Einföld leið til lausnar á erfiðum málum

Ég skrifaði grein í Morgunblaðið í dag sem fjallaði um nauðsynina á nýju úrræði í okkar samfélagi þegar kemur að erfiðum málum. Greinina má lesa hér fyrir neðan. "Reglulega koma upp mál í íslensku samfélagi sem eru þessu eðlis að þau kalla á einhvers konar rannsókn eða úttekt á opinberum vettvangi. Meðal mála sem má nefna er einkavæðing bankanna, aðdragandinn að stuðningi íslenskra stjórnvalda við Íraksstríðið, fangaflugið, Landsímamálið, Baugsmálið, meðferð á meðlimum Falun Gong hérlendis ofl. Umræðan um meintar hleranir yfirvalda er af svipuðum toga og nú greinir menn á um það hvernig eigi að taka á málinu. Svo virðist sem stjórn og stjórnarandstaða séu almennt sammála um það að upplýsa eigi málið. Hins vegar eru áhöld um leiðir í því sambandi. Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir óháðri rannsóknarnefnd í þeim anda sem Norðmenn komu á þegar þeir gerðu upp sambærilega mál, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur alfarið hafnað þeirri leið.

Hleranamálið á það sammerkt með framangreindum málum að hafa hleypt íslensku samfélagi upp í háaloft. Fyrir vikið virðist engin eiginleg niðurstaða í sjónmáli. Eftir standa hins vegar stórar og mikilvægar spurningar sem varða almenning miklu að fá upplýst um. Í íslenskum rétti hefur sárlega vantað sértæk úrræði til að taka á málum sem þessum, enda er langt í frá að sátt ríki um málsmeðferðina, eins og æskilegt væri.

Frumvarp um rannsóknarnefndir lagt fram
Vegna þessa úrræðaleysis lagði ég fram frumvarp um óháðar rannsóknarnefndir á Alþingi á síðasta ári, en í íslenskum rétti er ekki gert ráð fyrir skipun óháðra rannsóknarnefnda sem rannsakað geta mál sem varða almannahag. Hugmyndafræðin að baki frumvarpinu er einfaldlega sú að þessi úrræði séu fyrir hendi þegar mál af þessum toga koma upp, þannig að menn séu ekki að smíða úrræði þá og þegar málin koma upp, sem býður þeirri hættu heim að menn velja sér málsmeðferð sem hentar valdhöfum í hvert sinn.
Í frumvarpinu eru nákvæmar málsmeðferðarreglur m.a. um skýrslutökur, vitnaskyldu, réttarstöðu aðila og hvenær heimilt yrði að skorast undan því að svara spurningum nefndarinnar. Einnig er tekið á þeim upplýsingum sem njóta verndar upplýsingalaga. Er frumvarpið byggt á erlendri fyrirmynd, enda er víða í nágrannaríkjum okkar að finna lög um óháðar rannsóknarnefndir. Það er í sjálfu sér óeðlilegt að ekki sé að finna slíkt úrræði í íslenskum rétti.

Hlutverk slíkra nefnda er ekki að rannsaka og dæma í málum, enda er það hlutverk framkvæmdarvalds og dómsvalds. Rannsóknarnefnd er fyrst og fremst ætlað að skoða tiltekna atburðarás eða athöfn, leita skýringa og jafnvel að koma með tillögur til úrbóta þar sem eitthvað hefur farið úrskeiðis. Í kjölfarið geta vaknað spurningar um ábyrgð einstaklinga eða eftir atvikum, embættismanna.

Frumkvæði að skipun rannsóknarnefndar kæmi frá Alþingi en Hæstiréttur myndi velja og tilnefna nefndarmennina. Í Hafskipsmálinu frá árinu 1985 var þessi hátturinn hafður á. Ekki er gert ráð fyrir að alþingismenn sitji í nefndinni.
Tryggjum rétt heimildarmanna
Í samhengi við hleranamálið má ennfremur rifja upp annað frumvarp sem ég lagði fram í fyrra og gæti reynt á í þessum sambandi. Það er frumvarp sem lýtur að því að auka vernd heimildarmanna fjölmiðla til muna og heimila opinberum starfsmönnum að víkja frá þagnarskyldu vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla. Með samþykkt frumvarpsins yrði komið fram tækifæri til þess að upplýsa um mál sem varða almannahag, án þess að heimildarmaður gerist um leið brotlegur við lög.

Frumvarpið tryggir sömuleiðis bótarétt heimildarmanna verði þeir fyrir tjóni vegna uppsagnar eða annarra aðgerða af hálfu vinnuveitanda, í kjölfar þess að hafa látið í té upplýsingar sem varða ríka almannahagsmuni. Þessi úrræði geta vel átt við þá einstaklinga sem í dag telja sig hafa vitneskju um ólögmætar hleranir en leggja ekki í að koma fram opinberlega af ótta við afleiðingarnar. Það er einfaldlega ósanngjarnt að ætlast til þess að venjulegir launþegar taki slíka áhættu, eingöngu til þess að koma fram upplýsingum á framfæri.

Ég mun leggja þessi tvö frumvörp aftur fram á yfirstandandi þingi og það er mín trú að með samþykkt þeirra séu komnar fram forsendur til þess að leysa erfið mál á farsælan hátt, almenningi til góða."

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband