Breytingar á lögreglulögum

Í gær fór fram á Alþingi 1. umræða um breytingu á lögreglulögum. Í þessu frumvarpi er m.a. gert ráð fyrir stofnun sérstakrar greiningardeildar hjá Ríkislögreglustjóra sem á að hafa það hlutverk að meta og greina hættuna á landráði, hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og óvinum ríkisins. Slík deild væri algjört nýmæli hér á landi og að sjálfsögðu vekur slíkt upp margar spurningar.

Undirritaður fór í þessa umræðu í gær og setti spurningu við þau skref sem bæði hafa verið tekin og er verið að taka. Sömuleiðis var dómsmálaráðherrann spurður málefnalegra spurninga í níu liðum um efni frumvarpsins. Dómsmálaráðherra kaus hins vegar ekki að svara spurningum frá undirrituðum á þeim forsendum að þingmaðurinn væri svo ómálefnalegur. Ráðherrann fór hörðum orðum um undirritaðan og sagðist svara spurningum allra annarra þingmanna en þess sem þetta skrifar.

Dómsmálaráðherra sýndi fordæmalausan dónaskap og ómerkilegheit í þessari umræðu en málflutningur hans dæmir sig algjörlega sjálfur og má lesa hann hér http://www.althingi.is/altext/132/02/l14140724.sgml. (Sjá má umræddan málflutning ráðherrans í ræðu hans sem hefst kl. 17:04 og heldur sá málflutningur áfram í andsvörum hans og í þriðju ræðu ráðherrans þar til umræðunni lýkur um 40 mínútum síðar).

En til upplýsingar birti ég ræðu mína hér fyrir neðan í heild sinni svo fólk geti dæmt fyrir sig sjálft hvort ræðan hafi verið þess eðlis að ráðherrann ætti ekki að svara þeim spurningum sem þar er að finna.
"Frú forseti
Hér erum við að ræða frumvarp til breytinga á lögreglulögum og á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði.
Það er ýmislegt í þessu frumvarpi sem vekur upp spurningar og jafnvel áhyggjur. Þessar áhyggjur eru ekki síst komnar til vegna sögu þess ráðherra hæstvirts sem leggur þetta frumvarp fram. Það þarf nefnilega að setja þetta frumvarp í samhengi við önnur frumvörp sem þessi sami ráðherra hefur lagt fram hér á þingi. Frú forseti. Sporin hræða.
Það er ekki langt síðan að hæstvirtur dómsmálaráðherra lagði fram lagafrumvarp sem átti að heimila hleranir án dómsúrskurðar. En fyrir aðeins 5 árum kom frumvarp frá sama ráðuneyti og hæstvirtur dómsmálaráðherra Björn Bjarnasson ræður núna um breytingar á hlerunarheimildum lögreglu. Þá var tekið fram í greinargerð frumvarpsins eftirfarandi með leyfi forseta: ,,Þar eð aðgerðir [hleranir] sem þessar hafa í för sér mjög verulega skerðingu á friðhelgi einkalífs, sem m.a. er lýst friðheilagt í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, er eðlilegt að dómsúrskurð þurfi jafnan til þeirra til þess að koma í veg fyrir að þær séu misnotaðar." Tilvitnun lýkur.

Þetta sendi þáverandi dómsmálaráðherra frá sér. En, 5 árum seinna, þegar nýr ráðherra hæstvirtur var kominn í ráðuneytið, Björn Bjarnason, hafði þetta viðhorf gjörbreyst. Nú átti að heimila hleranir án dómsúrskurðar sem er gróft brot á þeim meginreglum sem flestir vilja starfa eftir. Sem betur fer gátum við í allsherjarnefndinni komið í veg fyrir að hleranir án dómsúrskurðar yrðu leyfðar eins og hæstvirtur dómsmálaráðherra vildi ná fram.
Frú forseti
En hæstvirtur dómsmálaráðherra var ekki af baki dottinn og lagði hann því fram frumvarp á Alþingi sem heimilar lögreglu að halda eftir gögnum frá verjanda ótímabundið. Það komu fram trúverðugar efasemdir um að slíkt stæðist Mannréttindasáttmála Evrópu. Í þetta sinn tókst ráðherranum hæstvirtum að fá málið samþykkt hér á þingi.

Á síðasta þingi lagði síðan þessi sami ráðherra hæstvirtur fram lagafrumvarp, sem var samþykkt, sem skerti möguleika borgaranna á gjafsókn vegna réttarhalda. Þá var afnuminn réttur einstaklinga á gjafsókn í málum sem hafa verulega almenna þýðingu eða varða verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda.
Þetta er réttlætt með sparnaði en á fundum allsherjarnefndar kom í ljós að sparnaður verður um 10 milljónir á ári. Það er aum fjárhæð í ljósi þess réttar sem verið var að afnema.
Hæstvirtur dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason fékk sömuleiðis samþykkt hér á Alþingi afskaplega slæm og svínsleg lög um málefni útlendinga ekki fyrir svo löngu. Þar voru réttindi fjölda Íslendinga skert til að sameinast erlendum maka sínum á grundvelli hjúskapar vegna skilyrðis laganna um 24 ára aldur. Þar var einnig komið í veg fyrir eðlilega fjölskyldusameiningu með svokallaðri 66 ára reglu þar sem afar og ömmur undir þeim aldri hafa ekki lengur rétt á dvalarleyfi vegna fjölskyldutengsla. Í hinum nýsamþykktu lögum var einnig að finna heimild til Útlendingastofnunar til að fara fram á lífsýnatöku á útlendingum. Sönnunarbyrðinni var jafnframt snúið við þannig að viðkomandi Íslendingar og erlendir makar þeirra þurfa nú að sanna fyrir yfirvöldum að þau búi ekki í málamyndunarhjónabandi.
Frú forseti
Hægt er að taka fleiri dæmi af vondum fyrirætlunum hæstvirts dómsmálaráðherra. Í upphafi þessa kjörtímabils lagði hann fram frumvarp um fangelsismál sem var svo illa unnið að hann neyddist til að draga það tilbaka. Við samningu þessa frumvarps var ekki haft samráð við neina hlutaaðeigandi s.s. fanga, aðstandendur fanga eða fangaverði. Ekkert markmið var í frumvarpinu, engin meðferðarúrræði og heimildir til að leita á gestum án rökstudd gruns voru auknar.

Á þremur árum hefur hæstvirtur dómsmálaráðherra síðan þrefaldað fjölda sérsveitarmanna og aukið fjárframlög til Ríkislögreglustjóra um 30%.
Til að bæta ofan á alla þessa upptalningu hafa flokksmenn Sjálfstæðisflokksins varið á þingi skilyrðislausan rétt atvinnurekanda til að taka lífsýni úr starfsfólki sínu.
Frú forseti
Hinn rauði þráður í störfum Sjálfstæðisflokksins og hæstvirts dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, kemur þó ekki óvart ef ræða Björns er rifjuð upp sem hann hélt á málþingi Lögfræðingafélags Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, þann 26. september, 2003 þar sem 50 ára afmæli gildistöku Mannréttindasáttmála Evrópu var fagnað.

Þvert á almenna skoðun um að Mannréttindasáttmáli Evrópu hafi svo kallað „stjórnarskrárígildi“ þar sem almenn löggjöf skuli m.a. vera túlkuð í ljósi samningsins talaði hæstvirtur dómsmálaráðherra gegn slíku. Hann ræddi í ræðu sinni m.a. með leyfi foseta ,,allt tal um, að mannréttindasáttmálinn hafi nokkurs konar „stjórnarskrárígildi“ sé einungis lögfræðileg óskhyggja þeirra, sem láti berast með tískustraumum, jafnvel frá Strassborg". Þvert á allar meginkenningar í lögfræði hafnaði Björn þar hinu lifandi eðli samningsins og taldi að það ætti aðeins að túlka Mannréttindasáttmálann frá orðanna hljóðan.
Þetta er afar forneskjulegt viðhorf sem flestir fræðimenn hafa hafnað enda þarf samningur eins og Mannréttindasáttmáli Evrópu og túlkun hans að þróast í takt við breytta tíma. Friðhelgi einkalífsins þýðir t.d. allt annað í dag en fyrir 50 árum þegar Mannréttindasáttmáli Evrópu var gerður.
Frú forseti
Eins og áheyrendur og þingheimur heyra þá er ástæða til að hafa áhyggjur af frumvörpum hæstvirts dómsmálaráðherra. Sporin hræða, frú forseti. Í þessu frumvarpi sem er hér til umræðu er lagt til að sett verði á fót sérstök greiningardeild sem rannsaka á landráð, skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk og óvini ríkisins. Slík deild væri algjört nýmæli hér á landi.
Það vakna því ýmsar spurningar við lestur þessa frumvarps sem þingheimur þarf að fá svör við frá hæstvirtum dómsmálaráðherra.


Í fyrsta lagi hvað kallar á þessa breytingu að mati hæstvirts ráðherra? Hver er eiginlega vandinn og hverjir eru hinir svokölluðu óvinir ríkisins að mati ráðherrans? Í núgildandi lögreglulögum segir að ríkislögreglustjóra beri að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoðar lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota. Hvað kallar á að hæstvirtur ráðherra vilji bætt við einhverri nýrri greiningardeild í lögin?
Í öðru lagi langar mig að vita hvert verður eiginlega verkefni þessarar deildar? Hvað mun hún gera dags daglega og hvert er eiginlega hlutverk hennar? Hvernig verður þessi vinna unninn hjá greiningardeildinni? Þessi deild mun að sinna einhverju forvarnarmati og áhættumati eins og stendur í greinagerð frumvarpsins? Hvernig fer þetta áhættumat fram? Sömuleiðis segir að þessi deild eigi að greina hættu á afbrotum en hvernig mun sú vinna fara fram?
Í þriðja lagi. Mun stofnun þessara deildar auka eftirlit með þegnum þessa lands? Eða hvernig mun hún annars starfa?
Í fjórða lagi þurfum við að fá að vita hvernig og hvort þessi vinna fari nú þegar fram hjá Ríkislögreglustjóra? Er verið að setja ramma utan um eitthvað sem er nú þegar til staðar? Hvernig er þetta áhættumat sem ráðherrann talar um unnið í núverandi kerfi?
Í fimmta lagi. Hverjar verða starfheimildir þessarar greiningardeildar? En í þessu frumvarpi er ekkert minnst á heimildir þessarar starfsemi. Það er bara stofnuð eitt stykki greiningardeild sem á að rannsaka þessi mál og stunda áhættumat. Það er því ekki rétt eins og heyrst hefur í umræðunni að hér sé verið að stinga stoðum undir heimildir einhverrar starfsemi sem nú þegar er til staðar. Það er ekki heldur rétt sem segir í greinagerð frumvarpsins á bls. 6: "Lagaákvæði um greiningardeild tryggja að þannig sé um hnúta búið hér að þeir sem falið er að gæta öryggis borgaranna hafi sambærilegar lögheimildir og starfsbræður þeirra erlendis til að sinna störfum sínum."
Hér er ekki verið að hrófla við einhverjum lögheimildum lögreglu eða hvað? Stendur til að leggja fram frumvarp sem breytir heimildum lögreglunnar hvað þetta varðar? Í grein hæstvirts dómsmálaráðherra frá því í gær segir ráðherrann að lögreglan þurfi sambærilegar heimildir og lögreglur í öðrum ríkjum. Hvað vantar á að mati hæstvirts ráðherra og hvað auknar heimildir til lögreglunnar ætlar hann að tryggja henni?
Í sjötta lagi. Í 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins er heimild fyrir fleiri svona greiningardeildir við önnur embætti. Stendur það til og af hverju vill hæstvirtur hafa margar svona deildir?
Í sjöunda lagi. Hver mun vinna í þessari greiningardeild og hversu margir? Hvað mun hún kosta en í kostnaðarmati fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna þessara breytinga? Eitthvað hlýtur svona deild að kosta. Eða er hún kannski nú þegar til hæstvirtur ráðherra?
Í áttunda lagi. Verður einhver með eftirlit með greiningardeildinni?
Í níunda lagi. Eru áætlaðar einhverjar breytingar á Þjóðskrá og staðsetningu hennar hvað þetta varðar? En í þjóðskrá koma auðvitað fram margs konar upplýsingar sem gætu nýst í hinu svokallaða áhættumati greiningardeildarinnar.
Frú forseti
Eins og ég segi þá vakna margar spurningar vegna þessa frumvarps og hverjar sér eiginlega forsendur fyrir svona greiningardeild. Er verið að stofna leyniþjónustu eins og heyrst hefur í umræðunni? Mun þessi greiningardeild einfaldlega finna sér verkefni verði lítið að gera hjá henni? Hverjar verða heimildir hennar?
Frú forseti
En þetta frumvarp snýr ekki eingöngu að því að setja á fót greiningardeild eða leyniþjónustu hjá Ríkislögreglustjóra heldur einnig um breytingar á lögregluumdæmum. Það er ýmislegt jákvætt við þær breytingar en auðvitað setjum við þann fyrirvara um að þjónustan og löggæslan skerðist ekki. Það er ljóst að sums staðar hefur fólk áhyggjur af stöðu mála enda löggæsla einn af grundvallarþáttum í öllum samfélögum. Í Hafnarfirði og í Kópavogi hefur fólk t.d. áhyggjur að þjónustan skerðist eitthvað en þetta eru þau sveitarfélög sem hafa hvað fæsta lögreglumenn á hvern íbúa.

Það getur hins vegar sóknarfæri í þessari sameiningu sem hér er verið að leggja til fyrir þessi sveitarfélög og það munum við auðvitað skoða í allsherjarnefndinni. Samfylkingin hefur áður barist fyrir hér á þingi að endurskoðunar væri þörf á skipulagi og framkvæmd lögreglunnar. Aðalatriðið er að þjónustan skerðist ekki og nýting á fjármunum og vinnuafli batni og lögreglan styrkist.
Að lokum langar mig að minnast á í samhengi við stofnun þessara greiningardeildar við embætti Ríkislögreglustjóra að frelsisskerðing er oftast nær hægfara en ekki í einu vetfangi. Aukið eftirlit og skerðing á persónuréttindum eru ætíð réttlætt með fögrum orðum og góðum tilgangi. Það getur verið styttra í Stóra bróðir, sem George Orwell lýsti, en margir halda. Við verðum því vera tánum þegar kemur á hugðarefnum hæstvirts dómsmálaráðherra. Reynslan sýnir það.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 144237

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband