Ríkisstjórn hinna útvöldu

Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í ríkis- og skattamálum undanfarin ár endurspegla grundvallarmun á ríkisstjórnarflokkunum og Samfylkingunni. Ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skatta- og velferðarmálum eru teknar saman kemur í ljós rauður þráður þar sem þrengt er að venjulegu fólki og eldri borgurum. Fjármálaráðherra staðfesti nýlega í svari á Alþingi, að skattbyrði hefur aukist hjá öllum landsmönnum nema hjá þeim langtekjuhæstu. Skerðing skattleysismarka, sem að mestu kemur fram eftir að þessi ríkisstjórn tók við, er svo harkaleg að ríkissjóður hefur tekið tugi milljarða króna meira til sín en ef skattleysismörk hefðu haldið raungildi sínu.

Fyrirhuguð hækkun á skattleysismörkum, sem náðist í gegn af hálfu verkalýðshreyfingarinnar þrátt fyrir mótþróa ríkisstjórnarflokkanna, er nánast helmingi lægri en það sem hefði þurft til þess að skattleysismörkin ættu að vera jafnhá og þau voru þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum.
Ný skattheimta á eldri borgara
Hafin er áður óþekkt skattheimta á eldri borgurum og öryrkjum. Landssamband eldri borgara hefur bent á að eldri borgari með 110.000 kr. í tekjur hefur nú þurft að greiða um 14% af tekjum sínum í skatt. En sami eldri borgari greiddi einungis 1,5% á árinu 1988. Öryrkjabandalagið bendir sömuleiðis á að lífeyrisþegi sem fær einungis greiddar bætur almannatrygginga greiði jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatta.
Um 30.000 manns eru með tekjur undir 100.000 kr. í landinu og þeir greiða nú tvo milljarða í skatta sem þeir gerðu ekki áður en þessi ríkisstjórn tók við völdum.
Almenningur borgar brúsann
Nú hefur svo þessi kjaraskerðing ríkisstjórnarinnar til margra ára verið notuð sem skiptimynt í kjaraviðræðum sem sýnir skipsbrot hennar í efnahagsmálum. Eftir stendur að það er fólkið í landinu sem borgar brúsann og ríkisstjórnin mun hreykja sér af samningum sem almenningur greiðir sjálfur fyrir. Vinnuveitendur eru vitaskuld himinlifandi að ríkið borgi kjarasamningana fyrir þá.

En með þessari ákvörðun hefur ríkisstjórnin hins vegar ekki aðeins svikið sitt helsta kosningarloforð um flata lækkun á tekjuskattsprósentunni heldur einnig viðurkennt að sú skattastefna þjónaði ekki hagsmunum venjulegs fólks í landinu heldur fyrst og fremst hinum útvöldu og efnamestu.
Ríkisstjórnin hyglar hinum efnamestu
Hugmyndafræði ríkisstjórnarflokkanna sést einnig vel í þeim skattaaðgerðum sem þeir lögfestu. Um 60% af lækkuninni átti að renna til 25% tekjuhæstu einstaklinganna en aðeins um 2% fara til lægstu 25%. Það þýðir í reynd að þeir allra tekjuhæstu fá mest og þeir allra tekjulægstu fá nær ekkert. Nærri 25% af heildarlækkuninni átti að fara til þeirra 5% tekjuhæstu. En einungis 0,1% af heildarlækkuninni átti að fara til 5% tekjulægstu.

Sömu sögu er að segja frá eignarskattslækkuninni. Um 24% af eignarskattslækkuninni rennur til 5% tekjuhæstu einstaklinganna. En einungis 1,2% af eignarskattslækkuninni rennur til 15% tekjulægstu einstaklinganna.

Um 1% ríkustu Íslendinganna eru með 88% af tekjum sínum sem fjármagnstekjur sem er í 10% skattþrepi. Þessir einstaklingar greiða að meðaltali um 12% af tekjum sínum í skatta á meðan fólk með meðaltekjur greiðir um 26%. Hinir efnamestu leggja því ekki fram sama hlutfall í þágu almannahags vegna skattakerfis ríkisstjórnarinnar.

Þegar allar breytingar ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu frá 1995 eru lagðar saman kemur í ljós að maður með milljón króna mánaðarlaun þarf að greiða einum mánaðarlaunum sínum minna í skatt á ári en á meðan þarf ellilífeyrisþeginn að borga ein mánaðarlaun sín meira í skatt á ári.
Víðtækar kjaraskerðingar ríkisstjórnarinnar
Á fjölmörgum öðrum sviðum hefur ríkisstjórnin staðið fyrir víðtækum kjaraskerðingum. Má þar nefna skerðingu á vaxtabótum og barnabótum en frá árinu 1995 eru útgjöld vegna barnabóta um 10 milljörðum krónum lægri en þau hefðu verið ef barnabætur hefðu fengið að halda raungildi sínu eins og það var á árinu 1995.

Þá býr íslenskur almenningur við eitt hæsta matvælaverð í heimi vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í skatta- og tollamálum. Sömuleiðis er lyfjaverð hér eitt það hæsta í Evrópu og Íslendingar greiða nánast dýrasta bensínverð sem þekkist.
Þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu og skólagjöld í ríkisreknum háskólum hafa hækkað umtalsvert undanfarin ár. Og vegna slæmrar hagstjórnar ríkisstjórnarflokkana eru vextir hvergi jafn háir og á Íslandi og verðbólgan hefur verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tvö ár. Þetta er nú allur árangur ríkisstjórnarinnar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 144254

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband