Döpur arfleið Davíðs

Það er dapurlegt hvernig komið er fyrir forsætisráðherra landsins. Eftir 13 ára setu á valdastól hefur dómgreind hans algjörlega fokið út í veður og vind. Virðingarleysi hans gagnvart lýðræðinu, stjórnarskránni og sinni eigin þjóð hefur náð nýjum hæðum. Síðasta brella hans um afnám þjóðaratkvæðagreiðslunnar er þó nýr toppur.
Við erum um miðja deild í hagvexti
Samkvæmt skoðanakönnun vilja um 70% þjóðarinnar að Davíð Oddsson hætti í pólitík og er það snautlegur endir á löngum ferli. Reyndar er fróðlegt að fara yfir árangur Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra eftir þennan langa valdatíma.
Efnahagslegur uppgangur hefur af sumum verið tengdur við veru Davíðs Oddssonar í stjórnarráðinu. Það er mikil einföldun og misskilningur. Mikill efnahagslegur uppgangur hefur verið í flestum öðrum vestrænum ríkjum á þessum sama tíma.

Meðalhagvöxtur hér á landi frá árunum 1991-2001, eða á áratugi Davíðs, er nákvæmlega sá sami og meðalhagvöxtur OECD ríkjanna. Við erum um miðja deild en blöndum okkur hins vegar ekki í toppbaráttuna.

Ísland hefur einnig færst niður á lista yfir ríkustu þjóðir heims á sama tíma og Davíð hefur verið við völd. Samkvæmt nýjustu tölum OECD er Ísland 9.-10. ríkasta þjóð í heimi sé litið á verga landsframleiðslu á hvern einstakling á jafnvirðismælikvarða (PPP). Áður en Davíð tók við, eða árið 1990, var Ísland ofar á listanum um ríkustu þjóðir heims eða í 8. sæti.
Frjálsræðið er ekki komið frá Davíð
Íslenskt samfélag hefur gjörbreyst á undanförnum 15 árum. Frjálsræði í viðskiptalífinu hefur sem betur fer stóraukist en það er rangt að halda að frelsið hafi komið með Davíð Oddssyni.

Þeir sem vinna með lagafrumvörp þekkja vel ástæður þeirra breytinga sem þjóðin hefur gengið í gegnum. Nánast undantekningarlaust er ástæðan EES-samningurinn. Allar meginbreytingar á viðskipta-, samkeppnis-, kauphallar-, fjármála-, vinnuréttar-. umhverfis- og fjarskiptalöggjöf okkar eru vegna skuldbindinga okkar við Evrópusambandið.
Þau svið sem EES-samningurinn tekur ekki til, svo sem sjávarútvegs-, landbúnaðar-og fjölmiðlamál, hafa lítið þokast í frelsisátt. Á þessum sviðum er takið hert svo um munar. Þar birtist hin raunverulega stefna Davíðs Oddssonar.
Skattbyrði aukist og framúrkeyrsla fjárlaga
Meintar skattalækkanir á áratugi Davíðs Oddssonar eru einnig athyglisverðar. Heildarskatttekjur ríkisins, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá 1995 til 2001, hafa hækkað. Þetta þýðir að af hverri krónu sem verður til í þjóðfélaginu tekur ríkið stærri hluta en það gerði áður. Samkvæmt tölum OECD hefur skattbyrði einstaklinga frá 1990 sömuleiðis aukist mest á Íslandi af öllum OECD ríkjum að Grikklandi undanskildu.

Önnur óþægileg staðreynd fyrir ríkisstjórnina er að samneyslan, þ.e. neysla hins opinberra sem hlutfall af landsframleiðslu hefur aukist um rúm 16% frá 1995 til 2002. Báknið hefur aldrei verið stærra þrátt fyrir alla einkavæðinguna. Ítrekað er farið langt fram úr fjárlögum eins og síðasta skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir.
Regluleg stjórnarskrárbrot og aukin fátækt
Önnur afrek ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar eru stóraukinn lyfjakostnaður einstaklinga, aukin fátækt, lægri barnabætur, stefnuleysi í heilbrigðismálum, viðvarandi kynbundinn launamunur og eitt hæsta matvælaverð í heimi.
Fjársvelti er í menntamálum en íslenskt háskólastig fær hlutfallslega helmingi lægri fjárhæð en það sem hin Norðurlöndin verja í sína háskóla.

Að lokum má minna á að engin ríkisstjórn hefur tapað jafnmörgum dómsmálum fyrir Hæstarétti vegna stjórnarskrárbrota en ríkisstjórn Davíð Oddssonar. Slík dómsmál eru nánast árlegur viðburður.
Þetta er ágætt að hafa í huga þegar farið er yfir valdatíma Davíðs Oddssonar sem fer senn að ljúka í íslenskum stjórnmálum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband