Trúverðugleiki í málefnum aldraða

Staða eldri borgara er mjög í deiglunni þessa dagana, enda berast ítrekaðar fréttir af óviðunandi ástandi á dvalarheimilum þeirra. Setuverkföll starfsfólks dvalarheimilanna hafa orðið til þess að vekja athygli á skammarlega lágum launum þess. En það er ekki aðeins þeir sem starfa með eldri borgurum sem búa við kröpp kjór.

Þriðji hver eldri borgari þarf að lifa á 100.000 krónum eða minna á mánuði. Eldri borgarar með lágmarksframfærslu þurfa nú að borga skatt af rauntekjum sem þeir þurftu ekki að gera þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum. Harkalegar skerðingarreglur dregur mjög úr tækifærum eldra fólks til atvinnuþátttöku og enn er við lýði óskiljanleg tekjutenging á milli hjóna.

Á fjórða hundrað einstaklinga eru í mjög brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum og eru eldri borgarar oft sviptir fjáræði og sjálfræði þegar komið er inn á hjúkrunarheimili. Skortur á búsetuúrræðum hefur leitt til þess að fjölmörg eldri hjón eru aðskilin og geta ekki treyst því að fá að verja síðustu árunum saman. Heimahjúkrun er óalgengari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og annað hvert öldrunarheimili í landinu er rekið með halla.
Áratuga sinnuleysi gagnvart eldri borgurum
Málefni eldri borgara eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Áratugasinnuleysi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gagnvart eldri borgurum hefur því leitt af sér það ástand sem við búum við nú.

Fyrsta og kostnaðarsamasta þingmál Samfylkingarinnar í haust laut hins vegar að því að bæta stöðu eldri borgara og öryrkja með sérstakri afkomutryggingu. Þar er m.a. lögð áhersla á að grunnlífeyrir og tekjutrygging verði sem næst lágmarksframfærslu, eins og hún verður skilgreind í samræmi við neysluútgjöld lífeyrisþega. Raungildi grunnlífeyris og tekjutryggingar verði ekki lægra við upptöku afkomutryggingar en það var á árinu 1995. Auk þessa verði skerðingarhlutföll grunnlífeyris og tekjutryggingar rýmkuð verulega til að auka svigrúm til atvinnuþátttöku. Stefna Samfylkingarinnar hefur því í för með sér umfangsmiklar kjarabætur til handa eldri borgurum. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hins vegar svæft þetta mál í þingnefnd Alþingis.
Samfylkingin er málsvari eldri borgara á þingi
Önnur þingmál sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram í vetur varða t.d. aukinn rétt til að flýta starfslokum og töku lífeyris, lækkun skatta á eftirlaun og ellilífeyri og rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara. Samfylkingin vill flytja hagsmunamál eldri borgara til sveitarfélagana og stórefla búsetuúrræði, s.s. með valmöguleika á minni íbúðum.

Samfylkingin hefur sömuleiðis ítrekað ljáð máls á stöðu eldri borgara í vetur á Alþingi s.s. um skert kjör þeirra, aðstöðu á hjúkrunarheimilum, skerðingu ríkisstjórnarinnar á framkvæmdasjóði aldraða, skort á heimahjúkrun og ósanngjarnri skattastefnu stjórnvalda gagnvart þessu hópi.
Blekkingarnar hefjast korteri fyrir kosningar
Í umræðunni um eldri borgara má ekki gleyma hinum stóra hópa eldri borgara sem tilheyrir svokallaðri millistétt. Fólkinu sem hefur verið á vinnumarkaðinum stærstan hluta síns lífs, borgað í lífeyrisjóð og á einhverjar eignir. Þessi hópur vill gleymast í pólitískri umræðu. En það þarf einnig að huga að þessu fólki, bæði hvað varðar lífskjör og framtíðarbúsetu.

Nú þegar líður að kosningum vakna ríkisstjórnarflokkarnir til lífsins og skynja vandamál sem þeir ætla sér að bregðast við – á næsta kjörtímabili. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hins vegar haft 11 ár til þess að koma sínum áherslumálum í höfn. Ég vil því biðja eldri borgara að láta ekki blekkjast því reynslan af þessari ríkisstjórn sýnir að hingað til hefur ekki verið áhugi fyrir því að bæta hag eldri borgara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 144248

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband