Falleinkunn í stjórn efnahagsmála

Stjórn efnahagsmála skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli. Núverandi ríkisstjórn hefur uppskorið falleinkunn í stjórn efnahagsmála og nú sýpur íslenskur almenningur því miður seyðið af því. Ótrúlega margt staðfestir getuleysi ríkisstjórnarflokkanna í efnahagsmálunum. Ríkisstjórnin hefur lengi siglt að feigðarósi í þessum málaflokki og skellt skollaeyrum gagnvart öllum gagnrýnisröddum. Á meðan blæða litlu fjölskyldufyrirtækin og venjulegt fólk í landinu. Í nýrri þjóðhagsspá Glitnis segir að almenningur mun borga brúsann fyrir mistök ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Í spá Glitnis kemur fram að almenningur á von á kaupmáttarrýrnun, lækkun eignaverðs, auknu atvinnuleysi, háum vöxtum, hárri verðbólgu og aukningu gjaldþrota. Þetta þýðir verri lífskjör og starfsaðstæður fyrir bæði fjölskyldur og fyrirtæki.

Óstöðugleikinn blasir við
Verðbólgan hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í 2 ár. Nýr verðbólguskattur er orðinn staðreynd og það hefur aldrei verið eins dýrt að eignast húsnæði á Íslandi, sérstaklega fyrir ungt fólk.
Krónan hefur verið í rússíbanaferð undanfarin ár og sveiflast um allt að 40%. Um 75% af tekjum og gjöldum fyrirtækja í Kauphöllinni eru í erlendri mynt. Almenningur og smáfyrirtækin sitja hins vegar eftir með vonlausa mynt. Starfsskilyrði fyrirtækja hafa versnað í valdatíð ríkisstjórnarinnar.
Viðskiptahallinn er sömuleiðis í sögulegu hámarki og er langmestur hér á landi af öllum OECD þjóðunum. Skuldir almennings, fyrirtækja og þjóðarbúsins hafa aldrei verið hærri. Ísland er ein skuldugasta þjóð veraldar og auðvitað kemur að skuldadögum. Mistök ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum og endalaust góðærishjal hennar hefur gert væntingar óraunhæfar. Ábyrgur málflutningur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum er álíka sjaldséður og ráðherrar í viðtölum með fulltrúum stjórnarandstöðunnar.
Vextir með þeim hæstu í heimi
Almenningur þarf að greiða eina hæstu vexti í heimi en vextir eru ekkert annað en verð á peningum. Vextir á Íslandi eru fjórum sinnum hærri hér á landi en á Evrusvæðinu og meira en helmingi hærri en í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þetta háa vaxtastig er ekkert annað en afleiðing af vonlausri efnahagsstjórn. Íslenskir peningar eru því þeir dýrustu í heimi.
En það rímar svo sem við annað sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Matur á Íslandi er sá dýrasti á jarðarkúlunni vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í tollamálum og vörugjöldum. Svipaða sögu má segja af lyfjaverði og bensínverði. Ríkisstjórnin flokkar meira að segja bleyjur og dömubindi í efra virðisaukaskattþrepi þar sem hinar svo kölluðu lúxusvörur eru sagðar eiga að vera.
Og ofan á þetta allt saman þá hefur ríkisstjórnin aukið skattbyrði hjá öllum tekjuhópum nema hjá þeim allra tekjuhæstu.
Viljum aukinn stuðning við hátækniiðnað
Ein stærstu efnahagsmistök ríkistjórnarinnar eru þó án efa fjársvelti ríkisrekna menntakerfisins og lítill stuðningur við hátækniiðnaðinn. Auka þarf fjárfestingu í rannsóknum og koma á skattaívilnunum fyrir hátæknifyrirtæki. Mannauðurinn er okkar stærsta auðlind og við verðum að hlúa vel að honum. Fjölgun á menntuðu fólki mun skapa meiri auð en við getum ímyndað okkur. En vegna metnaðarleysis ríkisstjórnarinnar í fjárfestingum til menntamála erum við enn að útskrifa færri einstaklinga með framhaldsskóla- og háskólapróf en nágrannaþjóðirnar.

Ég er sannfærður um að það er hægt að gera betur í efnahagsmálum. Og ég er sannfærður um að Samfylkingin mun gera betur. Samfylkingin mun stjórna efnahagsmálunum af festu og ábyrgð. Flokkurinn mun styðjast við sanngjarna forgangsröðun og lífskjör venjulegs fólks í landinu munu batna.
Hægt er að sjá nýlega grein um hver hafi verið helstu efnahagsmistök ríkisstjórnarinnar sem var birt hér á heimasíðunni á 29. ágúst sl.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 144237

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband