Ísland í 23. sæti af 30

MenntunMér finnst að menntamál eigi að verða kosningamál út af þremur ástæðum. Sú fyrsta er að menntun er grundvöllur framfara þjóðarinnar. Önnur ástæðan er að menntakerfið er jöfnunartæki framtíðarinnar. Sú þriðja er að við erum ekki að standa okkur nógu vel í menntamálum.

Förum yfir nokkrar staðreyndir því til stuðnings:

1. Hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem hafa lokið framhaldsskólanámi er 68% en á hinum Norðurlöndunum er þetta 86-96% samkvæmt nýjustu skýrslu OECD um menntamál. Meðaltalið í OECD er 77% og í ESB 78%. Ísland í 23. sæti af 30 OECD þjóðum og eru því borgarar flestra iðnríkja heims menntaðri en Íslendingar.

2. 40% þeirra sem eru á íslenskum vinnumarkaði eru með grunnskólapróf eða minna. Á hinum Norðurlöndunum er þetta hlutfall 12-19%.

3. Hlutfall Íslendinga á aldursbilinu 25-34 ára sem hafa lokið háskólanámi er 31% en á hinum Norðurlöndunum er þetta 35-42%. Meðaltalið í OECD er 31%. Við erum hér í 17. sæti af 30 þjóðum.Háskólinn

4. Þegar kemur að opinberum útgjöldum í háskólana er Ísland er í 21. sæti af 30 þjóðum.

5. Og þegar kemur að opinberum útgjöldum í framhaldsskólana er Ísland í 16. sæti og eru flestar samanburðarþjóðir okkar fyrir ofan okkur.

Ríkisrekna skólakerfið vs. skólakerfi sveitarfélaga

En dæmið snýst við þegar kemur að þeim skólastigum sem sveitarfélögin reka, þ.e. grunnskólarnir og leikskólarnir.

Ísland er nánast á toppnum þegar kemur að fjárfestingum í þessi skólastig en það hafa einmitt verið jafnaðarmenn í Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Árborg o.s.frv. sem hafa rekið flesta þessa skóla undanfarinn áratug. Þannig hefur okkar fólk sýnt viljann sinn í menntamálum í verki. En þau skólastig sem ríkisstjórnin rekur, þ.e. framhaldskólarnir og háskólarnir, eru fjársvelt.

Að lokum minni ég á að einn stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur haft  menntamálaráðuneytið í 21 ár af síðustu 24 árum. Niðurstaðan af þeirri valdatíð er sú að við erum að útskrifa færri en aðrir, verja minna fjármagni en aðrir og höfum meira brottfall en flestar þjóðir Evrópu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 

Þannig að það má búast við því að Samfylkingin þjóðnýti sjálfseignar- og einkareknar menntastofnanir eins og Háskóla Reykjavíkur, Hjallastefnuskólana, o.s.frv. til að auka útgjöld ríkisins til menntamála?

Síðan er það nú þannig í driftugu veiðimannaþjóðfélagi eins og Ísland er að þar er lögð meiri áhersla á að gera hlutina heldur en að læra um þá, öðru vísi en t.d. í Svíþjóð þar sem margir ganga menntaveginn einungis til að sleppa við atvinnuleysisskránna. 

En Ísland er að breytast hratt og á síðustu árum hefur orðið gífurleg aukning í háskólagráðum hér á landi.  Metfjöldi háskóla hafa dafnað, eitthvað sem hefði þótt fáránlegt fyrir einungis 15 árum síðan - þegar margir héldu að einungis ríkið gæti menntað fólk.

Samfylkingin gefst samt ekki upp!  Í gær var okkur sagt að við værum í raun öreigar, þegnar í bananalýðveldi á efnahagslegri heljarþröm og í dag kemur í ljós að við kunnum varla að lesa!

Ég bíð spenntur eftir næstu uppljóstrun ...

Kalli (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 01:18

2 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Hvað sem sjálfstæðismenn vilja blaðra og þvaðra, þá ljúga þessar tölur ekki.

Við erum á eftir, og menntakerfið íslenska þarf að endurskoða virkilega vel. Það eru nú ekki mörg ár síðan ég útskrifaðist úr grunnskóla (tæplega 9), en þar þurfti maður í rauninni aldrei einu sinni að svitna til að ná góðum árangri. Svo skyndilega í menntaskóla var manni þrykkt í gírinn á fyrstu önn, allt voðalega erfitt miðað við það sem áður var (ég þurfti að læra heima!). Vandinn þar hinsvegar var að námið er auðvitað mjög almennt, og ekki gert ráð fyrir því að kannski sé stórt hlutfall nemenda sem veit hvað þeir vilja gera og læra í framhaldsnámi (háskólastigi), í kringum segjum, 18 ára aldur.

Ég held það sé engin tilviljun að fólk hefji háskólanám við 18 ára aldur eiginlega allstaðar annars staðar í evrópu (bretland, þýskaland, austurríki, sviss, svo dæmi séu tekin), og í bandaríkjunum.

Nú lærir fólk annars staðar í n-evrópu almennt lengur en fólk á Íslandi, og fer síðar á vinnumarkað, eftir meira nám og sérhæfingu -- sem oft er nauðsynleg í þeim stóra vinnumarkaði. Á Íslandi er hinsvegar afskaplega ósanngjarnt, þar sem aðstæður eru öðruvísi og algengara að fólk stofni fjölskyldur yngra, og fari fyrr á vinnumarkaðinn, að láta einstaklinga vera lengur en í öðrum löndum að nálgast grunnmenntun úr háskóla, sem er sífellt algengari krafa í öllum störfum.

Ef við björgum ekki menntakerfinu; straumlínulögun, hættum að sóa tíma barnanna okkar, sem eru betur gefin en svo að byrja í einfaldri algebru 13 ára, hefjum menntaskólann við 15 ár, og höfum hann þrjú, með möguleika á að taka almennari brautir sem eru fjögur ár, veitum meira fjármagni til Háskóla Íslands, í dag eru ekki til fjármunir til að veita öllum nám sem þurfa, hvað þá að bregðast við afskaplega metnaðargjarnri stefnuskrá sem eykur skyldur Háskólans án aukinna fjárveitinga.

Það er grátbrosleg staðreynd að í dag er Hraðbraut og einkareknir háskólar líklega besta mögulega lausnin fyrir ungt fólk sem er að losna úr viðjum meðalmennskustefnunnar sem (var a.m.k. þegar ég sótti nám við grunnskóla) einkennir grunnskóla landsins.

Það er kannski eitthvað sem hægri menn geta verið stoltir af, að einkageirinn hefur brugðist við vanmætti opinbera menntakerfisins, hinsvegar sjáum við af nágrannalöndunum að fjárveitingar og afskipti ríkisins af menntamálum geta og eiga að skipta sköpum. 

Steinn E. Sigurðarson, 23.4.2007 kl. 07:13

3 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Úff, hvert er þetta allt að stefna þetta er bara eins og með þær tölur sem voru settar upp um lífeyristekjur eldri borgara, að þær væru hæstar hér en á hinum Norðurlöndum. Svo komu aðrir sem ég tel enn meiri séní og tek betur mark á og sýndu fram á hvernig þetta var ekki rétt reiknað út og ég hef ekki séð aðra geta rengt það... það lítur allt betur út á pappírum en það er í raun.

Er ekki talað um að við námsfólkið borðum bara pizzur ? Mig minnir nú að einhver hafi sagt það um daginn, Pétur Blöndal ef mig minnir rétt, og ég get sko fullyrt að það er EKKI RÉTT !!!

Inga Lára Helgadóttir, 23.4.2007 kl. 13:06

4 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Ég vil meina að þetta sé rétt hjá Ágústi Ólafi, þar sem oft áður var búið að segja að við séum með bestu skólana, þá er það bara ekki endielga rétt

Inga Lára Helgadóttir, 23.4.2007 kl. 13:14

5 Smámynd: Björn Viðarsson

Steinn E. Þorgerður viðraði hugmyndir um að stytta framhaldsskólann eins og þú leggur til.

Manstu hvað S fannst um þær pælingar? 

Björn Viðarsson, 23.4.2007 kl. 13:22

6 identicon

Merkilegt að lesa þennan pistil frá þér Ágúst.  Þú veist væntanlega að konur eru 65% af nemendum í HÍ en karlar eingöngu 35%.  Þó hefur þinn flokkur ekki svo mikið sem ropað upp orði til að efla menntun karla, en hins vegar hafið þið farið hamförum í því að gera kaup á vændi ólögleg.

Ertu kannski farinn að sjá smá hnökra á eigin málflutningi og forgangsröðun?  Hvort skyldi nú vera meira aðkallandi í nútímaþjóðfélagi?  Augljóslega hefur þú ekki hugmynd um svarið, en það hef ég.  Þess vegna kemur ekki til greina að ég kjósi þig og þennan kvennalista sem þú ert varaformaður fyrir.

Þrándur (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 01:52

7 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Björn Viðarsson, já ég man eftir viðbrögðum Samfylkingar við þeim tillögum, en vandinn eins og ég bendi skýrt á í útskýringum mínum er aðallega fyrstu 10 árin, þ.e. grunnskólinn.

Ég er ekki viss um að stytting framhaldsskólans myndi hafa tilætluð áhrif ef efni til yfirferðar í grunnskóla er ekki aukið til móts við það. 

Steinn E. Sigurðarson, 25.4.2007 kl. 11:51

8 identicon

Fjársvelti Háskóla Íslands er til skammar! það er ótrúlegt að það sé hámart á nemendafjölda í lögum um HÍ en samt þurfa þeir að taka við öllum þeim nemendum sem sækja um - og fá því ekki borgað nema fyrir hluta nemenda sinna! Þetta þurfa einkaskólanir ekki að lifa við, og geta svo innheimt skólagjöld til viðbótar. Það þarf að laga samkeppnisstöðu HÍ, og það sem fyrst.
.
Það er órtúlegt að horfa á uppbygginguna á t.d. HR þar sem ég var í námi, sá skóli hefur algjörlega sýnt að það var komin þörf á samkeppni milli háskóla. En núverandi stefna stjórnvalda, að borga einkaskólunum meira en ríkisreknuskólunum er ekki til þess fallin að skapa sátt um þetta kerfi!
.
Þetta er því aldrei spurning um að ríkisvæða einkaskólana eins og sjálfstæðismaðurinn Steinn leggur til; við þurfum miklu frekar að veita meiri pening inn í HÍ og leggja enn meiri áherslur á rannsóknir innan allra skóla með því að auka framlög rannsóknarsjóða. Háskólar eru metnir út frá rannsóknunum sem eru stundaðar þar enda verður nám skóla mun áhugaverðara þegar það eru stundaðar rannsóknir við skólann.
.
Samfylkingin ætlar að setja menntunarmál í forgang og fjórfalda framlög til rannsókna - það eru alvöru fjárfestingar sem skila alvöru hagvexti eins og við höfum séð í Finnlandi og Írlandi. Fyrst við erum með 1% hagvöxt hér sem mun hækka upp í 3% árið 2012, þá er greinilegt að hér þarf að skipta um áherslur, með nýrri ríkisstjórn.

Jónas Tryggvi Jóhannsson (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband