Fall forsætisráðherrans

Sú staðreynd að rekja megi hinar gæfuríku breytingar á íslensku samfélagi undanfarinn áratug til EES-samningsins en ekki til aðgerða forsætisráðherra mun ekki verða honum að falli, heldur sú staðreynd að Davíð Oddsson skynjar ekki lengur umhverfi sitt rétt. Stjórnmálamaður sem ekki les rétt í aðstæður missir um síðir stuðning fólksins. Slíkt varð leiðtogum eins og Margret Thatcher og Helmut Kohl að falli.
Sjaldan hefur forsætisráðherra orðið jafnber að því að skynja ekki þjóðarsálina og þegar heimsókn Kínaforseta stóð yfir síðastliðið sumar. Þá sagðist Davíð að hann skynjaði enga óánægju meðal þjóðarinnar. Óhætt er að segja að hátterni íslenskra stjórnvalda í garð mótmælenda hafi uppskorið einlæga reiði almennings. Einnig má nefna nýleg ummæli forsætisráðherrans þar sem hann afgreiddi starf Mæðrastyrksnefndar með þeim orðum að það væri alltaf til fólk sem hlypi til eftir ókeypis mat og fatnaði.

Beiting valds

Ekkert ærir forsætisráðherra jafnmikið og Evrópuumræðan skelfilega. Forsætisráðherra segist ekki verða hlynntur aðild fyrr en hann "sé orðinn galinn" og að Evrópusambandið sé "eitt ólýðræðilegasta skrifstofubákn sem hefur verið fundið upp". Þeir sem mæla með upptöku á Evrunni tali síðan af "yfirgripsmikilli vanþekkingu".
Forsætisráðherra hefur nú verið lengur við völd en nokkur annar forsætisráðherra hér á landi. Það er þekkt að vald spillir og að mikið vald gjörspilli en verst fer þó líklega á því að vera með valdið of lengi í hendi sér. Davíð Oddsson er farinn að beita valdinu með öðrum hætti en ætlast er til af honum.
Örlög andstæðinganna

Allir muna eftir örlögum prests sem vann sér það til saka að skrifa óheppilega smásögu að mati forsætisráðherra og missti starfið. Þjóðhagsstofnun var ósammála Davíð í efnahagsmálum og var fyrir vikið lögð niður. Samtök iðnaðarins framkvæmdu skoðanakönnun um afstöðu þjóðarinnar til ESB en uppskáru í kjölfarið hótun frá forsætisráðherra um að skrúfað yrði fyrir opinbera tekjuleið þeirra.
Efast var um læsi yfir hundrað háskólaprófessora þegar þeir dirfðust að vera ósammála forsætisráðherra í fiskveiðistjórnunarmálum. Eftir minnisblaðsdóminn í öryrkjamálinu kom orðsending úr forsætisráðuneytinu um að dagskrá ríkisstjórnarfunda ætti ekki lengur að vera opinber.
Enn fleiri hafa fengið að heyra það frá forsætisráðherranum og má þar nefna Biskup Íslands, Hæstarétt, Samkeppnisstofnun, fréttastofu Ríkisútvarpsins, einstaka rithöfund, Norðurljós, Orca-hópinn, Kaupþing og Baug. Þegar dæmin eru skoðuð saman sést svo ekki verður um villst að um mynstur er að ræða. Það er kominn tími til breytinga.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 144256

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband