Hvað kaus unga fólkið í vor?

Kosningarannsókn Ólafs Þ. Harðarssonar, prófessors í stjórnmálafræði, um hvað einstakir aldurshópar kusu í síðustu tveimur alþingiskosningum er stórmerkileg. Eftir alþingiskosningarnar 1999 kaus 15% aldurshópsins 18-22 ára Samfylkinguna. Aðrar tölur blasa hins vegar við eftir alþingiskosningarnar vorið 2003 en þá kaus 34,1% þessa aldurshóps Samfylkinguna. Fylgi Samfylkingarinnar meðal þessara mikilvægu kjósenda, sem eru að kjósa í fyrsta skipti, jókst því um meira en helming á milli kosninga.
Fylgishrun Sjálfstæðisflokks hjá ungu fólki
Árið 1999 var fylgi Sjálfstæðisflokks í þessum aldurshópi 48,6% en eftir alþingiskosningarnar síðastliðið vor var fylgið Sjálfstæðisflokksins hrunið niður í 23,3%. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því misst stuðning helmings ungs fólks sem kaus hann 1999. Þessi staðreynd hlýtur að vekja eftirtekt.

Yngstu kjósendurnir hafa í gegnum árin ævinlega verið einn sterkasti stuðningshópur Sjálfstæðisflokksins, ef ekki sá allra sterkasti. Nú hefur algjör umbreyting orðið þar á. Það hljóta að teljast mikil tíðindi að fylgi Sjálfstæðisflokksins meðal yngstu kjósenda er nú svipað og fylgi Framsóknarflokksins er meðal þessa fólks. Sá flokkur hefur nú seint verið talinn höfða til ungs fólks, eða hafa á sér nútímalegan blæ.
Samfylkingin stærsti flokkur ungra kjósenda
Nú er Samfylkingin orðin að langstærsta stjórnmálaflokki ungra kjósenda en á undanförnum misserum hefur þessi hópur farið úr að vera einn minnsti kjósendahópur Samfylkingarinnar yfir í að vera einn sá allra stærsti.

Ungir jafnaðarmenn eru ungliðahreyfing Samfylkingarinnar. Á aðeins tveimur árum hefur starf Ungra jafnaðarmanna gjörbreyst og hefur aðildarfélögum fjölgað margfalt um allt land. Undanfarin misseri hafa Ungir jafnaðarmenn unnið markvisst að málefnum ungs fólks og hefur sú vinna skilað miklum árangri.

Ungir jafnaðarmenn hafa undanfarin ár beitt sér fyrir frjálslyndri jafnaðarstefnu. Ungir jafnaðarmenn hafa talið mikla þörf vera á stórauknu fjármagni í menntakerfið ásamt því að auka þurfi frelsi einstaklingsins, s.s. í landbúnaði og sjávarútvegi. Ungir jafnaðarmenn hafa einnig barist gegn skólagjöldum og telja að lækka þurfi skatta og stórefla samkeppnisyfirvöld. Ungir jafnaðarmenn hafa viljað afnema einkasölu ríkisins á áfengi. Ungir jafnaðarmenn voru sömuleiðis lengi vel eina stjórnamálaaflið í landinu sem vildi aðild að Evrópusambandinu en nú hefur móðurflokkurinn, Samfylkingin, tekið upp þá skynsamlegu stefnu.
Stefnu SUS hafnað
Á sama tíma hefur Samband ungra sjálfstæðismanna ályktað um að taka beri upp skólagjöld, auka gjaldtöku á sjúklinga og einkavæða fangelsi. Ungir sjálfstæðismenn hafa undanfarin misseri ályktað á þann veg að leggja skuli niður Samkeppnisstofnun, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Tryggingarstofnun ríkisins, Íbúðalánasjóð, Fjármálaeftirlitið og nú síðast Hafrannsóknarstofnun. Forystumenn ungra sjálfstæðismanna hafa einnig lengi haft horn í síðu lögbundins fæðingarorlofs og höfðu um tíma á stefnuskrá sinni, þegar Sigurður Kári Kristjánsson, núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var formaður SUS, að leggja bæri niður lögbundið fæðingarorlof.

Ungir sjálfstæðismenn gefa sig mikið út fyrir að vera baráttumenn fyrir minna ríkisbákni og lægri sköttum. Þó hefur báknið aldrei verið stærra í Íslandssögunni og skattbyrðin hefur aukist jafnt og þétt öll þau 12 ár sem þeirra flokkur hefur farið með forsætis- og fjármálaráðuneytið.
Jómfrúarræður um skattahækkanir
Jómfrúarræður tveggja ungra Sjálfstæðismanna á Alþingi, Sigurðs Kára Kristjánssonar og Bjarna Benediktssonar, fóru í að verja nýjustu skattahækkanir ríkisstjórnar en ekki í baráttu fyrir skattalækkunum. Þeirra fyrstu ræður á þingi verða að teljast vera kaldhæðnislegar í ljósi ítrekaðra ummæla þeirra í kosningabaráttunni. Nokkrum mánuðum síðar hefur orðið kúvending á afstöðu þeirra.
Ungir Íslendingar hafa smátt og smátt áttað sig á hver raunveruleg stefna ungra sjálfstæðismanna er. Stefnunni var hafnað með afgerandi hætti í síðastliðnum alþingiskosningum. Ungt fólk á samleið með frjálslyndri jafnaðarstefnu þar sem frelsi, jafnrétti og bræðralag eru lausnaorðin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband