Ljúft páskafrí

ári-Við fjölskyldan höfum átt notalegt páskafrí sem hefur einkennst af rólegheitum og mikilli samveru með stórfjölskyldunni. Við ákváðum að vera heima í bænum í fríinu og höfum þess í stað farið í barnaafmæli, í grillveislu á Seltjarnarnesinu í mígandi rigningu og nú í dag er stefnan tekin á kalkún hjá tengdaforeldrunum. Það er mikið tilhlökkunarefni enda eru tengdaforeldrarnir mikilir matgæðingar og listakokkar.

Dagurinn hófst hins vegar á því að dæturnar, sem er 4 og 2 ára, vöknuðu rétt fyrir klukkan sjö til að leita að páskaeggjum sem foreldrarnir höfðu falið í íbúðinni. Síðan höfum við maulað súkkulaði sem er nú kannski ekki alveg til fyrirmyndar en tilheyrir páskunum.

Jól og páskar hafa fengið meiri þýðingu eftir að börnin komu til sögunnar, maður upplifir þessar hátíðir sterkar með tvær litlar stelpur á heimilinu sem ráða varla við sig af spenningi. Það sama á reyndar við um afmælin, þeim er fagnað ógurlega og eldri dóttirin liggur iðulega andvaka af æsingi þegar að afmæli eru í nánd – og virðist þá litlu skipta hver það er.

Fríið þessa síðustu daga er hins vegar lognið á undan storminum. Kosningabaráttan er komin á fullt skrið.   Stemmningin í okkar herbúðum er ljómandi fín og ég verð að segja að það skiptir ótrúlega miklu máli. Kannanir hafa ekki verið alveg eins og við viljum hafa þær. En hitt skiptir þó miklu máli að sjá að tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi. Ríkisstjórnin mælist aftur og aftur fallin. Fólk vill sjá breytingar. Það liggur sömuleiðis fyrir að mjög margir eiga eftir að taka afstöðu og að það gera menn á síðustu metrunum. Þetta upplifðum við í síðustu baráttu. Við gengum sterk og samhent inn í baráttuna.

Síðustu daga hafa kannanir bent til þess að okkar mikla vinna undanfarnar vikur sé að skila sér. Fylgi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæminu sýnir að við höfum bætt við okkur einum þingmanni og Lára Stefánsdóttir er að mælast inni sem er sérstakt fagnaðarefni. samfylkingasól

En það virðist enn vera talsvert rót á fylginu og því þýðir ekkert annað en að halda áfram að hitta fólk og kynna hina frábæru stefnu Samfylkingarinnar og má þar nefna Unga Ísland, Fagra Ísland, Nýja atvinnulífið, Lífsgæði eldri borgara og neytendastefnu okkar sem gefur okkur mikla sérstöðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jóhannesson

Samfylkingin er sterkur flokkur með góð málefni á sínum snærum snjalla þingmenn og frambjóðendur og stórsnjallan foringja. Og við munum standa uppi stolt og ánægð að kosningum liðnum. Gleðilega páska.

Páll Jóhannesson, 8.4.2007 kl. 13:36

2 identicon

Ég er sammála þér að Það væri gott fyrir Norðaustur-kjördæmið að fá Láru Stefáns á þing. Ég hef aftur á móti verið þeirrar skoðunar og er enn þeirrar skoðunar að listinn hefði verið sterkari með Láru í öðru sæti. Ég held að stærsta verkefni Samfylkingarinnar núna sé samt að fylkja sér að baki formanninum sínum með mjög sýnilegum hætti í fjölmiðlum og öðrum opinberum vettvangi fram að kosningum. Eins og ég geri að umtalsefni í blogginu mínu í dag er meðferð fjölmiðla á Ingibjörgu Sólrúnu farin að skila sér með þeim hætti að fyllsta ástæða er til að Samfylkingarfólk blási til gagnsóknar. Það er sorglegt að sjá að þessi herferð Sjálfstæðismanna og kvenna og ritstjórnar Moggans skuli vera farin að bera þann árangur sem birtist í skoðanakönnun um vinsældir stjórnmálamanna í gær. Mér finnst þið Samfylkingarframbjóðendur hafa mikið verk að vinna hér. Þeir sem standa að þessari endalausu neikvæðu umfjöllun um Ingibjörgu Sólrúnu eiga ekki að fá að komast upp með hana gagnrýnilaust deginum lengur.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 13:47

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sérstaða Samfylkingarinnar í neytendamálum er ekki eins mikil og þú heldur fram. Framsókn er með neytendastefnu og er hún meira að segja samþykkt innan réttra stofnana flokksins:

Ályktun um samkeppnis- og neytendamálMarkmið

Fákeppni á ýmsum sviðum kallar á aukið eftirlit með þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga og veik staða neytenda gagnvart fyrirtækjum krefst aukinnar neytendaverndar. Neytendur eiga að hafa aðgang að vörum og þjónustu á sanngjörnu verði, þannig að ljóst sé hvað verið er að kaupa, á hvaða verði og réttur neytandans gagnvart seljanda sé skýr og sterkur. Sérstaklega ber að vernda börn gagnvart markaðssetningu.

Leiðir

·         Eftirlitsstofnanir ríkisins á sviðum neytenda- og samkeppnismála verði efldar þar sem styrkur þeirra og sjálfstæði geta skipt höfuðmáli.

·         Neytendamálum á að gera hærra undir höfði í Stjórnarráðinu.

·         Hið opinbera á áfram að láta fylgjast með verðlagningu í samvinnu við hagsmunasamtök og veita meira fé til þess.·         Eftirlit með ákvæðum laga um markaðssetningu og auglýsingar sé fylgt eftir af meiri krafti.·         Auka ber neytendafræðslu, t.d. á umhverfis- og sanngirnismerkingum (fair trade).

·         Sett verði lög um innheimtustarfsemi sem tryggi að þóknun vegna innheimtuaðgerða keyri ekki úr hófi.

·         Sett verði lög um greiðsluaðlögun.

·         Fallið verði frá úreltum kröfum lánveitenda um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga.Fyrstu skref

Verð- og vörumerkingaeftirlit verði aukið. Sett verði lög sem heimili hópmálsókn eins og í öðrum ríkjum Norðurlandanna og víðar.

 

Gestur Guðjónsson, 9.4.2007 kl. 11:06

4 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Gestur, eru margar stofnanir innan Framsóknarflokksins........?

Eggert Hjelm Herbertsson, 9.4.2007 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 144279

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband