þjóðarátak til að koma heilbrigðismálum þjóðarinnar á réttan kjöl. Sérstaklega þegar breytt aldurssamsetning þjóðarinnar er höfð í huga. Samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mun hlutfall eldri borgara miðað við þá sem eru á vinnualdri tvöfaldast næstu 50 árin.

Það er grunnskylda samfélagsins að sinna sjúkum og slösuðum samborgurum sómasamlega ásamt því að tryggja viðunandi úrræði fyrir aldraða. Á meðan þessir hlutir eru í ólestri þá getur ríkisvaldið erfiðlega réttlætt önnur útgjöld.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 144245

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband