Skattbyrðin eykst á valdatíma ríkisstjórnarinnar

Það er alveg með ólíkindum hvað ríkisstjórnarflokkarnir eru iðnir við að berja höfðinu við steininn þegar kemur að skattamálum.
Það er alveg óumdeilt að skattbyrði einstaklinga hefur þyngst á valdatíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þetta viðurkenna stjórnarliðar venjulega í fjórðu aukasetningu en bæta því við að það sé einfaldlega eðlilegt og óhjákvæmilegt. Það er hins vegar rangt. Það er vel hægt að létta skattbyrði af viðkomandi einstaklingum þótt tekjur hans hækki. T.d. mætti gera það með því að hækka skattleysismörkin. Skattleysismörkin hafa nefnilega setið eftir í tíð þessarar ríkisstjórnar.
Launahækkun þarf ekki að þýða aukna skattbyrði
Þegar stjórnarflokkarnir halda því fram að aukin skattbyrði sé vegna kaupmáttaraukningar og launahækkana þá má vísa til þess að aukning kaupmáttar á árum áður þýddi ekki sjálfkrafa þyngingu á skattbyrði. Þannig nutu landsmenn mikilla kaupmáttaraukningar bæði upp úr 1970 og aftur 1986 og 1987 án þess að skattbyrðin ryki upp. Það er fyrst eftir að tenging persónuafsláttar og vísitölu var rofin 1995 sem skattbyrði tók að rjúka upp samfara launahækkunum.

Samkvæmt tölum OECD hefur skattbyrði einstaklinga hvergi aukist jafnmikið og á Íslandi frá árinu 1990 að Grikklandi undanskildu. Og skattbyrðin hefur aukist mest hjá tekjulægstu hópunum og millitekjufólkinu.
Tölur ráðherrans staðfesta aukna skattbyrði
Jafnvel í svari sjálfs fjármálaráðherra við fyrirspurn þingmanna Samfylkingarinnar kemur fram svart á hvítu að skattbyrði allra tekjuhópa hefur þyngst frá árinu 2002 að einum hópi undanskildum. Það eru þeir 10% einstaklinga sem hafa hæstu tekjurnar. Skattbyrði þess eina hóps hefur minnkað.

Um 95% hjóna og sambúðarfólks og 75% einstaklinga greiða nú hærra hlutfall tekna sinna í tekjuskatt en árið 1995 þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Þetta var staðfest í skriflegu svari þáverandi fjármálaráðherra, Geirs H. Haarde, við fyrirspurn þingmanns Samfylkingarinnar og tekur til áranna 1995-2002. Þáverandi fjármálaráðherra virtist vera ósáttur við sitt eigið svar og jafnvel ósammála sínum eigin tölum. Spurningar þingmannsins sagði hann að hefðu verið “lymskufullar” þegar blaðamaður spurði hann efnislega hvort hann tryði þeim ekki.
Tvöföldun á skattgreiðslum til ríkisins
Í annarri fyrirspurn kemur síðan fram í svari fjármálaráðherra að skattgreiðslur einstaklinga til ríkisins (tekjuskattur, hátekjuskattur og eignarskattur) voru á föstu verðlagi ársins 2003 um 37 milljarðar kr. árið 1995 en voru orðnar 66 milljarða kr. árið 2003. Þær höfðu næstum tvöfaldast á valdatímabili þessarar ríkisstjórnar.

Þetta eru allt saman hins vegar allt tölur frá fjármálaráðherranum sjálfum og því engin ástæða til að tortryggja þær.
Í þessari umræðu er skattbyrði lykilhugtakið en það er sá hluti tekna sem er greiddur í skatt. Skattbyrði einstaklinga hefur aukist hvernig sem litið er á það þrátt fyrir lækkun á prósentuhlutfalli tekjuskattsins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 144254

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband