Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Framsókn á tímamótum

FramsóknarkindinValgerður Sverrisdóttir var í dag kosin varaformaður Framsóknarflokksins og ég vil byrja á að óska henni til hamingju með það. Valgerður er kjarnakvendi sem hefur marga fjöruna sopið. Hún hefur sýnt það í tvennum kosningum að hún skilar sínu. Framsóknarflokkurinn hefur fengið sína bestu útkomu í hennar kjördæmi í síðustu tveimur kosningum. Og það segir sitt um stöðu hennar.

 

Formaður flokksins, Guðni Ágústsson, verður seint álitinn týpískur stjórnmálaleiðtogi. Í má raun segja að hans helstu gallar séu um leið hans helstu kostir. Guðni hefur þann eiginleika að virðast í senn íhaldssamur og óútreiknanlegur. Hugmyndafræði hans er hrein og bein og hefur sterka skírskotun til þjóðernistilfinningu margra Íslendinga. Hann þykir sniðugur og orðheppinn en er að sama skapi ekki tekinn alvarlega af öllum. Reynsla mín af Guðna er að hann er heill og kemur eins fram við alla. Guðni er eins hvort sem hann er í ræðustól, í viðtali eða bara í mötuneyti okkar þingmanna. Hann er viðkunnanlegur karl.

 

Framsóknarflokkurinn stendur á tímamótum. Tveir af reyndustu þingmönnum flokksins hafa nú tekið við stjórnvölinn. Engu að síður virðast ýmsir telja að Guðni verði aðeins biðleikur. Og athyglisvert viðtal við Finn Ingólfsson í Viðskiptablaðinu rennir stoðum undir þá kenningu.

 

Margir líta til Sivjar enda hefur hún sýnt að hún hefur metnað til að verða formaður og fékk ágæta kosningu þegar að Jón Sigurðsson var kjörinn formaður. Það er hins vegar spurning hvernig fjögur ár í stjórnarandstöðu fara með hana. Nafn Björns Inga er nefnt en maður heyrir það meðal Framsóknarmanna að hann er umdeildur. Hann geldur þess kannski að hafa verið aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar og í já–armi flokksins þegar að síga fór á ógæfuhliðina. Hann er kannski of tengdur Halldóri til þess að teljast fýsilegur kostur. Hann er hins vegar leiðtogi Framsóknarmanna í borginni og formaður Borgarráðs þrátt fyrir að hafa halað inn heilum 6% í kosningunum. Það má hins vegar ekki að vanmeta Björn Inga sem að sögn kunnugra hefur óslökkvandi löngun til að verða næsti formaður Framsóknarflokksins.

 

Metnaður hans er mikill og því brostu ýmsir þegar að hann lýsti því yfir eftir alþingiskosningarnar að best væri fyrir Framsóknarflokkinn að safna vopnum sínum í stjórnarandstöðu og endurheimta traust kjósenda. Sennilega hefur þessi afstaða hans haft eitthvað með það að gera að leiðin að formannsstólnum varð mun greiðari eftir að Jón Sigurðsson sagði af sér, sem var óhjákvæmilegt að gera fyrst að flokkurinn fór ekki í ríkisstjórn. Í það minnsta hvarflaði það ekki að Birni Inga eftir borgarstjórnarkosningarnar að sitja í minnihluta jafnvel þó að 94% borgarbúa hefðu ekki séð ástæðu til að styðja Framsóknarflokkinn þá.

 

Ég hef hins vegar alltaf haft mikla trú á ritara flokksins, Sæunni Stefánsdóttur. Sæunn var með mér í stjórn Framtíðarinnar í MR þegar ég var forseti nemendafélagsins fyrir hartnær 10 árum en þá taldi ég reyndar að hún væri krati. Þegar Sæunn settist á þing fyrir Halldór Ásgrímsson fannst mér hún strax standa sig afburðavel. Hún hefur varið flokkinn sinn á erfiðum stundum og var alltaf vel undirbúin og málefnaleg. Þrátt fyrir að Sæunn hafi núna dottið af þingi vona ég að við munum sjá meira af Sæunni í pólitíkinni. Og það eru aðrir framtíðarmenn, til dæmis nýr þingmaður Höskuldur Þórhallsson lögfræðingur sem ég býst fastlega við að muni mæta sterkur leiks.


Ekki nauðsynlegt að vera alltaf sammála

VOGIRÉg hélt ræðu í dag á ráðstefnu á vegum Kvenréttindafélags Íslands um vændi, virðingu og jafnrétti. Yfirskrift ráðstefnunnar var ,,A Place for Prostitution? Gender Equality and Respect in Modern Societies” og var því ráðstefnan haldin á ensku. Mér finnst það alltaf svolítið sérstakt að halda ræðu á ensku og svara spurningum á erlendri tungu. Að sjálfsögðu er orðaforðinn takmarkaðri á erlendri tungu jafnvel þó að enskan sé auðvitað mun auðveldari en mörg önnur mál.

Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni voru Rosy Weiss frá Austurríki sem er forseti International Alliance of Women (IAW), Marit Kvemme frá Noregi sem er ráðgjafi menntamála og situr í stjórn Women´s Front of Norway, Network Against Trafficking in Women og FOKUS (Forum for Women and Development) og loks Rachael Lorna Johnstone frá Skotlandi sem er lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Fundarstjóri var Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.

Inntakið í ræðu minni var að kynjajafnrétti og vændi fara ekki saman. Þá dró ég fram að í mínum huga er vændi ofbeldi sem okkur ber að fordæma og vinna gegn með öllum tiltækum leiðum. Eitt mikilvægasta skerfið í þeirri baráttu er að gera kaup á vændi refsivert. Með því sendum við þau mikilvægu skilaboð að það sé ekki rétt að kaupa líkama fólks með þeim hætti sem vændi er. Sömuleiðis er ég sannfærður um að það hefði áhrif á eftirspurnina og þar af leiðandi á framboðið. Ég rakti fjölmörg önnur rök fyrir því að gera kaupin refsiverð, enda verð ég sannfærðari um þessa leið því meira sem ég velti henni fyrir mér.

Heilmiklar umræður spunnust um þetta efni og voru ekki allir fyrirlesarar sammála, enda er það auðvitað ekki markmiðið að allir séu sammála um leiðir. Eðli málsins samkvæmt sækja þingmenn ráðstefnur og fundi nokkuð reglulega, ýmist sem áhorfendur eða sem þátttakendur. Og ég verð að segja að fundir þar sem settur er saman einsleitur hópur af ræðumönnum sem allir nálgast viðfangsefnið út frá sama sjónarhorni gefa manni lítið og eru eðlilega lítt til þess fallnir að víkka sjóndeildarhringinn. Að þessu leyti lukkaðist ráðstefnan í dag vel og reyndar var mjög ánægður með efnistök og skipulag á þessari ráðstefnu og ekki síður að vera í hópi með jafnáhugaverðum ræðumönnum og þarna voru staddir í dag.


Öflug samkeppni er kjarabarátta nútímans

SamkeppniÍ morgun var ég kosinn formaður viðskiptanefndar Alþingis. Fyrir mig er þetta draumanefndaformennskan, enda fjallar þessi nefnd m.a. um bankana, fjármálageirann, samkeppnislög og neytendamál. Undir þessu er hinn nýji höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar.

Framsókn og útrás íslenskra banka er farin að vekja gríðarlega athygli og kannski umfram það sem við Íslendingar hér heima gerum okkur grein fyrir. Það er auðvitað mjög sérstakt að fyrirtæki frá jafn fámennri þjóð sé að hasla sér völl svo víða um heim. Það er ekki síður sérstakt hvað þessi útrás hefur tekið skamman tíma, þessi árangur hefur náðst á undraðverðum tíma. Einhverjir tala um hin íslenska þjóðarsál hjálpi í þessu umhverfi. Íslendingar séu meira fyrir það að taka ákvarðanir en að ræða um það að taka ákvarðarnir.

Ótrúleg tækifæri
Staðreyndin er sú að það eru ótrúlega mikil tækifæri og spennandi möguleikar í íslensku viðskiptalífi um þessar mundir. Og það skiptir gríðarlega miklu máli að stjórnvöld hlúi vel að viðskiptalífinu þannig að það fái að vaxa og blómstra. Það gerum við með því að búa þeim vinveitt umhverfi og góð vaxtarskilyrði.

Ég er hins vegar einn af þeim sem tel að hagsmunir neytenda og t.d. íslenskra banka eigi að geta farið saman. Og að neytendur eigi líka að njóta ágóðans af því hversu vel hefur gengið. Öflug samkeppni er og á að vera kjarabarátta nútímans
 
Eðlileg verðmyndun á öllum sviðum samfélagsins
Það er ánægjulegt að geta bent á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að við viljum ,,að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni." Þá munu ríkisstjórnarflokkarnir efla bæði samkeppniseftirlit og fjármálaeftirlit og tryggja að íslensk fyrirtæki búi við bestu samkeppnis- og rekstrarskilyrði sem völ er á.
 
Skortur á hreyfanleika viðskiptavina
Samkeppniseftirlitið hefur gagnrýnt skort á hreyfanleika viðskiptavina bankanna og nefndi sérstaklega stimpilgjaldið í því sambandi. Það er skemmst frá því að segja að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að afnema stimpilgjaldið sem er risavaxið skref til kjarabóta og eykur hreyfanleika svo sannarlega.sólsetur

Ég hef einnig talið æskilegast að uppgreiðslugjöld bankanna lækki og að lántöku- og innheimtugjöld séu helst ekki hærri en sem nemur kostnaði bankanna.

Það þarf hins vegar að hafa í huga að samkeppnin getur verið mjög mismunandi eftir sviðum og má þar nefna samkeppnina um fyrirtækin, almenning, gjaldeyrisviðskiptin, skuldabréfin og ekki síst um íbúðalánin. Á sumum þessara sviða er mikil samkeppni og á öðrum minni. Síðast í gær fékk ég símtal frá einum bankanna um að ég ætti að bera saman viðskiptakjör mín og þau sem sá banki bauð og helst flytja mín viðskipti til þeirra.
 
Stjórnarskrá atvinnulífsins
Við, neytendurnir, eigum að bera kjör saman. Það er auðvitað eðlilegt að neytendur séu kröfuharðir og það er beinlínis hlutverk þeirra að vera á tánum og krefjast bestu mögulegu kjara.

Svo má ekki gleyma því að samkeppnisyfirvöld hafa sjálf ýmis konar úrræði. Þau geta brugðist við telji þau að markaðsráðandi staða sé misnotuð. Þau geta einnig brugðist við ef samkeppniseftirlitið telur að einhvers konar samningar eða samþykktir séu á milli fyrirtækja sem koma í veg fyrir samkeppni eða takmarka hana.

Ég hreifst mjög af afstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna í þessum efnum sem ég kynnti mér lítillega þegar ég vann að kandidatsritgerð minni í lögfræði sem var á sviði samkeppnisréttar. Samkeppnislög voru þar nefnd stjórnarskrá atvinnulífsins. Það finnst mér rétt nálgun og það á ekki að vera nein ástæða fyrir atvinnulífið að óttast samkeppnisyfirvöld. 


Viðtalið sem birtist í Blaðinu á laugardaginn síðasta

Hér fyrir neðan birtist viðtal Blaðsins við mig sem birtist á laugardaginn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hægt að selja börn og konur aftur og aftur

fangelsiÉg og frúin höfum undanfarin tvö kvöld verið föst fyrir framan skjáinn og horft á framhaldsmynd mánaðarins  á Stöð 2. Það eru ár og dagar síðan við höfum horft á slíkar gæðamyndir sem eru víst ætíð sýndar í tveimur hlutum og sitthvorum megin við gjalddaga áskriftar.

Nútímaþrælahald
En hvað um það. Efni framhaldsmyndar þessa mánaðar var um mansal. Dregnar voru upp skelfilegar aðstæður þolenda mansals, hvort sem þeir voru börn á Fillipseyjum eða  austur-evrópskar stúlkur í leit að betra lífi. Bent var á að mansal væri ört vaxandi vandi um allan heim enda væri hægt að selja börn og konur aftur og aftur á sama tíma og grammið af eiturlyfjum væri bara hægt að selja einu sinni.

Mansal er nútímaþrælahald sem við verðum öll að berjast gegn. Það þarf ekki síst að vinna gegn eftirspurninni sem kallar því miður á æ meira framboð. Mikilvægt er að hafa í huga að mansal er hin hliðin á vændi. Þetta tvennt helst í hendur.

5 baráttur að tapast
Það hefur alltaf verið mér minnistætt þegar ég las einhvers staðar að maðurinn væri að tapa 5 baráttum. Baráttan gegn fíkniefnum, baráttan gegn ólöglegri vopnasölu, baráttan gegn peningaþvætti, baráttan gegn broti á höfundarétti og síðast en ekki síst baráttan gegn mansali sem er hvað ógeðfelldast af þessu öllu saman.


Það á að vera auðvelt að lýsa yfir vilja sínum til að vera líffæragjafi

SunsetÞað er oft vandratað í heimi hér. Mér hefði ekki komið það í hug en það sem þurfti til að heimsbyggðin áttaði sig á mikilvægi líffæragjafar var greinilega plat-raunveruleikaþáttur. Þátturinn sem sýndur var í hollensku sjónvarpi hefur vakið heimsathygli og firringin sem virðist einkenna nútímann gerði það að verkum að fólk var tilbúið að trúa því að þetta væri raunverulegt.

En það er eins með þennan mikilvæga málstað eins og svo marga aðra að það er ekki auðvelt að vekja athygli á honum. Ég vona að þessi plat-uppákoma í Hollandi verði til þess að líffæragjöf komist almennilega í umræðuna hér á landi. Þó að líffæragjöf sé í sumum tilfellum viðkvæmt mál þá er það einnig sterkur punktur sem fram kom í viðtali við lækni einn í fréttum Sjónvarps að þeir sem eru tilbúnir að taka við líffærum annarra ættu að vera sjálfir tilbúnir að láta sín líffæri þegar svo ber undir.

Ég hef tvívegis lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að upplýsingar um vilja til líffæragjafa komi fram í ökuskírteininu hjá fólki. Fyrir mörgum er þetta einfalt mál og ég er sannfærður um að það yrði mikli aukning á framboði af líffærum sem bjargað gætu óteljandi mannslífum ef þetta yrði gert mögulegt. Það er einfaldlega of hár þröskuldur fyrir fólk að þurfa að sækja um og bera á sér sérstakt skírteini um að þeir séu líffæragjafar.

Þetta er ekki flokkspólitískt mál frekar en fyrningarmálið. Þetta er bara skynsamleg og eðlileg leið til að draga úr þjáningu og gefa fleirum kost á góðu lífi.


Bestu árin

MenntunÞeir eru margir sem halda því fram að menntaskólaárin séu bestu ár ævinnar. Á laugardagskvöld hitti ég marga góða vini og félaga úr Menntaskólanum í Reykjavík þegar við hittumst í tilefni af því að 10 ár voru liðin frá útskrift úr skólanum. Og það var ótrúlega skemmtilegt að hitta aftur bekkjarfélagana úr náttúrufræðideildarbekknum en suma þeirra hafði ég ekki hitt í mörg ár. Það var ekki síður skemmtilegt að heyra hvað fólk er að fást við. Eðli málsins samkvæmt eru þeir nokkrir læknarnir og verkfræðingarnir í bekknum og nokkrir sem enn eru erlendis í námi. Bekkurinn hefur líka verið nokkuð iðinn þegar kemur að barneignum.
 
Í upphafi kvöldsins voru höfð mörg orð um það hvað fólk hafði lítið breyst og við vorum eiginlega öll á því að bekkjarfélagarnir væri eins eftir öll þessi ár. En eftir að myndband var sýnt úr útskriftarferð árgangsins mátti glögglega sjá að sú fullyrðing átti ekki alveg við rök að styðjast. Þar mátti sjá fríðan en mjög barnalegan hóp, sem þó stóð sennilega í þeirri trú að mannskapurinn væri ekkert minna en rígfullorðinn. Áratug seinna hafa margir aðeins bætt á sig, fengið velmegunarvömb og einhverjir teknir að grána.
 
Baldvin Þór Bergsson fréttamaður á Ríkissjónvarpinu var ræðumaður kvöldsins og rifjaði upp góðar stundir úr MR. Ræða hans var góð og niðurstaða hans var einmitt sú að árin í Menntaskólanum væru líkast til með þeim skemmtilegri á ævinni.
 
Ég kunni alltaf vel við mig í MR. Mér finnst skólinn sjarmerandi og þær eru skemmtilegar hefðirnar sem þar lifa góðu lífi. Dætur okkar Þorbjargar hafa fengið mátulega hlutlaust uppeldi og Elísabet Una eldri dóttir okkar, sem nýlega er orðin 5 ára, sagði við okkur foreldrana um daginn: Áður en maður byrjar í Háskólanum, þá fer maður í MR.


Blaðið í dag

Í helgarblaði Blaðsins sem kom út í dag er viðtal við mig. Þar fer ég m.a. yfir atburði undanfarinna daga ásamt forgangsröðuninni í pólitíkinni, hinu rætna umtali, fjölskyldumálunum og því sem mér finnst að pólitík eigi að snúast um.


« Fyrri síða

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 144256

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband