Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Elsku besta krónan okkar

skjaldamerkiÉg hef lengi verið talsmaður þess að Ísland ætti að ganga inn í Evrópusambandið. Einn af helstu kostum aðildar tel ég felast í nýjum gjaldmiðli sem tekur ekki þátt í rússíbanaferð fram í rauðan dauðann eins og ónefnd króna sem við öll þekkjum svo vel. En um daginn var ég skammaður fyrir að tala illa um íslensku krónuna.

Viðmælandi minn sagði við mig að ég mætti ekki tala svona um blessuðu krónuna og segja að hún væri handónýt o.s.frv. Ég sá að þessi einstaklingur bar ákveðnar tilfinningar til íslensku krónunnar og fannst jafnvel vera að sér vegið þegar fólk talaði svona illa um gjaldmiðilinn. Ég fór því að hugsa hvort fólk gæti haft slíkar tilfinningar til gjaldmiðils. Er það hluti af þjóðarvitundinni að hafa sérstakan gjaldmiðil? Kemur krónan þjóðarstolti við eða jafnvel þjóðrembu? Er Ísland eitthvað minna íslenskt ef við höfum ekki íslenska krónu?

Ég hef alltaf litið á gjaldmiðil sem verkfæri, eitthvað sem maður notar til að stunda viðskipti og kaup á nauðsynjavörum. Og ef það er til betra verkfæri til þess af hverju ætti maður ekki að nota það? Sérstaklega þegar allir aðrir eru farnir að gera það.

En kannski ætti maður að tala af meiri virðingu um krónuna. Og kannski verða eftir 10 ár fjórir gjaldmiðlar í heiminum, evran, dollarinn, jenið og svo íslenska krónan.


Hvað kostar fæðingin?

SkattarUmræðan um skattamál á Íslandi verður oft æði sérkennileg. Réttrúnaðurinn virðist ganga út á skattar þurfi og eigi að vera sem lægstir. En það er eins og það gleymist stundum að velferðarkerfið kostar. Menntakerfið kostar og samgöngur kosta o.s.frv. Kostnaður við ,,venjulega” fæðingu er í raun og veru 72.277 kr. þótt almenningur þurfi ekki að greiða fyrir hana beint úr eigin vasa. Handaraðgerðir vegna áverka, stutt meðferð, kostar 130.002. kr. Hver grunnskólanemandi kostar um 500.000 á ári og hver nemandi á háskólastigi kostar frá 420.000 á ári og til 2,2 milljóna kr. á ári.

Þetta er allt þjónusta sem er greidd af sameiginlegu skattfé. Í umræðunni ættu stjórnmálamenn að tengja betur saman skattana og þá þjónustu sem skattarnir greiða. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því hvað við erum að fá mikla þjónustu fyrir skattana okkar. Skattar eru fjárfesting í samfélaginu.

Ástæða fyrir því að ég fór að velta þessu fyrir mér er sú að ég sat Viðskiptaþing um daginn. Ég varð nefnilega nokkuð hugsi þegar allur hópurinn í salnum klappaði sérstaklega fyrir tillögu sem gerði ráð fyrir 10% flatri skattlagningu á allt.

Virðisaukaskatturinn, sem er að langstærstum hluta í 24,5% skattprósentu, er að færa ríkinu um 120 milljarða kr. á ári. Tekjuskattur einstaklinga upp á um 36% er færa ríkisvaldinu um 90 milljarða kr. Ef þessi skattar eru lækkaðir niður í 10% hvernig í ósköpunum heldur fólk að við getum fjármagnað almannaþjónustuna?

Fólk má ekki vera það firrt að halda að hægt sé að reka samfélagsleg verkefni með 10% skattlagningu. Nema þá að fólk vilji að almenningur fari að greiða fyrir sína velferðarþjónustuna í hvert sinn sem það notar hana. Þá værum við komin í kerfi sem fáir tala fyrir. Ef almannaþjónustan er ekki fjármögnuð með sköttum þá er hún fjármögnuð með þjónustugjöldum s.s. sjúklingagjöldum og skólagjöldum. Það eru bara þessar tvær leiðir til.

Auðvitað eiga skattar ekki að vera of háir en þeir þurfa hins vegar að vera nógu háir til að fjármagna sjúkrahúsin, samgöngurnar, skólana o.s.frv. Það er kjarni málsins. Skattar eiga því bæði að vera sanngjarnir og nægilegir.


Kominn á Moggabloggið

Jæja, nú er ég fluttur á þetta svokallaða Moggablogg. Ég var búinn að skrifa á heimasíðu mína, www.agustolafur.is í tæp 5 ár. Þar á undan skrifaði ég reglulega á www.politik.is en ég var fyrsti ritstjóri þess vefrits ásamt Sif Sigmarsdóttur, rithöfundar með meiru. Þessi skrif hafa haldið manni vel við efnið og hafa verið hvatning fyrir mig að kynna mér hin ýmsu mál. Mér finnst það vera afskaplega góð þróun hversu margir stjórnmálamenn eru farnir að skrifa á netið. Það gefur bæði betri mynd af viðkomandi stjórnmálamanni og það færir hann nær fólkinu og umræðunni. Ég vona allavega að þið eigið eftir að njóta bloggsins hérna.

Segja eitt en gera annað

ójöfnuðurGuðmundur Steingrímsson tekur upp eina elstu klisju stjórnmálanna, sem er sú að hægri menn fari betur með peninga en vinstri menn.

Ég hef lengi þrætt fyrir þetta því eins Guðmundur bendir á í bloggfærslu sinni um málið sýna dæmin einfaldlega annað. Ríkisútgjöld vaxa tíðum mikið meðan hægri menn eru við völd.

Þeir tala og tala um lítið ríkisvald en eru engu að síður hallari undir að stækka það. Orð og gjörðir fara ekki saman. Enginn áþreifanleg rök eru um það í íslenskri eða evrópskri stjórnmálasögu að jafnaðarmönnum sé ekki treystandi fyrir skynsamlegri stjórn efnahagsmála.geir1

Samfylkingin vill vissulega auka ríkisútgjöld til velferðar- og menntamála en við teljum þetta arðbærar aðgerðir og viljum á móti draga úr ýmis konar sóun og bruðli auk þess að virkja atvinnulífið til vaxtar fyrir alla. Meðal annars til að það skili meiri tekjum í ríkissjóð.

Skattastefna núverandi ríkisstjórnar Íslands hefur leitt til mikils ójöfnuðar sem er hættulegur til lengdar og stjórn hennar á efnhagsmálum almennt hefur kallað yfir heimilin í landinu eina mestu skuldaaukningu í sögunni.

Munum að skattbyrði allra tekjuhópa nema þeirra sem eru í topp 10% hópnum hefur þyngst hjá þessari ríkisstjórn. Og að ríkisútgjöldin eru núna um 160 milljörðum hærri en það sem þau voru þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum árið 1995.


Trompið okkar er Ingibjörg

ISG og HelleÉg hef unnið náið með Ingibjörgu Sólrúnu, formanni Samfylkingarinnar undanfarin misseri og hef sjaldan eða aldrei verið sannfærðari um það en nú hversu farsælt það yrði fyrir íslenska þjóð að fá hana til að stýra forsætisráðuneytinu í næstu ríkisstjórn.

Ég hef í viðtölum kallað hana tromp Samfylkingarinnar, enda tel ég að föst skotin sem dynja stundum á henni frá pólitískum andstæðingum okkar séu merki um styrk hennar fremur en veikleika.
Erla Sigurðardóttir Samfylkingarkona sem búsett er í Kaupmannahöfn skrifar skemmtilegan pistil á Trúnó-bloggið um það hvernig Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs hefur stutt við bakið á Helle Thorning-Schmidt, ungu konunni sem er formaður danskra jafnaðarmanna um þessar mundir.

Mæli með þessum pistli og skrifum á truno.blog.is almennt. Þetta er úrvals síða.


Sameinuð stöndum vér...

kristjanKristján Jónsson, sá mæti blaðamaður á Morgunblaðinu leggur út af sterkari útkomu Samfylkingarinnar í skoðanakönnun Fréttablaðsins á bloggi sínu og veltir hann vöngum yfir því hvort mótlætið hafi e.t.v. þjappað Samfylkingarfólki saman.

Það er mín tilfinning að þetta sé svona. Og ég segi fyrir mitt leyti að ég kýs fremur að vera á uppleið á þessum tímapunkti í skoðanakönnunum heldur en að toppa núna þremur mánuðum fyrir kosningar.

Fiskur og ESB

Á miðvikudaginn hlýddi ég á ræðu háttsettra embættismanna frá Evrópusambandinu sem unnu aðfiskur og ESB sjávarútvegsstefnu ESB. Það var sérlega ánægjulegt að þeir staðfestu að öllu leyti málflutning Samfylkingarinnar um sjávarútvegsstefnu ESB.

Helstu niðurstöður voru:

1. Sjávarútvegsstefna ESB byggist á nýlegri veiðireynslu. Og þar sem það eru einungis Íslendingar sem hafa veiðireynslu í íslenskri lögsögu munu einungis Íslendingar fá úthlutaðan kvóta eftir að Ísland gengur í ESB. Reglan um veiðireynslu er ekki að fara breytast hjá ESB enda er hún hornsteinn sjávarútvegsstefnu Sambandsins.

2. Sjávarútvegsfyrirtæki sem fá úthlutaðan kvóta þurfa að hafa bein efnahagsleg tengsl við það svæði sem reiðir sig á veiðarnar. Þessi regla ESB er landsbyggðinni sérstaklega hagfellt og kemur í veg fyrir kvótahopp.

3. Íslendingar munU áfram sjá um eftirlitið með veiðum þrátt fyrir aðild að ESB.

4. Ráðherraráðið, sem mun hafa íslenska sjávarútvegsráðherrann innandyra, mun væntanlega taka ákvörðunina um heildarmagn kvótans. En sú ákvörðun er fyrst og fremst formlega eðlis þar sem Íslendingar eru eina þjóðin sem mun hafa veiðiréttindi í íslenskri lögsögu vegna reglunnar um veiðireynslu. Ráðherraráðið mun styðjast við ráðleggingar íslenskra vísindamanna.

5. Veiðimöguleikar Íslendinga munu stóraukast við aðild þar sem ESB hefur gert fjölmarga samninga um veiðiréttindi um allan heim.

6. Áður en ESB semur fyrir hönd aðildarríkja sinna gagnvart öðrum ríkjum hafa aðildarríkin samið sín á milli þannig að í raun mun aðild að ESB ekki skerða samningsstöðu Íslands.

7. Hugsanlega er hægt að semja um sérstakt fiskveiðistjórnunarkerfi í íslenskri lögsögu ef hægt sé sýna fram á að Íslendingar hafa einir þjóða hagsmuni á viðkomandi svæði (sem þeir gera út af reglunni um veiðireynslu)

8. Aðildarsamningar hafa sama vægi og grunnsáttmálar ESB þannig að það sem hægt er að ná fram í aðildarviðræðum gildir. Mikið er lagt upp úr klæðaskerasaumuðum lausnum fyrir væntanleg aðildarríki eins og embættismennirnir sögðu.

9. Evrópusambandið hefur aldrei tekið ákvörðun gegn grundvallarhagsmunum aðildarríkis. Nú er vonandi að viljandi og óviljandi rangfærslur um sjávarútvegsstefnu ESB fari að hljóðna svo hægt verði að ræða þessi mál að einhverju viti. Kannski ættum við að fara fram á könnunarviðræður við ESB svo hægt sé að sjá enn betur hvernig núverandi regluverk Sambandsins er og hvað sé í boði?

Hvað segja forsvarsmenn Heimssýnar við þessu?

Til hamingju

logo2Mig langar að óska öllum Röskvuliðum innilega til hamingju með sigurinn í gær í Háskóla Íslands. Þetta er stórkostlegur áfangi sem mun skipta stúdenta miklu máli.
Kosningabaráttan hefur augljóslega verið vel heppnuð enda hefur mikið fyrirtaksfólk leitt Röskvu undanfarin ár.

Til lukku með þetta.


Slæm hagstjórn og slæmur gjaldmiðill

Ég fór á Viðskiptaþing í gær ásamt 500 öðrum. Það var afar fróðlegt að hlusta á erlenda sérfræðinginn í ímyndarmálum, Simon Anholt en samkvæmt könnunum hans mælist ímynd Íslands frekar veikt. Ísland eru í 19. sæti af 39 þjóðum.

Það var einnig áhugavert að hlusta á Erlend Hjaltason formann Viðskiptaráðs. Erlendur taldi að núverandi ástand væri ótækt og það yrði heppilegast að ganga inn í Evrópusambandið ef menn vildu taka upp evruna.

En ég tók eftir því að Morgunblaðið vísar í dag í Erlend þar sem hann er sagður telja að innganga í Evrópusambandið yrði afturför fyrir íslenskt atvinnulíf vegna þess að hér ríkti meira frelsi í viðskiptalífinu heldur en víðast hvar í Evrópu. Í þessu sambandi er rétt að benda á Evrópusambandið er ekki eitt ríki. Það eru til ríki innan Evrópusambandsins sem búa við meira viðskipafrelsi en Ísland og það eru til aðildarríki sem búa við minna frelsi. Það er því undir viðkomandi ríki komið hvernig þessum málum er almennt séð háttað.

Reyndar er vert að rifja það upp reglulega að undirstaða þess frelsis sem nú ríkir á markaði á Ísland má rekja til Evrópusambandsins vegna EES-samningsins. Á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur ekki til hefur lítið sem ekkert færst í frjálsræðisátt og má þar nefna landbúnaðinn og sjávarútveginn.

Meðaltalsumræðan góða

Umræðan um meðaltal Evrópusambandsins verður þó oft ansi furðuleg, sérstaklega þegar menn leyfa sér að tala um að eitthvert eitt atvinnuleysishlutfall sé hjá öllu ríkjunum eða að það sé eitthvert eitt verðbólgustig ríkjandi þar. Auðvitað er atvinnuleysi mismunandi hvort sem litið er til Danmerkur, Írlands, Þýskalands eða Grikklands o.s.frv.

En í þessari umræðu heyrast stundum þær röksemdir að ekki sé skynsamlegt að ganga í ESB vegna skattastefnu Sambandsins. Það er hins vegar misskilningur að Evrópusambandið hafi einhverja sameiginlega skattastefnu. Þvert á móti eru aðildarríki ESB með mjög mismunandi reglur í skattamálum. T.d. hafa Hollendingar, Írar og jafnvel Danir farið sérstakar leiðir í þeim efnum í þeim tilgangi að höfða til erlendra fyrirtækja.

Hvað með að hafa góða hagstjórn og góðan gjaldmiðil

 Að lokum má benda á ályktun Erlends, formanns Viðskiptaráðs, á Viðskiptaþinginu í gær, að hagstjórnin væri slæm hér á landi. En hann sagði einnig að það væri ekki auðveldara að búa við evru og slæma hagstjórn heldur en að búa við krónuna og slæma hagstjórn. Það er hins vegar eins og viðskiptalífið geri ekki sér ekki grein fyrir að hugsanlega er hægt að búa við góða hagstjórn og góðan gjaldmiðil. En kannski er það ekki furða að forsvarsmenn atvinnulífsins átti sig ekki á þessu þar sem hvorugt hefur verið til staðar hér á landi í svo langan tíma.


« Fyrri síða

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband