Við skuldum og skuldum

Ég bað nýlega um utandagskrárumræðu á Alþingi skuldastöðu heimila og fyrirtækja þar sem forsætisráðherra var til andsvara. Þrátt fyrir metaukningu í skuldum heimila og fyrirtækja virtist forsætisráðherra ekki deila þeim áhyggjum mínum.
Skuldir íslenskra heimila og fyrirtækja hafa aukist gríðarlega undanfarin misseri og eru þær mun hærri hér en í nágrannalöndunum. Íslensk heimili skulda núna um 800 milljarða kr. samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands eða sem nemur allri árlegri landsframleiðslunni. Til samanburðar kostar allt heilbrigðiskerfið minna en einn tíunda þessar upphæðar.

Hvert einasta mannsbarn á Íslandi skuldar því tæplega 3 milljónir kr. Skuldir heimilanna voru rúmlega helmingi lægri (442) fyrir 5 árum.Skuldir heimilanna voru 20% af ráðstöfunartekjum árið 1980 en í árslok 2003 var þetta hlutfall komið upp í 180% og það hafði því nífaldast á tímabilinu.
Skuldir þjóðarbúsins eru um 2.400 milljarða kr. eða þrefalda landsframleiðslu
Íslensk fyrirtæki skulda um 1.300 milljarða kr. og hafa skuldirnar meira en tvöfaldast á síðustu 5 árum. Alþjóðlegur samanburður sýnir að skuldir íslenskra fyrirtækja eru með þeim hæstu sem þekkjast meðal þróaðra ríkja heims. Heildarskuldir íslenska þjóðarbúsins eru því um rúmlega 2.400 milljarða kr. sem er þreföld landsframleiðslan. Þar af eru erlendar skuldir um helmingur af heildarskuldunum og er Ísland eitt skuldugasta ríki í heimi. Greiðslubyrði af erlendum lánum hefur aukist gífurlega mikið. Greiðslur til útlanda í vexti og afborgarnir af erlendum lánum kosta rúmar 6 kr. af hverjum 10 kr. sem þjóðin aflar í útflutningstekjur.
Þetta eru ótrúlegar tölur en réttar. 60% af útflutningstekjum okkar fara í afborganir og vexti af erlendum lánum. Um 1% hækkun á erlendum vöxtum leiðir til um 12 milljarða kr. hækkunar á vaxtagreiðslum en fyrir þá upphæð mætti t.d. reka alla framhaldsskóla landsins. Innlend útlán innlánsstofnana í ár jukust um 70 milljarða kr. í október sl. Nýju íbúðalánin námu í lok október um 55 milljarða kr. en til samanburðar kostar rekstur alls Landspítalans um helming þessarar upphæðar.
Tölur í sögulegu hámarki
Í Financial Times var Ísland sérstaklega nefnt sem dæmi um land þar sem erlend lán banka til þess að fjármagna lántökur heimila dragi úr lánshæfi á alþjóðlegum mörkuðum. Í blaðinu kemur einnig fram að hækkandi skuldir heimilanna séu einn þeirra þátta, sem hægi á hagvexti.
Allar þessar skuldatölur eru í sögulegu hámarki. Skuldir heimila og fyrirtækja hafa aldrei verið hærri og hafa aldrei hækkað jafn ört. Það er því ríkt tilefni til að hafa áhyggjur. Þótt hér sé um að ræða skuldir heimila og fyrirtækja en ekki opinberra aðila geta stjórnvöld ekki litið framhjá þeim. Ríkisvaldinu ber skylda til þess að stuðla að heilbrigði í efnahagskerfinu. Of mikil skuldssetning lýsir ekki heilbrigðu hagkerfi.
Nú getur sá tími runnið upp að fólk skuldi meira en sem nemur verðmæti fasteignar en við þekkjum mýmörg dæmi slíks varðandi bifreiðakaup. Of miklar skuldir hafa sundrað mjög mörgum heimilum og mörg sorgarsagan hefur orðið vegna of mikilla skulda. Okkur stjórnmálamönnum ber að vara við óæskilegri þróun. Það hefur ríkisstjórnin ekki gert. Hún hefur gert hið þveröfuga og ýtt undir væntingar og skuldasöfnun.
Ríkisstjórnin gerir lítið úr varnaðarorðum óháðra aðila og hefur haldið væntingum í samfélaginu uppi með fagurgala, oflofi og sjálfhóli. Peningamálstefna Seðlabankans virðist hafa lítil áhrif. Nú er verðbólga á uppleið, þenslan mikil og litlar eða engar mótvægisaðgerðir í ríkisfjármálum. Stefna stjórnvalda ýtir því undir aukna neyslu og hvetur almenning til að verja æ stærri hluta ráðstöfunartekna sinna í vaxtagreiðslur vegna neyslu líðandi stundar.
Góðærið fengið að láni
Hið svokallaða góðæri sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa stært sig af er einfaldlega fengið að láni. Sé reyndar litið til meðalhagvaxtar hér á landi frá árunum 1991-2001 sést að hann er nákvæmlega sá sami og meðalhagvöxtur OECD ríkjanna. Á þessum tíu árum erum við því um miðja deild en blöndum okkur hins vegar ekki í toppbaráttuna. Það er allt í lagi að halda því til haga að sé litið til skuldastöðu ríkisvaldsins þá skuldar ríkissjóður hærri upphæðir núna heldur en hann gerði árið 1995 skv. Seðlabanka Íslands.

Aukning neysluútgjalda heimila á sér ekki stoð í auknum kaupmætti en er fjármögnuð með lántökum, erlendum og innlendum og þetta hafa Samtök atvinnulífsins bent á. Einhverjir hafa bent á að skuldasöfnun væri í sjálfu sér ekki vandamál þar sem eignir höfðu aukist á móti. En það er ekki rétt. Seðlabankinn hefur bent á að á síðasta ári hafi skuldamyndunin ekki nema að litlu leyti tengst fjármunamyndun fyrirtækjanna. Bent er á sem skýringar að átt hafi sér stað skuldsettar yfirtökur og hækkun eignarverðs.
Margar leiðir færar fyrir ríkisstjórnina
Við jafnaðarmenn styðjum eindregið velferðabundinn markaðsbúskap en við erum ekki áhyggjulaus um velferð fólksins. Of miklar skuldir geta orðið myllusteinn um háls launþega og smærri fyrirtækja. Árangurslaus fjárnám einstaklinga voru um 17.000 sl. fjögur ár. Á sama tíma er ríkisstjórnin hins vegar með viðhorf afskiptaleysis eins og kemur fram í afstöðu gagnvart skuldastöðu almennings.
Ríkisstjórnin getur gripið til margar aðgerða til að leggja sitt af mörkum til að sporna gegn aukinni skuldasöfnun í samfélaginu. Í fyrsta lagi gæti ríkisstjórnin horfst í augu við vandann og viðurkennt hann. Í öðru lagi gæti ríkisstjórnin tekið mark á þeim aðvörunarmerkjum í efnahagslífinu sem hlutlausir aðilar benda henni sífellt á. Í þriðja lagi gæti ríkisstjórnin lækkað matarskattinn eins og við í Samfylkingunni viljum gera. Það lækkar neysluverðsvísitölu og þar af leiðandi afborganir af lánum.
Í fjórða lagi gæti ríkisstjórnin lagt fram trúverðug fjárlög sem standast þegar á hólmann er komið. Í fimmta lagi má benda sérhæfðar leiðir s.s. greiðsluaðlögun skuldugra einstaklinga.

Það að skulda of mikið er grafalvarlegt fyrir heimili þessa lands. Við verðum að snúa þessari þróun við og byggja upp heilbrigt efnhagslíf byggt á minni lántökum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 144252

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband