Við erum ein skuldugasta þjóð í heimi

Hún er lífseig þjóðsagan um að allt sé í besta lagi í íslenskum efnahagsmálum. Það er ekki síst stjórnarflokkarnir sem viðhalda þessari mýtu um Stöðugleikann með stóru S-i. Ef hins vegar nokkrir mælikvarðar eru skoðaðir sést að íslenskt efnahagslíf glímir við ýmis konar vanda.
Forsendur kjarasamninga að bresta?
Í þessari viku voru kynntar háar verðbólgutölur upp á tæp 5%. Sérfræðingar telja að þessi aukna verðbólga megi ekki síst rekja til aðgerða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Verðbólgan mælist núna tvöfalt hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans.
Þessi verðbólga leiðir til þess að forsendur kjarasamninga bresta með tilheyrandi óstöðugleika. Á síðustu 10 árum hefur verðbólgan hins vegar hækkað mest í október og er því engin sérstök ástæða til bjartsýni. Það er ekki stöðugleiki þegar verðbólgan fer upp með þessum hætti.
Gengi íslensku krónunnar hefur verið í rússíbanaferð í mörg ár og því miður borið merki um allt annað en stöðugleika. Allt að 40% sveifla upp og niður er ekki stöðugleiki og það vita íslensk fyrirtæki sem blæða vegna þessa. Þessar miklu gengissveiflur má rekja til aðgerðaleysis íslenskra stjórnvalda. Seðlabankinn neyðist til að bregðast við óstjórninni í ríkisfjármálunum með vaxtahækkunum sem leiða til gengishækkunar.
Seðlabankinn skrifaði í apríl síðastliðnum eða fyrir um hálfu ári eftirfarandi: ,,Vaxandi ójafnvægis hefur gætt í þjóðarbúskapnum undanfarið ár og birtist það í örum vexti eftirspurnar, aukinni verðbólgu, háu eignaverði og vaxandi viðskiptahalla sem nær hámarki í ár." Eins og oft áður þá hlustaði ríkisstjórnin ekki á slík aðvörunarorð.
Hver fjögurra manna fjölskylda skuldar 12 milljónir króna
Skuldir heimilanna og fyrirtækja eru í sögulegu hámarki. Skuldirnar eru mun hærri hér en í nágrannalöndunum. Íslensk heimili skulda núna um 970 milljarða króna við lánakerfið eða sem nemur allri árlegri landsframleiðslu. Til samanburðar kostar allt heilbrigðiskerfið minna en einn tíunda þessar upphæðar.
Hvert einasta mannsbarn á Íslandi skuldar því um 3 milljónir kr. Eða hver fjögurra manna fjölskylda 12 milljónir kr. Skuldir heimilanna voru rúmlega helmingi lægri fyrir 7 árum, eða um 440 milljarðar kr. Árið 1980 voru skuldir heimilanna 20% af ráðstöfunartekjum, en í árslok 2003 var þetta hlutfall komið upp í 180% og hefur því nífaldast á tímabilinu.
Íslensk fyrirtæki eru einnig mjög skuldsett og skulda um 1.800 milljarða kr. og hafa skuldirnar meira en meira tvöfaldast á síðustu 5 árum. Alþjóðlegur samanburður sýnir að skuldir íslenskra fyrirtækja eru með þeim hæstu sem þekkjast meðal þróaðra ríkja heims. Verðmæti eigna að baki skuldum er ekki alltaf raunverulegt og getur lækkað hratt en skuldirnar standa þá eftir.
Ein skuldugasta þjóð í heimi
Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru um 2.500 milljarða kr. og Ísland er orðið eitt skuldugasta ríki heims. Til að setja þessar tölur í samhengi má nefna að þetta nemur þrefaldri landsframleiðslu.
Greiðslubyrði af erlendum lánum hefur aukist gífurlega mikið. Greiðslur til útlanda í vexti og afborgarnir af erlendum lánum kosta rúmar 6 krónur af hverjum 10 krónum sem þjóðin aflar í útflutningstekjur. Vaxtahækkanir erlendis hafa gífurlega áhrif í okkar hagkerfi og kosta mjög mikið.
Tölurnar eru ótrúlegar og endurspegla ekki þá glansmynd sem dregin er upp af stjórnvöldum. Um 60% af útflutningstekjum okkar fara í afborganir og vexti af erlendum lánum. Hækkun um 1%-stig á erlendum vöxtum leiðir til um 25 milljarða króna hækkunar á vaxtagreiðslum. Fyrir þá upphæð mætti t.d. reka nánast öll verkefni menntamálaráðuneytisins. Kostnaðurinn við erlendu lánin er orðinn ótrúlegur.
Skuldatölur í hámarki
Í Financial Times hefur Ísland verið sérstaklega nefnt sem dæmi um land þar sem erlend lán banka til þess að fjármagna lántökur heimila draga úr lánshæfi á alþjóðlegum mörkuðum. Í blaðinu kemur einnig fram að hækkandi skuldir heimilanna séu einn þeirra þátta, sem hægja á hagvexti.
Allar ofangreindar skuldatölur eru í sögulegu hámarki. Skuldir heimila og fyrirtækja hafa aldrei verið hærri og hafa aldrei hækkað jafn ört. Það er því ríkt tilefni til að hafa áhyggjur. Þótt hér sé um að ræða skuldir heimila og fyrirtækja, en ekki opinberra aðila geta stjórnvöld ekki litið framhjá þeim. Ríkisvaldinu ber skylda til þess að stuðla að heilbrigðu efnahagskerfinu. Of mikil skuldsetning lýsir ekki heilbrigðu hagkerfi.
Ábyrgð ríkisstjórnarinnar
Nú getur sá tími runnið upp að fólk skuldar meira en sem nemur verðmæti fasteignar þeirra en við þekkjum mýmörg dæmi slíks varðandi bifreiðakaup. Of miklar skuldir hafa sundrað mörgum heimilum og mörg sorgarsagan hefur orðið vegna of mikilla skulda. Stjórnmálamönnum ber að vara við óæskilegri þróun. Það hefur ríkisstjórnin hins vegar ekki gert. Hún hefur gert hið þveröfuga. Ríkisstjórnin spreðar símapeningunum hægri vinstri fram í tímann og lofar miklum skattalækkunum og ýtir með því undir væntingar og skuldasöfnun.
Ríkisstjórnin gerir lítið úr varnaðarorðum óháðra aðila og hefur haldið væntingum í samfélaginu uppi með fagurgala, oflofi og sjálfshóli. Sömuleiðis stendur ríkisstjórnin fyrir aukinni þenslu og hefur hlutfall ríkisútgjalda af landsframleiðslu aldrei verið eins hátt.
Peningamálstefna Seðlabankans virðist hafa lítil áhrif. Nú er verðbólga á uppleið, þenslan er mikil og litlar eða engar mótvægisaðgerðir í ríkisfjármálum. Stefna stjórnvalda ýtir því undir aukna neyslu og hvetur almenning til að verja æ stærri hluta ráðstöfunartekna sinna í vaxtagreiðslur vegna neyslu líðandi stundar.
Spurningin um stöðugleikann
Það er ekki stöðugleiki að búa við allt að 40% sveiflu í gengi íslensku krónunnar. Það er ekki stöðugleiki hafa 5% verðbólgu. Það sýnir ekki stöðugleika þegar skuldir heimilanna og fyrirtækjanna tvöfaldast á 5-7 árum. Það er ekki stöðugleiki að vera ein skuldugasta þjóð í heiminum. Né er það stöðugleiki þegar um 1%-stiga hækkun á erlendum vöxtum leiðir til um 25 milljarða króna hækkunar á vaxtagreiðslum.
Það endurspeglar ekki stöðugleika þegar árangurslaus fjárnám einstaklinga eru 17.000 talsins á einungis fjórum árum. Það er ekki heldur stöðugleiki að hafa að meðaltali 20 milljarða króna sveiflu í afgangi ríkissjóðs og um 30 milljarða króna sveiflu í ríkisútgjöldunum frá því sem boðað er í fjárlagafrumvörpum. Það er ekki stöðugleiki að eiga nánast heimsmet í viðskiptahalla.
Það er ekki stöðugleiki þegar bilið á milli stétta í landinu margfaldast á örfáum árum. Og það er ekki stöðugleiki þegar ríkisstjórnin stendur fyrir gegndarlausri þenslu og ábyrgðarlausri fjármálastjórn ár eftir ár.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 144248

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband