Viðskiptalífið í fjötrum stjórnmála

Undanfarna daga hefur Morgunblaðið verið með afar áhugaverða umfjöllun um ein mestu átök íslenskrar viðskiptasögu þar sem barist var um yfirráðin í Íslandsbanka og Tryggingamiðstöðinni. Þessi yfirferð Morgunblaðsins sýnir vel hvernig hina hraða atburðarrás viðskiptalífsins getur farið fram en jafnframt sýnir hún hversu persónuleg tengsl og vinskapur skiptir miklu máli í íslenskum viðskiptum. Það sem hefur hins vegar vakið einna mesta athygli fólks er að forsætisráðherrann spilar ákveðið hlutverk í atburðarrásinni.
Í umfjöllun Morgunblaðsins er sífellt tekið fram hvað Davíð Oddssyni á að hafa fundist um málið og hvernig hann á að hafa brugðist við hinum og þessum ákvörðunum. Álit forsætisráðherrans virðist hafa skipt miklu máli um hvernig menn tóku viðskiptaákvarðanir og um hvernig vali á viðskiptafélögum var háttað. Það er hreint út sagt sláandi að sjá Davíð Oddsson sem meiriháttar leikanda í viðskiptafléttu hlutafélaga sem eru á markaði.
Störf og stefna eru ekki það sama
Hugmyndafræði margra stuðningsmanna Davíðs Oddssonar snýst um að minnka völd og áhrif stjórnmálamanna á hið daglega líf borgaranna og ekki síst á viðskiptalífið. Það er gott og vel og get ég tekið undir margt í þessari hugmyndafræði. Hins vegar hefur 11 ára reynsla af stjórnarháttum Davíðs Oddssonar sýnt allt aðra hugmyndafræði. Áhrif og álit Davíðs Odssonar virðist skipta miklu máli um hvernig ákvarðanir eru teknar í viðskiptalífinu. Davíð Oddsson virðist hafa undirliggjandi tangarhald á atvinnurekendum og viðskiptalífinu í heild.
Þetta sést ekki einungis í átökunum um Íslandsbanka heldur einnig afar vel í Evrópuumræðunni þar sem atvinnulífið þegir þunnu hljóði þrátt fyrir skýra hagsmuni þess af aðild að Evrópusambandinu. Það er einsdæmi í allri Evrópu að samtök atvinnurekenda skuli ekki berjast með kjafti og klóm fyrir aðild að ESB. Það er helst Samtök iðnaðarins sem hafa synt á móti straumnum enda uppskáru þau hótun forsætisráðherrans um að skorið yrði á opinbera tekjuleið þeirra í kjölfar skoðanakönnunar um ESB sem samtökin stóðu fyrir.
Rjúfum tengslin
Annars er það ansi margt sem fer ekki saman við hugmyndafræði stuðningsmanna Davíðs Oddssonar og störf Davíðs sem forsætisráðherra. Báknið hefur aldrei í Íslandssögunni verið eins viðamikið, aldrei hafa fleiri starfsmenn verið á launum hins opinbera, skattbyrði einstaklinga hefur aukist þrátt fyrir lækkun á skattprósentunni og að síðustu má nefna fyrrnefndan ótta og áhrif sem Davíð Oddsson hefur, beint og óbeint, á hið ,,frjálsa" viðskiptalíf.
Hin gömlu tengsl Sjálfstæðisflokksins og atvinnulífsins þarf að rjúfa. Viðskiptalífið þarf að stjórnast af fjárhagslegum og rekstrarlegum hagsmunum en ekki flokkshagsmunum eins og það virðist oft gera. Það er ekki eðlilegt að stjórnmálamenn séu leikendur á taflborði markaðarins. Það er hins vegar ljóst að verði Össur Skarphéðinsson eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherra þá munu þau ekki hafa þetta tangarhald á viðskiptalífinu, þótt þau myndu vilja það. Og það væri skref í rétta átt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 144254

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband