Ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn kemur til greina

Um helgina var haldinn fjölmennur og góður flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ. Fundurinn tókst vel og var unnið markvisst í mörgum hópum þar sem flokksmenn gátu komið að áherslum sínum og hugmyndum milliliðalaust. Ég síðan sleit þessum fundi með ræðu sem hér birtist. "Kæru félagar. Nú eru spennandi tímar framundan. Það eru rúmir 5 mánuðir til kosninga og mikið verk að vinna. Samfylkingin er tilbúin í þá vinnu. Flokkurinn hefur aldrei verið eins vel undirbúinn fyrir neinar kosningar og málefnastaðan er góð. Fólk í flokknum hefur aldrei verið eins margt, fjármálin hafa verið tekin föstum tökum og við höfum að skipa öflugra starfsfólki en nokkurn tímann áður á skrifstofu flokksins.

Samfylkingin iðar af lífi og gott dæmi um það sást þegar helmingi fleiri frambjóðendur buðu sig fram í prófkjörum flokksins en fyrir fjórum árum.

Við höfum ótrúlegan sterkan formann eins og allir vita enda óttast andstæðingar okkar hana mjög og sjá þeir iðulega rautt þegar þeir mæta henni í hinni pólitísku umræðu. Þá er þingflokkurinn þéttur hópur undir forystu hins geysiöfluga þingflokksformanns, Össurar Skarphéðinssonar, sem við erum heppinn að eiga að. Það er heiður að starfa með þessu fólki og ykkur sem hér eruð.
Kæru vinir.
Við höfum verk að vinna. Við þurfum að svara kalli þjóðarinnar um betra og réttlátara samfélag þar sem enginn er skilinn eftir.
Við þurfum að tala af tilfinningu og ástríðu þegar kemur að brotalömum velferðarkerfisins og verkefnum þess.

Málefni eldri borgara eru okkur nærri. Á meðan að 400 eldri borgarar eru í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum og á meðan þriðji hver eldri borgari þarf að lifa á 100.000 kr. eða minna á mánuði, margir hverjir miklu minna, og á meðan eldri hjón eru aðskilin vegna skorts á búsetuúrræðum, þá höfum við verk að vinna.
Menntakerfið þarf einnig á okkur að halda. Fjársvelti ríkisstjórnarflokkanna í framhaldsskólum og í háskólum er okkur mjög dýrkeypt. Hér erum við eftirbátar annarra þjóða. Við þurfum því að forgangsraða í þágu menntunar og við munum færa þjóðinni annað tækifæri til náms.
Atvinnustefna Samfylkingarinnar er nútímaleg og frjálslynd. Við erum skjól sjálfstæðra atvinnurekenda og lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem bera uppi atvinnulíf þjóðarinnar. Við hlúum að hinum skapandi atvinnugreinum, hátækninni og menningunni sem nálgast nú að vera með svipað hlutfall af landsframleiðslunni og sjávarútvegurinn.
Við ræðum umhverfismálin á forsendum náttúruverndar en ekki stóriðju. Þetta er ekki einfaldur málaflokkur en það er vert að halda því til haga að Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur lagt í alvöru vinnu í þessum mikilvæga málaflokki. Gleymum því ekki.
Auðlindamálin snerta kjarna okkar hugmyndafræði og við erum hinir einu sönnu verndarar almannahagsmuna í íslenskri pólitík. Við skuldum komandi kynslóðum sigur í auðlindamálunum.
Við eigum að halda skýrt fram stefnu okkar um aðild að Evrópusambandinu en þar eru nú nær allar þjóðir Evrópu. Við eigum að vera í hópi þeirra.
Innflytjendamálin verða loksins kosningamál á Íslandi. Samfylkingin kvíðir þeirri umræðu ekki enda erum við sá stjórnmálaflokkur sem leitt hefur þau mál á þingi. Við þurfum að vera ábyrg og skynsöm í þeirri umræðu en umfram allt umburðarlynd. Gleymum því aldrei að jafnaðarstefnan er alþjóðleg hugmyndafræði sem berst fyrir bættum kjörum í öllum löndum heims.
Mig langar að minnast á það fólk í landinu sem iðulega gleymist í hinni pólitísku umræðu.

Samfylkingin þarf að ná til þessa stóra hóps, ná til millistéttarinnar, og þá er sigurinn í höfn. Leiðin að þessum hóp er einfaldlega í gegnum stefnu okkar.

Stefna Samfylkingarinnar á samleið með þjóðinni. Þetta veit Sjálfstæðisflokkurinn og það er ekki að ástæðulausu að sá flokkur tekur jafnan upp stefnu okkar í kosningabaráttunni. Þjóðin verður hins vegar að átta sig á því að vilji hún stjórn fyrir venjulegt fólk, stefnu sem helst allt kjörtímabilið en ekki aðeins í kosningabaráttunni, þá er Samfylkingin þeirra flokkur, fyrir almenning og með almenningi, kæru vinir.
Við eigum ekki að sætta okkur við að greiða eitt hæsta matvælaverð í heimi, eitt hæsta lyfjaverð í heimi, eitt hæsta bensínverð í heimi, eitt hæsta húsnæðisverð í heimi og hæstu vexti í heimi.

Lífskjarapólitík okkar er skýr. Við ætlum ekki einungis að gera lífið á Íslandi betra heldur einnig ódýrara.

Betra og ódýrara Ísland.
Þetta eru forgangsmál þjóðarinnar. Og þetta eru okkar forgangsmál.
En kæru vinir. Við ætlum ekki að gera allt fyrir alla. En það sem við munum gera, gerum við vel en við munum líka bæta réttarkerfið og stöðu barna og barnafólks og tryggja að jafnrétti kynjanna verði óaðskiljanlegur þáttur í öllum stefnumótun.
Það er okkar markmið að fella þessa ríkisstjórn sem rétt marði 51% fylgi í síðustu alþingiskosningum. Ég er sannfærður um að nái ríkisstjórnarflokkarnir meirihluta í næstu kosningum þá munu þeir starfa saman á ný.
Ef okkur tekst að fella ríkisstjórnina þá er auðvitað rétt að ræða við hina stjórnarandstöðuflokkana um hugsanlegt samstarf.
En það er hins vegar alveg ljóst í mínum huga að við eigum ekki að fara inn í slíka ríkisstjórn upp á hvaða skilmála sem er. Það fer allt eftir þeim málefnasamningi sem við náum.

Við erum í stjórnmálum vegna málefnanna, kæru félagar.
Og við eigum heldur ekki að útiloka neinn flokk í hugsanlegu ríkisstjórnarsamstarfi, hvorki Sjálfstæðisflokkinn né aðra. Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn getur komið til greina náist fram málefnaleg samstaða og ef viðræður núverandi stjórnarandstöðu leiða ekki til ásættanlegrar niðurstöðu. Þetta þarf að heyrast.

Við skulum láta málefnin og hugsjónir okkar ráða, eins og alltaf.
Kæru vinir, að lokum þetta.

Það er spennandi tími framundan. Það þurfa allir að leggja hönd á plóg og vinna dag og nótt að því markmiði sem við höfum sett okkur. Þetta verður mikil vinna en þetta verður um leið skemmtileg vinna.

Við skulum því fara í þessa kosningabaráttu af óbilandi sjálfstrausti, bjartsýni en fyrst og síðast erum við í miklum baráttuhug og við viljum sigur. Við erum tilbúin til að þjóna þessu landi og færa það í átt til samfélags þar sem enginn er skilinn eftir og allir fá að njóta sín.
Kæru vinir. Hugsjónir okkar vinna með okkur og þær eru okkar styrkleiki; hugtökin, frelsi, jafnrétti og bræðralag.
Takk fyrir"

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband