Almenningur geldur fyrir efnahagsmistök ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur gert mörg viðurkennd efnahagsmistök á undanförnum misserum og því miður virðist sem ríkisstjórnin læri ekki af mistökum sínum. Fyrstu mistökin voru tímasetning breytinganna á húsnæðislánamarkaðinum og sú staðreynd að þær voru gerðar í einu skrefi. Þessi ákvörðun jók þenslu og verðbólgu til muna. Húsnæðisverð snarhækkaði í kjölfarið og hefur aldrei verið eins dýrt að eignast fyrstu íbúð. Núverandi ástand getur leitt til fasteignakreppu sem hefur í för með sér að fólk mun skulda meira í fasteignum sínum en sem nemur virði þeirra.
Óstjórn og aðhaldsleysi í ríkisfjármálum
Önnur mistök ríkisstjórnarinnar eru ríkisfjármálin. Þar hefur ríkt stjórnleysi og aðhaldsleysi, sérstaklega í fjármálaráðherratíð Geirs H. Haarde.

Hið opinbera hefur tvenns konar úrræði í efnahagsstjórnun. Annars vegar peningamálastefnan sem er á könnu Seðlabankans og hins vegar ríkisfjármálin sem eru verkefni ríkisstjórnar. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa sagst vantrúuð á beitingu ríkisfjármála sem hluta af efnahagsstjórnun. Slík ummæli bera vott um fullkomna vanþekkingu á hagkerfinu. Mat ríkisstjórnarinnar og mat Seðlabankans á efnahagsástandinu er gjörólíkt og þessir aðilar vinna í sitt hvora áttina.

Ríkisstjórnin setur árlega marklaus fjárlög en fjárlögin 2000-2004 gerðu ráð fyrir 82 milljarða króna afgangi af ríkissjóði en þegar reikningurinn var gerður upp kom í ljós 8 milljarða króna halli. Skekkjan þessi ár var því upp á 90 milljarða króna. Á þetta hefur Ríkisendurskoðun bent á og gagnrýnt harðlega.
Ríkissjóður 41% dýrari en 1998
Ríkisútgjöldin hafa aukist um tæpa 100 milljarða króna frá árinu 1998. Ríkisútgjöldin fóru úr 230 milljörðum 1998 í 324 milljarða í fyrra, báðar tölur á verðlagi ársins 2005. Ríkið er því 41% dýrari í rekstri nú en árið 1998. Ekki hefur þjónusta ríkisvaldsins batnað um 41% á sama tíma.

Seðlabankinn er því miður einn í baráttunni gegn verðbólgunni, enda neitar ríkisstjórnin að horfast í augun við raunveruleikann. Einu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eru árásir á vegaumbætur á landsbyggðinni.
Vaxtahækkanir Seðlabankans eru hins vegar mjög kostnaðarsöm leið til að ná tökum á verðbólgunni en hins vegar eru þær rétt leið til að ná niður verðbólgunni. Hin löngu verðtryggðu lán draga þó úr mætti vaxtahækkana Seðlabankans og gera hækkanir Seðlabankans á vöxtum bitlausari en ella.
Skattalækkanir fyrir þá ríkustu
Þriðju mistökin voru skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á kolröngum tíma, en þær renna fyrst og fremst renna til hinna ríku en ekki til venjulegs fólks í landinu. Öll hagfræði segir okkur að þensla eykst með skattalækkunum.

Ríkisstjórnin hefur heldur ekki greint frá því hvernig hún muni borga fyrir skattalækkanir fyrir hina ofurríku.
Helmingi meiri stóriðja framundan
Í fjórða lagi er það stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar sem hefur orðið að efnahags- og umhverfisvanda. Stóriðjuframkvæmdirnar höfðu þó talvert minni bein áhrif á hagkerfið en búist var við en þær höfðu áhrif og þá ekki hvað síst á væntingarnar sem skipta miklu máli í efnahagskerfinu. Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Kárahnjúka urðu aldrei að veruleika. Nú hvetur ríkisstjórnin hins vegar til frekari stóriðjuframkvæmda.

Áætlaðar framkvæmdir eru helmingi meiri að umfangi en þær sem nú eru í gangi, en þær eru aftur miklu stærri en framkvæmdir síðasta áratugar. Tímasetning slíkra framkvæmda hefur afgerandi þýðingu varðandi stöðugleikann.

Mistök ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálunum er því ástæðan fyrir hinum nýja verðbólguskatti ríkisstjórnarinnar sem er ein mesta skerðing á kjörum almennings í langan tíma. Reynslan sýnir að það er ekki hægt að treysta Sjálfstæðisflokknum fyrir hagstjórninni og það er kominn tími á nýja forystu í íslenskum stjórnmálum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband