Lífsýnataka úr starfsfólki

Ég var málshefjandi á utandagsskrárumræðu um lífsýnatöku úr starfsfólki og var Árni Magnússon, félagsmálaráðherra til andsvara. Tekist var á um grundvallaratriði en hér eftir má finna hluta af ræðu minni um þetta brýna mál.
Tilefni þessarar umræðu um lífsýnatöku úr starfsfólki er umsóknareyðublöð og ráðningarsamningar sem eru að ryðja sér til rúms hér á landi. Þar er krafist heimildar frá launþegum um að atvinnurekendur megi framkvæma læknisskoðun og sýnatöku á launþegum hvenær sem er á vinnutíma.Yfirlæknir Vinnueftirlitsins hefur lýst yfir miklum áhyggjum yfir þessari þróun og telur hann slíkt vald hjá atvinnurekendum ekki vera siðferðislega verjandi og hvetur hann til umræðu um málið.
Bent hefur verið á umsóknareyðublöð sem starfsmenn álversins í Straumsvík verða að undirrita. En þar stendur, með leyfi forseta,: "Allir starfsmenn sem ráðnir eru þurfa að gangast undir læknisskoðun þar sem m.a. er prófað fyrir ólöglegum efnum auk þess sem fyrirtækið áskilur sér rétt til að kalla starfsmenn í rannsókn hvenær sem er á vinnutíma." Tilvitnun lýkur.
Aðaltrúnaðarmaður starfsmanna álversins hefur sagt að þessi heimild fyrirtækisins til að taka lífsýni úr starfsmönnum hvenær sem er, sé í algerri andstöðu við starfsmennina og vilja þeir fá þetta út. Upplýsingafulltrúi álversins hefur hins vegar sagt að um sé fyrst og fremst vinnuöryggismál að ræða og markmiðið sé að tryggja vímulausan vinnustað. Einnig telur hann að álverið sé í fullum rétti til að setja slíka skilmála þar sem allir aðilar hafa verið upplýstir.
Fólk spyrji sig sjálft hvort það myndi vilja svona heimild til atvinnurekanda
Það er rétt að taka fram að slíkt réttindaafsal einskorðast ekki einungis við Álverið í Straumsvík og er þetta því víðtækara mál en svo og t.d. hafa sumar fataverslanir tekið upp slík ákvæði. En með sömu rökum og álverið beitir má koma á svona áskilnaði á öllum vinnustöðum sem eiga að vera vímulausir. Hvernig þætti þingmönnum það að eiga von á lífsýnatöku að hálfu hæstvirts forseta hvenær sem er? Verður næsta skref að starfsfólk hjá Hagkaupum eða Eimskip verði beðið um lífssýni?
Hér er hins vegar um að ræða flókið mál þar sem samþykki launþega er til staðar. Það er ljóst að fullt jafnræði er ekki á milli aðila þegar kemur að slíkum samningsákvæðum og það er ákveðinn nauðungarbragur á umræddu samþykki vegna þeirrar staðreyndar að slíkt samþykki er forsenda fyrir vinnu. Sá sem neitar að samþykkja lífssýnatökuna fær ekki vinnu.
Í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga kemur m.a. fram að samþykki sé sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja. Þegar forsenda fyrir atvinnu er yfirlýsing af slíku tagi sem hér um ræðir verður að teljast að ekki sé mikið eftir af hinum fúsa og frjálsa vilja. Við höfum nú þegar úrræði í samningalögum sem taka á samningum sem taldir eru ósanngjarnir þegar litið er til efnis samnings, stöðu samningsaðila eða atvika við samningsgerðina.
Hvert viljum við stefna?
En þótt áskilnaður um lífsýnatöku eða fyrirvaralausa blóðprufu fyrir starfi sé þó líklega löglegur miðað við núverandi lög verður að telja slíkt fyrirkomulag vera siðferðislega óverjandi. Í raun er þetta mál spurning um hvert við viljum stefna. Þetta er spurning um hugmyndafræði og pólitík. Það er einfaldlega ekki fyrirtækja að biðja um slíkt afsal á persónuréttindum sinna launþega og hæpið er að markmið um vímulausan vinnustað, eins göfugt og það er, réttlæti svona heimild til atvinnurekanda.
Í framlögðu stjórnarfrumvarpi um vátryggingarsamninga eru settar takmarkanir á rétti tryggingarfélaga á upplýsingum um erfðaeiginleika manns þrátt fyrir samþykki viðkomandi og í raun verður bannað að biðja um slíkt samkvæmt frumvarpinu. Í Danmörku eru beinlínis gerðar lagalegar takmarkanir á rétti vinnuveitenda til að óska eftir sjúkraskrá launþega þrátt fyrir að viðkomandi launþegi samþykki slíkt. Það er því hægt að setja lagalegar takmarkanir fyrir áskilnaði hjá atvinnurekendum um lífsýnatöku þrátt fyrir að formlegt samþykki sé fengið hjá launþeganum.
Er spurning um pólitík
Með skilyrðislausum rétti atvinnurekanda á lífsýnatöku úr starfsfólki er því gengið allt of langt. Slíkur réttur hjá atvinnurekendum brýtur gróflega á persónurétti þegna þessa lands og býður hættunni heim á misnotkun. Hvaða valkosti eiga launþegar ef þetta fyrirkomulag verður að almennri reglu í okkar þjóðfélagi? Hvert erum við að fara ef skilyrði fyrir atvinnu verða háð afsali á mikilvægum persónuréttindum? Það gengur ekki að menn skýli sér á bak við samþykki, sem er gefið án nokkurra raunverulegra valkosta.
Þessi umræða er í raun og veru spurning um pólitíska afstöðu en ekki um lögfræði. Þetta er því ekki endilega spurning um gildandi rétt heldur um hvert við viljum stefna. Það er því hægt að taka undir hvatningarorð yfirlæknis Vinnueftirlitsins að umræða um slíkt fyrirkomulag ráðningarsamninga þurfi að fara fram á meðal verkalýðshreyfinga, atvinnurekenda og stjórnmálamanna áður en slíkt eftirlit verði almennt viðurkennt hér á landi. Samfylkingin vill opna umræða um slík grundavallarmál. Við getum ekki lætt svona afsali á persónuréttindum inn í okkar samfélag án umræðu.
Hefðbundin réttlæting á eftirliti og skerðingu á persónurétti
Þótt menn setti slík ákvæði í ráðningarsamninga og á umsóknareyðublöð af góðum vilja þá verðum við að hafa í huga að menn iðulega réttlæta hvers konar eftirlit og skerðingu á persónurétti með fögrum markmiðum. Hér er einfaldlega hins vegar gengið of langt og hægt er að bregðast við með öðrum og vægari leiðum. Fólk er með réttu viðkvæmt fyrir slíkum sýnatökum og möguleika á upplýsingabanka eins og umræðan um gagnagrunninn sýndi á sínum tíma. Nú er víða rætt að allt sé leyfilegt í nafni framleiðniaukningar og baráttu gegn hryðjuverkum. En það þarf að gæta að því að mannréttindi og frjáls réttur einstaklings séu ekki virtur að vettugi.
Löggjafinn verður að geta tekið afstöðu til slíkra mála sem snerta þessi grundvallarréttindi þegnanna. Það er sömuleiðis mikilvægt að sporna gegn þessari þróun í tæka tíð og á meðan hún er viðráðanleg. Ég spyr því þingheim hvort þetta sé sú leið sem við viljum fara? Það er því afar fróðlegt að heyra afstöðu hæstvirts félagsmálaráðherra til þessarar þróunar og hvort hann telji þörf á að setja takmarkanir á rétti atvinnurekanda á lífsýnatöku úr starfsfólki á vinnumarkaði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 144256

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband