Hræðsluáróður íhaldsins heldur ekki vatni

svefnÞað vakti eftirtekt mína hvað forsætisráðherra okkar, Geir Haarde, var úrillur og pirraður í eldhúsdagsumræðunni sem var í gærkvöldi. Hann var í eilífri vörn og engin framtíðarsýn birtist í máli hans. Reyndar hef ég ekki orðið var við vott af framtíðarsýn eða ferskar hugmyndir hjá þessari ríkisstjórn mjög lengi en þetta er að verða ein þreyttasta ríkisstjórn Íslandssögunnar.

Í málflutningi Geirs bar auðvitað hvað hæst hefðbundinn hræðsluáróður um að enginn annar en Sjálfstæðismenn geti stjórnað landinu. Auðvitað nær þessi málflutningur ekki nokkurri átt. Ég veit ekki betur en þar sem jafnaðarmenn hafa stjórnað hafi það gengið bara nokkuð vel.

Mýmörg dæmi þess eru erlendis frá en erlendir jafnaðarmenn lenda einnig í þessari taktík íhaldsmanna. En við þurfum ekki að fara út fyrir landsteinana til að sjá að jafnaðarmenn eru mjög færir við stjórnun.

Jafnaðarmenn stjórnuðu höfuðborginni í 12 ár við góðan orðstír. Fjármál borgarinnar voru tekin föstum tökum, leikskólinn var byggður upp nánast frá grunni, kynbundinn launamunur minnkaði um helming og öll þjónusta og umhverfi borgarinnar tók stakkaskiptum. Í öðrum sveitarfélögum þar sem jafnaðarmenn hafa ráðið ríkjum s.s. í Hafnarfirði, Árborg og Akranesi er svipaða sögu að segja frá.

En ef við lítum á afrekaskrá þessarar ríkisstjórnar blasir önnur mynd við. Almenningur þarf að súpa seyðið af nýjum verðbólguskatti sem rýrir lífskjör fólks um tugmilljarða króna, menntakerfið býr enn við fjársvelti, þriðji hver eldri borgara þarf að lifa undir fátæktarmörkum, 4.300 börn eru fátæk í samfélaginu, kynbundinn launamunur hjá ríkinu hefur ekkert breyst á valdatímanum og nú síðast í dag var matsfyrirtækið Fitch Ratings að lækka lánshæfismat ríkissjóðs.

Ég held að Geir og félagar ættu aðeins að líta í eigin barm þegar kemur að stjórnun.


mbl.is Fitch lækkar lánshæfismat ríkissjóðs Íslands í A+/AA+
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

FJÁRMÁLIN TEKIN FÖSTUM TÖKUM!? Ég veit ekki hvernig þú skilgreinir föst tök en ég lít ekki á það að auka skuldir borgarinnar um 1100%, þar af hreinar skuldir (skuldir umfram eignir) um 389% á árunum 1994-2002 sem mjög föst tök. 389% á einu mesta vaxtar og uppgangsskeið þjóðarinnar síðan í síðari heimsstyrjöld. Það jaðrar við að ég láti Guiness vita

Vissulega er vandamál ef einhver býr við fátækt. Hins vegar á ekki að ýkja þá tölu.  Í þessari skýrslu um fátæk börn má sjá t.d. að tekjur ömmu og afa barns teljast ekki með, þó svo barnið og barnungir ólögráða foreldrar þess búi í foreldrahúsum sjálfir. Það er ljótt að ýkja, því það er penna (pedna) orð yfir að ljúga.

Gunnar Dofri Ólafsson (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 17:14

2 Smámynd: Auðun Gíslason

E r Geir ekki alltaf fúll og pirraður. Mér hefur sýnst það, en þó sérstaklega þegar hann  er í þinginu. Hugsanleg skýring er sú að honum finnist þingið hálfgerður óþarfi, enda hefur hann aðeins þurft að halda þingflokksfundi til að stjórna þinginu. Flagararnir í Framsókn hlýða þegjandi og hljóðalaust. Og var ekki Davíð svona fúll í þinginu, mig minnir það.

Það er hins vegar ljóst að Jón Sig. og Geir eru að stofna hræðslubandalag. Þannig mun kosningabarátta beggja stjórnaflokkanna einkennast af hræðsluáróðri, og þó sérstaklega Helbláaflokksins. Kannski geta íbúar Vestfjarða, Norðurlands Eystra og Norðurlands Vestra sagt okkur frá reynslu sinni af 12 ára stjórn þessara flokka hræðslubandalagsins hins nýja. Það segir sína sögu að eina von tómstundafulltrúans á Húsavík er álver. Annars er allt í kaldakolum hjá kolbýtum. Grínlaust atvinnulíf þessara landsfjórðunga er ein rjúkandi rúst, því allt hefur horfið í skuggann á stóriðjubulli. Aðrar leiðir hafa ekki komist að: ef ekki stóriðja þá ekki neitt. Engin úrræði. Ekkert gert. Engar hugmyndir.

Og Gunnar Dofri. Ungir menn eiga ekki að láta gamalt fólk hræða sig!

Auðun Gíslason, 15.3.2007 kl. 18:07

3 identicon

Já ... það er nú það!

Ég man ekki betur en að það hafi verið "jafnaðarmenn" sem hafa verið í farabroddi þegar það kemur að því að styrkja og bæta þetta, annars ágæta, samfélag okkar á síðustu áratugum.

Má þar nefna: þjóðarsáttin, EES-samninginn og ekki síst útrýming biðlista eftir leikskólaplássum, etc etc ...

Svo það er ein spurnig til þín Gunnar Dorfi: hver á að borga þetta ofþenslu-fyllerí núverandi ríkisstjórnar - þar sem viðskiptahallinn er vægast sagt óhugnanlegur og ekkert virðist vera gert til að sporna við þeirri óheilla-þróun?  

kveðja,

Gísli Hjálmar (jafnaðarmaður að eilífu)

Gísli Hjálmar Svendsen (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 19:57

4 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Verst hvað þeir komast langt á áróðrinum þrátt fyrir að hann er æði oft mjög lítilmannlegur.  Þeirra meistaraverk er auðvitað hræðsluáróðurinn sem þú lýsir hér að ofan og hvað þeir eru samtaka í að rægja formann Samfylkingarinnar og nota enn til þess hvert tækifæri.  Ég hef fylgst lengi með pólítik og man ekki eftir að karlmenn í pólítik hafi þurft að þola slíkar árásir.   Margrét Sverrisdóttir fékk reyndar að kenna á því, af sínu eigin fólki. 

Þórdís Bára Hannesdóttir, 15.3.2007 kl. 23:19

5 identicon

Hvað segirðu er Geir pirraður - ja hérna. Var ekki Davíð búin að klára pirrurnar í ykkur og var þá eitthvað eftir til að láta séntilmanninn Geir Haarde fara í taugarnar á sér.  Er þetta líka á stefnuskrá Samfylkingarinnar sem breytist jú hraðar en veðrið að láta alla formenn Sjálfstæðisflokksins fara í pirrurnar. Voðalega hafið þið lítið þol - þið þurfið nú að fara venjast því að Sjálfstæðismenn eru til og sumir er býsna skemmtilegir og snjallir og aðrir slappir!

Er eitthvað meir sem pirrar ykkur og þið viljið kvarta yfir en lundarfar formanna Sjálfstæðisflokksins. Það skyldi þó ekki vera að pirringurinn sé allur vegna slæms gengis Samfylkingarinnar sem er svo slöpp að hún er alltaf að röfla út af Sjálfstæðisflokknum og lætur VG raka af sér fylgið. Þið ættuð að átta ykkur betur á hverjir eru vinir ykkar þegar upp er staðið þeir eru ekki vinstra megin svo mikið er víst.

kær kveðja

Sveinn

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 00:19

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ágúst er ekki bezt tengdur við raunveruleikann eins og dæmin sanna. Það er leiðinlegt að þurfa að segja þetta því ekki hef ég neitt undan honum að kvarta persónulega og hann er án vafa bezti drengur.

En fyrir utan ummæli hans hér að ofan um fjármál Reykjavíkurborgar í tíð R-listann (og þar voru reyndar jafnaðarmenn ekki einir innanborðs þó Ágúst vilji greinilega eigna þeim þann vafasama heiður), þar sem skuldir borgarinnar voru margfaldaðar á meðan álögur voru hækkaðar og það jafnvel í löglegt og sögulegt hámark auk þess sem nýjir skattar voru fundnir upp og það á mesta uppgangstíma í sögu borgarinnar þar sem m.a. varð sprenging í fasteignaverði og þar með gríðarleg aukning í fasteignagjöldum til Reykjavíkurborgar, þá hefur Ágúst að sama skapi t.a.m. skrifað greinar um það að efnahagslíf ESB sé í svo æðislega góðum málum. Fara mætti yfir þaðí löngu máli hversu mikil della það er en ég læt nægja að benda á að nýverið voru birtar niðurstöður rannsóknar sem sýna að efnahagur ESB sé 20 árum á eftir efnahag Bandaríkjanna. Æðilegt ekki satt?

Hjörtur J. Guðmundsson, 16.3.2007 kl. 14:00

7 identicon

Kreppa stjórnarflokkanna, varðhunda kvótakerfisins, í hnotskurn:


Um 70% landsmanna eru andvíg núverandi kvótakerfi og því er greinilega kominn tími til að taka upp nýtt og betra kerfi, sem meirihluti þjóðarinnar samþykkir. Ef hér er góð loðnuveiði er heildaraflinn um tvær milljónir tonna á ári og sæi íslenska ríkið í umboði þjóðarinnar um að úthluta veiðiheimildunum til einstakra byggðarlaga til eins árs í senn og tæki fyrir það tíu krónur að meðaltali fyrir kílóið í þorskígildum fengi þjóðin 20 milljarða króna í ríkiskassann. Hægt væri að útdeila þessari fjárhæð aftur til byggðarlaganna með margvíslegum hætti, til dæmis til samgöngubóta eða sem styrk vegna aflabrests. En að sjálfsögðu yrði verðið á aflaheimildunum mjög misjafnt eftir tegundum, til dæmis mun hærra verð fyrir kílóið af þorski en loðnu. Hægt væri að láta hvert byggðarlag fá ákveðnar veiðiheimildir árlega og veiðiheimildir yrðu að sjálfsögðu mismunandi frá ári til árs í samræmi við ástand fiskistofnanna. Veiðiheimildirnar yrðu einungis til eins árs í senn og ekki kvótaeign í nokkrum skilningi. Ríkið úthlutaði eingöngu réttinum til veiðanna og ákvæði hverju sinni hverjir fengju réttinn, til dæmis útgerðir, fiskvinnslufyrirtæki og fiskútflyjendur. Fiskvinnslufyrirtæki og fiskútflytjendur gætu greitt útgerðum fyrir að veiða fyrir sig upp í veiðiheimildir sem keyptar hefðu verið. Og þeir sem hefðu áhuga á að hefja veiðar í fyrsta sinn ættu kost á því, þannig að nýir aðilar væru ekki útilokaðir frá veiðunum, eins og nú er mikið kvartað yfir.


Tíu krónur fyrir kílóið í þorskígildum gæti að sjálfsögðu verið lægri eða hærri upphæð eftir atvikum. Sagt er að nú greiði lítil byggðarlög, til dæmis á Vestfjörðum, allt að einum milljarði króna á ári fyrir veiðiheimildir og þessar fjárhæðir muni fyrr en varir leggja allar minni sjávarbyggðir í auðn. Og þrátt fyrir að útgerðarmenn kaupi og selji aflakvóta fyrir gríðarlegar fjárhæðir á ári, jafnvel einn milljarð í litlu sjávarplássi, segjast þeir ekki hafa efni á að greiða hóflegt gjald fyrir veiðiheimildirnar ef núverandi kerfi yrði lagt af. Það er nú ekki mjög trúverðugt. Margir hafa velt fyrir sér hvernig hægt sé að leigja þorskkvóta fyrir 155 krónur kílóið til eins árs og haft eitthvað upp úr því. Og sumir halda því fram að greiða þurfi allt að 75% af aflaverðmætinu í leigu fyrir kvótann. Verð fyrir kílóið af "varanlegum" veiðiheimildum í þorski í aflamarkskerfinu var komið uppfyrir 2.200 krónur í nóvember síðastliðnum en krókahlutdeildin kostaði þá um 1.900 krónur. Og sagt er að nú sé þorskverðið á "varanlegum heimildum" sem útgerðarmenn kalla svo, komið yfir 2.500 krónur fyrir kílóið. Það er engum blöðum um það að fletta að útgerðarmenn telja sig eiga aflakvótana á allan hátt, bæði í orði og á borði, og munu með kjafti og klóm berjast fyrir því að "eiga" þá áfram.


Hugtökin "þjóðareign", "ríkiseign" eða "sameign þjóðarinnar" í stjórnarskrá hefur ekkert að segja í þessu sambandi, ef útgerðarmennirnir eiga í raun aflakvótana, fara með þá sem sína eign, veðsetja þá, þess vegna hjá "íslenskum" bönkum sem eru og verða í raun erlendir, að hluta til eða jafnvel öllu leyti. Eigandi kvótans getur þess vegna verið íslenskur ríkisborgari sem býr á Bahamaeyjum, kemur hingað aldrei og hefur engan áhuga á afkomu íslenskra sjávarplássa. Hann hefur eingöngu áhuga á arðinum, fiskvinnslan og fólkið sem býr í sjávarplássunum er réttlaust hvað varðar sína afkomu. En þessu má engan veginn breyta, þá fer allt landið á hliðina, segja útgerðarmenn og sporgöngumenn hennar á þingi. Þjóðin á að vera eignalaus, getur aldrei eignast neitt og útgerðarmenn eiga að sjá um að eiga hlutina fyrir hana, frekar en ríkið. Það er kommúnismi og getur aldrei gengið upp í lýðræðisríki. Kommúnismi hins eldrauða Mogga. Og margir þeirra sem eru algjörlega andvígir inngöngu Íslands í Evrópubandalagið verja þetta kvótakerfi okkar út í ystu æsar, enda þótt eigendur kvótans gætu fyrr eða síðar allir verið íslenskir ríkisborgarar búsettir í Evrópu, þess vegna kvæntir erlendum konum sem fengju þá helming hagnaðarins af veiðum "íslenskra" skipa. 


Aflakvótar eru nú fluttir og seldir á milli landshluta í stórum stíl og einn útgerðarmaður getur lagt heilt byggðarlag í rúst með því að landa aflanum annars staðar eða selja kvóta "sinn" til annarra landssvæða. Vilja menn hafa þetta kerfi áfram? Meirihluti þjóðarinnar segir nei takk og 70% hennar hlýtur að vera fólk í öllum flokkum. Hagsmuna útgerðarmanna var hins vegar gætt á Alþingi að þessu sinni, þó þeir geti þess vegna búið á eyju í Karabíska hafinu. Þjóðin vill hins vegar að nýtt frumvarp um breytingu á stjórnarskránni verði lagt fram á næsta þingi, frumvarp sem gæti fyrst og fremst hagsmuna þjóðarinnar og einstakra byggðarlaga. Veiðiskip eru nú verðlítil eða verðlaus hér án aflakvóta. En þegar þau yrðu ekki lengur með "varanlegan" veiðikvóta fengju þau eðlilegt og raunverulegt verðmæti og úthlutaðan kvóta í sínu byggðarlagi, og myndu landa afla sínum þar. Byggðastofnun sagði í október 2000 að veikleikar sjávarbyggða á Vestfjörðum væru meðal annars versnandi kvótastaða, afli fluttur óunninn í burtu, erfiðar vegasamgöngur og lágt fasteignaverð.


Þannig ganga kaupin fyrir sig á eyrinni, samkvæmt Þórólfi Matthíassyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, og Ólafi Klemenssyni, fiskihagfræðingi hjá Seðlabanka Íslands:

Markaðsvirði Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum var 6,3 milljarðar króna árið 2002, eigið fé  tveir milljarðar, kvótastaðan var 15 þúsund tonn og bókfært verðmæti kvótans 1,7 milljarðar króna. Verð á kvóta á hlutabréfamarkaðnum var 403 krónur fyrir kílóið en þorskígildistonnið var þá selt á 1.070 krónur.

Lögmálið um eitt verð sem sagt ekki í gildi. Hlutabréfamarkaðurinn verðleggur kvótaeign sjávarútvegsfyrirtækja en mikill munur er á verði á kvótamarkaði og óbeint á hlutabréfamarkaði. Mögulegar ástæður ólíkrar verðmælingar geta annars vegar verið mæliskekkja, þannig að þorskígildi séu "ranglega" skilgreind, uppsjávartegundirnar fái of hátt vægi, fleira sé ómetið en upprunalegur kvóti (gjafakvóti), eða stjórnendaauður, viðskiptavild, og hins vegar ólíkar væntingar, þannig að kaupendur og seljendur á kvótamarkaði séu ekki þeir sömu og kaupendur og seljendur á hlutabréfamarkaði.

Verð á hlutabréfamarkaði ræðst af verði á lönduðum afla, sóknarkostnaði, líkindum á tækniframförum og hversu miklar þær gætu orðið hvað sóknina snertir, heimiliðum heildarafla, ávöxtunarkröfu og veiðigjaldshlutfalli.


Magnús Thoroddsen hæstarréttarlögmaður segir meðal annars í tillögu sinni um nýtt ákvæði í stjórnarskránni um þjóðareign á auðlindum:

"Tilgangurinn með því að stjórnarskrárbinda nýtt ákvæði þess efnis, að "náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign" hlýtur að vera sá, og sá einn, að þjóðin öll skuli njóta arðsins af þeim. Því þarf að búa svo um hnútana í eitt skipti fyrir öll, að þessar auðlindir verði aldrei afhentar einhverjum sérréttindahópum á silfurfati. Ég leyfi mér því að leggja til, að þetta stjórnarskrárákvæði verði svohljóðandi:

"Náttúruauðlindir Íslands, hvort heldur er í lofti, legi eða á láði, skulu vera þjóðareign. Þær ber að nýta til hagsbóta þjóðinni, eftir því, sem nánar er ákveðið í lögum. Heimilt er að veita einkaaðiljum, afnota- eða hagnýtingarrétt á þessum auðlindum til ákveðins tíma gegn gjaldi, hvort tveggja ákveðið í lögum. Slík afnotaréttindi geta aldrei skapað eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðilja yfir náttúruauðlindinni."

Steini Briem (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband