Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Orlof af orlofi

Reglulega fær maður fréttir af fólki sem lendir illa í þeim annmörkum sem eru á fæðingarorlofslöggjöfinni okkar. Ein af helstu ástæðum fyrir vandræðum fólks er sú staðreynd að nú miðast greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði við tekjur síðustu tveggja almanaksára. Það getur því munað heilmiklu í tekjum eignist viðkomandi aðili barn t.d. í desember eða í byrjun janúar. Eignist maður barn 31. desember 2005 er miðað við árin 2004 og 2003 en eignist viðkomandi barn 1. janúar 2006 er miðað við tekjur ársins 2005 og 2004. Fyrir þann sem eignast gamlársdagsbarnið er því ekki tekið tillit til þeirra tekna sem unnið var til á því ári. Í því tilviki er því litið til 36 mánaða aftur í tímann í stað 24 mánaða.
Þetta getur munað talsverðu enda getur margt gerst á einu ári svo sem stöðuhækkun, launahækkun, lok námsferils, atvinnuleysi á fyrri hluta tímabilsins o.s.frv. Mér er síðan sagt að þetta sé svona m.a. vegna tölvukerfis Tryggingastofnunar. En hvort er fæðingarorlofskerfið miðað við hagsmuni fjölskyldna eða hagsmuni tölvukerfis Tryggingastofnunar? Væri ekki réttlátara að miða við tekjur síðustu tveggja ára frá fæðingardegi barnsins í stað þess að taka tvö síðustu almanaksár fyrir fæðingarárið?
Mig langar einnig að vekja athygli á þeirri stöðu þegar fólk eignast barn með stuttu millibili. Fólk getur nefnilega verið að eignast fleiri en eitt barn á þremur árum. En þar sem núverandi kerfi miðar við tekjur tveggja ára geta fæðingarorlofsgreiðslur vegna seinna barns verið miðaðar við fæðingarorlofsgreiðslur vegna fyrra barns, þá getur fólk verið að fá fæðingarorlofstekjur sem eru 80% af 80% tekjum. Þetta fer augljóslega gegn því markmiði að aðstoða barnafjölskyldur. Finnst ráðherra þetta eðlilegt?

Lausn í málefnum Barnahúss blasir við

Um daginn bað ég um að allsherjarnefnd Alþingis myndi hittast til að ræða málefni Barnahúss en að undanfarið hafa Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu og Helgi I. Jónsson, dómsstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur deilt um aðferðir við skýrslutökur á börnum í kynferðisbrotamálum. Formaður nefndarinnar brást skjót við og nefndin fór fyrir stuttu í heimsókn í Héraðsdóm Reykjavíkur og Barnaverndarstofu ásamt Barnahús. Að mínu mati var mjög gott fyrir nefndina að skoða þá aðstöðu sem er fyrir börn sem lenda í kynferðislegri misnotkun. Það er ljóst að forsvarsmenn Héraðsdóms Reykavíkur er ennþá staðráðnir í að notast eingöngu við þá aðstöðu sem er í dómshúsinu enn ekki þá frábæru aðstöðu sem er í Barnahúsi sem allir aðrir dómstólar landsins þó nýta sér.
Þessir aðilar voru hins vegar sammála um að við ættum að breyta lögunum í fyrra horf en árið 1999 var gerð sú lagabreyting að fyrsta skýrslutaka af barni á rannsóknarstigi var gerð að dómsathöfn. Þessi lagabreyting hafði það m.a. í för með sér að verjandi og sakborningar eiga rétt á að fylgjast með vitnisburði barnsins sem síðan getur hagrætt sínum framburði eftir því. Þetta fyrirkomulag vekur einnig spurning hvort reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu sé uppfyllt þar sem mismunandi dómarar geta komið að sama máli. Þá er það ekki heppilegt að sama dómari eigi að meta hvort rannsókn sem hann sjálfur hefur tekur þátt í hafi verið fullnægjandi.
Það að þessir aðilar, forsvarsmenn Héraðsdóms Reykjavíkur og Barnaverndastofu, séu sammála um að lagabreytingin árið 1999 hafi ekki verið heppileg eru mikil og jákvæð tíðindi. Okkur í nefndinni var síðan sagt að ríkissaksóknari væri einnig sammála að það ætti að breyta lögunum í þá átt sem þau voru fyrir 1999.
Núna hefur verið kynnt lagafrumvarp dómsmálaráðherra á þessu sviði sem reyndar gerir ráð fyrir óbreyttu ástandi en við höfum nú tækifæri til að breyta þessu tilbaka. Með slíkri breytingu myndi deilan um hvar skýrslutakan ætti að fara fram leysast að sjálfum sér í langflestum tilvikum. Þá myndi skýrslutakan af börnum á rannsóknarstigi vera framkvæmd í Barnahúsi en síðan yrði dómþingið sjálft í dómshúsinu og eftir atvikum yrði þar kallað eftir framburði barnsins á ný eða það yrði stuðst við myndbandsupptökur.

Lífeyrisgreiðslur beri fjármagnstekjuskatt

Kjör eldri borgara verða að vera kosningamál. Tillögur ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki ganga því miður allt of skammt. Stjórnarandstaðan hefur hins vegar lagt fram þingmál sem bætir stöðu eldri borgara til mikilla muna. Í tillögum okkar er m.a. komið á frítekjumarki fyrir 75.000 kr. atvinnutekjur á mánuði, tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka eru afnumin, tekjutryggingin er hækkuð og dregið er úr skerðingarhlutföllum. Ég er hins vegar sannfærður um að við þurfum að grípa til enn frekari aðgerða til að bæta stöðu eldri borgara. Þar á ég m.a. við leiðir til að draga úr skattbyrði eldri borgara. Það má gera með því að skattleggja lífeyristekjur sem fjármagnstekjur. Sú leið myndi hafa í för með sér mikla skattalækkun fyrir eldri borgara og um leið nauðsynlega kjarabót.

Ég lagði fram fyrirspurn á Alþingi um kostnað við þessa hugmynd. Í svarinu kom fram að væru greiðslur frá lífeyrissjóðum skattlagðar sem fjármagnstekjur í 10% skattþrepi í stað 37% þrepi tekjuskatts þá yrði tekjutap hins opinbera um 3.3 milljarða króna. Það er ekki há upphæð fyrir ríkissjóð sem er nú að velta um 370 milljörðum króna á ári.

Sé farin sú leið að hækka skattleysismörk fyrir eldri borgara eldri en 70 ára upp í 150.000 kr. á mánuði kostar það ríkissjóð um 5 milljarða króna samkvæmt fyrirspurn minni á Alþingi.

Það er ekki boðlegt að þriðji hver eldri borgari þurfi að lifa á 110.000 krónum á mánuði eða minna. Við skuldum eldri borgurum betri lífskjör.

Viðskiptalífið að vakna

Í dag fór ég morgunverðarfund hjá Viðskiptaráði Íslands sem var með fund um hvort krónan væri á útleið. Sitt sýndist hverjum en þó vakti það eftirtekt mína að í ræðu Árna Odds Þórðarsonar, stjórnarformanns Marels, kom skýrt fram að hann vildi taka upp evru. Talaði hann að íslenskan krónan væri viðskiptahindrun. Ég get vel tekið undir þessi orð. Mér sýnist atvinnulífið vera aldeilis að taka við sér í þessari umræðu og ekki er langt síðan mjög gagnmerk skýrsla um stöðu gjaldmiðilsins kom út á vegum Viðskiptaráðs Íslands.

Fyrir tæpu ári síðan ég skrifaði grein þar sem ég hvatti viðskiptalífið til að taka meiri þátt í þessari umræðu um evruna og hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu (greinina má sjá hér: /default.asp?news_id=6387). Ég hef lengi verið sannfærður um að það verður viðskiptalífið sem mun koma okkur í Evrópusambandið en ekki stjórnamálaflokkarnir. Reynslan sýnir að viðskiptalífið hefur ekki tíma til að bíða eftir að sumir stjórnmálaflokkar vakni af værum blundi íhaldsemi og þjóðrembu.
Alþingi sett
En viðskiptalífið er ekki bara vaknað heldur einnig Alþingi sem var sett í gær. Jafnvel þó að formleg þingsetning sé fyrst nú eru sennilega flestir þingmenn löngu farnir af stað, enda margir á leið í prófkjör. Að vísu eru þeir þó nokkrir úr hópi hinna reynslumestu sem hafa gefið út yfirlýsingar um að þeir sækist ekki eftir endurkjöri. Úr okkar hópi eru það þau Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Jóhann Ársælsson. Þeirra verður sárt saknað, enda mjög sterkir þingmenn með breiða og ólíka reynslu að baki.
Ég er þess fullviss að þessi vetur á eftir að verða konfekt fyrir áhugamenn um stjórnmál. Framundan eru prófkjör innan flokkanna og svo eru menn auðvitað komnir í stellingar fyrir æsispennandi kosningar í maí. Óneitanlega mun andrúmsloft og stemmingin á þinginu taka mið af þessu.

« Fyrri síða

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband