Hvað meina ég með tvítyngdri stjórnsýslu?

Hvatning mín í Morgunblaðsgrein sem birtist um helgina um að stjórnsýslan ætti að vera tvítyngd hefur vakið mikil viðbrögð sem búast mátti  við. Það gætir þó nokkurs misskilnings um hvað það nákvæmlega er sem ég var að leggja til og er mér því bæði ljúft og skylt að útskýra málið betur.

Grein mín í Morgunblaðinu snerist einungis um fjármálageirann og hvernig hægt væri að laða að fleiri erlenda fjárfesta til Íslands. En ein af hugmyndunum sem fram hafa komið, til að ýta undir fjárfestingar á Íslandi, er tvítyngd stjórnsýsla.

Hvernig gerum við þetta?
Hvað þýðir þetta í raun? Hér á ég við það eitt að stjórnsýslan sem lýtur að erlendum fjárfestum verði þeim aðgengileg á enskri tungu og að íslensk lög og reglur verði þýdd á ensku og gerð aðgengileg á netinu. Sömuleiðis þýðir þetta að eftirlitsstofnanir s.s. Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið, sem stuðla eiga að trausti erlendra fjárfesta á íslensku viðskiptaumhverfi, verði í stakk búnar til að svara erindum á ensku hratt og vel og birti niðurstöður sínar jafnframt einnig á því tungumáli.

Ég tel að með aukinni alþjóðavæðingu sé það einfaldlega afar mikilvægt samkeppnismál fyrir íslenskt samfélag að stjórnvöld auki gagnsæi stjórnkerfisins gagnvart erlendum aðilum. Því miður er það svo að skortur á þekkingu á íslenskum markaði hindrar mörg erlend fyrirtæki í að koma hingað.

Nútímaleg stjórnsýsla
Íslenskir neytendur hafa lengi furðað sig á því af hverju erlendir bankar komi ekki hingað og bjóði þjónustu sína í samkeppni við íslenska banka. Hvað er hægt að gera í því máli? Þessi leið sem ég er að leggja til er leið sem fjölmargar aðrar þjóðir hafa farið með góðum árangri. Hvort sem það lýtur að bættum hag íslenskra neytenda með lækkun vöruverðs, eða til að stuðla að áframhaldandi fjölgun hálaunastarfa s.s. í fjármálageiranum, þá er tvítyngd stjórnsýsla lykilatriði.

Lítil erlend fjárfesting á Íslandi
Erlend fjárfesting hefur verið skammarlega lítil á Íslandi á undanförnum árum og ég hef sett það sem eitt af mínum meginmarkmiðum þann tíma sem ég verð formaður viðskiptanefndar Alþingis að bæta þar úr og að búa hér til gott samfélag, með einföldu og aðgengilegu regluverki sem laðar að sér erlent fjármagn og stuðlar þannig að auknum tækifærum fyrir Íslendinga.

Ekki tvö ríkistungumál - hlúð að íslensku máli
Að endingu vil ég ítreka það að auðvitað var ég ekki að leggja til að tungumál ríkisins verði í framtíðinni tvö. Að sjálfsögðu verður íslenskan áfram hið opinbera tungumál íslenskrar stjórnsýslu og þýðing á nokkrum lagabálkum yfir á ensku breytir engu þar um. Við munum að sjálfsögðu hlúa áfram vel að tungumálinu okkar, hér eftir sem hingað til. Íslensk tunga er stór þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar og verður áfram óþrjótandi uppspretta hugmynda og menningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þuríður Björg Þorgrímsdóttir

Ein spurning: Er íslenska opinbert mál á Íslandi? Ég hef heyrt því fleygt að það standi hvergi í lögum. Er eitthvað til í þessu?

Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, 27.9.2007 kl. 22:05

2 Smámynd: Jónas Egilsson

Ísland er hluti að alþjóðlegu umhverfi og umheimurinn er hluti af Íslandi. Þess vegna þarf einfaldlega að gera íslenskt stjórnkerfi aðgengilegt útlendingum.

Við höfum upplýsingar fyrir ferðamenn aðgengilegar fyrir útlendinga. Því ekki fjárfesta og það sem þeir vilja og þurfa að fá?

Jónas

Es. Stjórnsýsla í Kaliforníu er t.d. tvítyngd að hluta til. Tvítyngd er s.s. til.

Jónas Egilsson, 28.9.2007 kl. 10:04

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Hættum þessu rugli. halda úti sjálfstæðri þjóð og tungu er bara kostnaðar samt. Danir eru hérna allt í kringum okkur og eiga sér rætur hér á landi. Göngum aftur í ríkjasamband við Danmörku og tökum upp dönsku sem þjóðartungu og bönnum Íslensku.

Svona uppgjafar tónn var nú hægt að búast við frá þeim sem vilja framselja sjálfstæðið til að komast undir hæl erlendra yfirvalda í Brussel. Íslenskan á að vera eina tungumálið í íslenskri stjórnsýslu.

fjárfestar eru ekki að spá í íslenskri tungu eða hollenskri eða einhverri annarri. þeir eru að leita að arðbærum fjárfestingum. 

Fannar frá Rifi, 28.9.2007 kl. 11:49

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tel að orðalagið "tvítyngd stjórnsýsla" hafi verið óheppilegt og valdið því að menn hrukku við. Auðvitað er ekkert athugavert við það að þýða íslensk lög og reglugerðir á erlend tungumál og hafa þessar þýðingar aðgengilegar fyrir þá útlendinga sem vilja taka þátt í uppbyggingu og þróun íslensks þjóðfélags. 

Þetta er hliðstætt við það sem Sonet-útgáfan er að gera við DVD-disk sem gefinn var út fyrir þremur árum undir nafninu "Ómar lands og þjóðar, - kóróna landsins."

Nú er verið að setja inn texta neðanmáls á myndirnar með enskri þýðingu á efni ljóðanna sem sungin eru og einnig mun þulur lesa enska þýðingu á sérstakri rás sem ég las inn á með leiðsögn um myndefnið.

Ég tel ekki að þetta þýði að svona myndefni sé tvítyngt því að aðeins er sungið á íslensku og þýðingartextarnir aðeins til þess að fleiri skilji efni söngsins en áður.

Mér finnst orðið tvítyngt stórt orð því að það er yfirleitt notað um tvö jafnrétthá tungumál og fólk sem talar tvö tungumál nokkurn veginn jafnvel.

Þess vegna hrukku margir við þegar þetta orðalag var notað, minn kæri Ólafur.  

Ómar Ragnarsson, 28.9.2007 kl. 12:27

5 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Ég er ánægð með þennan pistil þinn, ég var greinilega ekki með það á heinu hvað það var sem þú áttir við með þessu þar sem ég var í byrjun frekar á móti, en ég held að þú ættir að skrifa meira um þetta hér og útskýra meira og einnig fyrir þeim sem starfa með þér.

Mér heyrist vera einhver ótti varðandi of flókið kerfi og að þetta verði allt of kosnaðarsamt, en það þarf greinilega að útskýra meira eins og þú gerðir hér að ofan. Endilega komdu hugmynd þinni áfram og sjáum hvað gerist

Bestu kveðjur til þín Ágúst Ólafur,

Inga Lára Helgadóttir 

Inga Lára Helgadóttir, 1.10.2007 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 144254

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband