Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Á hvaða lista eru um 1% þjóðarinnar?

Eldri borgararBiðlistarnir í velferðarkerfinu er ein besta ástæðan fyrir því að skipta þarf hér um ríkisstjórn. Auðvitað sýnir það kolranga forgangsröðun að láta 170 börn vera á biðlista eftir þjónustu Barna- og unglingageðdeildar eða 400 eldri borgara vera í brýnni þörf eftir hjúkrunarrými. Eða tæplega 300 börn sem eru látin bíða eftir greiningu hjá Greiningarstöð ríkisins í allt að þrjú ár.

Þá eru 650 námsmenn á biðlista eftir húsnæði. Og ekki má gleyma þeim 3.145 Íslendingum sem eru á biðlista eftir þjónustu á Landspítalanum en það er meira en 1% af þjóðinni! Svona mætti lengi telja.

Þessir biðlistar snerta nánast allar fjölskyldur í landinu. Og þeir snerta samvisku þjóðarinnar sem á ekki að sætta sig við biðlistapólitík ríkisstjórnarflokkanna.


Spurning á laugardagsmorgni

Ég tók eftir því að formaður Framsóknarflokksins sagði þegar hann skipti út stjórnarformanni Landsvirkjunnar að það væri nú "ástæða til að skipta um eftir rúman áratug og það væri þannig með stjórnir, nefndir og ráð að það væri heppilegt að skipta með hæfilegum og skynsamlegum fresti."

Á þetta ekki líka við um stjórnmálaflokk sem er búinn að vera stöðugt í ríkisstjórn í 35 ár, að fjórum árum undanskildum? Eða annan ónefndan stjórnmálaflokk sem er búinn að vera í ríkisstjórn í 16 ár? Maður bara spyr svona á laugardagsmorgni.


Bleyjupakki ríkisstjórnarinnar

peningar a treAuðvitað verður fólk vart við hinn sívaxandi ójöfnuð. Þennan ójöfnuð má að stórum hluta rekja til ákvarðana þessarar ríkisstjórnar. Í valdatíð ríkisstjórnarinnar hefur einungis einn tekjuhópur upplifað minni skattbyrði en áður. Það er sá hópur sem er með allra mestu tekjurnar, fólk með meira en 1,2 milljón kr. á mánuði. Skattbyrði allra hinna, 90% þjóðarinnar, hefur þyngst.

En svar Sjálfstæðismanna vegna sívaxandi skattbyrði hefur ætíð verið á þá lund að tekjur fólks hafi aukist og því aukist skattbyrðin.

Af hverju gerist það sama ekki erlendis?
En hvernig má vera að fólkið í topp 10% tekjuskalanum upplifir minni skattbyrði þrátt fyrir að tekjur þeirra hafi einnig aukist?

Og hvernig má vera að í löndunum í kringum okkur þar sem tekjurnar hafa einnig aukist er fólk ekki að upplifa þyngri skattbyrði?

Við skulum muna hvernig skattlækkanir ríkisstjórnarinnar hafa skipst á milli borgaranna. Þær skattalækkanir sem voru samþykktar 2005 skiptust þannig að 25% tekjuhæstu fengu 2,5 milljarð kr. í sinn snúð en 25% tekjulægstu 300 milljónir kr. eða næstum 10 sinnum lægri upphæð.

Bleyjupakki vs. utanlandsferð
Skattalækkanir þessa sama árs færðu grunnskólakennara með meðallaun um 1.900 kr. í skattalækkun sem nægir rúmlega fyrir einum bleyjupakka á mánuði.

En á meðan fékk maður með milljón á mánuði um 23.000 kr. í skattalækkun mánaðarlega eða ígildi einnar utanlandsferðar í hverjum mánuði.

Þessu til viðbótar hefur ríkisstjórn markvisst haldið skattleysismörkunum niðri.

Ríkisstjórnin hefur flutt æ stærri hlut af byrðinni yfir á venjulega fólkið í landinu og því hefur ójöfnuður aukist. 


mbl.is Fólk telur ójöfnuð meiri nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugur til atvinnulífsins

Þetta eru ánægjuleg tíðindi. Ég skrifaði ekki fyrir löngu grein sem ég kallaði ,,Allir vilja vinna í banka" þar sem ég dró fram skoðun mína að bankarnir væru mjög spennandi og eftirsóknarverður starfsvettvangur fyrir ungt fólk. Þessi könnun sýnir það. Framtíð þessa lands byggist á hugviti og mannauði og á það eigum við stjórnmálamennirnir að veðja.

Tillögur Samfylkingarinnar á Sprotaþinginu um daginn sýndu hug Samfylkingarinnar til þekkingariðnaðarins en á því þingi kusu frumkvöðlar og bissnessmenn á milli tillagna stjórnmálaflokkanna um þekkingariðnaðinn. Skemmst er frá því að segja að tillögur Samfylkingarinnar lentu í þremur efstu sætunum.

Annað sem Samfylkingin leggur áherslu á er jafnvægi í efnahagskerfinu en það hefur ekki verið til staðar í valdatíð Sjálfstæðisflokksins eins og allir vita. Sömuleiðis er Samfylkingin á móti geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna eins og þær birtast þegar fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins ákveður að banna ákveðnum fjármálafyrirtækjum að gera upp í erlendri mynt út af andstöðu sinni og Davíðs við Evrópusambandið.


mbl.is Yfir þúsund störf urðu til í fjármálastarfsemi á síðasta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kona forseti Frakklands?

Það stefnir í spennandi kosningar í Frakklandi. Þessar kosningar verða sögulegar fyrir margar sakir. Ein þeirra er sú staða að forseti Frakklands verður hugsanlega í fyrsta skipti kona. Royal höfðar mjög sterkt til mín og eftir að hafa fylgst lítillega með baráttunni verð ég sannfærðari um þar fari sterkasti frambjóðandinn í þessum kosningum. Ég er að sama skapi mjög hrifinn af þessu franska fyrirkomulagi við forsetakosningar. Tvær umferðir eru af hinu góða þegar velja á forseta landsins.

Annars er mjög fróðlegt að fylgjast með framgangi mjög öflugra kvenna í stjórnmálum samtímans. Við erum ekki bara að tala um Royal í Frakklandi heldur einnig Nancy Pelosi og Hillary í Bandaríkjunum, Monu Sahlin í Svíþjóð og Helle Thorning-Schmidt í Danmörku.

Íslendingar geta einnig tekið þátt í þessari þróun með áþreifanlegum hætti þann 12. maí með því að gera Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að forsætisráðherra.


2 samviskuspurningar

samfylkingasólMikið var ég ánægður með mitt fólk í sjónvarpinu í kvöld. Jóhanna Sig sýndi sína góðu takta og sannar að það stenst hana enginn snúninginn þegar kemur að velferðarmálunum. Þar er hún einfaldlega á heimavelli og í algjörum sérflokki. Björgvin var einnig mjög góður í umræðum um menntamálin, enda hefur hann lagt ríka áherslu á þau og er mjög öflugur í þeim málaflokki eins og öðrum.

Þessir tveir málaflokkar birta vel nauðsyn þess að skipta hér um ríkisstjórn. Ríkisstjórnin hefur einfaldlega staðið sig illa í velferðarmálunum og hefði auðveldlega getað gert mun betur í menntamálum. Það sýnir samanburður á framlögum til grunnskólans, sem sveitarstjórnir landsins reka, og svo framlag til háskóla- og framhaldskólana sem ríkið rekur.

Kjósendur þurfa að svara a.m.k. tveimur grundvallarspurningum fyrir kosningar.

Sú fyrri er hvort að fólk vilji ríkisstjórn sem er ábyrg fyrir því að Ísland er í 21. sæti af 30 helstu iðnríkjum heims þegar kemur að opinberum útgjöldum í háskólana og hvort að fólk sé sátt við það að Ísland sé í 16. sæti þegar borin eru saman opinber úgjöld til framhaldsskóla.

Sú síðari varðar velferðarmálin og aðbúnað aldraðra. Vill fólk ríkisstjórn sem er ábyrg fyrir því að um 400 eldri borgarar eru í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum og um 1.000 eldri borgara eru í þvingaðri sambúð með kolókunnugu fólki? Munum að það eru fjölmörg dæmi um eldri hjón sem hafa verið aðskilin á ævikvöldi sínu vegna skorts á búsetuúrræðum en þau eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.


Munur á tillögum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks

Hún er merkileg grein Ólafs Ólafssonar, formanns Landssambands eldri borgara og Einars Árnasonar hagfræðings sem birtist í Mogganum í dag. Þar lýsa þeir vel hversu skammt tillögur Sjálfstæðisflokksins í málefnum eldri borgara ná í raun og veru. 25.000 kr. útspil Geirs Haarde verður að 7.500 kr. þegar tekið er tillit til skatta og skerðinga sama manns.

Og hitt stóra útspil Sjálfstæðisflokksins í málaflokknum um breytt skerðingarhlutfall hækkar tekjur eldri borgara um heilan þúsund kall. Þetta er nú allt örlætið sem Geir og félagar sýna eftir áratuga vanrækslu.

50.000 kr. Samfylkingarinnar vs. 8.500 kr. Sjálfstæðisflokksins

Á meðan munu tillögur Samfylkingarinnar í málefnum eldri borgara skipta fólk raunverulegu máli. Að lækka skatta á lífeyrissjóðstekjum úr tæpum 36% og niður í 10% ásamt 100.000 kr. frítekjumarki sem bæði nær til atvinnutekna og lífeyrissjóðstekna mun auka tekjur einstaklings sem hefur 100.000 kr. úr lífeyrissjóði um 50.000 kr. á mánuði. Það er alvöru upphæð.

Enn á ný ætti valið að vera auðvelt þann 12. maí.


Flestir treysta Samfylkingunni

Könnun sem Capacent vann fyrir Samfylkinguna sýnir að kjósendur treysta Samfylkingunni best allra flokka til að hrinda í framkvæmd umbótum í velferðarmálum, verðlagsmálum og jafnréttismálum.

Kjósendur treysta Samfylkingunni best flokka til að afnema kynbundinn launamun, eyða biðlista eftir hjúkrunarrýmum og afnema stimpilgjöld svo nokkur dæmi séu nefnd. 

Jafnmargir treysta Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum til að lækka matvælaverð.  Þetta voru þau málefni sem höfðu mestan hljómgrunn meðal kjósenda samkvæmt þessari könnun.  Könnun Capacent var gerð í gegnum síma, úrtakið var 1900 manns og var svarhlutfallið 73%.


Ísland í 23. sæti af 30

MenntunMér finnst að menntamál eigi að verða kosningamál út af þremur ástæðum. Sú fyrsta er að menntun er grundvöllur framfara þjóðarinnar. Önnur ástæðan er að menntakerfið er jöfnunartæki framtíðarinnar. Sú þriðja er að við erum ekki að standa okkur nógu vel í menntamálum.

Förum yfir nokkrar staðreyndir því til stuðnings:

1. Hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem hafa lokið framhaldsskólanámi er 68% en á hinum Norðurlöndunum er þetta 86-96% samkvæmt nýjustu skýrslu OECD um menntamál. Meðaltalið í OECD er 77% og í ESB 78%. Ísland í 23. sæti af 30 OECD þjóðum og eru því borgarar flestra iðnríkja heims menntaðri en Íslendingar.

2. 40% þeirra sem eru á íslenskum vinnumarkaði eru með grunnskólapróf eða minna. Á hinum Norðurlöndunum er þetta hlutfall 12-19%.

3. Hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem hafa lokið háskólanámi er 31% en á hinum Norðurlöndunum er þetta 35-42%. Meðaltalið í OECD er 31%. Við erum hér í 17. sæti af 30 þjóðum.Háskólinn

4. Þegar kemur að opinberum útgjöldum í háskólana er Ísland er í 21. sæti af 30 þjóðum.

5. Og þegar kemur að opinberum útgjöldum í framhaldsskólana er Ísland í 16. sæti og eru flestar samanburðarþjóðir okkar fyrir ofan okkur.

Ríkisrekna skólakerfið vs. skólakerfi sveitarfélaga

En dæmið snýst við þegar kemur að þeim skólastigum sem sveitarfélögin reka, þ.e. grunnskólarnir og leikskólarnir.

Ísland er nánast á toppnum þegar kemur að fjárfestingum í þessi skólastig en það hafa einmitt verið jafnaðarmenn í Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Árborg o.s.frv. sem hafa rekið flesta þessa skóla undanfarinn áratug. Þannig hefur okkar fólk sýnt viljann sinn í menntamálum í verki. En þau skólastig sem ríkisstjórnin rekur, þ.e. framhaldskólarnir og háskólarnir, eru fjársvelt.

Að lokum minni ég á að einn stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur haft  menntamálaráðuneytið í 21 ár af síðustu 24 árum. Niðurstaðan af þeirri valdatíð er sú að við erum að útskrifa færri en aðrir, verja minna fjármagni en aðrir og höfum meira brottfall en flestar þjóðir Evrópu.


Í hvaða hverfi borgarinnar má finna 16 leikskóla?

grafarvogurÉg fór í fermingu í gær í Grafarvoginum. Sóknin í Grafarvoginum er ein sú stærsta í landinu og ég held að séra Vigfús Þór muni þurfa að ferma langt fram á sumar. Það er með ólíkindum hvað margir búa í Grafarvoginum en um daginn heimsótti ég 16 leikskóla, aðeins í því hverfi. Grafarvogurinn er orðinn um 20.000 manna byggð sem er svipaður fjöldi og er á öllu Eyjafjarðarsvæðinu.

Í fermingunni var annars heilmikið rætt við mig um þetta risastökk sem Samfylkingin tók í skoðanakönnun Gallups sem var birt í gær en flokkurinn hækkaði sig um heil 6% á einni viku. Ég er  sannfærður um að nú sé flokkurinn kominn á siglingu. Kosningabaráttan gengur mjög vel og málstaður okkar virðist ná vel til kjósenda.

Enda hefur aldrei verið eins mikil þörf á því að hugmyndir Samfylkingarinnar nái að komast til framkvæmda, hugmyndir um stórbætt kjör eldri borgara, öryrkja og barnafólks, hugmyndir um raunverulegt jafnrétti kynjanna og byggðanna, hugmyndir um öflugan þekkingariðnað og hugmyndir um ódýrara Ísland, Fagra Ísland og Unga Ísland þar sem börnin eru sett í forgang.

Að lokum minni ég á fjölskylduhátíð Samfylkingarinnar sem verður haldinn á morgun, laugardag, í Húsdýragarðinum. Allir velkomnir og ókeypis í tækin. Jibbíí. 


Næsta síða »

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband